Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. júní 2006 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Landsmót hestamanna 2006

Ágætu Landsmótsgestir, gleðilega hátíð.

Til hamingju hestamenn, til hamingju með íslenska hestinn.

Dýrgripinn sem margar þjóðir heims eiga hlutdeild í með okkur.

Hér er framundan stórbrotin veisla. Glæstir alhliða gæðingar, sigursæl ræktunarbú. Frábærir knapar og reiðmenn.

Ógleymanleg stórsýning.

Flyt ykkur öllum kveðju ríkisstjórnar Íslands.

Því er oft haldið fram að ríkisstjórnin ætli að byggja álver í hverjum firði, það er ekki á dagskrá.

Hitt liggur fyrir, að ríkisstjórnin og Alþingi hefur markað stefnu og lagt pening til reiðhalla og reiðskemma, sem munu rísa í hverju héraði Íslands.

Þessi hús munu efla starf hestamannafélaga, jafna aðstöðu í landinu öllu, efla námskeiðahald og æskulýðsstarfið í hestamannafélögunum.

Til hamingju hestamenn.

Við upphaf landsmóts er hugur okkar fullur af þakklæti í garð frumherjanna sem trúðu á hestinn sem gullmola íslensku þjóðarinnar.

Við minnumst leiðtoganna miklu sem báru kyndilinn til sigurs. Ekki síst Gunnars Bjarnasonar og Þorkels Bjarnasonar sem trúðu á sigurför alhliða gæðingsins flugvakra. Blessuð sé minning þeirra.

Uppgangur Hólaskóla og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri gefur fagmennskunni drifkraft og afl til sóknar. World fengur er gátt og hið sjáandi auga Óðins í samstöðu og við ræktunarstarf íslenska hestsins um víða veröld.

Samningar hafa nú tekist um að 12% tollur verður felldur niður frá næstu áramótum af öllum seldum hestum frá Íslandi til Evrópusambandsríkjanna. Mikið fagnaðarefni og tímamót.

Fyrsti áfangi í hestamennsku, knapamerkjakerfið er staðreynd.

Hestamennska verður valgrein í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi og víðar um heim vonandi.

Kæru hestamenn, við erum á uppskeruhátíð. Hér verður sungið Undir dalanna sól og Undir bláhimni blíðsumarsnætur verðu vakað og hlegið, í hinni nóttlausu voraldar veröld.

Á landsmótum og heimsleikum, skynjum við framfarir og sigurför íslenska hestsins.

Þið eruð aflið, þið eruð sigurliðið. Samstarf við ykkur hestamenn vil ég þakka sérstaklega sem ráðherra hestsins og hestamanna í 7 viðburðarrík ár.

Maðurinn einn er ei nema hálfur,

með öðrum er hann meiri en hann sjálfur

og knapinn á hestbaki er kóngur um stund.

Kórónulaus á hann ríki og álfur.

Íslandsvinir og unnendur hestsins frá tugum þjóðlanda eru aufúsugestir íslensku þjóðarinnar á þessu landsmóti.

Fánaborg “Five” landanna vitnar hér í dag um einingu Íslandshestamanna um víða veröld, um dýrgrip sem þjóð okkar hefur elskað og varðveitt í þúsund ár.

Skagafjörður hlakkar af hófadyn.

Hér er hafin sigurhátíð hestamanna.

Til hamingju landsmósgestir gleðilega hátíð.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum