Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. mars 2006 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Búnaðarþingi 5. mars 2006

Ágætu búnaðarþingsfulltrúar og aðrir hátíðargestir.

Ég vil hér við upphaf búnaðarþings varpa sýn á stöðu landbúnaðarins, þróun búgreina og hvert ég tel stefna í náinni framtíð.

Landbúnaðurinn býr nú við þær aðstæður að mikil eftirspurn ríkir eftir afurðum hans.  Bóndinn á fullt í fangi með að anna eftirspurninni; það ríkir því sóknarstaða í flestum búgreinum, sem er samkvæmt öllum lögmálum kjöraðstæður.  Ágætt jafnvægi hefur náðst á kjötmarkaði, en þó er skortur á nautakjöti, sem er áhyggjuefni.  Það er brýnt að nautakjötsframleiðsla sé stöðug og í jafnvægi.

Nýr mjólkursamningur tók gildi s.l. haust til styrkingar á starfsumhverfi mjólkurframleiðenda og afurðastöðva.  Senn hefst vinna við gerð nýs sauðfjársamnings til að taka við af gildandi samningi, sem rennur út í árslok 2007.  Er það mat mitt að núverandi samningur hafi reynst sauðfjárbændum vel og stuðlað að jákvæðri þróun í greininni.  Markmið mitt er að nýr sauðfjársamningur hljóti staðfestingu á komandi haustþingi.

Íslenskir bændur eru í dag vel virtir, sveitin er í örri þróun, jarðarverð er um þessar mundir hátt og mikil uppbygging á sér stað, bæði í greinum landbúnaðarins og í kringum orlofshúsabyggðir landsmanna.  Ný lögbýli rísa til þjónustu, oft búgarðar í kringum íslenska hestinn, ferðaþjónustu, skógrækt eða hreinlega fólk sem lætur nú drauminn rætast um að velja sveitina sem aðsetur lífs síns.  Sem dæmi get ég nefnt að formlega hefur á síðustu tveimur árum verið stofnað til um 70 nýrra lögbýla.

Smjör- og kjötfjöll heyra fortíðinni til.  Íslenskir neytendur kaupa meira af íslenskum mjólkur- og kjötvörum en nokkru sinni fyrr.  Ég vil þakka sveitarfélögum og skólum landsins fyrir skólamáltíðir; það hefur mikla þýðingu fyrir börn og ungmenni að fá góðar og hollar máltíðir á þroskaskeiði lífsins. 

Þetta hefur ennfremur þýðingu fyrir landbúnaðinn og vöruþróun afurðastöðvanna eins og dæmin sanna.  Bæði kjöt- og mjólkurvörur okkar vekja athygli og vaxandi áhuga neytenda, sem gera bæði kröfur um gæði og matvælaöryggi.  Þetta fundum við glöggt núna á þeim góðu dögum Food & Fun, sem eru samstarfsdagar landbúnaðarins og Icelandair.  Höfuðborgin ilmaði af matarlykt og meistarakokkar víða að úr veröldinni, ásamt tugum blaðamanna, lofuðu hráefnið, hvort sem það var lambið, smjörið, ostarnir, skyrið eða grænmetið okkar.

Ég hef tilfinningu fyrir því að Ísland, sem lengi hefur verið þekkt fyrir sinn frábæra fisk, á ekkert síðri tækifæri að kynna sem matvælaland landbúnaðarins.  Ísland stefnir að því að hljóta viðurkenningu sem sjálfbært land, land sem fer vel með auðlindir sínar.  Á bak við hið góða hráefni er bóndi og sjómaður, fólk sem ann landi sínu, lífríkinu og dýravelferðinni. 

Hvar liggja okkar sóknarfæri?  Þau liggja í gæðum og aftur gæðum, að gera vel og standa þar fremstir meðal jafningja.  Góðir framleiðsluhættir, hollusta og heilnæmi skipta þar lykilmáli og undirstaðan er heilbrigði íslensks búfjár.  Á tímum fuglaflensu og sjúkdóma sem herja víða, er mikilvægt að leitast við að tryggja að hingað berist ekki smitefni.  Þær ógnanir sem heimsbyggðin býr við sýna enn og aftur hversu mikilvægt það er að hver þjóð leitist við að tryggja fullnægjandi matvælaframleiðslu heima fyrir og treysti ekki alfarið á milliríkjaviðskipti fyrir fæðuöryggi.  Komi til heimsfaraldurs er íslenskur landbúnaður hornsteinn í hagvörnum landsins.   

Í vetur hefur nokkuð borið á umræðu um hátt matvælaverð á Íslandi og á vegum forsætisráðherra starfar nú nefnd, sem ætlað er að vinna að tillögum um úrbætur.  Því fer fjarri að landbúnaðurinn eða landbúnaðarstefnan sé sérstakt vandamál í þeim efnum, því íslenskar landbúnaðarafurðir eru ekki hlutfallslega dýrari en aðrar matvörur hérlendis.  Samanburður við verð í nágrannaríkjum sýnir þvert á móti að munurinn er oft mestur á vörum sem eru fluttar inn án tolla eða magntakmarkana.  Hitt er annað mál að umræðan undirstrikar að íslenskur landbúnaður þarf að leitast við að tryggja neytendum sínar góðu afurðir á ásættanlegu verði; finna verður hverju sinni hinn gullna meðalveg verðs og gæða.  Hagræðing og aukin hagkvæmni þurfa að skila sér jafnt til framleiðenda og neytenda.  En það er mín skoðun að hér megi helst lækka vöruverð með lækkun vörugjalda og virðisaukaskatts á matvæli og efldu eftirliti með samkeppnisskilyrðum á smásölumarkaði.

Stærstu tíðindi síðustu viku eru án efa nýtt samkomulag milli Íslands og Evrópusambandsins um tvíhliða viðskipti með landbúnaðarvörur. Þetta samkomulag er merkilegt fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta sinn sem íslensk stjórnvöld gera samning um gagnkvæma niðurfellingu á tollum, sem kann að verða öðrum fríverslunarsamningum til fyrirmyndar. Samkomulagið skapar ný sóknartækifæri fyrir íslenskan landbúnað.

Niðurfelling tolla á hestum til Evrópu á eflaust eftir að auka útflutning héðan frá Íslandi, en Ísland hafði einungis 200 hesta kvóta. Eftir það þurfti að greiða 12,5% toll á reiðhestum. Þá var tollfrjáls lambakjötskvóti Íslands stækkaður úr 1.350 tonnum í 1.850 tonn og samið var um gagnkvæmt tollfrelsi fyrir vörur eins og tómata og gúrkur. Gert er ráð fyrir að samkomulagið komi til framkvæmda þann 1. janúar 2007.

Jarðvarminn og raforkan okkar vekja athygli víða.  Erlendir fjárfestar hafa sýnt Íslandi áhuga og þeim góðu framleiðsluaðstæðum sem hér eru í gróðurhúsum.  Það kann að vera að hér geti þróast græn stóriðja undir gleri á tugum hektara.  Þá þarf orkan að fást á sanngjörnu verði til þessa verkefnis, ekkert síður en álframleiðslunnar. Ég minni á að árið 2003 gerði  hollenskt ráðgjafafyrirtæki úttekt á alþjóðlegri samkeppnishæfni ylræktar á Íslandi og var landið talið samkeppnisfært við hollenska framleiðslu ef tollar yrðu felldir niður til Evrópu. Ég tel að mikilvægt sé að fara yfir og kanna vel hvaða þýðingu hið nýja samkomulag við ESB kann að hafa í för með sér fyrir útflutning íslenskra gróðurhúsaafurða.

Samband okkar við ESB innan samningsins um evrópska efnahagssvæðið heldur áfram að þróast og má gera ráð fyrir að framtíðin beri með sér samfelldari þróun á lögum og reglum aðildarríkjanna er varða matvælaframleiðslu, frá haga til maga.  Stofnanaumhverfi landbúnaðarins þarf að aðlagast í samræmi við þessa þróun og þarf að geta staðið undir þeim miklu kröfum og væntingum sem gerðar eru til landbúnaðar og matvælaframleiðslu í dag, hvort sem er á sviði stjórnsýslu eða eftirlits.  Í upphafi árs tók til starfa ný stofnun, Landbúnaðarstofnun með aðsetur á Selfossi, sem sameinar nokkrar af undirstofnunum landbúnaðarins í eina öfluga heild.  Er ég sannfærður um að þessi ráðstöfun eigi eftir að reynast landbúnaðinum vel.

Það eru ekki einungis breytingar hér heima fyrir sem móta landbúnaðinn, heldur einnig alþjóðlegir straumar.  Hæst bera yfirstandandi samningaviðræður innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), en þar er m.a. stefnt að auknum markaðsaðgangi í milliríkjaviðskiptum með búvörur og skerðingu á heimildum aðildarríkjanna til að stunda framleiðslu- og markaðstruflandi stuðning. 

Stefna stjórnvalda hefur verið að tryggja landbúnaðinum tækifæri til að aðlaga sig farsællega að þessari þróun.  Við höfum ákveðna valkosti í því hvernig við bregðumst við hinum væntanlegu nýju skuldbindingum, en huga þarf að þeim við endurskoðun á mjólkursamningi og gerð nýs sauðfjársamnings.  Best er fyrir bændur að búa við stöðugleika og fyrirsjáanleika á rekstrarumhverfi sínu og forðast kollsteypur, og því kann að vera heppilegra að hefja nauðsynlega aðlögun fyrr en síðar.

Í upphafi ráðherraferils míns sagði ég að skógrækt væri landbúnaður.  Mörgum fannst nokkuð djúpt í árinni tekið en sannarlega hefur skógrækt meðal bænda og jarðareigenda tekið við sér og fólk gerir sér grein fyrir að ný auðlind er að verða til á Íslandi.  Nú hafa verið gerðir um 760 samningar við skógræktarbændur og aðra landeigendur og rúmlega 100 jarðir eru á biðlista. Alls hafa verið gróðursettar um 40 milljónir plantna í um 18 þúsund hektara lands.

Eins og kunnugt er hafa þrenn lög gilt um landshlutabundin skógræktarverkefni – þó mjög samhljóða.  Ég hef nú lagt fram á Alþingi frumvarp sem hefur það að markmiði að sameina þessi lög þannig að um þessa skógrækt gildi ein og sömu lögin.  Vænti ég þess að frumvarpið fái góða afgreiðslu fyrir vorið.

Samhliða ört vaxandi skógrækt þarf að fara að huga enn frekar að úrvinnslu skógarafurða.  Unnið hefur verið í þá veru af sérstakri nefnd sem ég hef stutt fjárhagslega.  Ljóst er að framundan er mikil vinna sem á að miða að því að finna okkar skógarafurðum verðugt hlutverk.

Á vegum Skógræktar ríkisins fer fram mikil rannsóknavinna í skógrækt.  Skógræktin fer einnig með umsjón Þjóðskóganna og er nú lögð áhersla á að opna þá og gera þá aðgengilega fyrir almenning.  Allt þetta er liður í að kynna landsmönnum skóginn og leyfa fólki að njóta þess sem hann hefur upp á að bjóða.  Sömuleiðis er sífellt vaxandi áhugi á verkefninu Bændur græða landið sem er samstarfsverkefni bænda og Landgræðslunnar.  Alls eru þar skráðir um 600 þátttakendur.  Orðið hefur mikil breyting á viðhorfi bænda til sinna jarða og áhugi aukist á uppgræðslu þeirra, beitarstjórnun og betri nýtingu.

Landgræðslan og Skógrækt ríkisins eru öflugar fagstofnanir sem ræktað hafa hlutverk sitt með miklum sóma.  Megi slíkt verða til að styrkja stofnanalegan grunn þeirra mikilvægu verkefna sem þær vinna að hefur mér fundist koma til álita að sameina þessar tvær stofnanir.  Hef ég kallað forsvarsmenn þeirra að borðinu til að leggja mat á hvort þetta kunni að vera hyggilegt og þá með hvaða hætti framkvæmd slíks samruna væri farsælust.  Skýrsla um málið er í vinnslu og er væntanleg innan skamms.  

Ekki er hægt að líta framhjá því að hátt gengi krónunnar hefur valdið erfiðleikum hjá fiskeldisfyrirtækjum. Gera má ráð fyrir að verulega dragi úr framleiðslu eldislax hér á landi. Aftur á móti er gert ráð fyrir að framleiðsla eldisbleikju aukist mjög á næstunni og er gert ráð fyrir að framleiðslan á þessu ári verði rúmlega 2000 tonn. Þannig gætu útflutningsverðmæti eldisbleikju orðið á annan milljarð á þessu ári.  Mikilvægt er að tryggja öflugt markaðsstarf samhliða þessari uppbyggingu, en Íslendingar eru nú leiðandi í bleikjuframleiðslu á heimsvísu.

Dýrmæt auðlind er fólgin í ám og vötnum landsins. Miklar tekjur fylgja veiði og tengdri starfsemi, og er hún víða hornsteinn byggðar og atvinnu á landsbyggðinni. Samkvæmt rannsóknum Háskóla Íslands er ársveltan í þessari grein og tengdri starfsemi um 10 milljarðar. Ég hef lagt fram frumvörp um heildarendurskoðun laga um lax- og silungsveiði og vonast til að þau verði að lögum á þessu þingi, enda er hér um verulegt hagsmunamál að ræða fyrir land og þjóð.

Viðskipti með jarðir hafa vaxið mjög á undanförnum árum með tilheyrandi áhrifum á búsetu.  Þetta er að vísu nokkuð breytilegt eftir landshlutum, en ég tel fulla ástæðu til að gleðjast yfir þróuninni.  Það eru ekki mörg ár síðan að fólk sem vildi bregða búi fékk lítið fyrir ævistarfið en nú eru jarðir almennt góð söluvara eins og eðlilegt er.  Ég hef verið talsmaður þess að bændur ættu sjálfir jarðirnar og hefur ráðuneyti mitt selt yfir hundrað jarðir og jarðahluta síðan ég kom í ráðuneytið og flestar þeirra hafa ábúendur ríkisjarða keypt.

Það er þó ekki sjálfgefið að ríkið eigi að selja allar jarðir, fullgildar ástæður eru fyrir því að þjóðin eigi slíkar eignir og er nærtækasta dæmið helgidómur þjóðarinnar, Þingvellir.  Í þessu máli, eins og öðrum þarf að vera til stefna og fyrir skömmu lagði ég fyrir ríkisstjórn skýrslu sem ég lét vinna í landbúnaðarráðuneytinu. Þar eru tilgreindar jarðir á forræði landbúnaðarráðuneytisins sem lagt er til að ekki verði seldar, svokallaðar þjóðjarðir.  Ég tel nauðsynlegt að önnur ráðuneyti og ríkisstofnanir fylgi í kjölfarið og listi upp þær jarðir sem rétt þykir að verði áfram sameign íslensku þjóðarinnar.

Eins og fyrr greinir hafa breytingar einkennt stofnanaumhverfi landbúnaðarins.  Fyrr í vetur stóð ég fyrir sölu á Lánasjóði landbúnaðarins.   Þær breytingar sem orðið höfðu á peningamarkaðnum síðustu misserin gerðu sjóðnum í raun ómögulegt að starfa áfram og hefðu eignir hans brunnið upp á skömmum tíma ef ekki hefði verið brugðist við.  Ég mat það svo að skynsamlegra væri að selja sjóðinn og  nýta söluandvirðið til að styrkja stöðu Lífeyrissjóðs bænda.  Eftir þessa breytingu er staða lífeyrissjóðsins þannig að hann á fyrir skuldbindingum sínum.

Í fyrravor var lokið reglubundinni endurskoðun búnaðarlagasamningsins og gildistími hans framlengdur til ársins 2010.  Með þessum samningi er tryggður stuðningur ríkisins til leiðbeiningastarfseminnar,  búfjárræktarinnar, til stuðnings þróunarverkefnum á bújörðum og til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.  Þetta er mikið fé, rúmur hálfur milljarður á ári.  Mikilvægt er að vera  ávallt vakandi um það hvernig þessu fé verður best varið til framþróunar í landbúnaði og til stuðnings byggðinni í landinu.  Áríðandi er að þessir fjármunir og sá stuðningur sem landbúnaðinum er veittur með búvörusamningum vinni í eina átt og taki mið af þörfum hvers tíma.

 Hestamennska á landsbyggðinni hefur verið einn mikilvægasti vaxtarbroddur landbúnaðarins og hefur mér þótt mikilvægt að styðja þá þróun með því að tryggja landsbyggðinni nauðsynlega aðstöðu.  Í framhaldi af skýrslu sem ég lét vinna á síðasta ári hefur Ríkisstjórn Íslands nú ákveðið að verja 270 milljónum króna til uppbyggingu reiðhalla, reiðskemma og reiðskála, en með þessum hætti er öflugum stuðningi veitt til fjölþættrar uppbyggingar og atvinnusköpunar í landbúnaði.

Einnig vil ég nefna hér verkefnið Upplýsingatækni í dreifbýli, sem er átaksverkefni á vegum landbúnaðarráðuneytisins og miðar að því að nýta sér kosti upplýsingasamfélagsins og hvetja til tölvu- og netvæðingar í dreifbýli.  Verkefnið hefur gengið framar vonum og var því framlengt til loka þessa árs.  Um er að ræða öflugasta átak til þessa í tölvukennslu og tæknivæðingu í dreifbýli á Íslandi.

Öll bera þessi verkefni landbúnaðarins að sama brunni, að styrkja búsetu, lífsskilyrði og atvinnumöguleika á landsbyggðinni.  Landbúnaðurinn er uppspretta fjölþættra gilda, ekki einungis búvara og fæðuöryggis heldur einnig almannagæða á borð við búsetu og atvinnu í sveitum, umhverfisgæða og  menningarverðmæta.  Eðlilegt er að leggja þessi gæði á vogarskálarnar þegar fjallað er um stöðu og horfur í landbúnaðarmálum og aðkomu ríkisvaldsins að atvinnugreininni.  Stuðla verður að nýsköpun í sveitunum ekkert síður en í þéttbýlinu, en þar gegna mennta- og vísindastofnanir landbúnaðarins lykilhlutverki.  Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli eru í mikilli sókn, vegur þeirra fer vaxandi með hverjum nemanda og fjöldi nýrra verkefna bíða úrlausnar í fjölþættum íslenskum landbúnaði.

Við bændur þessa lands vil ég segja að möguleikar morgundagsins eru miklir.  Vil ég hvetja ykkur til dáða í nýtingu sóknarfæranna, en miklu skiptir að þið sýnið samstöðu um sameiginlega hagsmuni.  Ég óska ykkur heilla í störfum ykkar hér og til framtíðar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum