Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

9. júní 2006 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ársfundur Byggðastofnunar 2006

Ágætu ársfundargestir.

Á nýafstöðnu vorþingi ályktaði Alþingi um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006-2009.

Á gildistíma þeirrar byggðaáætlunar skulu stjórnvöld hafa þrjú meginmarkmið að leiðarljósi og eru þau - í fyrsta lagi að stórefla menntun á landsbyggðinni – í öðru lagi að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og í þriðja lagi að efla Byggðastofnun og gera henni kleift með framlögum á fjárlögum að sinna mikilvægum verkefnum á sviði byggðamála.

Í þingsályktuninni eru listaðar upp 23 aðgerðir sem grípa á til í því skyni að bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni og efla samkeppnishæfni landsins. Tillögurnar endurspegla í raun hversu margslungið verkefni það er að hlúa að byggð í landinu öllu enda eru þar talin upp atriði svo sem bættar samgöngur og bætt fjarskipti, uppbygging þekkingarsetra og bætt menntun, gerð vaxtarsamninga og uppbygging ferðaþjónustu - svo einhver dæmi séu tekin. Þetta er í raun og veru óþarft að rekja í þessum hópi en engu að síður finnst mér mikilvægt að halda því til haga núna – ekki síst í ljósi umræðunnar undanfarið - að málaflokkurinn er síður en svo einfaldur viðureignar. Í reynd þarf samstillt átak sveitarstjórna, atvinnulífs og ríkisvalds til að ná árangri í þessum mikilvæga málaflokki en það er einmitt það sem lagt er til grundvallar í byggðaáætluninni enda byggir hún á þeirri grundvallarforsendu að þessir aðilar vinni saman að einstökum verkefnum.

Með þeirri byggðaáætlun sem gilti fyrir árin 2002 til 2005 og lögð var fyrir Alþingi, eftir að byggðamálin fluttust í iðnaðarráðuneyti, voru lagðar nýjar áherslur þar sem aukin þekking og nýsköpun voru þungamiðja áætlunarinnar. Þetta tel ég hafa verið mikið gæfuspor og að uppbygging háskólakennslu út um landið og það starf sem fram fer í tengslum við hana staðfesti það. Í nýsamþykktri byggðaáætlun má segja að haldið sé áfram á sömu braut, - hvað þetta varðar, - og sérstök áhersla lögð á menntunarmálin þar með talið uppbyggingu háskólasetra og þekkingarsetra. Þetta tel ég vera lykilatriði við styrkingu byggðar í landinu eins og mér varð reyndar tíðrætt um í allri umfjöllun um frumvarp til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun oftast nefnt frumvarp til laga um Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

 

II.

Vísinda- og tækniráð samþykkti þann 1. júní síðast liðinn þá vísinda- og tæknistefnu sem gilda á fyrir árin 2006 til 2009. Þetta er í annað sinn sem ráðið samþykkir vísinda og tæknistefnu en Vísinda- og tækniráð varð til með lögum nr. 2/2003. Markmiðið með stofnun stefnumótandi ráðs um vísindi, tækniþróun og nýsköpun undir forustu forsætisráðherra og með þátttöku fleiri ráðherra var að samhæfa stefnumótun sem um langt skeið hafði verið á ábyrgð einstakra fagráðuneyta. Í hinni nýsamþykktu vísinda– og tæknistefnu er uppbygging mennta- og vísindakerfis eitt af því sem lögð er höfuðáhersla á. Nánar tiltekið er lögð áhersla á að byggja upp mennta og vísindakerfi sem er í fremstu röð meðal þjóða - sem starfar í nánum tengslum við atvinnulíf og getur brugðist við hraðfara breytingum og leitt þær.

Ég tel það mjög mikilvæga og jákvæða þróun hversu mikill samhljómur er þarna á ferðinni milli byggðaáætlunarinnar og vísinda og tæknistefnunnar fyrir sömu ár.

 

III.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé afar brýnt í allri vinnu við hin svokölluðu byggðamál að sífellt sé leitað að nýrri þekkingu og reynslu, til að sækja fram á nýjum sviðum. Það höfum við raunar gert og má í því sambandi nefna vaxtarsamningana sem gerðir eru að erlendri fyrirmynd. Í umfjöllun alþjóðlegra stofnana um samkeppnishæfni svæða er rík áhersla lögð á að samræmis sé gætt á milli atvinnuþróunar og byggðamála. Lögð er áhersla á að auka samstarf atvinnulífs, háskóla og rannsóknastofnana og að byggja upp vísindagarða; en síðast en ekki síst að efla klasa-samstarf innan atvinnulífsins. Þessi atriði eru í raun kjarninn í sókn atvinnulífs til aukinnar samkeppnishæfni og vaxtar.

 

Vaxtarsamningar eru tæki til að koma slíku starfi í framkvæmd. Vaxtarsamningar eru komnir í rekstur á Eyjafjarðarsvæðinu og Vestfjörðum, og sambærilegir samningar eru í undirbúningi á Norðurlandi vestra, Austurlandi, Vesturlandi og Suðurlandi. Tillögur verkefnisstjórnar að vaxtarsamningi fyrir Suðurland liggja fyrir í skýrslu sem kynnt var nýlega og stefnt er að því að sambærilegar skýrslur fyrir Norðurland vestra, Vesturland og Austurland muni liggja fyrir í þessum mánuði. Ég bind miklar vonir við það að vaxtarsamningarnir muni verða öflugt tæki til eflingar byggðar í landinu enda hafa þeir verið gerðir með góðum árangri víða um heim. Lykilatriði í gerð vaxtarsamninga er að í þeim er ábyrgð á framkvæmdum á sviði byggðamála færð til hagsmunaaðila í héraði og leitast er við að byggja á styrkleikum hvers svæðis. Ætlunin er að Byggðastofnun muni á næstunni fá aukið hlutverk við gerð og framkvæmd vaxtarsamninga.

 

 

IV.

Ágætu ársfundargestir

Málefni Byggðastofnunar hafa verið talsvert til umræðu að undanförnu meðal annars í tilefni af frumvarpi til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun - eða frumvarpi um stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eins og það er gjarna kallað. Það frumvarp varð – eins og kunnugt er – ekki að lögum á nýafstöðnu vorþingi.

 

 

Byggðastofnun mun því eitthvað áfram starfa eftir þeim lögum sem nú gilda um stofnunina. Eftir sem áður er heildarendurskoðun á stöðu og verkefnum Byggðastofnunar nauðsynleg. Niðurstaða greiningar á stöðu stofnunarinnar, sem gerð var á síðasta ári, var sú að stofnunin ætti við verulegan vanda að stríða. Fjárhagsstaðan væri erfið og fátt benti til þess að fjármögnunarstarfsemin geti orðið sjálfbær. Sérstökum áhyggjum hefur valdið að eiginfjárhlutfall stofnunarinnar fór á ákveðnum tímapunkti niður fyrir lögboðið 8% mark. Það breyttist sem betur fer lítillega til batnaðar en það verður ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að rekstrarumhverfi Byggðastofnunar, - sem lánastofnunar, - hefur mikið breyst frá því sem áður var.

 

 

Sú staðreynd að frumvarpið um Nýsköpunarmiðstöð Íslands varð ekki að lögum gerir það að verkum að þessi vandamál Byggðastofnunar eru óleyst. Ég bind þó enn vonir við að samstaða muni nást um það á komandi þingi að efla starfsemi Byggðastofnunar þannig að nýjar áherslur muni ráða ferð og að nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífs muni verða leiðarljós stofnunarinnar, hvaða nafni sem hún nefnist, í nánustu framtíð.

V.

Ég vil að lokum þakka starfsmönnum og stjórn vel unnin störf á árinu. Þá hef ég ákveðið að stjórn Byggðastofnunfar skuli sitja óbreytt komandi starfsár.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum