Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. apríl 2006 UtanríkisráðuneytiðUTN Forsíðuræður

Ræða Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra, um utanríkismál

RÆÐA

Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra,

um utanríkismál

Flutt á Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005-2006

Virðulegi forseti,

Heimurinn tekur sífelldum breytingum, jafnvel á þeim stutta tíma sem líður milli þess sem utanríkisráðherra gerir grein fyrir þeim utanríkismálum sem efst eru á baugi hverju sinni hér á Alþingi. Þar sem fyrir nokkrum mánuðum virtist stefna í friðsamlegri átt hefur nú upp úr soðið og ógnir sem menn sáu ekki fyrir þá eru nú helsta viðfangsefni líðandi stundar. Nægir þar að nefna ógnvænlega þróun vegna ráðagerða Íransstjórnar sem virðist stefna að því að koma sér upp kjarnavopnum. Vonir stóðu til að kominn væri á viss stöðugleiki í Afganistan en þar hefur talíbönum vaxið ásmegin á ný og hafa þeir grafið undan friði með ofbeldi og árásum. Í Írak hefur því miður ekki náðst að mynda ríkisstjórn og ofbeldisverk, mannrán og dráp hafa færst í vöxt vegna mikillar spennu á milli sjíta og súnníta. Íslensk stjórnvöld hafa reynt að leggja sitt af mörkum m.a. með endurteknum fjárframlögum til sjóðs á vegum Atlantshafsbandalagsins sem vinnur að þjálfun öryggissveita heimamanna í Írak. Við fráfall Yassers Arafats skapaðist nýtt tækifæri til lausnar deilna Palestínumanna og Ísraelsmanna þar sem hann hafði um árabil verið talinn Þrándur í Götu friðar. Útlitið var nokkuð bjart, þar til þingkosningar voru haldnar á palestínsku heimstjórnarsvæðunum í lok janúar 2006 þar sem hin herskáu Hamas-samtök sigruðu. Nú eru einnig nýafstaðnar kosningar í Ísrael og ekki er ljóst hvaða áhrif staðan, sem upp er komin, mun hafa á framtíð friðarferlisins. Þá eru þær hörmungar sem verða af völdum náttúruhamfara engu síðri óvissuþáttur. Til að bregðast við þeim vanda sem upp kemur fyrirvaralaust víðs vegar um heim hefur Ísland skipað sér á bekk þeirra ríkja sem fyrst lögðu af mörkum til nýs sjóðs á vegum Sameinuðu þjóðanna sem á að fjármagna viðbrögð við slíkri vá.

Frú forseti.

Langt er nú um liðið frá því kalda stríðinu lauk. Má vera að kominn sé tími til að hætta sífelldum tilvísunum í þennan tíma, sem yngra fólk þessa lands þekkir aðeins af bókum eða kannski helst kvikmyndum, líkt og mín kynslóð seinni heimsstyrjöldina. En til þess að skýra stöðu öryggis- og varnarmála okkar tíma er þó enn nauðsynlegt að líta um öxl. Þetta á einnig við um þá stöðu sem ég geri að öðru höfuðviðfangsefni þessarar skýrslu minnar til Alþingis í dag. Þar á ég vitaskuld við varnir Íslands í ljósi brottflutnings varnarliðsins sem í áratugi hefur tryggt öryggi lands og þjóðar.

Miklar vonir voru bundnar við það, fyrir 15 árum, að nú hæfist skeið án átaka í sögu mannkyns. Því miður varð raunin allt önnur. Við hrun Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins leystust úr læðingi öfl þjóðernishyggju og valdabaráttu sem lengi höfðu kraumað undir. Uppi voru þó vonir um að hægt væri að vinna í sameiningu að því að tryggja stöðugleika og frið.

Samdráttur í herafla Bandaríkjanna í Vestur-Evrópu, hinu hefðbundna svæði NATO, hófst þá þegar. Átökin á Balkanskaga undir lok síðustu aldar drógu Atlantshafsbandalagið út fyrir skilgreint aðgerðasvæði sitt til Suð-austurs þar sem fylla þurfti tómarúm í kjölfar hruns kommúnismans, sem í ljós kom að Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið höfðu ekki bolmagn til að gera.

Lengst af síðustu öld stöfuðu ógnir fyrst og fremst af óvinveittum þjóðríkjum. En í breyttri heimsmynd var svo komið að þjóðir heims stóðu frammi fyrir fjölmörgum ólíkum hættum, allt frá óvinveittum einræðisríkjum og flóknum þjóðernisátökum til fámennra hryðjuverkahópa. Mönnum varð einnig ljósari nauðsyn þess að líta til ógna á borð við farsóttir og meiri háttar umhverfisslysa við hagsmunagæslu þjóða. Hnattvæðingin gerði það að verkum að jafnvel fjarlægustu vandamál virtust nálæg.

Þrátt fyrir að ný, alþjóðleg, hryðjuverkaöfl hafi gert vart við sig á þessum tíma var það þó ekki fyrr en í kjölfar árásanna á New York og Washington 11. september 2001 að alþjóðasamfélagið horfðist beint í augu við þá ógn sem af þeim stafar. Þar með var lokið skeiði aðlögunar að breyttum aðstæðum í kjölfar kalda stríðsins og frá þeim degi hafa áherslur í öryggis- og varnarmálum gerbreyst.

Meginbreytingin á öryggismálum heimsins er sú, að helstu viðfangsefni þeirra stofnana sem við eigum aðild að, hafa færst til. Mið-Austurlönd, Asía og Afríka eru vettvangur átaka og óstöðugleika í samtímanum. Ráðstöfun og staðsetning herafla hefur í síauknum mæli miðast við það.

Ekki er því óeðlilegt að Atlantshafsbandalagið, með Bandaríkin í broddi fylkingar, leitist við að miða varnarviðbúnað sinn við þessar breyttu aðstæður. Þó er það svo, eins og allar bandalagsþjóðir okkar gera ráð fyrir, að hinar óhefðbundnu ógnir samtímans eru ekki takmarkaðar landfræðilega og því er nauðsynlegt að viðbúnaður til að mæta þeim sé hvarvetna fyrir hendi.

Atlantshafstengslin eru jafn mikilvæg fyrir gagnkvæmt öryggi Evrópu og Bandaríkjanna og þau hafa verið um áratuga skeið. Fimmta grein Norður-Atlantshafssamningsins um sameiginlegar varnir er ennþá kjarnaákvæði sem stendur fyllilega fyrir sínu. Sú eðlilega þróun sem hefur átt sér stað samfara því að sjónir manna hafa beinst að nýjum og oft fjarlægum ógnum má ekki verða til þess að við höldum ekki vöku okkar heima fyrir.

Þetta kom glöggt í ljós á þeim fundum sem ég hef átt með ráðamönnum bandalagsríkja okkar að undanförnu, þar sem ég lagði áherslu á að ræða varnar- og öryggismál í ljósi breyttra aðstæðna. Þrátt fyrir að nágrannaríki okkar geti ekki slegið föstu nákvæmlega hvaða ógnum þurfi að gera ráð fyrir telur ekkert þeirra sig geta verið án tryggra varna, þar á meðal loftvarna. Í bæklingi sænska landvarnaráðuneytisins frá október 2004 um varnarstefnu Svíþjóðar segir þannig meðal annars að herinn skuli standa vörð um lögsögu landsins og fullveldi þess.

Samfara því sem Atlantshafsbandalagið hefur tekið að sér verkefni utan landsvæða bandalagsþjóðanna hafa orðið breytingar á kjarnastarfseminni. Stefnt er að því að koma á fót viðbragðssveit, sem mun telja 60 þúsund manns, til þess að bregðast við með 30 daga fyrirvara hvar í heiminum sem þess er þörf. Gert er ráð fyrir að viðbragðssveit þessi verði að fullu starfhæf á næsta ári. Unnið er að því að miða starfsemi bandalagsins við að styðja slíkar aðgerðir hvað varðar fjarskipti, flutninga og upplýsingaöflun, auk þess að manna sjálfar sveitirnar.

Innan Evrópusambandsins hefur verið unnið að því smám saman að byggja upp getu til sameiginlegra aðgerða. Því starfi er þó hvergi nærri lokið og sambandið hefur ekki, og mun ekki í fyrirsjáanlegri framtíð, öðlast hernaðarlega burði til aðgerða af því tagi sem NATO sinnir nú þegar. Lögð hefur verið áhersla á að starfsemi og verkefni Atlantshafsbandalagsins annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar skarist ekki og skýr verkaskipting sé nauðsynleg. Á þetta einkum við um verkefni sem falla undir friðargæslu. Evrópusambandið hefur fram til þessa helst sinnt því hlutverki að taka yfir aðgerðir NATO þegar friðvænlegar horfir, eins og á Balkanskaga, eða fjármagnað friðargæslu, eins og í Darfúr í Súdan. Atlantshafsbandalagið starfar á miklu breiðari grunni á sviði öryggismála en Evrópusambandið. Það hefur ekki því hlutverki að gegna að tryggja hernaðarlegt öryggi aðildarríkja sinna, það er ekki varnarbandalag og ekki í stakk búið til að taka á sig slíkar skuldbindingar. Viðbúnaður Evrópusambandsins er ekki miðaður við sameiginlegar varnir líkt og á við um Atlantshafsbandalagið. ESB hefur t.d. ekki það herstjórnarskipulag sem til þarf. Þá þarf að hafa í huga í þessu samhengi að aðild að NATO og ESB eiga mestanpart sömu ríki, sem hafa aðeins yfir að ráða einum her. Oft gengur treglega að fá Evrópuríki til að senda menn á vettvang þegar aðgerðir eru skipulagðar og flest þeirra eru treg að auka útgjöld sín til varnarmála. Það gefur því auga leið að samkeppni milli ESB annars vegar og NATO hins vegar um varnarviðbúnað er með öllu óhugsandi og hefði neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir öryggi í álfunni og víðar.

Bandaríkin hafa verið leiðandi í umbreytingarferli Atlantshafsbandalagsins. Áherslan hefur færst til austurs og breytingar á herskipulagi þeirra hafa verið umfangsmiklar. Breytingarnar hafa átt sér stað hvarvetna þar sem herlið Bandaríkjanna er staðsett, jafnt innanlands sem utan. Eins og alkunna er, eiga Bandaríkin nú, ásamt bandamönnum, í erfiðum átökum í Írak og Afganistan og hafa þau því kappkostað að staðsetja herafla sinn þar sem hann nýtist sem best. Að sama skapi hefur verið reynt að draga saman seglin eftir fremsta megni þar sem ógnir eru minni. Herlið hefur verið dregið að mestu frá Balkanskaga og önnur ríki Atlantshafsbandalagsins munu framvegis annast mannfrekustu þætti starfsins í Afganistan.

Þrátt fyrir að NATO hafi unnið að því að aðlagast breyttri heimsmynd er bandalagið eftir sem áður varnarbandalag. Munurinn frá fyrri tíð er sá að ógnir miðast ekki lengur við landamæri. Hryðjuverkamenn við rætur Hindu Kush fjalla geta nú skipulagt og hrint í framkvæmd árás í 10 þúsund kílómetra fjarlægð á Manhattan eyju. Því hefur verið horft til þess af hálfu bandalagsins að grípa til aðgerða til að forða því að illviljaðir aðilar nái að láta til skarar skríða. Rétt er að minnast þess að fimmtu grein Atlantshafssáttmálans hefur aðeins einu sinni verið beitt. Það var eftir árásir Al Kaída á Bandaríkin fyrir tæpum fimm árum.

Mikið starf hefur einnig verið unnið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem eru að ganga í gegnum eigið þróunarferli. Starfsmenn samtakanna eru að störfum víða um heim við mannúðaraðstoð, friðargæslu og önnur verkefni í þágu friðar og stöðugleika. Íslensk stjórnvöld hafa ávallt lagt mikla áherslu á starf Sameinuðu þjóðanna í þágu friðarins. Hérlendis hefur verið breið samstaða um þátttöku okkar í starfi samtakanna og framboð til setu í öryggisráðinu kjörtímabilið 2009-2010 er liður í viðleitni okkar til þess að axla þar aukna ábyrgð. Við höfum mælt fyrir umbótatillögum sem miða að því að gera starf Sameinuðu þjóðanna markvissara og breyttu skipulagi sem endurspeglar nýja heimsmynd. Má þar nefna Friðarnefndina sem leiðtogar aðildarríkjanna komu sér saman um að koma á fót á fundi þeirra í fyrra til að betur mætti sinna fjölbreyttum verkefnum á sviði friðargæslu og uppbyggingarstarfs í kjölfar ófriðar en áður hafði verið gert. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti 15. mars sl. að stofna nýtt mannréttindaráð í stað gamla mannréttindaráðsins, sem sætt hafði vaxandi gagnrýni á undanförnum árum, einnig af okkar hálfu. Ísland greiddi atkvæði með nýju ráði þótt sú málamiðlun sem náðist hafi ekki uppfyllt þær væntingar sem hérlend stjórnvöld höfðu til þess að öllu leiti. Hins vegar var enn verri kostur að sitja uppi með gamla ráðið. Ísland lýsti því yfir að ríki sem kerfisbundið brjóta skuldbindingar sínar á sviði mannréttinda eða sæta refsiaðgerðum af hálfu öryggisráðs S.þ. vegna mannréttindabrota verði ekki studd til setu í ráðinu. Kosið verður til nýja ráðsins 9. maí næstkomandi. Í því munu eiga sæti samtals 47 ríki, og verður fyrsti fundur ráðsins haldinn 19. júní. Ísland hefur aldrei boðið sig fram til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, en í ljósi mikilvægis hins nýja ráðs verður slíkt íhugað síðar meir. Mannréttindi eru mikilvægur þáttur í utanríkisstefnu Íslands. Þegar mannréttindi og samningar þar um eru virtir að vettugi leiðir slíkt oft til óstöðugleika og vopnaðra átaka. Aðeins verður komið á varanlegum friði og öryggi með virku lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum og alþjóðalögum þar um.

Frú forseti,

Samfara breytingum á starfsemi NATO hefur þátttaka Íslands í starfi bandalagsins stóreflst. Ísland hefur axlað mikilvæga ábyrgð á sviði friðargæslu, t.d. með því að reka flugvelli í Pristína í Kósóvó og Kabúl í Afganistan. Fyrirsjáanlegt er að verkefni bandalagsins á sviði uppbyggingar og friðargæslu muni aukast í framtíðinni og er þar þörf á kröftum allra bandalagsþjóða. Með þátttöku í starfi hermálanefndar bandalagsins frá árinu 1998 hefur Ísland haft aðgang að ákvarðanatöku og upplýsingum um skipulag og fjármögnun aðgerða NATO, auk þess sem þar eru ræddar og metnar þær hættur sem að friðargæsluliðum kunni að steðja.

Aðild að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin hafa verið hornsteinar öryggisstefnu Íslands í meira en hálfa öld. Þrátt fyrir að ætla mætti annað af umræðunni að undanförnu, hefur varnarsamstarfið svo sannarlega tekið mið af breyttri heimsmynd. Bókanir voru gerðar um framkvæmd varnarsamningsins árið 1994 og aftur 1996 með þetta í huga. Aðlögun að breyttum aðstæðum á Íslandi hefur átt sér stað undanfarin 13 ár og málflutningur okkar hefur verið í samræmi við þann skilning að aðstæður væru breyttar. Þó ekki svo breyttar að fórna mætti loftvörnum sem skilgreind þörf væri fyrir innan Atlantshafsbandalagsins.

Hverju sem menn áttu von á, verður ekki hjá því litið að fimmtándi mars síðastliðinn var vissulega sögulegur dagur, og einhliða ákvörðun bandarískra stjórnvalda meðan á viðræðum stóð voru mikil vonbrigði og hnekkir fyrir varnarsamstarfið. Íslensk stjórnvöld höfðu gert tillögur sem fólu í sér að þau tækju á sig gríðarlegan kostnað meðal annars til að áfram mætti tryggja trúverðugar lágmarksvarnir í landinu.

Ekki er rétt að útiloka að til endurskoðunar komi á varnarsamningnum eða jafnvel uppsagnar hans. En í ljósi þess að bandarísk stjórnvöld ítrekuðu skuldbindingar sínar samkvæmt varnarsamningnum var fyrsta skrefið að Ísland og Bandaríkin ættu viðræður um framhald samstarfsins. Þær hljóta að snúast um hvernig megi tryggja varnir landsins í kjölfar ákvörðunar Bandaríkjaforseta að kalla loftvarnarsveitir frá Íslandi og draga að öðru leyti stórlega úr starfsemi varnarliðsins. Markmið viðræðnanna er að ná niðurstöðu sem íslensk stjórnvöld telja að uppfylli skilyrði um fullnægjandi og æskilegan varnarviðbúnað vegna Íslands.

Fyrsti fundur samninganefnda Íslands og Bandaríkjanna fór fram 31. mars sl. Bandaríkjaher vinnur að gerð nýrrar varnaráætlunar fyrir Ísland sem geri Bandaríkjunum kleift að standa við skuldbindingar sínar í varnarsamningnum án fastrar viðveru herflugvéla hér. Á fundinum 31. mars lagði íslenska samninganefndin fram spurningar varðandi áætlunargerðina og ræddi áhersluatriði stjórnvalda í þessu efni. Bandaríkjamenn gera ráð fyrir frekari kynningu og samráði um áætlunina eftir nokkrar vikur. Umsjón með áætlunargerðinni hefur Evrópuherstjórn Bandaríkjanna en Ísland er á hennar svæði.

Um allt svæði Atlantshafsbandalagsins gildir sú regla að orrustuþotur verða að geta flogið með skömmum fyrirvara í veg fyrir flugvélar sem hætta getur stafað af. Því er þeim NATO-ríkjum sem ekki eiga orrustuþotur tryggð aðstoð þeirra sem eiga þannig búnað. Þetta gildir um Slóveníu, Lúxemborg, Eystrasaltsríkin þrjú og nú Ísland. Ólíkt hinum hefur Ísland tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin, sem áfram á að standa við að þeirra sögn. Þess vegna fara nú fram tvíhliða viðræður milli Íslands og Bandaríkjanna um með hvaða hætti megi tryggja þetta. Þótt vonir standi til að við bandarísk stjórnvöld semjist um lausn sem stjórnvöld telja fullnægjandi þarf jafnframt að ræða málið innan Atlantshafsbandalagsins.

Í því samhengi ber að hafa í huga að Atlantshafsbandalagið er í reynd einskonar samtryggingarkerfi þar sem aðildarríkin skuldbinda sig að koma hvert öðru til aðstoðar sé öryggi þeirra ógnað. Þetta þýðir að öll aðildarríkin taka á sig að kosta töluverðu til eigin varna og varna heildarinnar. Þegar við Íslendingar urðum aðilar að bandalaginu 1949 gerðum við þann fyrirvara að það hefði ekki í för með sér að við þyrftum að koma upp eigin her. Framlag okkar til bandalagsins var aðstaðan sem við veittum varnarliðinu á grundvelli varnarsamningsins. Undanfarin ár höfum við smátt og smátt tekið aukinn þátt í aðgerðum á vegum bandalagsins með Íslensku friðargæslunni, aðstoð við loftflutninga o.fl. Í ljósi nýrra aðstæðna í íslenskum öryggis- og varnarmálum er eðlilegt að líta til Atlantshafsbandalagsins enn frekar en áður. Fyrir því hef ég þegar fært gild rök. En það segir sig sjálft að eðlilegt framlag af okkar hálfu hlýtur að felast í aukinni þátttöku og auknu framlagi til aðgerða bandalagsins. Öðruvísi greiðum við ekki áskriftina að samtryggingunni. Viljum við geta treyst á aðstoð á örlagastundu verðum við að kosta einhverju til eins og aðrir.

Einsýnt er að við munum taka að okkur rekstur Keflavíkurflugvallar. Rekstur alþjóðaflugvallar er óháður vörnum eða afskiptum erlendra ríkja hjá þjóðum almennt. Þegar varnarsamningurinn var gerður 1951 ríktu þær aðstæður að við vorum ekki fær um að taka þetta verkefni að okkur sökum smæðar og kunnáttuleysis og starfsemin var nánast óaðgreinanleg frá hernaðarflugi. Hins vegar hefur það verið stefna íslenskra stjórnvalda áratugum saman að aðskilja borgaralegt og hernaðarlegt flug og frá því Flugstöð Leifs Eiríkssonar var byggð hefur hlutur Íslands í rekstri borgaralegs flugs verið töluverður. Við höfum nú um nokkurt skeið undirbúið, og boðið í samningum við Bandaríkjamenn, að taka að fullu að okkur rekstur og viðhald Keflavíkurflugvallar eins og alþjóð er kunnugt.

Vangaveltur um framtíðarnýtingu þess svæðis sem heyrir undir varnarsamninginn og mannvirkjanna þar eru ótímabærar. Þar er á ferðinni flókið úrlausnarefni sem vinna þarf í nánu samráði við bandarísk stjórnvöld næstu misserin.

Ég tel að stefna eigi að því að einkafyrirtæki annist rekstur Keflavíkurflugvallar eins og tíðkast víða annars staðar. Þá væri stofnað hlutafélag í eigu ríkisins um rekstur flugvallarins, en ekki látið staðar numið þar heldur yrði félagið einkavætt í framhaldinu. Innlendum og erlendum fjárfestum byðist með þessu vænlegur fjárfestingarkostur. En rétt er að taka fram að engin ákvörðun liggur fyrir í þessu máli.

Þyrlubjörgun er þjónusta sem er í sjálfu sér óháð varnarliði eða erlendum stjórnvöldum, og sem almennt er viðurkennt meðal þjóða að stjórnvöld þurfa að tryggja. Í okkar stóra og fámenna landi, og víðáttumiklu lögsögu, hefur verið mikill stuðningur að geta treyst á veru bandarísku þyrlusveitarinnar. Þeim getum við þakkað björgun fjölmargra mannslífa. En þetta verkefni er þess eðlis að það er sjálfsagt að við tökum það nú að okkur að fullu, líkt og við gerðum með gæslu landhelginnar við upphaf síðari heimsstyrjaldar, með allnokkrum aðdraganda frá því að við hlutum fullveldi.

Mikið starf hefur verið unnið til þess að efla öryggi á sviði löggæslu og hryðjuverkavarna. Ísland hefur tekið virkan þátt í samvinnu ríkja í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi sem miðar að því að hefta för flugumanna og fjármagns á þeirra vegum. Hverjum þeim sem fer um Keflavíkurflugvöll ætti t.d. að vera ljóst að þar er allur viðbúnaður stóraukinn frá því sem áður var. Sama á við hvað varðar öryggi í höfnum landsins þar sem teknir hafa verið upp staðlar alþjóða siglingamálastofnunarinnar vegna hryðjuverkavarna. Áfram verður haldið að byggja upp getu hérlendis til að takast á við alþjóðaglæpastarfsemi, smygl af ýmsu tagi þ.m.t. á vopnum og eiturlyfjum, mansal og aðra vá. Sem fyrr verður þetta gert í nánu samstarfi við önnur ríki, ekki síst samstarfsríki okkar í Schengen en einnig í samvinnu við bandarísk stjórnvöld.

Hryðjuverkamenn svífast einskis þegar þeir reiða til höggs. Þær forkastanlegu hótanir og ofbeldi sem við sáum í kjölfar birtingar teikninga í Jótlandspóstinum staðfesta hversu auðveldlega friðsöm lýðræðisríki geta orðið að skotmarki öfgamanna. Hin nýja heimsmynd kennir okkur umfram allt að óræðar ógnir eru víða og að nauðsynlegt er að vera á varðbergi gegn þeim.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um átök milli menningarheima, en hið rétta er að lýðræðis- og mannréttindasinnar um gervallan heim standa frammi fyrir ógn af hendi öfgamanna sem sveipa sig trúarklæðum. Nauðsynlegt er að fulltrúar ólíkra trúarsamfélaga eigi samráð og skoðanaskipti til þess að eyða gagnkvæmri tortryggni og grafa þar með undan óvild og hatri. Aðeins þá verður hægt að afhjúpa misnotkun hryðjuverkamanna á hinni merku íslamstrú og íslömskum gildum.

Ekki stafar lengur ógn af Rússlandi og rétt er að minna hér á að Atlantshafsbandalagið á ágætt samstarf við Rússland á vettvangi NATO-Rússlandsráðsins. Umsvif rússneska flotans hafa þó aukist nokkuð á liðnum árum og æfingar hans eru orðnar árlegur viðburður á Norður-Atlantshafi. Fyrir tveimur árum varð skipa þeirra vart innan efnahagslögsögu okkar og vakti það nokkrar áhyggjur vegna umhverfismála. Við viljum því tryggja góð samskipti til að fyrirbyggja að skortur á upplýsingum geti alið á tortryggni á milli landanna. Áhugi á góðu samstarfi við Ísland er fyrir hendi meðal ráðamanna í Moskvu, eins og fram kom á nýlegum fundi mínum með Lavrov utanríkisráðherra, og rússnesk stjórnvöld eru tilbúin að ræða samninga um samskiptareglur og tilkynningaskyldu milli skipa og flugvéla rússneska heraflans annars vegar og Landhelgisgæslu Íslands hins vegar. Við viljum öryggissamstarf við þessa granna okkar í austri, eins og aðra góða granna og ábyrga aðila.

Frú forseti,

Mikið starf er enn fyrir höndum svo að vinna megi úr þeirri stöðu sem upp er komin í varnarsamstarfinu við Bandaríkin. Þrátt fyrir að ákvörðun Bandaríkjanna, og ekki síst með hvaða hætti hún bar að, hafi valdið vonbrigðum, felast jafnframt tækifæri í þessari nýju stöðu.

Stjórnarandstæðingar hafa haldið fram að stjórnvöld hafi vanrækt að skoða öryggismál þjóðarinnar í ljósi breyttra aðstæðna og gera viðeigandi skýrslur og tillögur þar um. Slíkar fullyrðingar standast ekki.

Á árinu 1993 kom út skýrsla sem unnin var á vegum stjórnvalda um öryggis- og varnarmálin eftir kalda stríðið. Að skýrslunni vann nefnd sem í voru þingmenn úr stjórnarflokkunum og embættismenn úr forsætis- og utanríkisráðuneyti. Niðurstöður hennar byggðust meðal annars á fundum nefndarinnar með fulltrúum Bandaríkjastjórnar og annarra NATO-ríkja og háttsettum fulltrúum bandalagsins.

Á árinu 1999 vann starfshópur utanríkisráðuneytis greinargerð um Öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót. Í henni var fjallað eins og sjá má af efnisyfirliti skýrslunnar um helstu öryggis- og varnarhagsmuni, breytingar í alþjóðamálum og aðlögun að breyttu umhverfi í öryggis- og varnarmálum. Skýrar niðurstöður eru í skýrslunni sem og tillögur sem ýmist hefur verið hrint í framkvæmd eða eru á framkvæmdarstigi.

Í viðræðum við bandarísk stjórnvöld um varnarmál Íslands, sem hófust fyrst fyrir 13 árum, hafa íslensk stjórnvöld, eins og kunnugt er, haft afar skýra stefnu um hvaða lágmarks hervarnir þyrfti í landinu og miðað þar við stefnu og viðbúnað nágrannaríkja.

Tal um andvara- og sinnuleysi stjórnvalda í varnar- og öryggismálum er því út í hött.


Frú forseti,

Eins og ég hef rakið hér að framan hefur þungamiðja öryggismála færst austur á bóginn. Svipaða sögu er að segja um þungamiðju viðskipta og efnahagsumsvifa. Helstu hagvaxtarsvæði heimsins er nú að finna í Austur- og Suður-Asíu. Um þessar mundir er Japan þriðja mesta efnahagsveldi heims á eftir Evrópusambandinu og Bandaríkjunum. Það má fastlega búast við því að þjóðarframleiðsla í Kína og Indlandi nálgist þjóðarframleiðslu efnahagsveldanna þriggja innan fárra áratuga. Þessar tvær fjölmennustu þjóðir veraldar hafa á síðustu árum hafist handa um víðtækar efnahagsumbætur sem miðað hafa að því að auka frjálsræði í viðskiptum og koma á markaðshagkerfi. Sá mikli hagvöxtur, sem þessi ríki hafa náð á undanförnum árum, hefur skapað forsendur til þess að bæta lífskjör almennings. Í raun má tala um eina mestu lífskjarabyltingu í mannkynssögunni í þessu samhengi vegna þess hve mikill mannfjöldi á þarna hlut að máli.

Það skyldi því engan undra að vestræn fyrirtæki hafa tekið að sýna Asíu vaxandi áhuga á undanförnum árum. Íslensk fyrirtæki eru þar engir eftirbátar fyrirtækja í nágrannalöndum okkar. Er í því sambandi skemmst að minnast velheppnaðrar farar íslenskrar viðskiptasendinefndar til Indlands sl. febrúar undir forystu menntamálaráðherra, sem var staðgengill minn við það tækifæri. Íslensk fyrirtæki hafa stóraukið umsvif sín í Asíu, til að mynda á sviði sjávarútvegs, lyfjaframleiðslu og ýmis konar þjónustu. Þess er og að vænta að þessi áhugi muni enn vaxa og umsvif íslenskra fyrirtækja í þessum heimshluta stóraukist á næstu árum og áratugum og taki til enn fleiri sviða viðskipta. Efnahagsuppgangurinn í Asíu getur skapað nánast óþrjótandi tækifæri á komandi árum.

Utanríkisviðskiptastefna okkar hlýtur því í vaxandi mæli að beinast að því markmiði að efla viðskiptasamstarf milli Íslands og ríkja í Austur- og Suður-Asíu. Þegar hafa verið stigin mikilvæg skref í þá átt. Segja má að fyrsta skrefið hafi verið opnun sendiráðs Íslands í Peking árið 1995. Sex árum síðar var sendiráð Íslands í Tókýó komið á fót og nú í ár var opnað sendiráð í Nýju Delí. Ísland hefur því stofnað sendiráð í öllum þremur helstu efnahagsveldum Asíu.

Stigvaxandi þróun í átt til frjáls markaðshagkerfis hefur ásamt hnattvæðingunni leyst úr læðingi mikil framfaraöfl í Asíu. Sum ríki og héruð í austan- og sunnanverðri Asíu hafa á undanförnum áratugum náð undraverðum árangri í efnahagsuppbyggingu en það er mikill og stöðugur hagvöxtur í Kína og nú á Indlandi sem mun sennilega breyta ásýnd heimsins.

Frá því að Kínverjar hófu umbætur í þjóðarbúskapnum um 1980 hefur efnahagsþróun í Kína verið ævintýri líkust. Haldi hagvöxtur áfram með sama hraða og nú, að öðru óbreyttu, verður þess eigi langt að bíða að 100 milljón fjölskyldur í Kína hafi svipaðar ráðstöfunartekjur og gerist að meðaltali í Evrópu. Á undanförnum árum hefur náðst markverður árangur í að efla viðskiptatengsl Íslands við Kína. Ísland hefur gert tvíhliða samninga við Kína um vernd fjárfestinga, loftferðir og ferðamál auk tvísköttunarsamnings. Í síðasta mánuði hófust viðræður milli íslenskra og kínverskra stjórnvalda um könnun á hagkvæmni þess að gera fríverslunarsamning milli ríkjanna. Skili sú könnun jákvæðri niðurstöðu má gera ráð fyrir að eiginlegar viðræður um gerð fríverslunarsamnings milli ríkjanna geti hafist. Ísland er fyrsta ríkið í Evrópu, sem Kínverjar hafa fallist á að ræða við um hugsanlega fríverslun. Þessi áfangi er til því til marks um þann góða árangur sem náðst hefur í að efla viðskiptatengsl milli Íslands og Kína frá stofnun sendiráðsins í Peking.

Árangur Indverja á sviði efnahagsmála er ekki síður markverður en árangur Kínverja. Hagvöxtur á Indlandi hefur verið með mesta móti síðustu árin. Hafa Indverjar náð einkar athyglisverðum árangri á sviði hátækniiðnaðar og þjónustustarfsemi. Er ljóst að margvísleg tækifæri eru fyrir íslensk fyrirtæki á Indlandi. Helsta markmiðið með stofnun sendiráðs Íslands í Nýju Delí er að stórefla viðskiptatengsl milli þessara landa. Nú þegar hafa verið stigin merk skref í þá átt. Í því samhengi má nefna að stefnt er að undirritun loftferðasamnings við Indland á þessu ári. Þá standa nú yfir viðræður um gerð tvíhliða fjárfestingarsamnings og tvísköttunarsamnings við Indverja og standa vonir til að viðræðum um gerð þessara samninga megi ljúka á þessu ári. EFTA-ríkin hafa einnig lýst yfir eindregnum áhuga sínum á að gera fríverslunarsamning við Indland en ekki er víst hversu fljótt slíkar viðræður geti hafist. Það er hins vegar ljóst að opnun sendiráðsins í Nýju Delí mun stórauka möguleika á að efla samskiptin milli Íslands og Indlands.

Þótt Kína og Indland séu oft nefnd í sömu andrá þegar fjallað er um efnahagshorfur í heiminum, þá eru ríkin tvö mjög ólík og beinn samanburður varasamur. Vandi fylgir vegsemd hverri og um leið og ríki komast til aukinna áhrifa á alþjóðavettvangi eru gerðar meiri kröfur til þeirra hvað varðar lýðræðislegt stjórnarfar og ábyrga þátttöku í samfélagi þjóðanna. Þegar til lengri tíma er litið verður lýðræðið mesti styrkleiki Indverja. Þegar Indlandi er hælt sem fjölmennasta lýðræðisríki heims endurspeglar það hvort tveggja aðdáun umheimsins á því að svo stór og fjölbreytileg þjóð hafi þrátt fyrir erfiðleika staðið saman vörð um lýðræðið og þau gildi sem í því felast og trú á því að það sé forsenda stöðugleika og nýsköpunar í Suður-Asíu.

Ólíkt því sem verið hefur hjá nágrönnunum í Asíu hefur efnahagslíf Japana gengið í gegnum skeið stöðnunar á undanförnum árum. Nú eru hins vegar á lofti vísbendingar um að batamerki séu á japanska þjóðarbúinu. Japanskt efnahagslíf er enn í fremstu röð í heiminum og þar er að finna margvísleg tækifæri í viðbót við þau fjölmörgu viðskiptasambönd sem íslensk fyrirtæki hafa þegar komið sér upp þar.

Frú forseti,

Hér hefur verið stiklað á stóru um samstarf Íslands við helstu ríki Asíu á viðskiptasviðinu. Aukin samskipti við þau eru einnig til marks um aðlögun okkar að breyttri heimsmynd. En þótt athyglin hljóti að beinast öðru fremur að þessum ríkjum eru fleiri áhugaverðir markaðir í Asíu þar sem mikilvægt er að hlúa að viðskiptatengslum. Þannig hafa EFTA-ríkin lokið við gerð fríverslunarsamnings við Singapúr og sl. desember undirritaði ég fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna við Suður-Kóreu. Nú standa yfir viðræður milli þeirra og Taílands um gerð fríverslunarsamnings og af þeirra hálfu hefur verið undirrituð samstarfsyfirlýsing við Indónesíu. Einnig má benda á að verið er að kanna möguleika á gerð fríverslunarsamnings við Malasíu.

Í desember síðastliðnum sat ég ráðherrafund Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Hong Kong. Niðurstaða hans varð sú að stefnt skyldi að því að ljúka viðræðum í svonefndri Doha-lotu á þessu ári. Enn ber þó talsvert í milli aðila og bendir því ýmislegt til að erfitt geti orðið að ná þeim markmiðum um fríverslun sem aðildarríkin settu sér á fundinum í Hong Kong. Hætta á því undirstrikar mikilvægi samstarfs EFTA-ríkjanna í viðræðum um fríverslun við önnur ríki – og þá einkum við ríki í Asíu. Þrátt fyrir þetta ber að undirstrika mikilvægi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar við að búa svo um hnútana að auka megi viðskipti ríkja á milli. Sem dæmi má nefna að meðaltollar í Kína voru rúm 40 af hundraði en lækkuðu í sex af hundraði eftir að Kína gerðist aðili að stofnuninni árið 2001.

Þrátt fyrir að mér hafi orðið tíðrætt um tíðindi og tækifæri í Asíu er ekki svo að samskipti við nágrannaríki okkar séu í doða. Meginþorri utanríkissamskiptanna er eftir sem áður við nágranna okkar og helstu bandamenn beggja vegna Atlantshafs. Ég hef lagt áherslu á að eiga fundi með starfssystkinum á Norðurlöndunum og hjá öðrum vinaþjóðum, þar sem ég hef átt hreinskiptin og gagnleg samtöl um þau mál sem efst eru á baugi. Samfara því sem skimað er eftir tækifærum í Asíu er mikilvægt að halda vöku sinni gagnvart nýjum möguleikum sem kunna að leynast á vel þekktum mörkuðum.

Evrópa er mikilvægasti markaður Íslendinga. Viðskipti Íslands við önnur ríki á Evrópska efnahagssvæðinu nema um 70 af hundraði af utanríkisviðskiptum okkar. Reynsla undanfarinna ára sannar hversu traustan grunn samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur skapað fyrir viðskipti okkar við Evrópu.

Það mun áfram verða stöðugt viðfangsefni að kanna hvar í heiminum kunni að mega finna ný tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki. Hér hlýtur atvinnulífið vitaskuld sjálft að varða veginn. Hlutverk stjórnvalda er að gæta þess að íslensk fyrirtæki búi við sömu samkeppnisskilyrði og fyrirtæki frá öðrum ríkjum, sérstaklega samkeppnislöndum okkar.

Frú forseti,

Ég hef í máli mínu einkum beint sjónum að tvennu. Annars vegar að auknum samskiptum Íslands við Asíuríki og tækifærum fyrir íslensk fyrirtæki þar, hins vegar að varnarmálum Íslendinga og varnarsamstarfinu við Bandaríkin.

Það er skylda stjórnvalda að gæta hagsmuna Íslands og öryggis eftir bestu getu í nýju umhverfi. Undan þeirri ábyrgð mun ríkisstjórnin ekki skorast.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum