Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. ágúst 2006 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp Guðna Ágústssonar vegna framboðs til varaformanns

 

 Þingforsetar.  Ágætu Framsóknarmenn.

 

Á tímamótum liggja ný tækifæri, nýir möguleikar um sókn og sigra.  En það er líka stund breytinga og þakklætis.

 

Að hryggjast og gleðjast

hér um fáa daga,

og heilsast og kveðjast

það er lífsins saga.

 

Framsóknarflokkurinn og saga hans og þjóðarinnar samofin í 90 ár.  Byltingarflokkur alþýðunnar, stofnaður af bændum og menntamönnum.  Héraðsskólarnir, Jónas, Hermann og Eysteinn, þjóðréttarbarátta, útfærsla landhelginnar, Ólafur Jóhannesson, Einar Ágústsson, þjóðarsátt Steingríms og atvinnustefna Halldórs, 12 þúsund störf o.s.frv.

Framsóknarflokkurinn á sér sterkar og rótgrónar hugsjónir.  Lýðveldistíminn er í raun samfelld sigurganga. 

Sókn til bættra lífskjara.  Atvinna er mælikvarði á lífskjör og velgengni.  Við tókun við erfiðu búi 1995 í kreppu, landflótta og erfiðleikum.  Unga fólkið í dag kann að meta stór tækifæri í atvinnulífinu.  Þúsundir Íslendinga hafa flust heim á ný vegna nýrra starfa. 

Ísland hefur breyst.  Samningurinn um hið evrópska efnahagssvæði var samningur breytinga, oft á tíðum jákvæðra breytinga.  Segja má að um þennan samning ríki sátt í dag og mikilvæg viðskiptabrú til Evrópu.  Þessu fylgdi sala á ríkisfyrirtækjum.  Erlend fjárfesting.  Orkufrekur iðnaður, var baráttumál í áratugi, án árangurs kratanna.  Við unnum ný þrekvirki.  Það vex gras í sporum okkar sé sagan skoðuð.

Framsóknarflokkurinn er ekki bara stjórnmálaflokkur heldur einnig vinnuflokkur, kjölfestuflokkur, sem leysir málin og lætur verkin tala.  Hver maður gengur í þau störf sem að hendi ber - svo koma hinir og segja nú get ég.

Þetta á við Framsóknarflokkinn, bæði á Alþingi og ekki síður í sveitarstjórnum.  Keppinautarnir miklast af sér í tölum og prósentum.  Við unnum víða ágæta sigra í vor út um land í sveitarstjórnarkosningunum en fórum ver annars staðar.  Við fórum t.d. í meirihlutasamstarf hér í borginni og í Kópavogi og miklu víðar.  Ég dáðist að staðfestu ykkar og þeirri trú að gefast aldrei upp þótt áróðurshríðin væri óvægin. 

Til hamingju Björn Ingi og félagar.  Sigur í Reykjavík gefur okkur nýja von.  Framsóknarflokkurinn þarf og á að njóta sanngirni og verka sinna.  Sigurður heitinn Geirdal, með öflugu fólki, byggði upp 30% flokk í Kópavogi.  Nú er það ykkar og okkar hér að vinna í anda Sigurðar á öllu höfuðborgarsvæðinu.  Sigrún, Alfreð og Anna voru bestu verkamenn R-listans.  Orkuveitan eitt öflugasta og framsæknasta fyrirtæki í landinu, kennt við besta borgarstjórann sem ég nefni svo, hann Alfreð Þorsteinsson.  Skólarnir byggðir og gerðir einsetnir undir forystu okkar duglegu kvenna sem ég nefndi.  Samt baðaði Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin sig í frægðinni.  Við erum gerendur en verðum um allt land, ekki síst hér, að gera okkur gildandi og vera þekkt og vinsæl af okkar verkum.

Ágætu vinir.

Það þarf sterk bein til að þola góða daga.  Þrátt fyrir það dýnamiska þjóðfélag sem við lifum í, erum við í varnarstöðu og snúa þarf vörn í sókn með bjartsýni og trú.

Við seldum bankana og Símann meðal annars vegna EES-samningsins.  Þeirri aðgerð hefur fylgt ný, mikilvæg þróun.  Það þýðir hins vegar ekki að öll ríkisfyrirtæki séu og verði seld. 

Við urðum að virkja og byggja orkufrekan iðnað.  Það þýðir ekki að álver rísi í hverjum firði og Íslandi verði sökkt.

Viðhorf breytast.  Við erum náttúruverndarfólk og flokknum ber að marka sér skýra víglínu sem slíkur.  Raforka er sótt í fallvötn og háhita, orkuna ber að nýta af hófsemi til að efla byggðirnar.  Okkar stærstu verk í atvinnusköpun liggja ekki síst í hátækni og mannauði og útrás.  Við seljum ekki Landsvirkjun og réttinn til að virkja í náttúrunni.  Við stöndum vörð um Íbúðalánasjóð fólksins, hann er félagslegt öryggi alþýðunnar. 

Fjölmiðlar eru í dag að mestu í eigu sterkríkra einstaklinga og fyrirtækja.  Það er ógn við lýðræðislega umræðu.  Því er Ríkisútvarpið mikilvægara sem frjáls þjóðarfjölmiðill í eigu landsmanna.

Við höfum sem félagshyggjuflokkur ríkar skyldur við mennta- og heilbrigðiskerfið og verðum enn að auka samneyslu þess vegna.  Okkur ber á tímum uppgangs og batnandi lífskjara að hlúa að fátækum, gera samninga eins og við beittum okkur fyrir um kjör aldraðra og snertir einnig öryrkja.  Við eigum að vera í hlutverki hinnar umhyggjusömu móður í pólitíkinni.  Við eigum öflugasta lífeyrissjóðakerfi heimsins, sem byggir á þremur stoðum: skylduaðild, sjóðsöfnun og samtryggingu.

Við eigum að ræða um það sem sameinar framsóknarmenn í sterkum félagshyggjuflokki. Ótímabærar umræður um aðild að Evrópusambandinu hefur skapað óróa í flokknum.  Aðild er ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar eða flokksins.  Við búum við meiri uppgang en aðrar þjóðir.  Við höfum í gegnum EES-samninginn kosti Evrópu.  Ráðum auðlindum okkar sjálf.  Atvinnuleysi er fjarri.  Fylgjumst áfram með þróuninni á alþjóðavísu með okkar sérstöðu að leiðarljósi.  Átök um alþjóðamál eru ekki okkar venja og kunna að kljúfa alla flokka, þótt eðlilega öll mál séu á dagskrá sem slík.

Sérstaða og gæði matvæla eru auðlind, fágæt auðlind.  Að lækka verðlag á matvælum er verkefni sem nú er farið yfir.  Þar eigum við leiðir án þess að fórna batnandi stöðu bænda og uppgangi sveitanna, það vill enginn Íslendingur í dag.  Verðlag á Íslandi er almennt hátt og snýr ekki bara að matvælum.  Það snýr einnig að mörgu öðru.  Aktavis er íslenskt fyrirtæki, það selur okkur samheitalyfin.  Þeir selja líka Dönum í Kaupmannahöfn þessi lyf.  Nú liggur fyrir, ef Íslengingar ættu að fá lyfin á sama verði og Danir, þyrfti Aktavis að endurgreiða sjúklingum hér og ríkinu tvo milljarða á ári.  Greiða Íslendingar lyfin niður fyrir Dani, er okrað á okkur til að keppa í Kaupmannahöfn?  Hvers vegna er þetta ekki rætt?  Hvar er verkalýðshreyfingin, neytendasamtökin, eldri borgarar, fjölmiðlar eða stjórnmálaflokkarnir?  Ég spyr:  Hvers vegna er þetta ekki í umræðunni? 

Útrás hágæða vöru er hafin til Evrópu og Bandaríkjanna; skyrið, osturinn og lambið gleður nú sælkerana þar.  Allt þetta gerist fyrir frumkraft iðnaðirins og bændanna undir okkar forystu.

Kjölfestuflokkur leitast við að ná þjóðarsátt.  Ofurgróði og ofurlaun stinga í augu.  Græðgin verður að víkja fyrir þeirri samstöðu sem lítil þjóð þarf á að halda.

Við höfum aldrei átt meiri möguleika og nú að efla byggðinar; skólar og samgöngumannvirki vega þar þyngst.  Glögg dæmi eru Bifröst, Hanneyri, Hólar og Háskólinn á Akureyri. 

Ágætu vinir.

Ég hef verið ráðherra ykkar í sjö ár, varaformaður í fimm ár.  Bjartsýni og trú er mitt leiðarljós.  Landbúnaðurinn er í þeirri örustu uppbyggingu og þróun sem hann hefur verið í í áratugi.  Sveitin er vinsæl og eftirsótt.  Hesturinn í ævintýralegum uppgangi heima og heiman.

Þið þekkið störfin mín, unnin í ykkar anda af bjartsýni, trú og gleði.  Ég er blóð af þessu blóði og brot af landsins sál.  Ungur gaf ég pólitíkinni og Framsóknarflokknum mitt hálfa líf.  Nú stend ég hér og get ekki annað, bið um ykkar trúnað og stuðning áfram sem varaformaður.  Ég trúi á samstöðu og nýjan styrk Framsóknarflokksins. 

Við skulum með nýrri forystu, þingflokknum og lykilmönnum okkar í sveitarstjórnum fara í haust og vetur á grænu ljósi um landið inn í fyrirtækin og skólana til fólksins.  Í sterkum flokki, sem boðar sókn og sátt og framfarir á Íslandi, það er okkar helgasta skylda.

 

__________



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum