Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. janúar 2006 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Á fleygiferð - Vesturland morgundagsins

Kæru gestir.

Ég vil byrja á að óska ykkur til hamingju með þesa glæsilegu ráðstefnu. Það hafa orðið miklar breytingar í þjóðfélagi okkar á síðustu 10 árum og gríðarlegar framfarir. Ef við förum lengra aftur í tímann og veltum fyrir okkur því þjóðfélagi sem við þá bjuggum í, kemur í ljós að það hefur nánast orðið bylting. Þessi gjörbreyting á þjóðfélagsgerðinni er ekkert íslenskt fyrirbæri heldur mjög í takt við það sem við erum að horfa uppá hjá nágrannaþþjóðum okkar. Áhrifin sjást hvert sem litið er og þróunin mun halda áfram að verða hröð. Af því að við erum á fleygiferð eins og yfirskrift þessarar ráðstefnu segir.

Óhjákvæmilega hafa breytingarnar áhrif á þróun byggðar og samkeppnishæfni atvinnulífs. Við slíkar aðstæður er afar mikilvægt fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stjórnvöld, að læra af því sem best hefur tekist og aðlaga að okkar aðstæðum til að gera betur á sem flestum sviðum og stuðla að framþróun og bættum lífskjörum um allt land.

Í nýlegri skýrslu ráðuneytisins um þróun fasteignaverðs á Íslandi, kom fram sú athyglisverða niðurstaða að fasteignaverð hefur hækkað mest á Vesturlandi frá 1990 til 2004, sem sýnir glöggt að Vesturland er á réttri leið. Í skýrslunni kemur einnig fram að það eru sennilega þrír megin þættir sem hafa hvað mest áhrif til hækkunar , en þeir eru; Í fyrsta lagi öflug og vaxandi atvinnustarfsemi á svæðinu s.s. á sviði stóriðju. Í öðru lagi stórbættar samgöngur með tilkomu Hvalfjarðarganga og í þriðja lagi öflug og vaxandi háskólastarfsemi á svæðinu eins og glöggt má sjá af öflugri uppbyggingu hér á Bifröst.

Eins og fram hefur komið hef ég lagt áherslu á eflingu byggðakjarna. Einn þáttur í að efla byggðakjarna er gerð og framkvæmd svokallaðra Vaxtarsamninga sem unnir eru í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Með vaxtarsamningum er áhersla lögð á sérstöðu og styrkleika svæða og samkeppnishæfni atvinnulífs. Það er byggt er á markaðstengdum aðgerðum, m.a. auknu samstarfi einstaklinga, atvinnulífs, háskóla, tæknistofnana og mismunandi atvinnugreina. Markmiðið er að auka hagvöxt, fjölga atvinnutækifærum og treysta viðkomandi byggðakjarna svo hann geti enn frekar sinnt því lykilhlutverki að vera miðstöð atvinnu, menningar og þjónustu. Áherslurnar taka mið af sambærilegum aðgerðum erlendis, í smáum og stórum hagkerfum. Í raun má segja að markið sé sett á að treysta sjálfbæran vöxt svæða með aukinni ábyrgð og samstarfi lykilaðila. Þegar er hafið starf á þessu sviði hér á Vesturlandi.

Þeir vaxtarsamningar sem þegar eru komnir í rekstur eru á tveim stöðum á landinu, á Eyjafjarðarsvæðinu og á Vestfjörðum. Þegar vaxtarsamningar eru settir á stofn er mynduð formleg stjórn og framkvæmdastjórn, og ráðinn er sérstakur framkvæmdastjóri, sem og klasastjórar yfir hverjum þeim klasa sem ætlunin er að styrkja á viðkomandi svæðum, en náið samstarf er við atvinnuþróunarfélög um framkvæmdina. Leitað er almennt til óháðra aðila til að stjórna klösunum sjálfum og er þannig t.d. á Eyjafjarðarsvæðinu samstarf við Ferðamálasetur Íslands og Markaðsskrifstofa Norðurlands um ferðamálaklasann og Rannsóknarstofnun HA um mennta- og rannsóknarklasann. Mikil vinna hefur átt sér stað í Vaxtarsamningi Eyjafjarðar og hafa um 200 manns tekið þátt í vinnu klasanna til þessa og um 100 fyrirtæki og stofnanir hafa sent fulltrúa á kynningar- og vinnufundi.

Vaxtarsamningur Vestfjarða er skemmra á veg kominn en hann gildir frá miðju ári 2005 til ársloka 2008 og er rekstrarfyrirkomulag með sambærilegum hætti. Í raun má segja að Vaxtarsamningar séu reknir eins og hvert annað þekkingarfyrirtæki.

Á Austurlandi, Suðurlandi, Norðurlandi vestra og hér á Vesturlandi er hafið undirbúningsstarf i sérstökum nefndum, sem Vestfirðir og Eyjafjarðarsvæðið hafa lokið – en slíku nefndarstarfi er ætlað að koma með stöðumat og tillögur um stefnumörkun í byggðamálum á þessum landssvæðum, samhliða tillögum að útfærslu vaxtarsamnings. Slíkt nefndarstarf er aðdragandi og grunnur að stofnun Vaxtarsamninga sem eru formlega settir af stað í kjölfar vinnslu slíkrar skýrslu.

Ný byggðaáætlun fyrir árin 2006-2009 mun m.a. leggja áherslu á uppbyggingu og hagnýtingu þekkingar í þágu atvinnulífs og velferðar. Ríkisstjórn Íslands hefur sýnt vilja sinn til þessara mála í verki og ákvað m.a. nú nýlega að auka eigið fé Nýsköpunarsjóðs um allt að 2,5 milljarða króna í áföngum til ársins 2009. Árið 2005 fékk sjóðurinn einn milljarð sem verður varið til sprotafyrirtækja í samræmi við lögbundið hlutverk sjóðsins og ákvarðanir stjórnar. Á árunum 2007-2009 fær sjóðurinn allt að 1,5 milljarða króna í viðbótarframlag til að standa undir hlutdeild sinni í stofnun sameignarsjóðs eða samlagssjóðs Nýsköpunarsjóðs, lífeyrissjóða og annarra fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Þá má einnig minnast á Tækniþróunarsjóð sem varð til árið 2004 en hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Tækniþróunarsjóður er rekinn af Rannís samkvæmt samningi við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið.

Sjóðurinn mun gegna veigamiklu hlutverki við fjármögnun nýsköpunarverkefna og brúa það bil sem verið hefur á milli gömlu Rannís-sjóðanna og aðkomu framtaksfjárfesta. Úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta sinn árið 2004 en þá voru 200 milljónir kr. til ráðstöfunar. Framlag til Tækniþróunarsjóðs úr ríkissjóði mun fara stigvaxandi og miða áætlanir að því að 500 milljónir kr. verði til ráðstöfunar úr sjóðnum árið 2007. Bind ég miklar vonir við að þessar breytingar á umhverfi og fjármögnun nýsköpunar og sprotafyrirtækja skili sér í formi aukins frumkvöðlastarfs og endurnýjunar í atvinnulífinu. Ljóst er að víðast hvar erlendis eru stefna og verkefni í byggðamálum að verða í auknum mæli hluti af stefnu í tækni- og vísindum. Þetta er þróun sem við verðum að taka tillit til.

Á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta hefur einnig verið unnið að fjölmörgum endurbótum m.a. hvað varðar fjármálamarkað, aukna erlenda fjárfestingu, einföldun á starfsskilyrðum fyrirtækja, endurbætum á hlutabréfamarkaði, einkavæðingu á fjármálamarkaði, og bættum starfsskilyrði frumkvöðla, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta hefur stuðlað að aukinni samkeppnishæfni atvinnulífs og auðveldað aðlögun þess að þróun og kröfum alþjóðavæðingar, sem hefur verið forsenda framþróunar og hagvaxtar. Árangur af þessu starfi má m.a. sjá í aukinni erlendri fjárfestingu og á sama tíma meiri útrás íslenskra fyrirtækja.

Góðu gestir,

Sóknarfæri Vesturlands eru á mörgum sviðum og þróun undanfarinna ára og missera sýnir glöggt að svæðið hefur nýtt sér þessi sóknarfæri með góðum árangri. Ég er ekki í nokkrum vafa um að sú þróun mun halda áfram og treysta enn frekar vöxt og lífskjör á svæðinu frá því sem nú er.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum