Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. mars 2006 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Börn og auglýsingar

Ágætu ráðstefnugestir. Það er mér mikil ánægja að fá að ávarpa ráðstefnna „börn og auglýsingar“. Finnst mér fullt tilefni til að ræða þessi mál þar sem segja má að vaxandi kaupmáttur hér á landi á undanförnum árum, ekki síst hjá börnum, hafi stuðlað að því að sífellt eykst þrýstingur á neytendur frá auglýsendum vöru og þjónustu. Í lögum um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins er að finna lagaákvæði sem gera þær kröfur til þeirra sem beina auglýsingum til barna og unglinga að þeir hvorki misbjóði þeim né hagnýti sér með óréttmætum hætti áhrifagirni og reynsluleysi sem fylgir ungum aldri þeirra. Öllum er þó ljóst að erfitt er að taka á öllum tilbrigðum auglýsingamarkaðarins með lögum. Stjórnvöld hafa því hvatt til þess að til fyllingar settum lögum sé nauðsynlegt að koma á siðareglum og hefur Samband íslenskra auglýsingastofa einmitt samþykkt siðareglur um þetta efni sem jafnframt taka mið af alþjóðlegum viðmiðunum. Á undanförnum árum hafa orðið miklar tæknibreytingar sem hafa skapað nýjar leiðir til markaðssetningar á vörum og þjónustu. Það nægir að benda á að farsímaeign barna og unglinga hefur stóraukist með tilheyrandi smáskilaboðum og sölumennsku sem fylgir þeirri tækni. Börn og unglingar hagnýta sér að auki sífellt meira Netið bæði til gagns og gamans – og sífellt fleiri notfæra sér þennan miðil til markaðssetningar gagnvart börnum. Mikilvægt er því að allir sem hafa hagsmuna að gæta skoði með reglubundnum hætti hvort nýjungar sem þessar geri kröfu til þess að settar verði nýjar reglur eða leiðbeiningar um auglýsingar sem beint er til barna. Í nágrannalöndum okkar hafa verið gerðar kannanir sem m.a. sýna að milli 60-70% af vefsíðum sem eru skoðaðar hafa að geyma efni sem ekki er viðeigandi fyrir hlutaðeigandi markhóp og er algengast að það eigi við síður sem ætlaðar eru börnum sem eru 12 ára og eldri. Þegar ég vísa hér til óviðeigandi innihalds á síðum sem ætlaðar eru börnum, þá er ég fyrst og fremst að ræða um að þar eru notaðar klámfengnar aðferðir, tilvísanir til ofbeldis, fíkniefna eða hluta sem geta verið hættulegir lífi, heilsu og velferð ungs fólks. Það er því eðlilegt að stjórnvöld á Norðurlöndum hafi áhyggjur af þessari þróun og vilji fylgjast grannt með hvernig málin þróast. Framtak ykkar í dag er því lofsvert og leiðir vonandi til þess að nýjar upplýsingar komi fram um hvernig ástandi þessara mála er háttað hér á landi og hvort einhverra aðgerða er þörf á vegum stjórnvalda. Á norrænum ráðherrafundi um neytendamál sem haldinn var á Akureyri fyrir rúmlega einu ári ræddum við ráðherrarnir um aukinn viðskiptaþrýsting á börn og unglinga og þær greiningar sem þá lágu fyrir um þetta efni. Á þeim fundi kom m.a. fram að mikilvægt er að viðræður eigi sér stað milli þeirra stjórnvalda sem fara með þessi málefni og fulltrúa þeirra fyrirtækja sem einkum beina auglýsingum til barna og ungmenna. Það er mikil þörf á því að auka þekkingu allra sem koma að þessum málum á því hvaða reglur gilda um þetta efni. Vitundarvakning er einnig nauðsynleg meðal foreldra og skóla þannig að þeir aðilar geti kynnt sér vel þær lagareglur sem gilda á þessu sviði svo og þau siðferðismörk sem gilda um auglýsingar gagnvart börnum og unglingum. Aðeins á grundvelli vakandi umræðu og eftirfylgni okkar sem berum ábyrgð á börnum er unnt að veita viðnám gegn aðferðum sem ganga of langt að mati samfélagsins. Þetta getur þó verið vandkvæðum bundið því foreldrar hafa e.t.v. ekki sama tækifæri og áður til að vera vakandi yfir velferð barna sinna, m.a. vegna vinnu utan heimilis og í einhverjum tilfellum sökum skorts á tæknilegri þekkingu til jafns við börn. Því verður að gera þá kröfu að ávallt komi skýrt fram hvort upplýsingar sem börnum eru veittar séu liður í markaðsfræðslu og að slíkt efni sé ekki dulbúið sem hlutlaust fræðsluefni. Eðlilegt er einnig að auglýsingar séu ekki þannig úr garði gerðar að þær setji óeðlilegan þrýsting á börn og unglinga til þess að kaupa hlutaðeigandi vöru eða þjónustu með því að höfða til ótilhlýðilegra atriða. Að sjálfsögðu verður einnig að gera þá kröfu að auglýsingar séu ávallt innan marka settra laga og að við séum samþykk því að eftirlitsstofnanir beiti t.d. sektarúrræðum ef með þarf til þess að stemma stigu við auglýsingum sem eru bersýnilega lögbrot. Góðir ráðstefnugestir. Þrátt fyrir að ég geti ekki tekið þátt í störfum ykkar í dag og umræðum um þetta brýna málefni þá hlakka ég til að fá upplýsingar um helstu niðurstöður á ráðstefnunni. Það er einnig von mín að þessi ráðstefna verði upphaf að aukinni vitund um að „aðgát skuli höfð í nærveru sálar“. Við verðum að geta treyst því að auk þeirra laga sem gilda í landinu um þetta efni þá muni auglýsendur hafa í stöðugri endurskoðun siðareglur sínar og tryggja að þær taki ávallt mið af aðstæðum hverju sinni, ekki síst þegar örri tækniþróun sem við höfum verið vitni að á undanförnum árum er beitt. Með þetta í huga óska ég ykkur alls góðs í störfum ykkar í dag og þakka áheyrnina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum