Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. mars 2006 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Svæðisbundin áhrif ferðaþjónustu á Íslandi

Góðir gestir.

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa málþing um svæðisbundin og hagræn áhrif ferðaþjónustu á Íslandi.

Mig langar í upphafi að fjalla í örfáum orðum um Vaxtarsamning Eyjafjarðar og tilurð hans. Sem kunnugt er var ritað undir samninginn um mitt ár 2004 og skyldi hann gilda til ársloka 2007. Var tilurð samningsins að mínu mati ákveðið frumkvöðlastarf í atvinnu- og byggðamálum hér á landi en fyrirmyndin er erlendis frá.

Vaxtarsamningurinn, og þeir sem á eftir hafa komið, snúast um að auka sjálfbæran hagvöxt svæða, fjölga atvinnutækifærum og treysta viðkomandi byggðakjarna svo þeir geti enn frekar sinnt því lykilhlutverki að vera miðstöðvar atvinnu, menningar og þjónustu. Lögð er áhersla á sérstöðu og styrkleika svæða og samkeppnishæfni atvinnulífs. Þannig hefur í tilfelli Vaxtarsamnings Eyjafjarðar verið lögð áhersla á þær atvinnugreinar sem eru nú þegar sterkar í Eyjafirði og nágrenni og styðja þær enn frekar til að takast á við alþjóðlega samkeppni. Út frá þeirri grunngerð og atvinnuvegum sem fyrir eru á svæðinu voru því skilgreindir fjórir klasar sem orðið hafa þungamiðja í Vaxtarsamningnum. Þessir klasar eru matvælaklasi, mennta- og rannsóknaklasi, heilbrigðisklasi og svo sá klasi sem m.a. stendur fyrir málþinginu í dag sem er ferðaþjónustuklasinn.

Stjórn vaxtarsamningsins réði framkvæmdasstjóra til að annast reksturinn í samræmi við stefnumörkun stjórnar og framkvæmdastjórnar samningsins. Síðan var leitað til óháðra aðila til að stjórna klösunum sjálfum. Þannig sjá Ferðamálasetur Íslands og Markaðsskrifstofa Norðurlands um ferðamálaklasann en til að halda utan um samstarf innan klasanna og liðka fyrir ýmsum verkefnum stýrir verkefnastjóri starfsemi og verkefnum innan viðkomandi klasa.

 

Með uppbyggingu vaxtarsamninga vítt og breitt um landið hef ég viljað beita mér fyrir því að auka völd og ábyrgð heimaaðila í byggða- og atvinnuþróunarmálum. Segja má að á næstunni sé verið að stíga áframhaldandi skref í þeim efnum því ég hyggst leggja fram á Alþingi frumvarp sem gerir ráð fyrir umfangsmikilli uppstokkun í opinberu stuðningskerfi nýsköpunar og atvinnuþróunar með því að sameina starfsemi Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins í Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Er ætlunin að hin nýja stofnun verði með höfuðstöðvar á Sauðárkróki en jafnframt verður komið á fót þekkingarsetrum víða um land, eða þau efld, sem fyrir eru. Þar eiga að tengjast saman starfsemi háskóla, rannsóknarstofnana, þekkingarfyrirtækja og sprota- og nýsköpunarfyrirtækja til eflingar staðbundinni atvinnuþróun í byggðum landsins og er í fyrstu einkum horft til slíkrar uppbyggingar á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Áfram verða að sjálfsögðu reknar öflugar tæknirannsóknir og frumkvöðlastarfsemi hjá stofnuninni.

 

Með þessum breytingum vænti ég þess að svæðisbundin þekking muni hafa frekari áhrif á uppbyggingu atvinnulífs. Fyrrgreindir vaxtarsamningar hafa þar verið jákvætt skref enda ígildi svæðisbundinna byggðaáætlana og er ferðaþjónustu gert þar nokkuð hátt undir höfði.

Ferðaþjónustan skiptir enda miklu máli fyrir okkur Íslendinga og ekki hvað síst fyrir landsbyggðina. Ábatinn fyrir þjóðarbúið í heildina er m.a. í formi bættrar framleiðni vinnuafls, einkafjármagns, opinbers fjármagns og innviða.

 

Í ljósi þessa hefur ferðaþjónusta notið nokkurs tilstyrks frá stjórnvöldum. Var hennar sérstaklega getið í byggðaáætlun 2002-2005 í tengslum við sóknarfæri landsbyggðarinnar í atvinnumálum. Bent var á að leggja þurfi áherslu á sérkenni hvers landshluta og á skipulagningu vaxtarsvæða. Markmiðið væri að tryggja markvissa uppbyggingu og sjálfbæra þróun greinarinnar, bæta arðsemi hennar, auka samkeppnishæfni einstakra svæða og efla þar með íslenska ferðaþjónustu almennt. Til að fylgja þessu eftir gerðu iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og samgönguráðuneyti með sér samkomulag á vormánuðum 2003 um uppbyggingu verkefna í ferðaþjónustu á landsbyggðinni og hefur til þess þriggja ára verkefnis verið varið ríflega 100 milljónum króna. Var þeim m.a. varið til uppbyggingar upplýsingamiðstöðva á lykilstöðum á landinu, til menningartengdrar ferðaþjónustu og þátttöku í vottunarkerfum.

 

Í nýrri byggðaáætlun sem nær til ársins 2009 er gert ráð fyrir framhaldi á uppbyggingu greinarinnar. Er miðað að því að áhersla verði lögð á sérkenni hvers landshluta og skipulagningu vaxtarsvæða. Þá er gert ráð fyrir því á almennari nótunum að unnið verði að því að bæta aðstöðu ferðamanna í þjóðgörðum og á fjölsóttari ferðamannastöðum til þess að minnka álag á náttúru landsins. Jafnframt verði öruggt aðgengi ferðamanna tryggt. Er það í samræmi við ferðamálaáætlun fyrir árin 2006-2015.

 

Góðir gestir.

Við eigum fallegt land sem vekur áhuga fjölda manna víða um heim að heimsækja landið og njóta þeirrar náttúrufegurðar sem það hefur uppá að bjóða. Fjölmargir njóta góðs af umsvifum ferðaþjónustunnar. Þar hefur hið opinbera ekki eingöngu hagsmuna að gæta heldur einnig fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar. Er óhætt að fullyrða að á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil uppbygging á þessu sviði sem hefur skilað sér í aukningu erlendra sem innlendra ferðamanna. Til að framhald geti orðið þar á tel ég mikilvægt að byggt sé á svæðisbundnum styrkleikum, svo að tekjur og ábati skili sér með réttmætum hætti til sem flestra.

Að lokum vil ég þakka aðstandendum þessa málþings fyrir að boða til þess. Ég er ekki í vafa um að við munum fá að hlýða á fróðleg erindi sem vonandi skila sér í markvissri uppbyggingu ferðaþjónustunnar og ávinningi fyrir þá sem við greinina starfa.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum