Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. apríl 2006 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Framsöguræða samgönguráðherra vegna lagafrumvarps um breytt skipulag flugmála

Framsöguræða Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra á Alþingi í dag vegna frumvarpa til nýrra laga um breytt skipulag flugmála og stofnun hlutafélags um rekstur flugumferðarþjónustunnar o.fl.

Hæstvirtur forseti.

Ég mæli hér fyrir tveimur frumvörpum til nýrra laga, annars vegar frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur og hins vegar frumvarpi til laga um Flugmálastjórn Íslands ásamt breytingu á lögum nr. 60/1998 um loftferðir.

I. Með frumvörpum þessum er lagt til að núverandi skipulagi flugmála verði breytt og leiðir það til nokkurrar uppskiptingar á starfsemi Flugmálastjórnar Íslands frá því sem er í dag. Lagt er til að þjónusturekstur stofnunarinnar þ.e. flugleiðsöguþjónustuna að alþjóðaflugþjónustunni meðtalinni svo og rekstur flugvalla verði tekin út úr stofnuninni og stofnað verði um hana sérstakt hlutafélag. Þá er lagt til að sett verði sérstök lög um starfsemi Flugmálastjórnar Íslands sem eftir breytingarnar takmarkast einkum við verkefni er varða stjórnsýslu og eftirlit á sviði flugmála.

Helstu markmið sem stefnt er að með breytingunum eru eftirfarandi:

§ Að skilja stjórnsýslu og eftirlit Flugmálastjórnar frá þjónustustarfsemi stofnunarinnar í samræmi við innlendag og erlendar kröfur um skýr skil milli þessara þátta.

§ Að auka gagnsæi, skilvirkni, sveigjanleika og stuðla að betri stjórnsýsluháttum stjórnsýsluhlutans.

§ Að auka skilvirkni þjónustustarfseminnar og ekki síst samkeppnishæfni flugumferðarþjónustunnar í sínu alþjóðlega umhverfi.

§ Að færa verkaskiptingu varðandi flugmál í sambærilegt horf og þekkt er í ríkjunum í kringum okkur.

Inngangur

Virðulegur forseti, við Íslendingar höfum mikla sérstöðu í flugmálum samanborið við nágrannalöndin. Við eigum flugfélög og tengda starfsemi ásamt flugleiðsöguþjónusta sem er margföld að umfangi miðað við það sem íbúafjöldi og stærð landsins gefur tilefni til. Við erum reyndar stór á þessu sviði óháð þeim mælikvarða sem við viljum nota til þess að bera okkur saman við aðrar þjóðir. Hvers vegna? Þetta skýrist að stórum hluta af góðu rekstrarumhverfi sem hefur meðal annars áunnist vegna aðildar okkar að EES samningnum. Með EES samningnum var losað um skilyrði fyrir aðgang að mörkuðum sem íslenskir flugrekendur njóta góðs af. Jafnframt höfum við hvergi slakað á við að innleiða öryggisreglur alþjóðasamfélagsins og gætt þess að halda uppi ströngu eftirliti til þess að tryggja að innlendir flugrekstraraðilar uppfylli alþjóðlegar reglur um starfsemina. Þetta hefur tryggt íslenskum flugrekstraraðilum gagnkvæma viðurkenningu á starfseminni og auðveldar aðgang að mörkuðum. Þá erum við með eitt stærsta flugstjórnarsvæði í heimi þar sem veitt er flugleiðsöguþjónusta í fremstu röð. Þjónusta á hluta þess svæðis er veitt samkvæmt umboði Alþjóðaflugmálastjórnarinnar en einnig samkvæmt samningi við Dani varðandi þjónustu yfir Grænlandi. Fjármögnun þjónustunnar er samkvæmt ákvæðum alþjóðasamnings þar um og er að mestu borin uppi af þjónustugjöldum.

Virðulegur forseti, þessi góða staða íslensks flugrekstrar er ekki sjálfgefin og við getum ekki gengið að því vísu að halda henni.

Mikil samkeppni ríkir í því alþjóðlega umhverfi sem íslenskur flugrekstur starfar í og ekki síst á sviði þeirrar flugþjónustu sem Flugmálastjórn veitir. Samkeppnin hefur aukist mikið í kjölfar markaðssóknar samkeppnisaðila bæði í austri og vestri. Þessir samkeppnisaðilar eru einkavædd fyrrum ríkisfyrirtæki og eru þau að sækja inn á ný svæði þ.m.t. þau sem við stjórnum. Við þessu verðum við að bregðast m.a. með því að þjónusta starfi ekki við lakari aðstæður en sambærileg þjónusta í ríkjunum næst okkur. Þetta gildir bæði um gæði og öryggi þjónustunnar og ekki síður hið rekstrarlega umhverfi. Starfsemin þarf að búa við sveigjanleika og snerpu til að bregðast við í alþjóðlegri samkeppni.

Við verðum nú sem fyrr að halda vöku okkar í sívaxandi alþjóðlegri samkeppni og styrkja grunninn svo við getum haldið stöðu okkar og jafnvel sótt fram. Séu skilyrði fyrir frumkvæði og framsækni fyrir hendi efast ég ekki um að það takist og flugþjónusta verði áfram mikilvæg atvinnugrein hér á landi sem skapar fjöldamörg íslensk hálauna störf.

Með þessum frumvörpum er haldið áfram á þeirri braut að færa skipulag flugstarfseminnar og rekstrarlegt umhverfi til samræmis við það sem viðtekið er í alþjóðaumhverfinu. Markmiðið er m.a. að losa um hömlur og takmarkanir núverandi skipulags og leysa úr læðingi krafta til þess að takast á við auka alþjóðlega samkeppni á þessu sviði.

II.

Virðulegur forseti, á flugþingi á árinu 2003 kynnti ég ákvörðun mína um skipun stýrihóps til að skoða framtíðarskipulag flugmála hér á landi. Markmið hópsins var m.a. að fara yfir starfsemi, skipulag og verkefni Flugmálastjórnar og skilgreina hvaða rekstrarform mundi henta fyrir þá starfsemi Flugmálastjórnar sem lýtur að rekstri og þjónustu við flugið, og þá sérstaklega hvort hlutafélagaformið teldist henta til þeirrar starfsemi eða hluta hennar. Hópurinn skilaði skýrslu til samgönguráðuneytisins í mars 2005.

Í skýrslunni kom fram að miklar breytingar hafi orðið á rekstrarumhverfi á sviði flugmála á undanförnum árum. Þessar breytingar hafa leitt af aukinni áherslu stjórnvalda á öryggi flugsamgangna annars vegar og á samkeppni hins vegar. Í þessu felst m.a. krafa um gagnsæjan og hagkvæman rekstur og að greinin sé sjálfbær. Þá hafa örar tækniframfarir á sviði flugmála leitt til mikilla breytinga sem enn sér ekki fyrir endann á.

Flugmálin eru í eðli sínu alþjóðleg og hefur Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) gengt mikilvægu hlutverki við stefnumótun á því sviði og þar með þróun undanfarinna ára . Þá hafa flugmál skipað háan sess innan EES samningsins og gerðumst við t.d. fullgildir aðilar að Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA) 1. júlí 2005. Sú stefna sem flugmál hefur tekið undanfarin ár, ekki síst fyrir tilstilli aðgerða Evrópusambandsins, hefur leitt til þess að mörg ríki hafa endurskoðað fyrirkomulag flugmála sinna og ráðist í skipulagsbreytingar á því sviði. Samgönguráðuneytið fylgdist vel með þróuninni og var skipan stýrihópsins liður í því.

Hópurinn benti á að til að uppfylla alþjóðlegar kröfur þyrfti að breyta skipulagi eftirlits og þjónustu Flugmálastjórnar. Það samræmdist ekki góðum stjórnsýsluháttum að sama stofnun hefði með höndum stjórnsýslu og eftirlit með þjónustu sem sama stofnun veitti. Til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra var talið nauðsynlegt að aðskilja faglega yfirstjórn eftirlits annars vegar og þjónustustarfsemi Flugmálastjórnar hins vegar.

Flugmálayfirvöld verða að gera sömu kröfur í öryggismálum og önnur ríki sem við berum okkur saman við. Þá þurfum við að styðja við útrás íslenskra flugrekenda með skilvirkri stjórnsýslu sem er hluti af því rekstrarumhverfi sem flugrekendum er búið og hefur á hrif á möguleika þeirra í samkeppninni.

Í ljósi þess að samkeppni er hafin í flugleiðsöguþjónustu var það m.a. mat stýrihópsins að bregðast þyrfti við þannig að íslenskri flugleiðsöguþjónustu yrðu sköpuð skilyrði til að eflast og takast á við aukna samkeppni og breyttar aðstæður.

Þá er þrýstingur á um fækkun flugstjórnarsvæða og aukna skilvirkni flugleiðsöguþjónustunnar. Breytingar hafa verið gerðar á skipulagi flugmála í nágrannalöndum okkar sem miða að því að auka samkeppnishæfni flugumferðarþjónustu. Það var mat stýrihópsins að bregðast þyrfti við þessari þróun og haga málum þannig að íslenskri flugumferðarþjónustu séu sköpuð skilyrði til að eflast enn frekar.

Það liggi fyrir að flugstjórnarmiðstöðvar beggja vegna Atlantshafsins sækjast eftir að fá að taka yfir umrætt flugstjórnarsvæði því er mikilvægt að sú þjónustu sem veitt er hér á landi sé samkeppnishæf og örugg. Að öðrum kosti kann sú hætta að vera fyrir hendi að þjónustan hverfi úr landi.

Stýrihópurinn lagði til að valinn yrði sá kostur að skilja þjónustustarfsemi og rekstur Flugmálastjórnar frá stjórnsýslu og eftirliti þar sem þjónustustarfsemin og flugvallareksturinn yrði færður til hlutafélags sem yrði í eigu ríkisins. Meginkostir þeirrar tillögu voru taldir þeir að stjórnsýsla og eftirlit eigi samleið og aðgreining eftirlits og þjónustu með þessum hætti uppfylla kröfur um gagnsæi opinberrar stjórnsýslu. Jafnframt að hlutafélagavæðing þjónustustunnar veiti þann sveigjanleika sem nauðsynlegur sé til að takast á við fyrirliggjandi verkefni og fyrirsjáanlega samkeppni. Þjónustan við flug þurfi að vera samkeppnishæf. Til lengri tíma litið er gert ráð fyrir að hlutafélagavæðing þjónustustarfsemi leiði til sveigjanleika sem og greiði fyrir nýtingu mögulegra sóknartækifæra. Auðveldara er að stofna til samstarf við erlend og innlend hlutafélög við markaðssetningu þjónustu og stoðþjónustu erlendis. Þetta er einnig í samræmi við þróunina á hinum Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu.

Skilvirk stjórnsýsla og eftirlit greiðir einnig fyrir flugstarfsemi hér á landi og styður við útrás íslenskra flugrekstraraðila. (Er líka neðst á bls. 4)

Í ljósi þess sem hér að frama segir ákvað ég að fara að tillögum stýrihópsins í megindráttum um að breyta Flugmálastjórn og eru frumvörpin sem hér er mælt fyrir ætlað er að hrinda nauðsynlegum breytingum í framkvæmd.

III.

Hæstvirtur forseti, ljóst er að breytingar sem hér hafa verið kynntar kröfðust vandaðs undirbúnings. Skipaður var sérstakur umbreytingahópur í ágúst 2005 sem hafði það hlutverk að hrinda í framkvæmd breytingum í samræmi við tillögur stýrihópsins og sem ég hafði fallist á. Frumvörp þessi eru samin af umbreytingahópnum og þar er gert ráð fyrir breytingum á starfsemi og skipulagi Flugmálastjórnar með það að markmiði að stofna sérstakt hlutafélag í eigu ríkisins um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar, en að stjórnsýslustarfsemi, þ.m.t. eftirlitsstarfsemi Flugmálastjórnar, yrði sinnt af sérstakri stofnun, Flugmálastjórn Íslands með sérstökum lögum þar um.

Við undirbúning frumvarpanna var leitað eftir athugasemdum frá hagsmunaaðilum, flugrekendum, stéttarfélögum og Flugmálastjórn auk þess sem drögin voru kynnt á netinu. Haldnir hafa verið nokkrir fundir með starfsmönnum, stéttarfélögum og fulltrúum lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins þar sem þessi mál hafa verið kynnt. Flugráð hefur fjallað um málið á öllum stigum þess. Frumvörpin voru tekin fyrir í ráðinu, sem fagnaði þeim breytingum sem hér eru lagðar til og telur að þær séu til bóta. Auk þess séu tillögurnar til þess fallnar að auka á sveigjanleika og samkeppnishæfni í þjónustustarfsemi flugmálayfirvalda.

IV. Hæstv. forseti ég mun nú gera ítarlegri grein fyrir helstu breytingum sem fyrirhugaðar eru með frumvörpunum.

Frumvarp um stofnun hlutafélagsins

Almennt

Í frumvarpi þessu er, gert ráð fyrir því að ríkisstjórninni verði heimilað að stofna hlutafélag um þjónustustarfsemi Flugmálastjórnar Íslands, Til félagsins verða lagðar ýmsar eignir og réttindi, og gera félaginu að taka yfir skuldir og skuldbindingar sem tilheyra framangreindum rekstri. Hlutafé í félaginu verður í eigu ríkisins en samgönguráðherra fer með hlutaféð og ákveður hvaða eignir og réttindi, skuldir og skuldbindingar fylgja félaginu. Ríkisendurskoðandi staðfestir matið og stofnhlutafé félagsins sem miðað er við að verði 1. janúar 2007.

Tilgangur félagsins skal vera að annast rekstur og uppbyggingu flugleiðsöguþjónustu og rekstur flugvalla hér á landi auk annarrar skyldrar starfsemi sem styrkir kjarnastarfsemi félagsins.

Gert er ráð fyrir að félaginu verði falið með samningum við ríkið að annast uppbyggingu og rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónustu og að félaginu verði falið að tryggja þjónustu á sviði flugleiðsögu og reksturs flugvalla sem á hverjum tíma er talið nauðsynlegt. Þá er gert ráð fyrir að heimilt sé að fela félaginu að fara með afmörkuð réttindi og skyldur íslenska ríkisins samkvæmt alþjóðasamþykktum, alþjóðasamningum og er gert ráð fyrir félaginu verði falið að fara með réttindi og skyldur íslenska ríkisins vegna Alþjóðaflugþjónustunnar.

Athugasemdir við einstaka greinar.

Í 1. gr. frumvarpsins er, í samræmi við það sem áður sagði, gert ráð fyrir því að ríkisstjórninni verði heimilað að stofna hlutafélag um þjónustustarfsemi Flugmálastjórnar Íslands, þ.e. flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. flugumferðarþjónustu, fjarskipta- og leiðsögukerfi, svo og flugvallarekstur Flugmálastjórnar. Skal ríkisstjórninni heimilað að leggja til félagsins ýmsar eignir og réttindi, og gera félaginu að taka yfir skuldir og skuldbindingar sem tilheyra framangreindum rekstri Flugmálastjórnar nú að frátöldum fasteignum á flugvöllum þ.m.t. flugbrautum, umferðarsvæðum flugvéla og flughlöðum.

Markmiðið með frumvarpinu er að stofna sterkt og lífvænlegt hlutafélag um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands. Ljóst er að fara verður vandlega í gegnum eignir og skuldir Flugmálastjórnar og ákveða hvað eðlilegt er að færist yfir í hlutafélagið. Eiginfjárstaðan verður að vera sérstaklega traust og endurspegla öruggan rekstur og sterkan efnahag því allur rekstur tengdur flugrekstri er áhættusamur og sveiflukenndur eins og menn þekkja.. Ég treysti því að þetta markmið um traust félag náist enda er engin önnur niðurstaða ásættanleg.

Hlutaféð verður í eigu ríkisins samkvæmt 2. gr. og er sala þess og ráðstöfun óheimil. Samgönguráðherra skal falið að fara með hlutafé ríkisins í félaginu og fara með forræði hluthafans í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga.

Ráðherra ákveður hvaða eignir og réttindi, skuldir og skuldbindingar það eru sem lagðar eru til félagsins samkvæmt 3. gr. en þær verða metnar til stofnhlutafjár í félaginu. Ríkisendurskoðandi staðfestir matið og verðmæti stofnhlutafjár í félaginu. Hlutafé telst hins vegar innborgað við yfirtöku félagsins á eignunum sem miðast við 1. janúar 2007 en gert er ráð fyrir að þá hefji félagið starfsemina.

Samkvæmt 5. gr. frumvarpsins er tilgangur félagsins að annast rekstur og uppbyggingu flugleiðsöguþjónustu og rekstur flugvalla hér á landi en einnig erlendis eftir atvikum, auk annarrar skyldrar starfsemi sem geti styrkt framangreinda kjarnastarfsemi félagsins. Þá er gert ráð fyrir að félagið muni annast rekstur núverandi flugleiðsöguþjónustu Flugmálastjórnar, þ.m.t. Alþjóðaflugþjónustunnar, og muni að auki taka að sér að annast rekstur fjarskipta- og leiðsögukerfa sem Flugmálastjórn annast nú. Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpi þessu að félagið taki að sér rekstur á þeim flugvöllum sem heyra undir Flugmálastjórn, m.a. í samræmi við sérstaka rekstrar- og þjónustusamninga sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þá er einnig opnað fyrir þann möguleika að félagið geti tekið að sér rekstur og uppbyggingu flugleiðsöguþjónustu og flugvalla utan Íslands, hvort sem er á eigin vegum eða í samstarfi við aðra aðila, ríki eða einkaaðila.

Í 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að um réttarstöðu starfsmanna sem nú starfa hjá Flugmálastjórn á sviði flugleiðsöguþjónustu og flugvallareksturs og sem gert er ráð fyrir að flytjist yfir til hlutafélagsins fari samkvæmt almennum ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Ekki er gert ráð fyrir sérákvæðum í tilefni þessara breytinga.

Í þessu felst m.a. að engum starfsmanni verður sagt upp störfum vegna þessara breytinga einna saman. Þeir starfsmenn, sem falla undir 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, fyrirgera ekki rétti sínum til biðlauna þó þeir hafni boði um að starfa áfram hjá félaginu, en um biðlaunaréttinn fer að öðru leyti eftir ákvæðum starfsmannalaganna m.a. um að frá biðlaunum dragast hvers konar launatekjur á biðlaunatímanum. Þá er gilda kjarasamningar starfsmanna við Flugmálastjórn áfram hjá hinu nýja félagi í samræmi við 9. gr.

Samkvæmt 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að félagið verði stofnað, því kosin stjórn og það skráð nokkru áður en félagið tekur yfir starfsemina, en ljóst er að stjórn félagsins þarf að sinna ýmsum undirbúningsverkefnum áður en eiginleg starfsemi félagsins hefst. Ekki er gert ráð fyrir því að stjórnarmenn séu tilnefndir af öðrum til setu í stjórn félagsins, en miðað er við að í stjórnina veljist hæfir menn á þeim sviðum sem mestu skipta á hverjum tíma í starfsemi félagsins og í framtíðaruppbyggingu þess, hvort sem er á sviði flugmála eða almenns rekstrar.

Lagt er til í 9. gr. að félagið taki yfir flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar 1. janúar 2007. Samhliða er gert ráð fyrir að Flugmálastjórn hætti þeirri starfsemi sem færist yfir til hlutafélagsins. Þá er kveðið á um að breyting veiti viðsemjendum Flugmálastjórnar ekki sérstaklega heimild til að segja upp fyrirliggjandi samningssamböndum og er þá m.a. átt við verk- og þjónustusamninga sem í gildi eru vegna þeirrar starfsemi sem flyst til hlutafélagsins.

Samkvæmt 10. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að félagið taki að sér að annast núverandi flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar og að félagið muni annast uppbyggingu og rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónustu í samræmi við spurn eftir slíkri þjónustu á hverjum tíma. Fyrirliggjandi er að mikilvægir þættir í þeirrar starfsemi muni ekki standa undir stofnkostnaði eða undir kostnaði við reksturinn. Þessi starfsemi er eftir sem áður mikilvæg hér á landi, með sama hætti og önnur samgöngukerfi landsins. Það er því gert ráð fyrir því að íslenska ríkið muni fela félaginu að annast rekstur tiltekinna flugvalla og flugleiðsögukerfa á grundvelli uppbyggingar- og þjónustusamninga sem munu á hverjum tíma taka mið af stefnumótun og markmiðum í samgöngumálum hér á landi m.a. með tilliti til samgönguáætlunar. Af þessu leiðir að eftir stofnun félagsins munu verða gerðir samningar við félagið um rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónustu hér á landi sem tryggja munu að uppbygging, þjónusta og rekstur sé í samræmi við núverandi og framtíðarmarkmið stjórnvalda og stefnumótun í samgöngumálum.

Þá er gert ráð fyrir því í 11. gr. frumvarpsins að heimilt sé að fela félaginu að fara með afmörkuð réttindi og skyldur íslenska ríkisins samkvæmt alþjóðasamþykktum, alþjóðasamningum eða samningum við önnur ríki eftir því sem samræmist tilgangi félagsins á hverjum tíma. Sérstaklega er gert ráð fyrir að heimilt sé að fela félaginu að fara með réttindi og skyldur íslenska ríkisins vegna Alþjóðaflugþjónustunnar.

Loks er gert ráð fyrir því í frumvarpi Þá er í 14. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir breytingum á nokkrum ákvæðum í lögum um loftferðir og á lögum um rannsókn flugslysa sem leiðir af hinu breytta skipulagi.

þessu að stjórn félagsins setji því þjónustugjaldskrá þar sem gætt verður almennra arðsemissjónarmiða.

Frumvarp um Flugmálastjórn

Almennt

Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að sérstök lög verði sett um Flugmálastjórn Íslands sem komi í stað núgildandi II. kafla laga um loftferðir, nr. 60/1998. Með þessu er m.a. verið að að styrkja Flugmálastjórn í breyttu umhverfi og skilgreina betur hlutverk og starfsemi stofnunarinnar.

Niðurstaða stýrihóps um Framtíðarskipan flugmála sem skilaði af sér skýrslu í febrúar 2005 var sú að skynsamlegt væri að eftirlitsstarfsemi Flugmálastjórnar færðist undir B-hluta fjárlaga. Reglur A-hluta dragi mjög úr viðbragðsflýti við nýjum verkefnum sem hafa aukin útgjöld í för með sér. A-hluta reglur geria kröfu um að sótt sé um auknar útgjaldaheimildir á aukafjárlögum, sem eru afgreidd undir lok viðkomandi árs, fyrir auknum kostnaði við verkefnin jafnvel þótt þjónustugjöld standi að fullu undir kostnaði. Mikilvægt var að mati stýrihópsins að opinberir aðilar geti stutt við og þjónað vaxandi atvinnugrein með góðu móti. Í raun hafa þjóðir mikla hagsmuni af því að hafa flugvélar á skrá því þeim fylgir mikill efnahagslegur ábati. Stýrihópurinn taldi sannað að flugöryggissvið Flugmálastjórnar Íslands taki beint eða óbeint þátt í mikilli samkeppni á þessu sviði þó svo að það megi aldrei koma niður á öryggismálum. Með hliðsjón af þeirri samkeppni sem ríkir á milli þjóða á þessu sviði var það mat stýrihóps um Framtíðarskipan flugmála að mun heppilegra væri að flugöryggisstofnun lúti B-hluta reglum. Ég tek undir þetta sjónarmið stýrihópsins fullum huga. Hins vegar er það jafnframt ljóst að eftirlitsstofnanir eins og Póst- og fjarskiptastofnun, Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið eru allar í A-hluta. Jafnframt er bent á lögin um fjárreiður ríkisins. Í þeim er tiltekið að í B-hluta séu eingöngu stofnanir sem afla fjármuna til rekstrar af þjónustugjöldum frá einstaklingum á markaði og selja þjónustu sína á markaði. Hér eru því á ferðinni skilgreingaratriði sem úrskuða þarf um. Ég treysti því á að ríkireikningsnefnd, sem um þetta þarf að fjalla verði frumvarp þetta að lögum, taki faglega afstöðu til málsins þannig að niðurstaða fáist um heppilegt rekstrarform Flugmálastjórnar strax í byrjun.

Í frumvarpi þessu er fjallað um skipulag stofnunarinnar, yfirstjórn hennar og stöðu gagnvart ráðuneytinu, auk þess sem kveðið er á um stöðu flugmálastjóra og heimildir hans til að ráða til stofnunarinnar annað starfsfólk.

Þá er í frumvarpi þessu kveðið á um breytt hlutverk flugráðs, en ráðinu er ætlað að vera ráðherra og flugmálastjóra til ráðuneytis um tiltekin mál sem undir það falla. Hlutverk flugráðs er að nokkru takmarkað frá því sem nú er en gert er ráð fyrir að ráðið hafi eftir sem áður mikilvægu ráðgefandi hlutverki að gegna.

Þá er í frumvarpinu er gerð grein fyrir helstu verkefnum Flugmálastjórnar, kveðið á um almennar eftirlitsheimildir stofnunarinnar og að auki er kveðið á um heimildir stofnunarinnar til leyfissviptinga og önnur þvingunarúrræði. Einnig er kveðið á um sérstakt þagnarskylduákvæði og ákvæði sem lýtur jafnframt að afhendingu gagna sem stofnunin aflar í starfsemi sinni. Þá er það nýmæli í frumvarpinu að gert ráð fyrir að stofnunin taki til athugunar kvartanir frá notendum loftferðaþjónustu, en slíkt ákvæði er sett til að efla eftirlitshlutverk stofnunarinnar. Þá er kveðið á um gjaldskrá stofnunarinnar og gjaldtökuheimildir, en miðað er við að ráðherra staðfesti gjaldskrána sem taki mið af kostnaði við að veita þjónustuna.

Einstakar greinar.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um fyrir það í 1. gr. að Flugmálastjórn Íslands sé sérstök stofnun sem heyri undir samgönguráðherra og að hún fari með stjórnsýslu á sviði loftferða hér á landi hafi með að gera eftirlit á því sviði að gera. Þá er ráð fyrir að flugmálastjóri sé skipaður til fimm ára í senn og að hann fari með stjórn stofnunarinnar í samræmi við það sem nú er. Þá er nýmæli í greininni um að flugmálastjóri ráði til stofnunarinnar annað starfsfólk, þar með talið yfirmenn einstakra sviða eða deilda, en það er breyting frá núgildandi lögum sem kveða á um að samgönguráðherra skuli ráða framkvæmdastjóra einstakra sviða

Með 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að nokkrum breytingum á hlutverki flugráðs. Ráðið verður eftir sem áður skipað sex mönnum og ekki er gert ráð fyrir breytingu á tilnefningum í ráðið frá því sem nú er. En samkvæmt frumvarpinu er því gert ráð fyrir að núverandi tilnefningar vegna þriggja flugráðsmanna (og varamanna) haldist óraskaðar, en ekki verði gert ráð fyrir frekari bundnum tilnefningum til ráðsins. Samkvæmt greininni verður flugráð ráðgefandi fyrir ráðherra og flugmálastjóra og verða helstu verkefni ráðsins að fjalla um stefnumótun í flugmálum, veita ráðherra umsögn um tillögu samgönguráðs um samgönguáætlun og veita umsagnir um lagafrumvörp og tillögur að reglum er varða flugmál, auk annarra mála sem ráðherra kýs að senda ráðinu. Ráðið hefur því aðeins ráðgjafandi hlutverk eftir breytinguna en og er ekki ætlað að hafa afskipti af stjórnsýslu- eða eftirlitsverkefnum Flugmálastjórnar. Því er því ekki ætlað að veita umsögn um rekstraráætlanir Flugmálastjórnar eða gjaldskrártillögur en slíkt er ekki talið samræmast breyttu hlutverki ráðsins og því umhverfi sem Flugmálastjórn er ætlað að starfa í.

Í 4. gr. frumvarpsins eru tilgreind helstu verkefni Flugmálastjórnar og meginhlutverki hennar lýst. Stofnuninni er ætlað að fara með stjórnsýslu og eftirlit á sviði loftferða hér á landi og á íslensku yfirráðasvæði eftir því sem nánar er kveðið á um. Ljóst er að meginverkefni Flugmálastjórnar eru tiltekin í lögum um loftferðir, nr. 60/1998, enda eru þau lög aðallöggjöfin sem gildir um loftferðir og loftferðastarfsemi hér á landi. Að auki er verkefnum og viðfangsefnum stofnunarinnar er einnig lýst í ýmsum alþjóðlegum samningum á sviði flugmála. Í 2. mgr. greinarinnar er gerð nánari grein fyrir helstu verkefnum en ljóst er að hér er aðeins megintilvika getið en ekki um tæmandi talningu að ræða.

Í 5. gr. frumvarpsins er fjallað almennt um eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, en ákvæðinu er ekki ætlað að raska sértækum heimildum sem stofnuninni eru veittar í öðrum lögum, einkum loftferðalögum. Hér er kveðið á um eftirlitsskyldu Flugmálastjórnar heimildir hennar til að kanna rekstur eftirlitsskyldra aðila aðgangur að starfsstöðvum, loftförum, heimildir til að framkvæma vettvangsathuganir, úttektir og skoðanir auk þess sem kveðið er á um upplýsingaskyldu eftirlitsskyldra aðila og annarra.

Í 6.gr. frumvarpsins er fjallað almennt um heimildir Flugmálastjórnar til leyfissviptingar auk heimildar stofnunarinnar til að fella úr gildi leyfi ef leyfisbundnum skilyrðum er ekki fullnægt.

Í 7. gr. frumvarpsins er kveðið á um þagnarskyldu starfsmanna Flugmálastjórnar. Ákvæðið er til fyllingar almennu þagnarskylduákvæði starfsmannalaganna. En kveðið er á um að starfsmenn Flugmálastjórnar skuli gæta þagmælsku gagnvart óviðkomandi um það sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara, m.a. varðandi rekstur og viðskipti aðila sem þeir hafa eftirlit með. Þá nær ákvæðið einnig til þeirra sjálfstæðu sérfræðinga sem starfa á vegum stofnunarinnar. Þá er sérstaklega kveðið á um það að með gögn og aðrar upplýsingar, sem aflað er af hálfu Flugmálastjórnar, skuli fara með sem trúnaðarmál.

Í 3. mgr. er kveðið á um heimildir stofnunarinnar til að safna saman, vinna úr og birta tölfræðilegar upplýsingar um loftferðir og að krefja þá sem stunda leyfisbundna starfsemi um upplýsingar.

Í 4. mgr. greinarinnar er fjallað um heimild stofnunarinnar til að veita eftirlitsstjórnvöldum annarra ríkja eða eftirlitsaðilum á vegum viðurkenndra alþjóðasamtaka, sem Ísland er aðili að, upplýsingar sem samkvæmt grein þessari kunna að vera háðar þagnarskyldu, enda sé slíkt liður í eftirlitssamstarfi ríkja og nauðsynlegt til að framfylgja lögmæltu eftirliti. Er ákvæðið sett til að tryggja alþjóðlegt eftirlit með leyfisskyldum aðilum, en ljóst er að það er mjög mikilvægt í því alþjóðlega umhverfi sem flugið er að samstarf eftirlitsaðila sé skilvirkt.

Í 8. gr. frumvarpsins er nýmæli um að telji notandi loftferðaþjónustu eða aðrir að leyfisskyldur aðili brjóti eða hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt loftferðalögum, reglum settum samkvæmt þeim eða gegn starfsleyfum sínum geti viðkomandi beint athugasemdum eða kvörtunum til Flugmálastjórnar. Er gert ráð fyrir að slík athugasemd eða kvörtun fái viðeigandi rannsókn Flugmálastjórnar eftir því sem tilefni er til. Er ákvæðinu ætlað að styrkja eftirlit Flugmálastjórnar með leyfisbundnum aðilum.

Í 9. gr. frumvarpsins er síðan heimild til að innheimta gjöld vegna starfsemi stofnunarinnar vegna leyfisveitinga og halda uppi lögbundnu eftirliti. Ákvæðið er í samræmi við þá meginreglu að heimild til að taka gjöld fyrir opinbera þjónustu skuli vera lögbundin. Er hér gert ráð fyrir að þeir sem njóta leyfa og sæta eftirliti skuli að meginstefnu til greiða fyrir leyfisveitingar og lögbundið eftirlit. Sama gildi varðandi aðra þjónustu sem veitt er á vegum stofnunarinnar svo sem þegar eftirlit fer fram utan Íslands eða þegar um önnur frávik er að ræða frá hefðbundinni stjórnsýslu hér á landi. Gjaldskrá taki mið af kostnaði við að veita umrædd leyfi, sinna eftirliti eða veita viðkomandi þjónustu. Gert er ráð fyrir að gjaldskráin verði staðfest af ráðherra og að gjöldin njóti beinnar aðfararheimildar.

Þá er kveðið á um það nýmæli í 2. mgr. að Flugmálastjórn sé heimilt að hafa tekjur af þjónustu- og verksamningum, svo og af rannsóknarstarfsemi og þróunarverkefnum. Ekki er hér gert ráð fyrir sérstakri gjaldskrá, enda ekki um að ræða hefðbundin lögmælt stjórnsýsluverkefni. Þóknun fyrir slík verkefni yrði í samræmi við samninga í hverju tilviki.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umræðu og hæstvirtrar samgöngunefndar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum