Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. ágúst 2006 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Ræða við hátíðarkvöldverð biskups Íslands á 900 afmæli Hóla 13. ágúst

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flutti ræðu í kvöldverðarboði biskups Íslands sem hann efndi til í lok Hólahátíðar um síðustu helgi þar sem minnst hefur verið 900 ára afmælis skóla- og biskupsseturs á Hólum. Ræðan var flutt örlítið stytt.

Holar_og_FI0004a
Holar_og_FI0004a

Biskup Íslands herra Karl Sigurbjörnsson, frú Kristín Guðjónsdóttir og aðrir góðir gestir innlendir og erlendir.

Ég vil nota tækifærið og þakka biskupi Íslands herra Karli Sigurbjörnssyni fyrir að hafa boðið mér sem fyrsta þingmanni kjördæmisins að ávarpa ykkur hér. Það gefur mér tækifæri til að að árétta mikilvægi öflugs samstarfs kirkjunnar og þingmanna, í þágu Hóla og samfélagsins í héraðinu.

Hólar hafa verið í aðalhlutverki þessa helgi og kemur ekki á óvart. Saga Hóla í 900 ár  tengist öllum sviðum þjóðfélagsins, allt frá söguöld til þessa dags.

Kirkjan setti strax í upphafi mark sitt á þjóðlífið. Boðun hennar og kennivald lagði grunninn að mannlegum samskiptum í daglegu lífi á Íslandi. Hún var það afl sem  kom á fót samfélagsþjónustu og hvers konar starfsemi, kennslu og atvinnurekstri sem mótaði þjóðfélagið. Sterkir leiðtogar hennar voru frumkvöðlar á þessum sviðum. Enn er kirkjan okkur mikilvæg. Hún snertir daglegt líf okkar og skapar það skjól sem manninum er nauðsynlegt í ölduróti samtíðarinnar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að sambúð kirkjunnar, ríkisstjórnar og Alþingis sé áfram traust og leiði til framfara í veraldlegum jafnt sem andlegum efnum í þágu þjóðarinnar. 

Kirkjan hefur ekki síst mikilvægu hlutverki að gegna á þeim miklu uppbyggingar- og vaxtartímum sem nú ríkja. Það drýpur smjör af hverju strái og menn kunna sér ekki alltaf hóf. Við þær aðstæður þarf boðun kirkjunnar að vera sterk og hvatningin skýr um að hófs sé gætt  ekki síst í viðskiptum og menn hrifsi ekki til sín ótæpilega. Í viðskiptum ekki síður en í stjórnmálum þarf sterka siðferðiskennd og ríka ábyrgðartilfinningu gagnvart samferðamönnum sínum.

Í lífinu öllu og ekki síst stjórnmálum og viðskiptum gildir, að hóf er best í öllu.

En hvað er það sem mótar samfélagið og hvað er það sem veldur því að einn staður fremur öðrum byggist upp á vegum sterkra einstaklinga sem hafa fengið fjöldann til liðs við sig.

Það er fróðlegt fyrir mig, sem ráðherra samgöngu- og ferðamála, að velta því fyrir mér hvers vegna Hólastaður varð biskupssetur og héraðsmiðstöð  og menningarsetur? Það er verðugt verkefni sagnfræðinga og fornleifafræðinga að grafast fyrir um það. Því er hins vegar ekki að neita að Hólar eru vel í sveit settir og gott var um aðdrætti frá höfninni í Kolkuósi á sínum tíma þegar beinar siglingar tryggðu aðdrætti og hafa trúlega skipt sköpum fyrir staðinn. Hjaltadalurinn og Skagafjörður voru og eru gjöfular sveitir og góðar samgöngur  skiptu máli fyrir vöxt og viðgang mannlífs í byggðinni og í héraðsmiðstöðinni.

Hið fornkveðna ,, Allar leiðir liggja til Rómar” má vissulega heimfæra á Hóla því Jón biskup Ögmundarson mæltist til þess að menn kæmu reglulega heim að Hólum, helst á hverju ári. Þangað lá leiðin með samgöngutækjum þeirra tíma.

Því má telja Jón biskup Ögmundarson áhrifavald í samgöngumálum þess tíma og Hólar hafa fram til dagsins í dag eflst sem héraðsmiðstöð og sem helgur staður.

Ferðamál heyra undir samgönguráðuneytið. Leiðir Hólaskóla og ráðuneytisins hafa legið nokkuð saman á því sviði.  Ferðaþjónustan er í dag þriðji stærsti atvinnuvegur okkar Íslendinga þegar tekið er mið af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins og ferðaþjónustan skapar mörg atvinnutækifæri. Samgönguráðuneytið hefur metið að verðleikum framlag Hólaskóla til menntunar í þágu ferðaþjónustunnar og lítur á það sem einskonar verkefnaútrás Hólaskóla. Hólaskóli hefur lagt  sitt að mörkum til uppbyggingar í ferðaþjónustu landsmanna með því að mennta fólk til starfa í greininni

Hólar hafa í gegnum aldirnar verið þýðingarmikil miðstöð kirkju, kristni og menntunar, bæði fyrir nágrannabyggðirnar og langt út fyrir þær. Af hálfu ríkisstjórnarinnar og Alþingis er lögð rík áhersla á að á Hólum geti áfram blómstrað kirkju- og háskólasamfélag sem standi undir nafni með viðeigandi rannsóknum og kennslu á þeim sérsviðum sem byggð hafa verið upp innan vébanda Hólaskóla.   Eins og greint hefur verið frá er nú stefnt að enn frekari eflingu háskólastarfsins með nýrri löggjöf sem varðar Hólaskóla.

Þess verður hins vegar að gæta að kerfið verði staðnum ekki fjötur um fót þegar a.m.k. fimm fagráðuneyti koma að starfseminni  með einum eða öðrum hætti. Úr þeirri flækju þarf að greiða.

Á hátíðarstundu sem þessari er ekki óeðlilegt að staldra við og láta sig dreyma. Sem þingmaður kjördæmisins og samgönguráðherra er heldur ekki óeðlilegt að þeir draumar snerti meðal annars byggðamál og samgöngumál. Það er sameinginlegt markmið kirkjunnar og okkar stjórnmálamanna að bæta aðstæður  fólksins í landinu svo hamingja þess og lífsfylling geti verið sönn og mannbætandi.  

Ég sagði hér fyrr að allar leiðir hafi legið til Hóla.  En alfaraleið liggur ekki lengur yfir Heljardalsheiði. Það er hlutverk mitt sem samgönguráðherra að marka stefnu í samgöngumálum. Framtíðarsýn mín á þessu svæði er sú að stytta enn frekar leiðir milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Þar horfi ég  til þeirrar hugmyndar heimamanna í Skagafirði að í framtíðnni  verði opnuð leið um   Tröllaskagann  milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Með því yrðu Hólar enn og aftur komnir í þjóðbraut og hér yrðu mikilvægar krossgötur. Á síðustu árum hefur verið unnið stórátak við vega og jarðgangagerð  sem bætt hefur búsetu og því er hvergi nærri lokið. Við verðum að halda áfram á þeirri braut. Og það í anda þeirra framsýnu biskupa sem sátu á Hólum og mörkuðu spor til framfara í takt við tíðarandann hverju sinni. En til þess þarf fjármuni.

Góðir hátíðargestir. Ég sagði áðan að það væri ekki óeðlilegt að láta sig dreyma á hátíaðrstundum. Það er öllum hollt. En við þurfum líka að taka ákvarðanir, taka ákveðin skref til að láta draumana rætast. Uppbygging á Hólum þarf að halda áfram. Þau skref eru framundan sem munu vonandi liggja heim að Hólum og efla allt starf þar, í þágu gróandi þjóðlífs, í skjóli kirkjunnar. Við verðum að tryggja þá stöðu og það afl sem kirkjan þarf að hafa svo hún geti næstu 900 árin verið íslensku þjóðinni það leiðarljós, sverð og skjöldur sem við þurfum á að halda í hverfulum heimi.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum