Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. september 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Dagar prentiðnaðarins

Góðir gestir, Það er mér sérstök ánægja að fá að ávarpa þessa ráðstefnu sem haldin er í tengslum við Daga íslensks prentiðnaðar. Sagt hefur verið að bylting hafi orðið á vettvangi fróðleiks og mennta þegar prentun kom til sögunnar. Fyrir daga prentiðnaðar rituðu Íslendingar hugðarefni sín einkum á bókfell sem síðan var oft afritað í tímans rás. Geta menn rétt ímyndað sér hversu tímafrek sú iðja hefur verið. Prentlistin varð ekki til fyrr en um miðja 15. öld og nam land hér á landi fyrir tilstuðlan Jóns biskups Arasonar um 1530. Prentiðnaður og bókagerð eru því meðal elstu og mikilvægustu atvinnugreina , enda varðveitist á prenti frjó hugsun og fjölbreytt og fallegt mál. Með tilkomu prentlistar má segja að andleg verðmæti hafi orðið almenningseign. Kirkjan var í fyrstu öflugust í hagnýtingu tækninnar en síðar tóku upplýsingarmenn við kyndlinum og voru öflugir í bóka-, tímarita- og blaðaútgáfu. Þáttaskil urðu svo í sögu íslenskrar prentlistarsögu þegar Danakonungur staðfesti árið 1855 lög um prentfrelsi og má því fagna 150 ára afmæli þeirra tímamóta nú í ár. Íslendingar eru bókaþjóð. Hér á landi þrífst blómlegur prentiðnaður, fjöldi blaða og tímarita er gefinn út og hátt hlutfall útgefinna bóka er prentað hér á landi. Er ánægjulegt að geta þess að ekki einungis standa Íslendingar framarlega meðal þjóða heims hvað varðar prentgæði heldur er prentiðnaðurinn í fararbroddi íslenskra atvinnuvega þegar kemur að umhverfismálum. Á síðustu árum hafa prentmiðlar tengst öðrum miðlum í sífellt auknum mæli. Prentað mál, talað mál, tölvutækni og fjarskipti verða æ nánari og ekki verður hjá því komist að velta fyrir sér eignarhaldi og ritstjórn þessara samreknu miðla. Allir vita hversu miklum deilum fjölmiðlalögin svokölluðu ollu fyrir rúmu ári síðan en á þeim stutta tíma sem liðinn er síðan hefur þróunin á sviði upplýsingamiðlunar haldið enn áfram og stórir aðilar sem samreka ólíka miðla hafa stækkað enn frekar. Það er því full ástæða til að huga að því hvernig lagaumhverfi og samkeppni eigi að vera háttað á þessum vettvangi. Ég fagna því einnig að Samtök iðnaðarins ætli að horfa til hins nýja umhverfis í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum með stofnun sérstaks starfsgreinahóps. Góðir gestir, Prentiðnaðurinn hefur tekið miklum breytingum í áranna rás. Þróunin er hröð og tækninýjungar örar. Til að koma góðri hugmynd vel á framfæri í upplýsingamiðlun nútímans þarf því mikla útsjónarsemi. Ráðstefna sem þessi og námstefnurnar á morgun munu því vafalítið verða fróðlegar og gagnlegar. Ágætu ráðstefnugestir - með þessum ávarpsorðum lýsi ég ráðstefnuna „Frá hugmynd til markaðar“ setta.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum