Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. janúar 2006 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Algjör misskilningur

Villandi umfjöllun Landssambands lögreglumanna og fleiri aðila vegna nýs frumvarps til laga um breytingu á umferðarlögum hefur vakið furðu mína. Gagnrýnin hefur verið mjög harkaleg en í meginatriðum byggst á algerum misskilningi.

Samkvæmt gildandi lögum hefur Vegagerðin heimildir til stöðvunar ökutækja hóp- og flutningabifreiða yfir tilteknum þunga. Þetta er ekkert nýtt og hefur verið í lögum síðan árið 2004.

Það sem lagt er til í hinu nýja frumvarpi er einungis nánari útfærsla á þessari heimild Vegagerðarinnar. Auk þess er styrkari stoðum rennt undir möguleika Vegagerðarinnar til að framfylgja viðurlögum vegna brota á ákvæðum reglnanna. Hér er því ekki um neina stefnubreytingu að ræða og allra síst í þá veru að farið sé yfir á valdsvið lögreglunnar í umferðareftirlitsmálum. Það sem meðal annars kemur nýtt inn í frumvarpið er heimild Vegagerðarinnar til að hafa sérstakt eftirlit með ástandi ökutækja í umferðinni, hleðslu þeirra, frágangi og merkingu farms.

Til þess að átta sig betur á vandanum sem við okkur blasir getur verið gott að sjá hlutina fyrir sér út frá raunverulegum dæmum. Segjum sem svo að Vegagerðin stöðvi ökutæki gagngert til að hafa eftirlit með akstri og hvíldartíma eða ásþunga ökutækis. Við nánari skoðun kemur í ljós að hleðsla þess er stórhættuleg, farmurinn er allur laus eða ekki er breitt yfir hann með fullnægjandi hætti, auk þess sem bremsur virka ekki. Eins og staðan er í dag getur Vegagerðin ekki gripið inn í við slíkar aðstæður. Það er að mínu mati óviðunandi. Lagt er til í frumvarpinu að Vegagerðinni verði í slíkum tilvikum heimilað að banna frekari för ökutækisins þar til lögregla kemur á staðinn. Með þessum hætti er reynt að fyrirbyggja slys í umferðinni vegna ástands eða hleðslu þess ökutækis sem um ræðir. Ég held að þetta dæmi lýsi nokkuð glöggt frammi fyrir hvaða vanda við stöndum við þetta eftirlit.

Að lokum tel ég rétt að vekja menn til umhugsunar um það hvert markmiðið er með frumvarpinu, nefnilega aukið umferðaröryggi. Öll verðum við að taka höndum saman um það að tryggja vegfarendum þessa lands sem öruggast umhverfi. Gleymum því ekki að þau ökutæki sem hér um ræðir eru í senn stór og þung og bera oft gríðarlegan og jafnvel hættulegan farm. Hér ríður því á að samgöngu- og dómsyfirvöld auk Vegagerðar og lögreglu vinni saman að sameiginlegu markmiði í þágu aukins umferðaröryggis.

Sturla Böðvarsson



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum