Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. maí 2006 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Skýrsla um Vaxtarsamning Suðurlands

Kæru gestir,

Það er mér sérstakt ánægjuefni að vera með ykkur hér í dag á kynningarfundi er varðar skýrslu um Vaxtarsamning Suðurlands.

Á liðnum árum hefur iðnaðarráðuneytið lagt áherslu á að til verði heildstæð og öflug stefnumótun um atvinnu- og byggðamál, með það að markmiði að auka samkeppnishæfni atvinnulífs og svæða.

Með nýrri byggðaáætlun sem lögð var fyrir Alþingi, eftir að byggðamálin fluttust í iðnaðarráðuneyti, voru lagðar nýjar áherslur þar sem aukin þekking og nýsköpun voru þungamiðja áætlunarinnar. Þessu er síðan fylgt eftir í nýju frumvarpi til laga um Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem er til umfjöllunar á Alþingi.

Í umfjöllun alþjóðlegra stofnana um samkeppnishæfni svæða er rík áhersla lögð á að samræmis sé gætt á milli atvinnuþróunar og byggðamála. Lögð er áhersla á að auka samstarf atvinnulífs, háskóla og rannsóknastofnana og að byggja upp vísindagarða; en síðast en ekki síst að efla klasa-samstarf innan atvinnulífsins.

Segja má að þessi atriði séu kjarninn í sókn atvinnulífs til aukinnar samkeppnishæfni og vaxtar. Vaxtarsamningar eru tæki til að koma slíku starfi í framkvæmd. Ég hef lagt sérstaka áherslu á þessi atriði í starfi mínu. Vaxtarsamningar eru komnir í rekstur á Eyjafjarðarsvæðinu og Vestfjörðum, og sambærilegir samningar eru í undirbúningi á Norðurlandi vestra, Austurlandi og Vesturlandi, auk þess öfluga starfs sem er til umfjöllunar hér í dag og varðar Suðurland.

Á viðamikilli ráðstefnu um byggðamál á vegum OECD, var sérstök áhersla lögð á eftirfarandi atriði : Í fyrsta lagi að stuðla að aukinni samkeppnishæfni atvinnulífs og svæða. Í öðru lagi að auka völd og ábyrgð svæða á byggðamálum. Í þriðja lagi að auka samstarf á milli hinna ýmsu hópa um byggðamál. Í fjórða lagi að auka samstarf innan sem og á milli svæða - og landa um byggðamál. Í fimmta lagi að auka sjálfstæði svæða, sterkari einkenni þeirra og ímynd. Í sjötta lagi gegna klasar miklu hlutverki í uppbyggingu byggðakjarna. Í sjöunda og síðasta lagi eru hins vegar engar töfralausnir til í byggðamálum, heldur er þetta langtímaverkefni sem krefst samræmdra, skilvirkra og markvissra vinnubragða. Segja má að með Vaxtarsamningunum sé verið að sinna öllum þessum þáttum sem fram koma hjá OECD – ekki síst því að færa meira völd og ábyrgð á þessum málum til svæðanna sjálfra.

Fyrir ári síðan eða í mars 2005 skipaði ég nefnd til að gera tillögu um stefnumörkun í byggðamálum á Suðurlandi, m.a. með sérstöku tilliti til Vestmannaeyja. Fjallað skyldi um hvaða kostir kæmu helst til greina við að treysta vöxt og samkeppnishæfni svæðisins. Í nefndina voru skipuð: Baldur Pétursson, deildarstjóri, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, formaður, Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri, Vestmannaeyjum, Elliði Vignisson, kennari, varaforseti bæjarstjórnar, Vestmannaeyjum, Friðrik Pálsson, hótelstjóri, Reykjavík, Guðrún Erlingsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Vestmannaeyjum, Orri Hlöðversson, bæjarstjóri, Hveragerði, Elín Einarsdóttir, oddviti Mýrdalshrepps, Vík, Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Selfossi Þorvaldur Guðmundsson, formaður bæjarráðs Árborgar og Eyjólfur Árni Rafnsson, framkvæmdastjóri Hönnunar, Reykjavík. Auk þess tók Gunnsteinn Ómarsson sveitarstjóri Skaftárhrepps þátt í störfum nefndarinnar.

Með verkefnisstjórninni störfuðu Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri á Iðntæknistofnun og Kristján Óskarsson, sérfræðingur einnig á Iðntæknistofnun, Róbert Jónsson framkvæmdastjóri og Örn Þórðarson sérfræðingur frá Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands og Páll Marvin Jónsson, forstöðumaður Rannsókna- og fræðaseturs Vestmannaeyja.

Það er niðurstaða Verkefnisstjórnar að Suðurland eigi sér mikla möguleika til vaxtar og þróunar með þeim aukna fjölbreytileika og bættum lífskjörum sem því fylgir. Það er jafnframt mat nefndarinnar að fyrir árið 2020 verði íbúatala Suðurlands komin í um 26.500, sem samsvarar árlegri fjölgun íbúa um 290, eða sem nemur 1,2%. Þetta er vissulega björt framtíðarsýn, en árangur næst ekki sjálfkrafa. Til þess að hann náist þarf atorku og samvinnu allra aðila.

Tillögum Verkefnisstjórnar er skipt í 3 flokka sem eru:

Í fyrsta lagi uppbyggingu helstu byggðakjarna s.s. Árborgarsvæðis og Vestmannaeyja auk uppbyggingar jaðarsvæða. Í öðru lagi verði gerður Vaxtarsamningur fyrir Suðurland og í þriðja lagi eru tillögur um beinar aðgerðir á einstaka sviðum.

Útfærslan í Vaxtarsamningi sem þessum er nokkuð nýstárleg en áhersla er lögð á sérstöðu og styrkleika viðkomandi svæða, sem og samkeppnishæfni atvinnulífs. Áherslur eru um margt sambærilegar á Eyjafjarðarsvæðinu og á Vestfjörðum. Auk tillögu að vaxtarsamningi eru í skýrslunni einnig fjölmargar tillögur um einstaka framkvæmdir, er miða allar að því að efla Suðurland sem samfélag sem byggir á fjölbreyttu atvinnulífi og getur boðið íbúunum góð lífskjör.

Ráðuneytið mun kalla eftir samráði viðeigandi aðila á næstunni, s.s. önnur ráðuneyti og aðra aðila með það að markmiði að meta þessar tillögur og hrinda þeim í framkvæmd eftir því sem tilefni, möguleikar og aðstæður leyfa. Samstillt átak sveitarstjórna, atvinnulífs og ríkisvalds er nauðsynlegt til að skila árangri.

Ég tel æskilegt að vinna hratt og undirbúa stofnun Vaxtarsamnings Suðurlands í samstarfi við aðila á Suðurlandi og aðra. Með því að hefja rekstur Vaxtarsamnings sem fyrst, er ábyrgð þessara mála í meira mæli í höndum heimaaðila á Suðurlandi og þannig á það að vera.

Góðir gestir,

Aðstæður á Suðurlandi eru ákaflega mismunandi eftir svæðum. Áhrifa frá höfuðborgarsvæðinu gætir mjög hér vestast, með tilheyrandi fólksfjölgun, en í V-Skaftafellssýslu hefur fólksfækkun átt sér stað. Það sama er að segja um Vestmannaeyjar en segja má að hvatinn að undirbúningi Vaxtarsamnings fyrir Suðurland hafi komið þaðan.

Kosturinn við þetta samstarf sem byggir á samningnum er sá að unnið er saman án tillits til stærðar fyrirtækja eða sveitarfélaga. Fyrirtækin sem eru í samkeppni geta engu að síður átt samstarf á ákveðnum sviðum.

Við þurfum að halda vöku okkar þegar byggðamál eru annars vegar. Þá er afar mikilvægt að leita að nýrri þekkingu og reynslu, til að sækja fram á nýjum sviðum. Með skýrslu þessari eru stigin skref í þá átt.

Ég vil að lokum þakka þeim fjölmörgu aðilum sem komið hafa að þessu mikla starfi sem nú endurspeglast í þessari glæsilegu skýrslu. Síðast en ekki síst, vil ég þakka Verkefnisstjórninni fyrir sitt starf. Ég er bjartsýn fyrir hönd Suðurlands.

Ég þakka áheyrnina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum