Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. ágúst 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Kjarvalshátíð á Borgarfirði eystri.

Góðir gestir,

Það er mér sérstök ánægja að fá að ávarpa þetta málþing um listmálarann og Borgfirðinginn, meistara Jóhannes Sveinsson Kjarval, en sem kunnugt er eru á þessu ári 120 ár liðin frá fæðingu hans. Kjarval var frá unga aldri alinn upp hér í Borgarfirði og hélt alla tíð mikilli tryggð við staðinn svo sem sjá má af mörgum verka hans. Yfirskrift þessarar menningarhátíðar, „Þakka þér fyrir að ég kom!", er því vel við hæfi, enda vitnað beint í orð meistarans sjálfs og hefur þar svo sannarlega fylgt hugur máli. Þar sem ég þykist þess fullviss að margir sem halda tölu hér á eftir mér muni veita ykkur góða innsýn í ævi og störf Kjarvals ætla ég í máli mínu að tæpa á nokkru sem tengist efni málþingsins ekki með beinum hætti en óbeinum þó, en það er menningartengd ferðaþjónusta.

Menningartengd ferðaþjónusta er hugtak sem heyrist oft þegar fjallað er um ferðamennsku á Íslandi, framtíð hennar og möguleika ferðamanna til að kynnast íslenskri sögu og menningu. Með orðunum menningartengd ferðaþjónusta er ekki aðeins átt við listir og það sem menn nefna stundum hámenningu heldur einnig það sérstaka svipmót sem þjóðin hefur komið sér upp frá því forfeður okkar námu hér land fyrir meira en þúsund árum. Í því sambandi er stundum talað um sveitamenningu.

Þannig getur menningartengd ferðaþjónusta verið þjónusta sem miðar t.d. að því að fá innlenda sem erlenda ferðamenn til að heimsækja Borgarfjörð eystri, ekki aðeins til að kynna sér meistara Kjarval og hina vel heppnuðu Kjarvalsstofu, heldur einnig aðra menningu eins og álfasögur Borgfirðinga sem og hinar fallegu gönguleiðir sem liggja um Víknaslóðir. Nútímamenning skiptir einnig máli og sú staðreynd að hún nýtur athygli og hylli á alþjóðavettvangi getur veitt umtalsverða aðstoð við kynningu lands og þjóðar. Borgfirðingar tvinna þetta saman á skemmtilegan hátt hér í dag þar sem saman fara m.a. málþing um Kjarval, gönguferð um Kjarvalsslóðir og tónleikar með heimafólkinu og heimsborgurunum Emilíönu Torrini og Magna Ásgeirssyni.

Ríkisvaldið hefur komið að uppbyggingu menningarstarfsemi á Austurlandi, m.a. með menningarsamningi við sveitarfélög á Austurlandi. Fólst í því nokkurt brautryðjendaverkefni á sínum tíma þar sem ríkið hafði ekki gert slíkan samning áður við heilan landshluta. Svo vel þótti takast til með framkvæmd fyrri samnings að nýr samningur var undirritaður í mars á þessu ári og gildir hann til ársloka 2007. Tilgangur samningsins er sá að efla menningarstarf á Austurlandi og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaganna við slíkt starf í einn farveg. Hefur þetta samstarf gert það að verkum að fyrir utan blómlega menningarstarfsemi hafa orðið til fjölmörg ný atvinnutækifæri í fjórðungnum.

Frá sjónarhóli ferðaþjónustunnar er brýnt að finna leiðir til að kynna menningararf þjóðarinnar í margbreytileika sínum og gera hann sýnilegri. Á undanförnum árum hefur fjölgun ferðamanna verið mikil og farið fram úr áætlunum. Á það við jafnt um innlenda sem erlenda ferðamenn. Hins vegar hafa komið fram vísbendingar um það frá hinum erlendu ferðamönnum að ekki takist alltaf nægilega vel til við að uppfylla væntingar þeirra um kynningu á íslenskri menningu. Því er ljóst að á þessu sviði eigum við mikil sóknarfæri, sem ég tel fara vel saman við þau markmið mín sem ráðherra byggðamála að treysta búsetu. Um land allt eru verðmæti fólgin í fjölbreyttri menningu sem kunna, ef rétt er að málum staðið, að verða gríðarlega mikilvæg fyrir hina ýmsu landshluta.

Ágætu gestir,

Í fögru umhverfi þrífst fagurt mannlíf og blómleg menning. Á því er enginn skortur hér á Borgarfirði eystri. Hér málaði Kjarval margar af sínum frægustu myndum og sótti fyrirmyndir í stórbrotið landslagið og borgfirskt öndvegisfólk. Ég flyt ykkur kveðju ríkisstjórnar Íslands um leið og ég óska ykkur innilega til hamingju með þetta málþing sem heldur með veglegum hætti minningu Jóhannesar Sveinssonar Kjarval á lofti.

Ágætu gestir – með þessu orðum lýsi ég málþing þetta sett.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum