Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. ágúst 2005 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Skógarráðstefna í Danmörku

Ráðherrar - ágætu ráðstefnugestir.

Mér er sérstök ánægja að taka þátt í þessari umræðu um skógrækt og fylgjast með því sem er að gerast. Ástæðan er fyrst og fremst sú hversu staða Íslands á sviði skógræktar er mikið að eflast og sannarlega styttist í þann tíma að Ísland geti talist í hópi skógræktarþjóða.

Fræjunum að þeirri ráðstefnu sem við sitjum hér var sáð á Akureyrarfundinum 2004 á formennskuári Íslands í Norðurlandaráði. Þær línur sem þar voru lagðar hafa nú þegar haft mikla þýðingu fyrir stefnumörkun í íslenskri skógrækt og eins fyrir þátttöku Íslands í mótun skógræktarstefnu á Norðurlöndum.

Umheiminum er gjarnt að líta á Norðurlöndin sem samstæða heild, sem við vissulega erum, en hvað áhrærir skóginn þá er kjörum mjög misskipt. Austurhluti Norðurlandanna er þakinn skógum og er ein helsta þungamiðja skógariðnaðar í heiminum, skógum á vesturhluta svæðisins var hinsvegar nánast gjöreytt og er endurheimt þeirra mjög mislangt á veg komin. Leiðandi hlutverk Norðurlandanna í skógariðnaði og hverskyns þekkingu í skógrækt hefur aflað þeim virðingar og verkefna um heim allan. Þar hefur hinn skógarauðugi hluti Norðurlandanna lagt mest af mörkum. Það blasir hinsvegar við að verndun skógarleifa og endurheimt glataðra skóga verður eitt af þýðingarmestu verkefnum framtíðar enda eyðist nú á heimsvísu þrefalt stærra flatarmál skóglendis á ári hverju en grætt er upp. Þarna er því mikið verk að vinna við verndun og endurheimt og þar eiga Norðurlöndin að vera í fararbroddi. Íslendingar telja að einmitt á þessu sviði geti þeir, í samstarfi við hin Norðurlöndin, lagt þýðingarmikið lóð á vogarskálar og miðlað af sinni reynslu af enduruppbyggingu skóga eftir tíu alda skógareyðingu með tilheyrandi jarðvegseyðingu. Mig langar að vekja athygli fundarins á þessu starfi því ég tel að okkar reynsla geti nýst norrænum þekkingarbanka við endurheimt skóga.

Náttúrlegt skóglendi þekur aðeins 1,3% af flatarmáli Íslands og þorri þess skóglendis er lágvaxið kjarr. Ræktaðir skógar eru flestir ungir að árum; veginn meðalaldur slíkra skóga er innan við tvítugt. Sömuleiðis er skammur tími liðinn síðan að Íslendingar fóru að taka skógrækt alvarlega sem valkost við landnýtingu. Allt fram á níunda áratug síðustu aldar beindust aðgerðir í skógræktarmálum að því að sýna þjóðinni fram á að tré og skógar gætu vaxið til nytja á Íslandi; að landið væri ekki skóglaust vegna þess að tré gætu þar ekki vaxið. Með öðrum orðum - að sanna það fyrir þjóðinni að hægt væri að rækta skóg á Íslandi.

Árangur af skógrækt á Íslandi undanfarna áratugi sýnir að þar má rækta skóga til fjölþættra nytja. Vaxtarhraði margra trjátegunda á láglendi Íslands er sambærilegur við það sem þekkist í mið- og norðurhluta Finnlands, Svíþjóðar og Noregs. Með vaxandi skógum verða til verðmæti, í formi viðarafurða, sem skapa ný atvinnutækifæri í dreifðum byggðum. Skógar á Íslandi skapa einnig önnur verðmæti fyrir lífríki og mannlíf sem erfiðara að meta fjárhaglegan ávinning af þar sem þau ganga ekki kaupum og sölum. T.a.m. er meðal mikilvægustu hlutverka skógræktar til umhverfisbóta á Íslandi að stöðva og hindra jarðvegseyðingu, sem jafnframt er erfiðasta umhverfisvandamál sem Íslendingar eiga við að glíma. Önnur jákvæð umhverfisáhrif skógræktar felast í bindingu koldíoxíðs, aukinni frjósemi og framleiðslugetu lands, vatnsvernd og auknum fjölbreytileika lífríkis. Aukin útbreiðsla skóga virðist eiga ríku fylgi að fagna hjá íslenskum almenningi. Í nýlegri viðhorfskönnun IMG-Gallup meðal íslensku þjóðarinnar kom fram að 85% íslensku þjóðarinnar vill fá aukinn skóg í landið og þar af vildu 66% „miklu meiri skóg“. Um 95% landsmanna töldu aukna þekju skóga jákvæða fyrir land og þjóð. Einnig kom fram í fyrrnefndri könnun að heimsóknir Íslendinga í skóga eru næstum jafn margar og gerist hjá frændþjóð okkar, Dönum, þótt skógar Íslands séu fáir og strjálir, og hefðin fyrir nýtingu skóga til útiveru skemmri. Virkur stuðningur íslensks almennings við skógrækt endurspeglast m.a. í því að Skógræktarfélag Íslands (samtök 66 skógræktarfélaga á landinu) eru fjölmennustu frjálsu félagasamtökin, með beinni félagsaðild um 3% íbúa landsins.

Skógrækt er óðum að treysta sig í sessi sem einn helsti vaxtarsproti atvinnu og búsetu í dreifðum byggðum landsins, um leið og aukinn skógur til skjóls og yndis eykur aðdráttarafl íslenskra sveita til búsetu. Á fáum árum er orðin til ný stétt fólks í landinu „skógarbændr“ sem eru nú um 800 og þeim fer enn fjölgandi með hverju árinu sem líður.

Íslensk stjórnvöld, líkt og almenningur og landeigendur, hafa mikinn metnað til þess að klæða land sitt skógi. Á síðustu 10 árum hafa orðið alger þáttaskil í sögu skógræktar á Íslandi. Hvað best kemur hún frá í þeirri stefnu stjórnvalda að styrkja bændur og jarðareigendur í hverjum landshluta til skógræktar. Eru nú starfandi 6 slík verkefni í hverjum landshluta sem fá árlegar stigvaxandi fjárhæðir úr ríkissjóði.

Á Alþingi Íslendinga var árið 2003 samþykkt „Þingsályktun um skógrækt 2004–2008“. Í þingsályktuninni er gert ráð fyrir 30% hækkun ríkisframlaga til skógræktar á þessu fimm ára tímabili. Sá stuðningur felst einkum í fjárhagslegum stuðningi við skógrækt á landi í einkaeign. Sá stuðningur hefur skilað sér í auknum umsvifum í skógrækt, og var á síðasta ári gróðursettur skógur á alls um 2000 hekturum lands. Í þeirri tölu er ekki talin með sjálfsáning birkiskóga sem víða eru í framför og eru að sá sér út. Samkvæmt gögnum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) bættist á áratugnum 1990-2000 árlega 2,2% við flatarmál skóglendis á Íslandi. Er það samkvæmt sömu heimild há hlutfallstala miðað við flest önnur þjóðríki á jörðinni.

Einnig hafa stjórnvöld aukið stuðning sinn við rannsóknir og nám á háskólastigi í skógrækt á Íslandi. Reynsla síðustu ára sýnir að með auknum umsvifum í skógrækt vakna sífellt fleiri og flóknari spurningar, sem ekki verður svarað nema með rannsóknum. Einnig er mikilvægt að tryggja staðgóða fag- og fræðiþekkingu um skógrækt með eflingu háskólanáms og símenntunar fyrir skógræktendur.

Þessi ráðstefna sem við sitjum nú er skilgetið afkvæmi fundar Norðurlandaráðs á Akureyri í fyrra þar sem var kallað eftir norrænni skógræktarráðstefnu um trjárækt og framtíðarmöguleika skógræktar og skógariðnaðar á Norðurlöndum.. Yfirlýsing norrænu landbúnaðarráðherranna á þeim fundi skipti sköpum varðandi umhverfi skógræktarmála á Íslandi.

· Við höfum aukið framlög til skógræktarmála og sú aukning gæti markað nýja stefnu Íslands í landbúnaðarmálum í tengslum við nýjan WTO samning (s.k. grænar greiðslur).

Vinna er hafin að endurskoðun lagaramma skógræktar á Íslandi með áherslu á hvernig megi styrkja nýskógrækt með opinberum fjárframlögum.

Við höfum lagt aukna áhersla á menntun og rannsóknir í skógrækt sem endurspeglast í nýrri prófessorsstöðu í skógrækt við Landbúnaðarháskóla Íslands

Við höfum styrkt þátttöku okkar í norrænu samstarfi í skógræktarmálum t.d. með Affornord-verkefninu þar sem unnið er að rannsóknum á áhrifum skógræktar á vistkerfi, landslag og byggðaþróun. Þá teljum við að þátttaka okkar í norrænu öndvegissetri um áhrif loftslagsbreytinga og skógræktaraðgerða á kolefnisbindindingu sé ekki síður mikilvæg. Á þessari stundu er einmitt verið er að halda sérstakt seminarum í Stokkhólmi um þau mál.

Góðir áheyrendur. Norræna skógræktarráðstefnan er afar mikilvæg fyrir íslenska skógrækt. Hér eru saman komnir helstu stefnumótendur og stjórnendur skógræktarmála á Íslandi sem vænta mikils af því sem fram á að fara hér í dag. Ég óska mönnum góðs fundar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum