Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. mars 2006 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Auðlindin Ísland

Valgerður Sverrisdóttir

iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Auðlindin Ísland

Upplýsinga- og umræðufundur um samspil ferðaþjónustu og virkjana

Ágætu fundargestir

Ég vil í upphafi lýsa yfir ánægju minni með yfirskrift þessa fundar, um samspil ferðaþjónustu og virkjana. Mér hefur stundum fundist á undanförnum árum sem menn fari offari í alhæfingum um að uppbygging samfélags okkar byggist á eflingu eins atvinnuvegar á kostnað annars á hverjum tíma. Hið rétta er að samfélag okkar byggist á að þróa og efla allar greinar atvinnulífsins þegar horft er til framtíðar. Þetta á til dæmis við um það umræðuefni sem hér verður til umræðu, samspil ferðaþjónustu og uppbyggingu virkjana.

Í mörgum tilvikum geta hagsmunir ferðaþjónustu og bygging virkjana fallið ágætlega saman þegar litið er til heildarhagsmuna. Í öðrum tilvikum getur verið um að ræða hagsmunaárekstra þar sem þarf að finna meðalveg og leita lausna á ágreiningsmálum. Talsmenn ferðaþjónustu þurfa einnig að gera sér grein fyrir því að skipulagðar hópferðir í stórum stíl um óbyggðir landsins eru óframkvæmanlegar án mannvirkja eins og vega, göngubrauta og þjónustumiðstöðva með veitingaaðstöðu og snyrtingu. Annars er viðkvæmri náttúru landsins stefnt í voða eins og dæmin sýna. Allar framkvæmdir, hvort heldur er um að ræða virkjanir eða vegagerð ellegar uppbygging ferðaþjónustumiðstöðva, valda breytingum á náttúrunni og geta haft áhrif á ferðamennsku viðkomandi svæðis. Við slíkum breytingum þarf að bregðast með ýmsum hætti, en mikilvægast er þó að greina í upphafi hver hin líklegu áhrif af nýjum mannvirkjum geti orðið. Um það verður rætt hér í dag og ber að fagna því.

Bygging einstakra mannvirkja getur haft víðtæk áhrif á samgöngur. Um það höfum við mörg dæmi hér á landi. Samgöngubætur hafa ávallt jákvæð áhrif á atvinnulíf og samfélagið í heild og þá ekki síst möguleika ferðaþjónustunnar. Nokkur dæmi um þetta er vert að nefna:

Á þriðja áratug síðustu aldar var unnið að gerð Flóaáveitunnar viðamesta mannvirkis er Íslendingar höfðu ráðist í til þess tíma. Þær framkvæmdir gerðu það að verkum að endurbyggja þurfti samgöngukerfi svæðisins og ráðast í viðamikla vega- og brúargerð. Framkvæmdirnar urðu einnig til þess að skyndilega varð mögulegt að flytja fólk og vörur um svæðið á bifreiðum sem áður hafði verið ókleift með öllu. Þessi breyting varð grundvöllur þess að unnt var að stofna Mjólkurbú Flóamanna og hefja mjólkuriðnað á Selfossi.

 

Annað dæmi um þessi áhrif er bygging Búrfellsvirkjunar ásamt Þórisvatnsmiðlun á sjöunda áratug síðustu aldar. Sú framkvæmd fól m.a. í sér endurgerð vegakerfisins í uppsveitum Árnessýslu og uppbyggingu á 80 km vegakerfi inn fyrir Þórisvatn ásamt brúargerð á Tungnaá, en á þessum slóðum var þá enginn vegur. Þessi framkvæmd varð til þess að opna aðgengi almennings að miðhálendi landsins að sunnan. Áður höfðu aðeins hörðustu fjallamenn barið augum stærstan hluta þessa svæðis. Óhætt er að segja að ferðaþjónustuaðilar og almenningur hafi fagnað þessum miklu umskiptum á ferðamöguleikum um miðhálendið og milli landshluta. Á síðustu árum hefur vegakerfið að Þórisvatni og Kvíslarveitum enn verið bætt og ferðaþjónusta á virkjanasvæðum sunnanlands hefur farið vaxandi eins og væntanlega verður nánar fjallað um hér í dag.

Margir kunna að spyrja hvort þessi uppbygging samgöngukerfisins hefði ekki hvort sem er orðið í tímans rás án þess að til virkjanaframkvæmda hefði komið. Því er til að svara að fjármagn vegasjóðs dugir vart til þess að endurbæta vegakerfi landsins í byggð í samræmi við kröfur tímans og því hefur aðeins lágmarksfjárveitingum verið varið til hálendisvega, sem ekki eru heilsársvegir. Menn geta haft til marks um það hvernig miðað hefur vegagerð á Kjalvegi frá Gullfossi að Bláfellshálsi síðasta áratug eða svo.

Vafalaust má deila um áhrif mannvirkja á upplifun ferðamanna, en í skoðanakönnunum sem gerðar voru fyrir um 10 árum hjá ferðamönnum á virkjunarsvæðum sunnanlands kom í ljós að aðeins 12% þeirra töldu að lón og mannvirki hefðu neikvæð áhrif á upplifun þeirra á náttúru svæðisins en yfir 80% töldu að þau hefðu engin eða jákvæð áhrif. Þessi könnun var gerð meðal þeirra er voru á svæðinu og þekktu þar til, það kann vel að vera að niðurstaðan yrði önnur í dag, einkum hjá þeim er fjærst búa og minnst þekkja til á svæðinu, en þeir virðast á síðustu tímum helst tjá sig um umhverfisáhrif mannvirkja.

Ýmsir hafa í umræðu um virkjanir síðastliðin ár undrast það sjónarmið að virkjanamannvirki geti laðað að ferðamenn og talið það hina mestu firru. Staðreyndirnar um það tala hins vegar sínu máli bæði hér á landi og erlendis. Nægir þar að nefna Bláa lónið í Svartsengi sem dæmi um vel heppnaðan manngerðan ferðamannastað, sem þó var síður en svo hugsaður í upphafi sem sérstakt aðdráttarafl ferðamanna. Notkun á affallsvatni virkjunarinnar í Svartsengi varð á sínum tíma fyrsta baðlón sinnar tegundar í heiminum og er það talin vera ein af 25 bestu heilsulindum í heimi. Í dag laðar Bláa lónið þannig að mjög stóran hluta þeirra ferðamanna sem koma til landsins. Stór hluti gesta skoðar einnig orkuverið sjálft og þá athyglisverðu kynningu á náttúrufari landsins sem þar hefur verið komið upp. Hið sama á við um uppbyggingu orkuversins á Nesjavöllum. Þar hefur verið staðið glæsilega að allri aðstöðu fyrir ferðamenn frá upphafi og á síðasta ári voru skráðir gestir tæplega 20.000. Ég nefni Kröfluvirkjun í Mývatnssveit en inn á virkjunarsvæðið koma 100 þúsund ferðamenn ár hvertÞá má einnig bæta við glæsilegri uppbyggingu Jarðbaðanna við Mývatn en í þau rennur borholuvökvi úr borholu Landsvirkjunar í Bjarnarflagi.

Landsvirkjun opnaði virkjanir sínar fyrir almenningi með skemmtilegu menningar- og fræðsluátaki fyrir nokkrum árum, sem síðan hefur staðið yfir óslitið á sumrin og laðað að fjölda innlendra og erlendra ferðamanna við sívaxandi vinsældir.

Þá má og geta þess að við hina nýju Hellisheiðarvirkjun er gert ráð fyrir sérstakri 1000 m2 aðstöðu fyrir móttöku og kynningu fyrir ferðamenn, og við hina nýju Reykjanesvirkjun er sömuleiðis gert ráð fyrir slíkri aðstöðu.

Reynsla úr löndum Alpafjalla staðfestir einnig jákvætt samspil ferðaþjónustu og virkjana. Vegir liggja að flestum stíflumannvirkjum hátt til fjalla sem opna ferðamönnum fjallasali, sem áður voru aðeins fáum aðgengilegir. Virðist það síður en svo hafa dregið úr áhuga manna á að njóta útivistar og náttúrufegurðar þrátt fyrir mannvirki á sömu slóðum.

Af því sem ég hef þegar rakið má sjá að orkufyrirtæki landsins hafa kappkostað að búa svo um mannvirki og umhverfi þeirra að sómi sé að og kynning á rekstri virkjana og fræðsla um orkumál og umhverfi virkjana er veruleg. Þau hafa því á undanförnum árum aukið samstarf við ferðaþjónustuaðila og jafnframt aukið rannsóknir á ferðamennsku og áhrifum virkjana þar á. Fyrsta rannsókn hér á landi á þessu sviði er rannsókn á áhrifum virkjana norðan Vatnajökuls á ferðamennsku sem Anna Dóra Sæþórsdóttir landfræðingur vann fyrir iðnaðarráðuneytið og Landsvirkjun á árunum 1996-1997. Þar var gerð úttekt á ferðamennsku svæðisins og hver líkleg áhrif virkjana í jökulsánum gæti haft á ferðamennsku og hvernig ferðavenjur og mynstur myndu hugsanlega breytast. Þó svo að tilhögun virkjana hafi breyst frá þeim tíma er skýrslan kom út standa meginniðurstöður skýrslunnar enn fyrir sínu. Þær styðja í megindráttum tilgátuna um jákvætt samspil ferðaþjónustu og virkjana.

Nokkru síðar vann Rögnvaldur Guðmundsson að könnun meðal ferðamanna á ákveðnum virkjunarsvæðum á vegum verkefnisstjórnar Rammaáætlunar. Rammaáætlun er ætlað að meta og flokka helstu virkjunarkosti landsins þar sem vegin eru saman orkugeta og hagkvæmni, þjóðhagsleg áhrif og áhrif á náttúru, menningarverðmæti, útivist og hlunnindi. Fjórir faghópar komu að vinnunni undir yfirumsjón sérstakrar verkefnisstjórnar. Ferðamennska og ferðaþjónusta féllu undir tvo hópa í raun. Faghópur II fjallaði þannig um útivist og hlunnindi, þar sem lagt var mat á gildi útivistar og veiða til afþreyingar. Hópurinn gaf síðan einkunnir um áhrif virkjunarkosta á viðkomandi ferðamennsku. Faghópur III fjallaði hins vegar um þá þætti ferðaþjónustu sem greitt er fyrir og flokkaði virkjunarkosti eða svæði eftir mikilvægi fyrir ferðaþjónustuna og því hvaða áhrif viðkomandi virkjunarkostur hefði á hana. Segja má að báðir hóparnir hafi þannig metið áhrif virkjana á ferðamennsku, en út frá mismunandi forsendum. Deila má um það hvort hyggilegra hefði verið að hafa útivist og ferðaþjónustu betur afmarkaða í einum faghópi, en niðurstaðan varð eigi að síður sú sem hér hefur verið rakin.

Vinna við annan áfanga Rammaáætlunar hófst á síðastliðnu ári og er þess að vænta að niðurstöður liggi fyrir á árinu 2009. Þar er lögð áhersla á að rannsaka og fjalla meira um háhitasvæði en unnt var að gera í fyrsta áfanga áætlunarinnar. Þá verður reynt að endurbæta aðferðafræði við mat á ákveðnum þáttum frá fyrsta áfanga og hefur þar m.a. verið lögð áhersla á mat á landslagi og víðerni. Viðtökur við fyrsta áfanga áætlunarinnar voru mjög jákvæðar og enginn vafi er á því að sá samanburður virkjunarkosta er niðurstöður rammaáætlunar veitir gefur gleggri sýn á líklega virkjunarkosti í næstu framtíð. Þá hefur með vinnunni myndast mikilvægt gagnasafn um rannsóknir og náttúrufarsaðstæður á fjölmörgum svæðum sem kemur að miklu gagni þegar ráðist er í frekari rannsóknir eða nýtingu þeirra.

Við skulum þó hafa í huga að Rammaáætlun er ekki einn stóridómur um það hvar skuli virkja eða ekki virkja. Í raun er áætlunin breytileg eftir eðli og umfangi þeirra rannsókna sem fyrir liggja um þau svæði sem til skoðunar eru. Meginatriðið er að menn leiti leiða til ásættanlegra lausna á hagkvæmustu nýtingu og eðlilegri verndun náttúrufars.

Góðir fundargestir.

Ég hef hér að framan rakið í stuttu máli hver sambúð ferðaþjónustu og virkjana hefur verið í áratugi og hvar við stöndum í dag í samstarfi okkar við gerð Rammaáætlunar. Hér á þessum fundi verður fluttur fjöldi fróðlegra erinda um þau álitaefni sem ég hef minnst á í máli mínu og því ber að fagna. Við eigum að halda áfram jákvæðum umræðum sem byggja á vísindalegri þekkingu. Í þessum efnum sem öðrum er samvinna og samstarf líklegast til að okkur farnist sem best í framtíðinni.

Ég þakka áheyrnina.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum