Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 2006 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ársfundur Orkustofnunar.

Ágætu ársfundargestir. Um þessar mundir eru þrjú ár liðin frá því að Alþingi samþykkti lög um Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir sem komu til framkvæmda 1. júlí 2003. Þetta er því þriðji ársfundur stofnunarinnar í hinu nýja lagaumhverfi. Hið nýja hlutverk Orkustofnunar er afar mikilvægt, ekki síst vegna þess að umhverfi raforkumála hefur einnig verið breytt og þar gegnir Orkustofnun því hlutverki að vera eftirlits- og umsjónarstofnun hins opinbera. Í ljósi þeirra breytinga er hafa orðið og munu verða á umhverfi orkumála á næstu árum tel ég ótvírætt að hlutverk og mikilvægi stofnunarinnar muni enn aukast. Fáar ef nokkrar þjóðir hafa búið við jafn miklar samfélagslegar breytingar á örfáum áratugum og við Íslendingar. Þetta á ekki síst við um þróun í orkunotkun landsmanna. Athyglisvert er að það tók þjóðina um aldarfjórðung að rafvæðast þó svo að sú vinna hefði á þeim tíma verið forgangsverkefni opinberra aðila. Raunar eru aðeins 30 ár liðin frá því að því verkefni lauk. Þá tók við hið mikla átak í uppbyggingu hitaveitna víða um land og gerð byggðalínu á árunum 1973-1985. Með því verki tókst að búa svo um hnútana að þeir landsmenn sem ekki nytu hitaveitna ættu aðgang að rafmagni til húshitunar. Nú er svo komið að aðeins örfáir tugir heimila notast enn við olíuhitun vegna þess að þau eiga ekki möguleika á raforku til hitunar. Á fyrstu áratugum síðustu aldar var Ísland í tölu þeirra Evrópuþjóða er notuðu einna minnsta raforku á íbúa, en um 1970 voru Íslendingar komnir í sjötta sæti af þjóðum heims hvað snerti raforkunotkun á hvern íbúa. Nú er svo komið að raforkunotkun okkar er orðin sú hæsta í heiminum og ástæðan er vitaskuld sú að okkur hefur tekist að nýta hreinar orkulindir til uppbyggingar atvinnuvega þjóðarinnar. Mikil umræða hefur verið um raforkumál í samfélaginu undanfarna mánuði, meðal annars vegna nýrra raforkulaga sem komu til framkvæmda á síðasta ári. Þau lög eru efnislega svipuð og gildir í öllum nágrannalöndum okkar og raunar í flestum OECD ríkjunum, en miðast þó eins og kostur er við aðstæður hér á landi. Þrátt fyrir að einhverjir hnökrar hafi komið upp við framkvæmd laganna hingað til, eins og eðlilegt má telja, hefur farsællega tekist að greiða úr þeim. Að mínu mati hefur vel tekist til með að koma á samkeppni milli raforkuframleiðenda. Þar hefur vitaskuld mest mætt á orkuframleiðendum sjálfum við að koma á laggirnar samræmdu kerfi sem heldur utan um raforkuviðskipti þeirra við notendur. Raforkulögin höfðu eðlilega í för með sér grundvallarbreytingar á gjaldskrám raforkufyrirtækja vegna aðskilnaðar samkeppnis- og einokunarstarfsemi þeirra. Í nýju markaðsumhverfi er dreifveitum ekki heimilt að mismuna notendum með töxtum eftir því til hvers raforkan er notuð. Af þessum sökum féllu meðal annars niður afslættir orkufyrirtækja á raforkudreifingu til rafhitunar og þrátt fyrir auknar niðurgreiðslur ríkisins hefur rafhitunarkostnaður sums staðar hækkað nokkuð frá því sem áður var. Umræðan um breytt raforkuumhverfi á þessu ári hefur ekki síst beinst að þessum hækkunum og vissulega hefur hún verið íþyngjandi hjá stærstu rafhitunarnotendum. Rétt er þó að taka fram að breytingarnar á raforkuverði leiddu einnig til nokkurrar lækkunar hjá ýmsum notendum, m.a. á raforku til almennrar notkunar og til iðnfyrirtækja á landsbyggðinni. Til að koma til móts við stærstu rafhitunarnotendur jók ríkisstjórnin fjármagn til niðurgreiðslu rafhitunar um 100 millj. kr. í byrjun árs 2005 og við árslok var sú upphæð aukin um 40 millj. kr. þegar mörk á niðurgreiðslu til rafhitunar var hækkað úr 35.000 kWst upp í 40.000 kWst á ári. Ljóst er þó að slíkar aðgerðir leysa ekki vanda þeirra sem verst eru settir. Því hefur m.a. verið unnið að tillögum um styrkveitingar til bættrar einangrunar rafhitaðra húsa og eru sérfræðingar sammála um að það sé heillavænlegri leið fremur en að auka niðurgreiðslur. Hér er um að ræða notendur sem hafa háan upphitunarkostnað. Annars vegar er um að ræða óeðlilega mikla notkun sem fer yfir mörk á niðurgreiðslum en hins vegar er um að ræða notendur sem nota of mikla hitaorku á rúmmálseiningu, þó svo að þeir fái fullar niðurgreiðslur. Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins og Háskóli Íslands hafa að undanförnu unnið að mótun tillagna um það á hvern hátt æskilegast sé að standa að framkvæmd átaksverkefnis í þessu skyni og má gera ráð fyrir því að unnt verði að hefja það starf þegar á þessu ári. Þetta verkefni mun verða undir umsjón hins nýja Orkuseturs, sem komið var á fót síðla á s.l. ári við Akureyrarsetur Orkustofnunar. Í flestum löndum Evrópu hafa stjórnvöld í auknum mæli haft frumkvæði að því að stuðla að bættri orkunýtingu á öllum sviðum þjóðfélagsins. Evrópusambandið hefur stuðlað að þessari þróun, m.a. með því að starfrækja sjóði sem reknir hafa verið í um áratug og eru ætlaðir til að styrkja annars vegar skilvirka orkunotkun og hins vegar notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Hér á landi hefur málefnum sem varða orkusparnað eða skilvirka orkunotkun verið lítill gaumur gefinn. Á síðustu árum hefur orkunotkun hér á landi aukist hröðum skrefum og með aukinni þekkingu á orkulindunum hefur mönnum orðið betur ljóst mikilvægi þess að fara vel með orkulindirnar og nýta þær á skynsamlegan hátt. Á árinu 2004 sótti iðnaðarráðuneytið í samvinnu við Orkustofnun um styrk til Evrópusambandsins til að koma á fót sérstakri skrifstofu sem hefði þann tilgang að miðla upplýsingum um orkumál til almennings og stjórnvalda, hvetja til skilvirkrar orkunotkunar og veita almenningi aðstoð í því skyni. Styrkveiting Evrópusambandsins nemur 5-6 millj. kr á ári næstu 3 árin en að auki leggja iðnaðarráðuneytið og Samorka Orkusetrinu til fjárveitingar. Þá verður flutt til Akureyrarseturs Orkustofnunar starfsemi um aukna notkun vistvæns eldsneytis hér á landi, sem hófst á stofnuninni árið 2004. Alkunna er að meginhluti olíueldsneytis er notaður til samgangna og skipaflotans. Því er afar mikilvægt að hugað sé að öllum mögulegum leiðum í notkun vistvæns eldsneytis í framtíðinni til að draga verulega úr olíunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Á því sviði náðist merkur áfangi í maí s.l. er Alþingi samþykkti að fella niður virðisaukaskatt af vetnisbifreiðum og varahlutum í þær fram til ársloka 2008 og einnig að fella niður til sama tíma vörugjald af bifreiðum sem hafa í för með sér litla mengun. Vaxandi áhugi er nú á olíuleit á íslenska landgrunninu og tvö fyrirtæki hafa gert frumathuganir í íslenskri lögsögu á svæðinu suður af Jan Mayen. Leyfi til slíkra frumathugana eru gefin út á grundvelli kolvetnislaganna, en leyfin fela ekki sér rétt til frekari rannsókna eða borana. Til að hægt sé að ráðast í frekari rannsóknir og boranir þarf að gera ýmsar lagabreytingar og m.a. útfæra réttindi og skyldur þeirra sem vilja fá leyfi til frekari olíurannsókna og í kjölfarið hugsanlegrar olíuvinnslu við Ísland. Ríkisstjórnin ákvað því síðastliðið vor að ráðist yrði í undirbúning að útgáfu leitar- og vinnsluleyfa fyrir olíu á íslensku yfirráðasvæði. Markmiðið er að undirbúningur komist það langt að næsta haust verði hægt að leggja fram á Alþingi frumvörp til breytinga á þeim lögum er tengjast verkefninu og vorið 2007 verði hægt að ákveða hvort hefja eigi leyfisveitingaferli fyrir olíuleit og olíuvinnslu á Jan Mayen svæðinu. Ljóst er að til þess að tryggja framgang verkefnisins þarf samvinnu margra ráðuneyta og stofnana sem starfa á þeirra vegum. Til þess að framgangur verkefnisins verði sem bestur og til þess að tryggja samvinnu hinna mismunandi aðila innan stjórnsýslunnar, ákvað ríkisstjórnin í síðustu viku, að tillögu minni, að skipa nefnd ráðuneytisstjóra þeirra átta ráðuneyta sem tengjast verkefninu, en einnig mun orkumálastjóri starfa með nefndinni. Gert er ráð fyrir að nefndin verði vettvangur fyrir samstarf og samráð milli ráðuneyta um olíuleitarmál og að þar verði hægt að taka upp mál er varða undirbúning olíuleitar og þegar fram líða stundir þau álitaefni sem upp kunna að koma vegna olíuleitar og vinnslu. Hvert ráðuneyti fyrir sig ber hins vegar ábyrgð á sínu verkefnasviði, metur hvaða aðgerða er þörf og sér um framkvæmd þeirra aðgerða, hvort sem þar er um að ræða lagabreytingar, rannsóknir, upplýsingaöflun eða aðrar aðgerðir. Hér er vitaskuld um að ræða langtíma verkefni sem mikilvægt er að standa vel að enda mun þessi hugsanlega auðlind okkar geta skipt gríðarmiklu máli fyrir hagsæld þjóðarinnar til lengri framtíðar. Í síðasta mánuði tóku gildi lög um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, þar sem gildissvið laganna var víkkað þannig að lögin ná núna til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu eftir því sem við á. Lögin gera ráð fyrir að rannsóknarleyfi á tilteknu virkjunarsvæði verði veitt einum aðila, með þeirri undantekningu að hafi aðilar sammælst um rannsóknir og sæki sameiginlega um rannsóknarleyfi, skuli heimilt að veita þeim það sameiginlega. Þá er í lögunum ákvæði um endurkröfurétt þeirra sem fengið hafa rannsóknarleyfi og lagt í kostnað við rannsóknir en fá af einhverjum ástæðum ekki leyfi til að virkja eða nýta viðkomandi auðlind. Loks er í bráðabirgðaákvæði laganna lagt til að iðnaðarráðherra skipi nefnd er gera skuli tillögu um það með hvaða hætti valið verði á milli fyrirliggjandi umsókna um rannsóknar og nýtingarleyfi á tilteknu virkjunarsvæði. Skal nefndin skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps til iðnaðarráðherra í september næstkomandi. Þó svo að þessi lög láti ekki mikið yfir sér eru þau afar þýðingarmikil í því breytta umhverfi orkurannsókna sem við stöndum frammi fyrir. Um það mikilvæga efni verður fjallað ítarlega hér á eftir í fjórum erindum og tel ég því ekki ástæðu til að fjalla nánar um það efni hér í máli mínu. Þessu máli tengt er sú vinna sem hófst á árinu 2004 við annan áfanga Rammaáætlunar og er stefnt að því að ljúka honum árið 2009. Í öðrum áfanga verða fleiri virkjunarkostir teknir til mats og þá einkum háhitasvæði landsins, en verulega hefur skort á almennar náttúrufarsrannsóknir á þessum svæðum. Þá er í þessum áfanga unnið að endurbótum á aðferðafræði við mat á náttúrufari og þá einkum landslagi, en einnig verða helstu umhverfisáhrif smávirkjana metin. Enginn vafi er á því að sá samanburður virkjunarkosta er niðurstöður rammaáætlunar leiða í ljós gefa okkur gleggri sýn á líklegum virkjunarkostum og umhverfisáhrifum þeirra. Með vinnu að rammaáætlun hefur myndast mikilvæg þekking um náttúrufar á virkjunarsvæðum sem kemur að miklu gagni þegar ráðist er í frekari rannsóknir eða áætlanagerð um orkunýtingu eða aðra landnýtingu. Rammaáætlun þarf að veita sem gleggsta vísbendingu um það annars vegar hvar hyggilegast og hagkvæmast sé að rannsaka frekar með nýtingu í huga og hins vegar hve hátt verndargildi. Ein þeirra leiða sem nefnd hefur verið til þess að auka nýtingu innlendra orkulinda er framleiðsla á innlendu eldsneyti og hefur vetni sérstaklega verið nefnt í því samhengi. Á undanförnum árum hefur þróun tækni við að nota vetni sem orkubera aukist hratt. Hefur ríkisstjórnin markað sér stefnu í vetnismálum og er hluti hennar að stuðla að því að Ísland geti verið alþjóðlegur vettvangur vetnisrannsókna. Stigin hafa verið mikilvæg skref á þessu sviði, s.s. með stofnun fyrirtækisins Nýorku, með aðild stjórnvalda, sem og erlendra stórfyrirtækja að verkefni sem gengur undir nafninu ECTOS og rekur 3 vetnisstrætisvagna í Reykjavík, og ekki síst með byggingu fyrstu vetnisstöðvar í heiminum sem staðsett er á hefðbundinni afgreiðslustöð eldsneytis. Það starf sem unnið hefur verið á sviði vetnismála hér á landi undanfarin misseri vekur mikla athygli víða um heim, sem vel má sjá af fjölda fyrirspurna um málið og fjölda erlendra gesta sem komið hafa til Íslands til að kynnast stefnu stjórnvalda í vetnismálum. Nú er ECTOS verkefnið að renna sitt skeið og ljóst að stjórnvöld munu þurfa að taka afstöðu til þess með hvaða hætti framgangi vetnismála verður háttað á næstu árum. Hefur Nýorka varpað fram hugmyndum að áframhaldandi vetnisuppbyggingu hér á landi, m.a. með þátttöku ríkisins og orkufyrirtækja. Ég tel mikilvægt að af því geti orðið. Er ríkisstjórnin með málið til athugunar og niðurstöðu að vænta á næstunni. Góðir fundargestir. Orkustofnun hefur í tæpa fjóra áratugi byggt upp mikla þekkingu og upplýsingar um íslenskar orkulindir og hagnýtingu þeirra. Flestar slíkar upplýsingar eru nú öllum landsmönnum aðgengilegar. Stofnunin hefur með nýjum lögum fengið mjög aukið og mikilvægt hlutverk við eftirlit með framkvæmd nýrra raforkulaga. Þá mun hlutverk stofnunarinnar varðandi kynningu og upplýsingagjöf til almennings um orkumál og orkusparnað aukast á næstunni. Það hefur að mínu mati gífurlega þýðingu að auka fræðslu og upplýsingagjöf til almennings og skóla um hina miklu þýðingu sem nýting orkulinda landsins hefur haft og mun hafa á lífskjör þjóðarinnar. Að lokum vil ég þakka stjórnendum Orkustofnunar fyrir farsælt samstarf á liðnum árum og óska stofnuninni og starfsmönnum hennar alls góðs á komandi tímum. Ég þakka áheyrnina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum