Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. júní 2005 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Af fjarskiptum og frelsi

Fjarskiptin hafa verið ríkulega til umfjöllunar í ráðherratíð samgönguráðherra. Ör þróun fjarskipta og upplýsingatækni kallar á að stjórnvöld séu vakandi yfir löggjöfinni. Samgönguráðherra skrifar grein í Morgunblaðið s.l. þriðjudag þar sem hann svarar mjög ósangjarnri gagnrýni sem kom fram á þær breytingar sem hann stóð fyrir að gera á fjarskiptalögunum á síðasta þingi.

Með lögunum er verið að huga að eðlilegum breytingum er lúta að heimildum lögreglu í því breytta tækniumhverfi sem við lifum í. Mikil umræða hefur verið um frumvarp til laga um breytingu á fjarskiptalögum sem samþykkt var sem lög frá Alþingi á síðasta degi þingsins. Nokkur ákvæði laganna hafa staðið upp úr í þessari umræðu og gagnrýni helst beinst að þremur ákvæðum þeirra sem gerð verða að umtalsefni hér í þessari gein. Þar er um að ræða ákvæði um geymslu gagna, um skráningu símakorta í farsímafrelsi og um upplýsingar til lögreglu um símanúmer og IP-tölu. Þá hefur brugðið fyrir umræðu um heimild lögreglu til hlerunar vegna rannsóknar afbrota. Áður en lengra er haldið er rétt að nefna að meginástæða endurskoðunar fjarskiptalaga nú var að tryggja lagastoð vegna gerðrar fjarskiptaáætlunar. Fjarskiptaáætlun var samþykkt á Alþingi hinn 11. maí sl., um leið og hinar umdeildu breytingar á fjarskiptalögunum. Gerð fjarskiptaáætlunar er mjög mikilvæg fyrir uppbyggingu og þróun fjarskipta hér á landi. Með samræmdri stefnumótun á þessu sviði vilja stjórnvöld stefna að því að auka samkeppnishæfni landsins og stuðla að framþróun í atvinnulífi öllum almenningi til hagsbóta. Nú þegar erum við í fremstu röð og fremst viljum við vera. Það má með sanni segja að samþykkt Fjarskiptaáætlunar marki tímamót, ekki síst fyrir atvinnulífið (og einstaklinga), menntastofnanir og hinar dreifðu byggðir.

Netið er öflugasta upplýsingatæki samtímans

Netið er orðið eitt öflugasta upplýsingatæki samtímans. Það tengir byggðir, sameinar fólk og er meginleiðin að upplýsingasamfélaginu, auk þess sem upplýsingatækni, þ.m.t. fjarskiptatækni, er ein af uppsprettum aukins hagvaxtar hér á landi sem og í Evrópu. Til að raska ekki þessari þróun verður að tryggja öryggi netsins þannig að almenningur og fyrirtæki geti á það treyst í viðskiptum og daglegu lífi. Aukin áhersla hefur verið lögð á öryggi net- og upplýsingakerfa í starfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar, auk þess sem Íslendingar hafa meðal annars í þessari viðleitni gerst aðilar að Net- og upplýsingaöryggisstofnun Evrópu (European Network and Information Security Agency), nýrri stofnun Evrópusambandsins, sem hefur það eitt á sínu verksviði að tryggja og bæta öryggi net- og upplýsingakerfa í álfunni. Evrópusambandið hefur lagt ríka áherslu á mikilvægi þess að tryggja öryggi Netsins enda er það ekki hugsað sem athvarf eða skjól fyrir glæpastarfsemi né gettó fyrir stjórnleysingja. Allt þetta leiðir til þess að tryggja þarf eins og unnt er að hægt sé að koma böndum á glæpa- og skemmdarstarfsemi á eða í gegnum Netið. Eins og alltaf þegar leitast er við að tryggja öryggi almennings með aukinni löggæslu og eftirliti takast á andstæð sjónarmið sem ganga oft á grundvallarréttindi eins og persónuréttindi, friðhelgi einkalífs og önnur grundvallarmannréttindi. Löggjafinn verður að vega og meta þessa hagsmuni og finna hæfilegt jafnvægi.

Hversvegna breytingar?

Ég hef verið spurður að því hvers vegna fjarskiptaráðherrann hafi beitt sér fyrir umræddum breytingum í þágu verkefna lögregluyfirvalda. Það er því rétt að gera nokkra grein fyrir áðurnefndum breytingum á fjarskiptalögunum sem gagnrýndar hafa verið. Breytingarnar eru tilkomnar að eindreginni ósk dómsmálayfirvalda og í kjölfar ábendinga sem Ríkislögreglustjóri kom fram með eftir síðustu endurskoðun fjarskiptalaga sem gildi tóku á árinu 2003. En einnig vegna gagnrýni í fjölmiðlum og á Alþingi, m.a. frá Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanni í ræðu á Alþingi í fyrra þar sem hún sagði fjarskiptalögin vernda barnaníðinga og glæpamenn og hvatti mjög til breytinga á fjarskiptalögum í takt við það sem nú hefur verið gert. Ræðu Jóhönnu má nálgast á slóðinn: http://www.althingi.is/altext/130/03/r30133252.sgml en umræðurnar í heild á slóðinni: http://www.althingi.is/altext/130/03/l30133242.sgml. Eftir vandlega yfirferð í samgönguráðuneytinu var ákveðið að verða við óskum um breytingar á lögunum um leið og aðrir mikilvægir þættir fjarskiptalaganna voru styrktir.

Varðveisla gagna

Til að bregðast við þessu var því ákveðið í 7. gr. laganna, að í þágu rannsókna opinberra mála og almannaöryggis verði fjarskiptafyrirtæki gert að varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í sex mánuði. Þegar eru í fjarskiptalögum ákvæði varðandi umferðargögnin, sem að mestu eru þegar geymd í dag, en sú heimild náði aðeins til þess að geyma gögn svo lengi sem reikningar yrðu véfengdir. Lenging geymslutímans miðar að því að tryggja að lögregla og ákæruvald hafi nægjanlegt svigrúm til að upplýsa brot á netinu en leggja verður sérstaka áherslu á að þessi gögn eru ekki aðgengileg lögreglu nema að undangengnum úrskurði dómstóla í samræmi við skilyrði 86. og 87. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Með ákvæðinu er aðeins verið að tryggja tilvist gagnanna en þeim ber síðan að eyða að sex mánuðum liðinum.

Komið var til móts við athugasemdir við frumvarpið, m.a. frá Persónuvernd, og geymslutíminn styttur úr einu ári niður í 6 mánuði, en stofnunin taldi eins árs geymslutíma ekki samræmast meðalhófssjónarmiðum sem ber að viðhafa við meðferð persónuupplýsinga. Hinn upphaflegi eins árs geymslutími byggðist á lægstu tímamörkum í sambærilegri tillögu fjögurra ríkja ESB til framkvæmdastjórnarinnar varðandi geymslu fjarskiptagagna. Fyrir liggur að ESB mun setja aðildarríkjunum viðmið að þessu leyti og skv. upplýsingum frá formanni fjarskiptanefndar ESB mun sú tillaga koma fram í sumar og mun væntanlega eins og aðrar reglur á sviði fjarskipta verða innleidd hér.

GSM-frelsi

Varðandi skráningu á GSM-frelsiskortum samkv. 8. gr. laganna er gert ráð fyrir heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að setja reglur um skráningu þeirra í samstarfi við Neyðarlínu, lögreglu og farsímafyrirtæki í því skyni að stuðla að auknu öryggi við notkun farsíma. Um nokkurt árabil hafa slík kort í farsíma verið seld án þess að skráning fari fram á kaupanda eða væntanlegum notanda þeirra. Kortin má kaupa víða, þar á meðal á bensínstöðvum og í söluturnum, og þau hafa númer sem ekki eru tengjanleg neinum notanda, nema notandinn óski sérstaklega eftir því. Þetta veldur vandkvæðum í rannsóknum lögreglu þegar tækin eru notuð til refsilagabrota. Má hér nefna ónæði og hótanir sem settar eru fram í tali eða með SMS-skilaboðum. Með óskráðum númerum er því mögulegt að stunda refsiverða hegðun í skjóli nafnleyndar. Í sumum löndum Evrópu er þetta ekki heimilt, t.d. í Noregi. Þá eru vandkvæði þessu samfara tengd hlustun lögreglu á símtölum, einkum í tengslum við rannsóknir fíkniefnabrota. Með ákvæðinu er gert ráð fyrir að verði skráningin tekin upp verði það gert í samráði við hagsmunaaðila á þessu sviði.

Upplýsingar vegna símanúmers og IP-tölu

Fram að þessu hefur verið litið svo á af hálfu fjarskiptafyrirtækjanna að upplýsingar um símanúmer (leyninúmer) og hver sé notandi IP-tölu (sem er einkennisnúmer hverrar tölvu) falli undir fjarskiptaleynd og með þær skuli fara sem aðrar upplýsingar um innihald fjarskipta. Af þessu hefur hlotist nokkur fjöldi mála samkvæmt upplýsingum lögreglu þar sem lögregla hefur leitað úrskurðar um það eitt hver sé notandi IP-tölu. Fallist er á að persónulegar upplýsingar séu bundnar við efni fjarskipta og í skrám yfir tengingar fjarskiptatækja hvert við annað eru engar slíkar upplýsingar bundnar við símanúmer eða IP-tölu eina sér. Með túlkun á ákvæðum 86. og 87. gr. laga um meðferð opinberra mála hafa einfaldar upplýsingar um símanúmer og IP-tölu því verið lagðar að jöfnu við hleranir og aðrar aðgerðir lögreglu sem ganga sýnu lengra inn á persónuréttindi og friðhelgi einkalífs almennings, þrátt fyrir að grundvallarmunur sé þar á. Af þessu leiðir að lögregla getur ekki fengið upplýsingar um leyninúmer og IP-tölu nema um sé að ræða brot sem varðar annað hvort 8 ára fangelsi eða að um ríka almanna- eða einkahagsmuni sé að ræða.

Í tveimur nýlegum dómum Hæstaréttar var lögreglu synjað um upplýsingar um notanda IP-tölu á þessum grundvelli þrátt fyrir að það væri það eina sem þyrfti til að upplýsa verknaðinn. Við þessu varð að bregðast og því er með 9. gr. laganna tekin upp heimild til handa lögreglu til að afla upplýsinga frá fjarskiptafyrirtækjum um hver sé eigandi ákveðins símanúmers og notendur IP-talna, án úrskurðar dómara. Ef þetta ákvæði hefði ekki náð fram að ganga væri lögreglu gert ókleift að aðhafast vegna brota á netinu nema í alvarlegustu tilvikunum.

Síðan má deila um það hvort engu að síður hefði átt að skilyrða þennan aðgang lögreglu að símanúmeri eða IP-tölu við heimild frá dómstólum en setja vægari brotaviðmið. Ef það hefði verið gert hefði það engu að síður leitt til þess öll brot undir því viðmiði yrðu ekki upplýst. Þessi breyting á lögunum er í samræmi við norskar og danskar lagaheimildir.

Með ákvæðum laganna eins og þeim er nú breytt er verið að gera greinarmun á eðli upplýsinga, þ.e. annars vegar upplýsinga sem lúta að innihaldi og hins vegar einfaldra upplýsinga um eiganda símanúmers eða IP-tölu, sem fela ekki í sér sérstakar persónuupplýsingar eða lúta að friðhelgi einkalífs en eru nauðsynlegar lögreglu til að upplýsa brotastarfsemi á netinu.

Hlerunarbúnaður

Í umræðunni um lögin hafa ýmsir farið mikinn í blöðum og látið að því liggja að fyrirhuguð væri stórfelld og aukin heimild lögreglu til hlerunar símtala. Það á auðvitað ekki við nein rök að styðjast.

Með ákvæðum um hlerunarbúnað í 2. gr. laganna var í engu verið að breyta fyrri framkvæmd, aðeins verið að styrkja lagaheimildina og kveða skýrar á um skyldu fjarskiptafyrirtækis varðandi aðgang að búnaði til hlerunar. Rétt er að taka fram að til þess að lögregla fái heimild til hlerunar símtala þarf eftir sem áður úrskurð dómara.

Gætt er persónuverndar

Þær breytingar, sem nú hafa verið gerðar á fjarskiptalögunum, eru í samræmi við 15. gr. persónuverndartilskipunar Evrópusambandsins og með þeim er í engu gengið inn á friðhelgi heimilisins eða vegið að 71. gr. stjórnarskrárinnar, hvað þá að verið sé að brjóta gegn mannréttindasáttmála Evrópu. Sambærilegar heimildir er þegar að finna í lögum lýðræðisríkja í kringum okkur.

Þá má benda á að tillagan til framkvæmdastjórnarinnar um að geyma fjarskiptagögn í 12-36 mánuði kom frá einhverjum þekktustu lýðræðisríkjum Evrópu, þ.e. Frakklandi, Írlandi, Svíþjóð og Bretlandi. Þá hefur því verið haldið fram að starfsmenn fjarskiptafyrirtækja séu berskjaldaðri eftir lagabreytinguna en fyrir hana og að þeir verði tengdari lögreglurannsóknum en fyrr. Þetta er alveg dæmalaus málflutningur, á sér enga stoð og bendir til algerrar vanþekkingar á því hvernig staðið er að þessum málum.

Það hvernig sífellt er tönglast á að um sé að ræða atlögu að persónufrelsi og friðhelgi einkalífs og mannréttindum er aðeins verðfelling á þessum mikilvægu réttindum.

Með lögunum er verið að huga að eðlilegum breytingum er lúta að heimildum lögreglu í því breytta tækniumhverfi sem við lifum í.

Það er ljóst að með þeirri lagabreytingu, sem nú hefur verið gerð á fjarskiptalögum, er ekki verið að veita lögreglu heimild til að valsa um og skoða gögn borgara án dómsúrskurðar. Hörðustu andstæðingar þessara breytinga hafa haldið því fram að allt efni tölvupóstsendinga verði skráð og þar með innihald tölvupósta. Slíkt er auðvitað fráleitt. Þær upplýsingar, sem lögreglu verður heimilt að nálgast án dómsúrskurðar, eru aðeins upplýsingar um hver sé notandi IP tölu annars vegar og eigandi símanúmers hins vegar. Þessar upplýsingar eru þess eðlis að þær kalla ekki á sérstakt mat af hálfu dómstóla en forsenda þess að lögregla afli þessara upplýsinga er að það sé gert í þágu rannsóknar opinbers máls. Allar aðrar upplýsingar um umferð eða magn gagnasendinga, tengingar við aðra sem og gögn sem frá tölvu koma o.s.frv. getur lögregla ekki nálgast án atbeina dómstóla og er í engu verið að breyta lögum að þessu leyti. Með þessum breytingum er verið að auka öryggi þeirra sem nota Netið og fjarskipti og senda skýr skilaboð um vilja löggjafans og stjórnvalda til þess. Verið er að bregðast við ákveðnum vanda en í engu verið að brjóta gegn friðhelgi einkalífs eða mannréttindum. Með ákvæðinu er verið að verja möguleika almennings og fyrirtækja til að nýta Netið okkur öllum til hagsbóta. Það dettur vonandi engum í hug að Netið eigi að vera sérstakt athvarf fyrir brotamenn. Netið verður öruggara á eftir og persónuréttindi og friðhelgi verða betur varin en áður.

Sturla Böðvarsson



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum