Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. október 2006 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Orkuþing 2006

Ágætu tilheyrendur

Það er gagnlegt að koma saman til að sjá helstu drættina í heildarmynd af svo mikilsverðum málefnaflokki sem orkumál Íslendinga eru.

Íslendingar hafa náð miklum árangri í nýtingu þeirra hreinu og endurnýjanlegu orkugjafa sem auðlindir landsins bjóða, okkur öllum til hagsældar.

Jafnframt verðum við ævinlega að hafa það vel hugfast að ganga gætilega fram, því að það sem virðist vera gleðidyr getur orðið að fótakefli ef menn hafa ekki fulla gát á athöfnum sínum.

Þetta á auðvitað við um orkunýtingu á Íslandi, eins og svo glögglega kemur fram í almennum umræðum landsmanna um þessar mundir.

Þjóðin þarf að sjá nýtingu og vernd orkulinda og hreinnar náttúru landsins í einu og sama hugtakinu. Með slíkum hætti getum við stuðlað að víðtækri sátt í landinu um þessi mikilvægu málefni.

Orkulindirnar og fögur náttúra fósturjarðarinnar er meðal fjöreggja íslensku þjóðarinnar.

Í samræmi við þessi sjónarmið hyggst umhverfisráðherra nú á næstunni leggja fram frumvarp um stærsta þjóðgarð Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarðinn. Þar fer saman vernd og hyggileg og hófsamleg nýting og aðgengi fólks að perlum náttúrunnar.

Árið 2003 varð mikilvæg breyting á stjórnsýslu í orkumálum.

Þessi breyting verður á sama tíma sem markaðsaðstæður gerbreytast í orkumálum Íslendinga. Áður hafði ríkisvaldið alla forystu og forgöngu um að leita og ná samningum við aðra aðila, einkum fjölþjóðafyrirtæki, um nýtingu orkulindanna.

Nú blása vindarnir úr öðrum áttum. Nú er öflug eftirspurn eftir tækifærum til að nýta og beisla orkulindirnar.

Þessar nýju ? og að sumu leyti óvæntu ? aðstæður þurfum við að skilgreina vel fyrir okkur sjálfum. Og við verðum að kunna að bregðast skynsamlega við þessum nýju aðstæðum.

Fyrir nokkru var skipuð nefnd til að gera tillögur að stefnumótun varðandi rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, en þar er einkum um að ræða jarðhita, jarðefni, grunnvatn og vatnsafl til raforkuframleiðslu.

Nefndin hefur nú skilað tillögum sínum.

Nefndin leggur til, í fyrsta lagi, að lögfestar verði verklagsreglur um val milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á auðlindum í þjóðlendum eða ríkisjörðum. Gert er ráð fyrir faglegu og gagnsæju ákvörðunarferli og að um gjaldtöku verði að ræða. Nefndin leggur einnig til að eigendur eignarlanda þurfi að afla sér allra tilskilinna leyfa að lögum en hafi að öðru leyti samningsfrelsi.

Í öðru lagi gerir nefndin það að tillögu sinni að Alþingi samþykki ekki síðar en árið 2010 lög eða þingsályktun um verndar- og nýtingaráætlun um náttúruauðlindir. Áætlunin verði til langs árabils og sæti reglulegri endurskoðun.

Í þriðja lagi kemur fram í áliti nefndarinnar að grunnur þessarar áætlunar verði lagður með samstarfi og samráðum helstu hagsmunaaðila og nokkurra ráðuneyta.

Í fjórða lagi telur nefndin að niðurstöður 1. og 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma verði grundvöllur heildaráætlunar um verndun og nýtingu.

Í fimmta lagi segir í áliti nefndarinnar að nauðsynlegt sé að leggja aukið fé til rannsókna vegna 2. áfanga rammaáætlunar og til annarra grunnrannsókna.

Nú er ljóst að nokkur tími líður áður en tillögur nefndarinnar geta komist til framkvæmda, hvort sem fallist verður á þær óbreyttar eða einhverjar breytingar verða gerðar á þeim.

Þangað til verðum við þá að miða við tilteknar skilgreindar mælistikur í þeim ákvörðunum sem taka ber á þessu tímabili.

Um þetta leggur nefndin, í fyrsta lagi, til að heimilt verði að vinna áfram að þeim verkefnum sem þegar eru í gangi og að veita nýtingarleyfi í tengslum við þau.

Í öðru lagi telur nefndin að heimilt eigi að verða að veita rannsóknar- og nýtingarleyfi verkefnum sem fullnægja umhverfismati a) og b) í 1. áfanga rammaáætlunar enda hafi ekki verið gerðar sérstakar athugasemdir við þau.

Í þriðja lagi gerir nefndin þá tillögu að öðrum verkefnum verði ekki veitt brautargengi á tímabilinu nema að undangengnum rannsóknum og mati og með samþykki Alþingis.

Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna tillögum nefndarinnar og þakka nefndarmönnum, og ekki síst formanni nefndarinnar Karli Axelssyni, fyrir mikið og vandað starf.

Almennt talað eru tillögur nefndarinnar í samræmi við hugmyndir og óskir langflestra landsmanna og í samræmi við þau almennu viðhorf sem ríkisstjórnin vill leggja til grundvallar.

Þessar tillögur eiga að geta orðið farvegur að þjóðarsátt um þessi mikilvægu málefni.

Samkvæmt dagskránni verður sérstök grein gerð fyrir áliti nefndarinnar hér á Orkuþingi.

Eins og áður segir viljum við sjá nýtingu og vernd sem hliðar sama viðfangsefnis til framtíðar. Þjóðin vill eiga fjöreggin sín og telur óþarft að gera um of upp á milli þeirra. Hún vill njóta fjöreggja sinna.

Eins og áður segir varð mikil breyting á stjórnsýslu orkumála fyrir þremur árum. Þetta var ekki breyting á pólitískri stefnu, heldur breytt verklag og stjórnsýsla.

Tímabili virkrar stóriðju- og virkjanastefnu stjórnvalda lauk og fyrstu skref tekin í átt að orkumarkaði með forræði og frumkvæði landeigenda, sveitarfélaga, fjárfesta, orku- og iðjufyrirtækja, með virkri aðild opinberra eftirlits- og stjórnsýslustofnana, einkum Orkustofnunar, Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar.

Mörg heillandi verkefni eru framundan, og skulu aðeins tvö dæmi nefnd.

Djúpboranir eftir jarðvarma kunna að gerbreyta öllum aðstæðum og möguleikum þjóðarinnar. Ef þær takast vel kann orkuöflun að margfaldast úr hverri borholu.

Unnið er að undirbúningi fyrir olíuleit norður af landinu og á Jan Mayen-hryggnum.

Það er meira að segja búið að leggja fram tillögur um nöfn á þessi leitarsvæði. Er þá leitað fyrirmynda í skjaldarmerki Lýðveldisins Íslands.

Þá skal svæðið á Jan Mayen-hyggnum heita "Dreki", setlagasvæðið undan Norðurlandi "Gammur" og svæðið suðaustur af Íslandi "Bergrisi".

Íslendingar hafa náð mjög góðum árangri í orkumálum, enda gætir þess í lífsháttum og lífsgæðum á landi hér.

Við höfum sérstöðu sem birtist skýrast í því að næstum því öll raforka okkar kemur frá endurnýjanlegum orkulindum.

Eftir sem áður stefna íslensk stjórnvöld að ábyrgri nýtingu náttúruauðlindanna með fullri aðgát ? og um leið er þetta stefna varúðar, virðingar og verndar.

Næsti megináfangi er að móta nýtingar- og verndaráætlun fyrir náttúruauðlindir þjóðarinnar.

Þetta er sameiginlegrt verkefni sem á að geta stuðlað að víðtækri sátt meðal þjóðarinnar.

Samfélagið allt, hagkerfið og þjóðlífið hvíla á þeim grundvelli og forsendu að orkulindirnar og aðrar auðlindir lands og lagar séu nýttar af ráðdeild og virðingu.

Okkur ber að vanda rækilega allar ákvarðanir í þessum efnum og stíga varlega fram.

Þetta hefur verið, er og verður áfram stefna íslenskra stjórnvalda.

Að lokum vil ég þakka Samorku fyrir að hafa forgöngu um Orkuþing sem er nauðsynlegur vettvangur til að skiptast á og miðla upplýsingum um íslensk orkumál og þróun þeirra.

Þakka áheyrnina



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum