Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. ágúst 2005 MatvælaráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra 2001-2005

Handverkshátíðin á Hrafnagili 4. ágúst 2005

Ávarp Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra á Handverkshátíðinni á Hrafnagili þann 4. ágúst 2005.

Handverkssýningin að Hrafnagili er orðin landsmönnum kunn enda er hún nú haldin í þrettánda sinn. Hefur sýningin gjarnan vakið athygli og verið mikið um hana fjallað í fjölmiðlum. Það er vel við hæfi að sýningin eigi sér heimili í Eyjafirði þar sem mannlíf og búskapur hefur blómstrað í gegnum tíðina. Sýningin er samt engan veginn bundin við þetta svæði þar sem sýnendur koma allsstaðar af landinu. Það skapar mikla fjölbreytni þar sem siðir og venjur eru ólíkar á milli landshluta. Sýnendur endurspegla því margir sérkenni þeirra staða eða byggðarlaga sem þeir koma frá hvort sem það er í gegnum efnisval og efnisnotkun eða menningu og hefðir viðkomandi staða.

 Þótt að í Eyjafirði hafi löngum verið blómlegur búskapur þá hefur sjávarútvegur ekki síður verið mikilvægur fyrir þetta byggðalag og hefur hann verið rekinn af miklum myndarskap í gegnum tíðina. Það er því ánægjulegt fyrir mig sem sjávarútvegsráðherra að fá tækifæri til þess að vera með ykkur hér í dag þar sem hafið er þema Handverkshátíðarinnar í ár.

 Það liggur í orðinu "handverk" að um er að ræða muni sem unnir eru í höndunum. Þetta geta verið munir sem við notum daglega en oft á tíðum er þetta hlutir sem við notum til skrauts og minja. Handverkið hefur því allt aðra þýðingu fyrir okkur í dag en áður fyrr. Handverk var alls ráðandi hér á árum áður. Öll tól og tæki til sjávar og sveita voru meira og minna unnin í höndunum. Amboð og önnur tól sem notuð voru til sveita voru unnin í höndunum og sama má segja um tæki og tól sem tilheyrðu sjávarútvegi. Sjálfur dáist ég einna mest af handbragði gömlu bátasmiðanna sem unnu vinnu sína við mjög frumstæðar aðstæður en með slíkum sóma að maður á erfitt með að trúa að slík listasmíð hafi verið möguleg. Þetta handbragð er því miður að glatast en ánægjulegt er þó til þess að vita að nokkrir framsýnir aðilar hér á landi hafa lagt sig fram um gera upp báta og skip og lagt sitt af mörkum til þess að varðveita handbragðið og þar með söguna okkur hinum til fræðslu, ánægju og yndisauka.

 Eins og ég kom inn á hér á undan þá endurspeglar handbragðið oft á tíðum sérstöðu einstakra byggðarlaga og undirstrikar hún gjarnan styrk einstakra svæða. Sjávarútvegsráðuneytið hefur í störfum sínum og skipulagi horft til landsbyggðarinnar með þetta að leiðarljósi, ekki síst þegar um ný verkefni er að ræða. Ég hef áður sagt það að besta leiðin til þess að verkefni séu flutt út á land sé sú að skapa aðstæður sem gerir slíkt eftirsóknarvert. Þá er það líka hlutverk þeirra sem eru í stjórnmálum og viðskiptalífinu að koma auga á slíkar aðstæður og nýta þær til frekari uppbyggingar.

 Fyrr á þessu ári tók ég þá ákvörðun að flytja stærsta hluta eftirlits Fiskistofu út á land þar sem mér finnst eðlilegt að eftirlit Fiskistofu fari fram þar sem sjávarútvegur er stundaður. Hér fyrir norðan hefur Fiskistofa reyndar verið með starfsemi en hún verður efld enn frekar á komandi árum. Þá verða stofnuð fjögur ný útibú Fiskistofu, í Vestmannaeyjum á Höfn, í Stykkishólmi og Grindavík. Þrjátíu og níu manns munu starfa við eftirlitið þegar breytingarnar eru um garð gengnar, þar af munu 31 starfa úti á landi.

 Eyjafjarðarsvæðið hefur mikla sérstöðu á landsbyggðinni og þar með mikil sóknarfæri. Bærinn hefur um langt skeið verið mikill skólabær og þótt eflaust komi Menntaskólinn upp í hugum margra þegar á það er minnst þá hefur um langt skeið verið rekinn hér öflugur verknámsskóli, fyrrum Iðnskólinn á Akureyri og síðar Verkmenntaskólinn. Nú í seinni tíð hefur Háskólinn á Akureyri svo gegnt mikilvægu hlutverki í eflingu Eyjafjarðarsvæðisins. Sjávarútvegsráðuneytið hefur átt mikið og gott samstarf við Háskólann og hefur háskólasamfélagið hér gert það eftirsóknarverk fyrir okkur að láta vinna einstök verkefni hér fyrir norðan. Við höfum líka viljað leggja okkar af mörkum til þess að efla Háskólann og var mjög ánægjulegt að geta komið til liðs við skólann þegar verið var að vinna rannsóknahúsinu, Borgum,  brautargengi.

 Góðir gestir!

 Verðlagsstofa skiptaverðs, sem staðsett er á Akureyri og er ein af stofnunum ráðuneytisins, og Háskólinn á Akureyri hafa með markvissum hætti aukið samstarf sín á milli. Því til marks má nefna að þar eru nú verið að vinna úttekt á samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á þau atriði sem mestu máli skipta til þess að sjávarútvegur fái ekki aðeins staðist samkeppni heldur hvað gera má til að greinin öðlist frekara samkeppnis forskot. Og svo undarlega sem það kann að hljóma þá má segja að sjávarútvegur standi í mikilli samkeppni við handverkið. Samkeppnin við Kína er gífurlega hörð og okkar helsta svar við henni er aukin vél- og tæknivæðing. Hér verður því settur eins konar kvarði á samkeppnishæfnina sem nauðsynlegt er að mæla á hverju ári til þess að við getum gert okkur glögga grein fyrir stöðu sjávarútvegsins í alþjóðlegri samkeppni innan greinarinnar og hvernig hún  birtist gagnvart öðrum greinum matvæla- og fóðuriðnaðarins.

 Þá hefur Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins fyrir hönd sjávarútvegsráðuneytisins gert sérstakt átak í að mæla efna í fiski. Megin niðurstöður þeirra mælinga er að íslenskur fiskur er allur undir viðmiðunarmörkum og lang stærsti hlutinn langt undir þeim. Þörf er á frekari rannsóknum á þessu sviði og munu þær rannsóknir fara fram hjá Rf í rannsóknahúsinu Borgum.

 Ég tel að þessi verkefni og fleiri til undirstriki það að verið sé af fullum heilindum að vinna í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að treysta undirstöður byggðar í landinu og jafna skilyrði til atvinnu.

 Að lokum góðir gestir. Við Eyjafjörð eru mörg athyglisverð söfn af margvíslegum toga og undirstrikar starfsemi Minjasafnsins á Akureyri áherslu byggðalagsins á að varðveita handbragð fyrri tíma. Sama má segja um þessa sýningu hér á Hrafnagili. Hún er liður í þessari varðveislu en jafnframt sjáum við nýjar strauma og nýtt handbragð hjá þeim fjölmörgu sem hér opinbera muni sína. Mér finnst framtakið lofsvert og lýsi sérstakri ánægju með þema hátíðarinnar í ár um leið og ég óska aðstandendum, sýnendum og gestum öllum til hamingju með þessa glæsilegu sýningu.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum