Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. desember 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp ráðherra við útskrift Brautargengiskvenna.

Útskriftarnemar, góðir gestir

Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag. Ég hef á undanförnum árum fylgst með því starfi sem fram hefur farið í nafni Brautargengis og veit að þar er um að ræða gott og árangursríkt nám. Í því ljósi langar mig til að vekja sérstaka athygli ykkar á nýkominni skýrslu Byggðastofnunar um konur og stoðkerfi atvinnulífsins.

Skýrsla þessi er úttekt á því hvernig stoðkerfi atvinnulífsins hefur nýst konum í atvinnurekstri. Var gögnum m.a. safnað með síma- og netkönnun sem IMG Gallup framkvæmdi, og með viðtölum við sérfræðinga sem starfa innan stoðkerfis atvinnulífsins. Í könnun Gallup kom í ljós að afgerandi flestir þátttakendur í Brautargengisnámskeiðum sögðu að þau hefðu nýst mjög vel og að þeir gætu mælt með þeim við aðrar konu. Þannig sögðu 63% kvenna að námskeiðin hefðu nýst mjög vel, 26% frekar vel, 11% að það hefði nýst hvorki vel né illan en engin aðspurðra sagði að það hefði nýst frekar illa eða mjög illa. Ennfremur kom fram í niðurstöðum könnunarinnar að þátttaka í Brautargengisnámskeiðum virðist auðvelda konum að leita eftir handleiðslu og ráðgjöf í stoðkerfinu ásamt því að vera mikilvægt verkfæri fyrir konur í atvinnurekstri sem vilja bæta við þekkingu og menntun sína um stofnun og rekstur fyrirtækja. Þá hafa námskeiðin orðið til þess að mynda tengslanet á meðal kvenna í atvinnurekstri.Yfir 90% svarenda töldu að Brautargengisnámskeiðið væri sá drifkraftur sem þær höfðu gert sér vonir um fyrirfram. Allt þetta segir mér að við séum á réttri leið með námskeiðið og að halda beri þeim áfram af krafti. Hefur það raunar verið gert á undanförnum árum og námskeiðin gerð aðgengileg fyrir konu á nokkrum þéttbýlisstöðum í öllum landshlutum, auk höfuðborgarsvæðis. Þetta ber að þakka og vil ég hér með koma þeim þökkum á framfæri til starfsmanna Imru sem hafa af dugnaði og ósérhlífni byggt upp þetta gagnlega námskeið.

Góðir útskriftarnemar,

Þið farið ekki tómhentar héðan. Vonandi er ykkar reynsla sú sama og þátttakenda í fyrrgreindri könnun og að þið munið nýta þá þekkingu og reynslu sem hefur verið miðlað til ykkar til góðra verka. En mig langar til að minnst á annað sem þið munið hafa með í farteskinu héðan. Bókin „Stofnun fyrirtækja" kom út fyrir nokkrum árum. Hún hefur eins og nafnið gefur til kynna að geyma margvíslegar upplýsingar sem að gagni koma við stofnun fyrirtækja. Bókin er nú að koma út í annað sinn og hefur að því tilefni verið uppfærð og endurrituð að miklu leyti. Í bókinni eru upplýsingar um alla þá þætti sem stofnendur fyrirtækja þurfa að hafa í huga þegar þeir hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd. Í bókinni er einnig fjallað um mikilvæga þætti varðandi daglegan rekstur fyrirtækja. Það er mér sönn ánægja að fá að afhenda ykkur útskriftarnemar góðir eintak af bókinni hér á eftir og er ég ekki í vafa um að hún mun reynast ykkur hinn ágætasti leiðarvísir og nytsamlegt uppflettirit.

 

Góðir gestir,

Fyrirtæki sem hafa verið stofnuð í kjölfar Brautargengisnáms eru mörg og margvísleg og hefur námið sýnt sig að vera lyftistöng fyrir íslenskt atvinnulíf. Nýsköpun af þessu tagi er enda ein helsta forsenda þess að unnt sé að auka fjölbreytni og bæta samkeppnisstöðu atvinnulífsins því vel rekin fyrirtæki, hvort sem þau eru stór eða smá, eru undirstaða öflugs efnahagslífs.

Ég vil að endingu þakka ykkur fyrir og óska ykkur velfarnaðar í hverju því sem þið munið taka ykkur fyrir hendur.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum