Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. maí 2006 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Útskrift Brautargengiskvenna

Útskriftarnemar, góðir gestir.

Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag. Ég hef á undanförnum árum haft tækifæri til að fylgjast með því starfi sem fram fer í nafni Brautargengis og veit að þar er á ferðinni verulega gagnlegt nám bæði fyrir þann sem menntunina hlýtur og einnig þjóðfélagið í heild.

Í dag útskrifast 27 Brautargengiskonur á höfuðborgarsvæðinu og einnig útskrifast í vor 8 konur á Akureyri. Þær konur sem lokið hafa náminu eru því komnar vel á sjötta hundrað og reynslan sýnir svo ekki verður um villst að stöðugt er þörf fyrir nám af þessum toga og ásóknin í það er vaxandi. Þar hefur vafalaust áhrif að niðurstöður kannana sýna að hátt hlutfall þeirra kvenna sem sækja námskeiðin stunda atvinnurekstur að námi loknu.

Þetta má meðal annars sjá af niðurstöðum könnunar sem fram fór af hálfu Impru nýsköpunarmiðstöðvar sumarið 2005. Um var að ræða símakönnun þar sem metin voru áhrif Brautargengisnámskeiða á íslenskt efnahagslíf. Kannaðir voru ýmsir þættir, meðal annars fjöldi og stærð fyrirtækja sem Brautargengiskonur reka. Meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunarinnar er að 59% svarenda á höfuðborgarsvæðinu eru með fyrirtæki í rekstri og 46% á landsbyggðinni. Þá er einnig ánægjulegt að sjá að yfir 90% svarenda töldu að Brautargengisnámið væri sá drifkraftur sem þær höfðu vænst fyrirfram. Í samantekt er ennfremur sérstaklega tilgreint að það hafi vakið athygli hversu mikill fjöldi Brautargengisfyrirtækja er í rekstri, hversu mörg stöðugildi hafi verið sköpuð í Brautargengisfyrirtækjum og hversu há meðaltalsvelta þeirra er. Þessar niðurstöður gefa fullt tilefni til bjartsýni og eru enn ein staðfesting á því hversu mikilvægt Brautargengisnámið er.

Þau fyrirtæki sem hafa verið stofnuð í kjölfar Brautargengisnáms hafa afar fjölbreyttan rekstur með höndum. Sá fjölbreytileiki er mjög mikilvægur og styrkir án nokkurs vafa íslenskt atvinnulíf. Það er mín trú að það sé mjög brýnt að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku kvenna með þessum hætti enda sýnir reynslan að það felast mikil verðmæti í viðskiptahugmyndum íslenskra kvenna og þeim drifkrafti sem í þeim býr.

Viðurkenning

Það hefur verið siður að veita viðurkenningar við þetta tækifæri fyrir bestu viðskiptaáætlunina sem og ákveðin hvatningarviðurkenning.

Það var ekki auðvelt að velja úr bestu viðskiptaáætlunina að þessu sinni því margar þeirra voru afar vel unnar, greinargóðar og í alla staði til fyrirmyndar. En sú viðskiptaáætlun sem hér hefur verið valin er um stofnun Dýralæknamiðstöðvar í Grafarholti.

Viðskiptahugmyndin felst í að stofna dýraspítala í Grafarholti í Reykjavík sem mun bjóða upp á afburðaaðstöðu í nýju húsi og dýralækna sem allir eru með framhaldsmenntun. Einnig verður glæsileg verslun á staðnum sem mun bjóða upp á hágæðafóður og fylgihluti fyrir dýrin. Fyrirtækið verður í eigu þriggja dýralækna, Sifjar Traustadóttur, Ellenar Ruthar Ingimundardóttur og Steinunnar Geirsdóttur og þegar hafa þær stöllur fengið afhenta lóð undir spítalann, búið er að panta kanadískt einingarhús og mun starfsemi hefjast síðar á þessu ári.

Sif Traustadóttir dýralæknir og Brautargengiskona má ég biðja þig að koma hér upp og taka á móti viðurkenningu fyrir berstu viðskiptaáætlunina.

Hvatningarverðlaun verða veitt tveimur brautargengiskonum að þessu sinni, þar sem ómögulegt reyndist að gera upp á milli. En um afar ólík viðskipti er að ræða.

Fyrri hvatningarverðlaunin tengjast útrás en það er Svandís Edda Halldórsdóttir sem fær viðurkenningu fyrir viðskiptahugmynd sem hún hefur þegar hafist handa við að framkvæma. Svandís á og rekur JKE Design verslunina á Íslandi en viðskiptahugmyndin hennar nú felst í að kaupa JKE Design verslunina í Kaupmannahöfn ásamt umboði til að opna fleiri JKE verslanir á Kaupmannahafnarsvæðinu. Svandís réðst í þessi kaup á miðju námskeiðinu. Svandís er jarðbundin, raunsæ og veit nákvæmlega hvað hún vill, en er samt opin fyrir nýjum tækifærum, þekkingu og menntun. Hún hefur afar mikilvæga reynslu í ,,bransanum” og framúrskarandi árangur með verslunarrekstur sinn hér á landi, sem nýtist henni við að takast á við þetta krefjandi verkefni.

Seinni hvatningarverðlaunin eru fyrir afar áhugaverða og þjóðlega viðskiptahugmynd en hún ber heitið Matur – saga – menning.

Hún felst í að stofnsetja matarsetur sem verði lifandi miðstöð íslensks matar, matarhefða og fornrar matargerðar. En matur og matargerð er veigamikill þáttur í sögu og menningu hverrar þjóðar. Íslensk matarhefð er að mörgu leyti sérstök og mótaðist mataræði Íslendinga af takmörkuðu hráefni, geymsluaðferðum og eldunaraðstöðu fyrri alda. Starfsemi Matarsetursins felst m.a. í kynningu á framleiðslu matvæla og þjóðlegum réttum frá ólíkum tímum og veita gestum tækifæri til að smakka á matnum og sjá handbragð, áhöld og tæki. Þegar hefur verið stofnað félag varðandi matararfinn og tekið á leiku húsnæði undir starfsemina í Víkinni – sjóminjasafni Reykjavíkur.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum