Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. febrúar 2006 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Sóknarhugur í ferðaþjónustu

Á undanförnum árum hafa orðið miklar framfarir í íslenskri ferðaþjónustu. Fyrirtæki hafa bæði stækkað og styrkst og stöðugt fleiri hafa haslað sér völl í greininni.

Ferðaþjónustan er orðin önnur stærsta atvinnugrein landsins hvað varðar gjaldeyrisöflun og ekki síður öflug hvað varðar öll margfeldisáhrif í samfélaginu. Og hún hefur verið mikilvæg uppspretta atvinnutækifæra fyrir skólafólk yfir sumartímann.

Ferðamönnum hefur fjölgað mikið á Íslandi

Undanfarin ár hefur fjölgun erlendra ferðamanna, sem sækja Ísland heim, verið mikil. Fjölgunin hefur verið hlutfallslega mun meiri á undanförnum árum en almennt hefur verið í Evrópu. Þessi staðreynd lýsir frábærum árangri fyrirtækja og starfsmanna þeirra í ferðaþjónustu. Þar er einnig á ferðinni mikilsverður árangur af aukinni fjárhagslegri og faglegri aðkomu stjórnvalda þar sem m.a. starfsfólk Ferðamálaráðs á Íslandi og erlendis hefur í samvinnu við fyrirtækin í greininni unnið í samræmi við þessa auknu aðkomu stjórnvalda.

Kynningarstarf skilar árangri

Ég hef lagt á það áherslu að smæð okkar á þessum markaði veraldarinnar kallaði á stöðuga landkynningu og harða markaðssókn í samstarfi við fyrirtæki sem sækja á markaði ferðamanna erlendis. Farnar hafa verið nýjar leiðir í þessu samstarfi samhliða hefðbundnu starfi og m.a. stofnað til samstarfs stjórnvalda og fyrirtækja undir heitinu ,,Iceland Naturally” sem hefur verið í N- Ameríku nú á sjötta ár og er að fara af stað á helstu mörkuðum í Evrópu.

Þessi heild, þetta margþætta samstarf, á heiðurinn af því hversu vel hefur tekist til undanfarin ár með auknum stuðningi opinberra aðila. Það er því ekki að ástæðulausu að ferðamálayfirvöld, bæði í Noregi og Danmörku, hafi haft samband við Ferðamálaráð Íslands á síðasta ári með beiðni um að senda hópa markaðsfólks til Íslands til að fá kynningu á markaðstarfi Íslands á erlendum mörkuðum.

Árangur okkar vekur athygli

Það er ekki aðeins áhugi ferðamálayfirvalda nágrannalandanna sem staðfestir að vel hafi verið staðið að kynningarmálum af hálfu greinarinnar og opinbera aðila. Í árlegri könnun, sem sænska blaðið Aftonbladet gerði meðal lesenda sinna um draumaferðina næsta sumar, kom í ljós að langflestir nefndu Ísland þegar þeir voru spurðir hvert þeir vildu ferðast innan Norðurlandanna. Alls tóku 60 þúsund manns þátt í könnuninni. Þegar spurt var um áfangastað á Norðurlöndum nefndu 28,7% Ísland meðan16,9% nefndu þann áfangastað sem næstur kom að vinsældum.

Þá var Ísland valið í efsta sætið í árlegri könnun bresku blaðanna Guardian og Observer á uppáhaldslandi lesenda þeirra í Evrópu. Ísland tók nú í annað sinn við þessum verðlaunum, en við fengum þau einnig árið 2003. Loks má nefna að í nýlegri könnun veffyrirtækis í Bandaríkjunum var landkynningarvefur Ferðamálastofu valinn 5. besti landkynningarvefur þar í landi. Og þar erum við að keppa við stórveldi á þessu sviði.

Þá er ekki síður athyglisverð sú staðreynd að tekist hefur að þróa og markaðssetja ferða- og þjónustupakka hótela, veitingastaða, heilsulinda og afþreyingarfyrirtækja, sem hefur leitt til þess að dregið hefur verulega úr árstíðarsveiflum í ferðaþjónustu hér á landi á allra síðustu árum.

Hvað varðar komu erlendra gesta til landsins hefur engu nágrannalandi okkar, og í reynd fáum sunnar í álfunni, tekist að jafna þessa sveiflu hliðstætt og hér samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað.Í október 2005 komu t.d. jafnmargir erlendir ferðamenn til Íslands og í júlí 1995. Þetta er staðreynd sem sýnir árangur í stöðugri viðleitni okkar til að lengja svokallaða háönn í ferðaþjónustunni.

Ýmsar ytri aðstæður valda alltaf sveiflum

Þrátt fyrir að ytri skilyrði hafi á ýmsan hátt verið erfið fyrir ferðaþjónustuna árið 2005 þá fjölgaði ferðamönnum sem komu hingað. Aukning er hlutfallslega minni en á árinu 2004. Enda ekki sjálfgefið að við náum hliðstæðri aukningu á hverju ári og meðaltal undanfarinna ára. Ýmsar ytri aðstæður gera það að verkum að sveiflur verða í vextinum. Við þekkjum áhrif hryðjuverka, útbreiðslur sjúkdóma, efnahagslegar aðstæður á okkar helstu mörkuðum, olíukreppur, veðurfarslegar ástæður o.fl. o.fl.

Samkeppnin við önnur lönd eykst stöðugt ekki síst með opnun til austurs og stórauknu framboði þar og annars staðar á hagstæðum verðum. Þá skiptir okkar eigið rekstrarumhverfi eðlilega miklu um okkar árangur.

Á undaförnum árum hafa mörg skref verið stigin til að laga ýmsa þætti hvað varðar rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja og fyrirtækja almennt til að auka samkeppnishæfni þeirra.

Áhrif gengis þróunar metin

Á liðnu ári hefur staða krónunnar verið mjög sterk, sem hefur bein áhrif á rekstur fyrirtækjanna og um leið alla samkeppni þó áhrifin séu misjöfn eftir hvaða grein ferðaþjónustunnar við skoðum. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands er nú, að minni beiðni, að skoða áhrif gengis á ferðaþjónustuna almennt og á einstaka þætti hennar og munu niðurstöður liggja fyrir í mars. Eins og áður sagði er ekkert nýtt að einhver ytri áhrif hafi tímabundinn áhrif á vöxt í ferðaþjónustu og nægir þar að nefna t.d. samdráttinn 2002.

Þegar litið er til lengri tíma en aðeins síðasta árs þá er okkar árangur hlutfallslega meiri og betri en meðaltal heildarinnar og í reynd betri en flestra okkar nágrannalanda.

Þó árið 2005 sé með hlutfallslega litla aukningu þá er aukning í fjölda erlendra gesta frá árinu 2002, eða á 3 ára tímabili, rúmlega 30%.

Samkvæmt þeim upplýsingum Hagstofunnar, sem nú liggja fyrir, varð hlutfallslega meiri aukning í fjölda hótelgistinátta fyrstu 11 mánuði ársins en í fjölda gestanna. Athyglisvert er líka að sjá hvernig ferðaþjónustan sækir fram á nýjum mörkuðum í Asíu, svo sem Kína og Japan.

Ferðaþjónustan ætlar sér enn stærri hlut

Atvinnugreinin hefur undanfarna áratugi orðið að aðlaga sig að sveiflum og þær munu verða áfram. Það er einfaldlega eðli þessarar atvinnugreinar að vera mjög viðkvæm fyrir ýmsum ytri og innri aðstæðum.

Ánægjulegt er að sjá að þrátt fyrir að síðustu mánuðir hafi ekki verið okkur hagstæðir hvað varðar erlenda markaðinn þá virðist ríkja veruleg bjartsýni og hugur er í greininni þegar litið er til áætlana hennar fyrir árið 2006.

Stærsta innlenda fjárfestingin í ferðaþjónustu á komandi árum verður bygging Ráðstefnu- og tónlistarhúss þar sem stjórnvöld hafa ákveðið, í samstarfi við Reykjavíkurborg, að koma að stærstum hluta að fjármögnun þessa metnaðarfulla verkefnis og samhliða eru nú þegar í farvegi áform um aukið opinbert fjármagn til kynningar á Íslandi sem áfangastað vegna funda, ráðstefna og menningarviðburða.

Meðal þeirra, sem hafa ákveðið miklar fjárfestingar, má nefna ferðaþjónustufyrirtækið Flugstöð Leifs Eiríkssonar en í frétt frá fyrirtækinu kemur fram að þeirra ákvarðanir taki mið af farþegaspá sem breska fyrirtækið BAA Plc., sem rekur stærstu flugvelli í Bretlandi og víðar, gerði í upphafi árs 2005. Í þeirri spá er gert ráð fyrir að farþegafjöldi þessa flugvallar muni fara í 3,2 milljónir árið 2015. Skipulagssérfræðingar BAA horfa til ýmissa þátta sem áhrif hafa svo sem hagvaxtar á Íslandi, fargjalda, markaðssóknar og vinsælda Íslands sem áningarstaðar ferðafólks.

Allt það sem að framan hefur verið sagt sýnir greinlega að greinin sjálf og spár sérfræðinga gera ráð fyrir áframhaldandi framsækni með auknum umsvifum, atvinnusköpun og arðsemi.

Innlendur markaður mikilvægur

Hér að framan hefur nær eingöngu verið rætt um árangur í ferðaþjónustu á erlendum mörkuðum.En ekki má gleyma þeim stórauknu umsvifum sem orðið hafa á innlendum markaði. Unnið hefur verið markvisst að kynningu á Íslandi gagnvart innlendum aðilum.

Þar hafa opinberir aðilar, ríki og einstök sveitarfélög komið að verki svo og einstök fyrirtæki og aðrir hagsmunaaðilar. Bætt vegakerfi,stóraukin bílaeign, aukin uppbygging um allt land ásamt kraftmikilli kynningu hefur skilað sér í mjög auknum viðskiptum okkar Íslendinga sjálfra á ferð um eigið land.

Þessi markaður er okkur ekki síst mikilvægur þegar árangur á erlendum mörkuðum er ekki í samræmi við væntingar einhver árin vegna ytri eða innri aðstæðna.

Því er mikilvægt að sinna af kostgæfni vöruþróun og annarri uppbyggingu svo og öllu kynningarstarfi með hagsmuni þessara beggja markhópa í huga.

Árangur í þessari sveiflukenndu atvinnugrein byggir ekki hvað síst á því að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni. Geta brugðist við og fært áherslur á milli markaða bæði landfræðilega og einnig á milli einstakra markhópa.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum