Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. október 2006 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ráðstefna um bleikjueldi 27. október 2006

Góðir ráðstefnugestir.

Bleikjan er hánorrænn fiskur sem hefur dafnað í íslenskum ám og vötnum í árþúsundir. Bleikjan er um margt tákn hreinleika í fallegri ósnortinni íslenskri náttúru og einkennisfiskur heimskautasvæða, samanber enska nafn hennar „Arctic charr”. Bleikjan er mikill gæðafiskur og á undanförnum 17 árum hefur framleiðsla á bleikju aukist jafnt og þétt hérlendis. Áætlað er að hún verði um 2.000 tonn á yfirstandandi ári. Íslendingar eru stærstu framleiðendur á bleikju í heiminum og hér eru aðstæður til bleikjueldis betri en í öðrum löndum. Í ljósi sérstöðu Íslands er eðlilegt að við séum leiðandi í þróun þessarar atvinnustarfsemi.

Öflugt kynbótastarf er ein megin forsenda þess að hægt sé að efla og auka bleikjueldi.  Kynbætur á bleikju hafa verið stundaðar við Hólaskóla í nær 15 ár með stuðningi landbúnaðarráðuneytisins. Ég mun áfram beita mér fyrir áframhaldandi stuðningi ríkisins við bleikjukynbótaverkefnið á Hólum í Hjaltadal.  Vegna markvissra kynbóta hefur vaxtarhraði bleikju aukist og eldistími styst. Einnig hefur dregið úr ótímabærum kynþroska og segja má að það vandamál sé nú að mestu úr sögunni. Þessi árangur hefur skilað sér til bleikjuframleiðanda og leitt til aukinnar framleiðslugetu eldisstöðvanna og stuðlað að lægri framleiðslukostnaði.

Vel var vandað til kynbótaverkefnisins í upphafi. Borinn var saman vöxtur bleikjustofna úr fjölmörgum ám og vötnum áður en valdir voru stofnar til kynbótanna. Síðan þá hefur verið unnið að margvíslegum rannsóknum við Hólaskóla, sem hafa stutt kynbæturnar enn frekar. Nú eru að hefjast víðtækar erfðarannsóknir á bleikju í samstarfi við Svía og Kanadamenn. Þess er vænst að niðurstöður þessara rannsókna muni gera kynbætur á bleikju enn skilvirkari og hraða kynbótaframförum.

Áætlanir bleikjuframleiðenda gera ráð fyrir því að heildarframleiðslan geti tvöfaldast innan næstu fimm ára. Telja má líklegt að bleikjuframleiðsla á Íslandi geti orðið 5.000-10.000 tonn á ári í framtíðinni. Gangi þessar spár eftir yrði útflutningsverðmæti bleikju 3-5 milljarðar króna á ári. Markaður fyrir eldisbleikju er lítill, enda er bleikjan ekki þekktur fiskur þó góður sé. Því er veruleg þörf á að hefja markaðssókn á þekktum mörkuðum og leita nýrra markaða fyrir bleikju. Ríkistjórn Íslands hefur því ákveðið að veita sérstöku 10 milljón króna árlegu framlagi næstu þrjú ár til markaðs- og kynningarstarfs á bleikju.

Á undanförnum árum hafa stærstu fiskeldisfyrirtækin notið sérstakra afsláttarkjara í raforkuverði. Ég mun leita leiða og vinna að því að sambærilegt raforkuverð gildi fyrir stærstu fiskeldisfyrirtækin eftir að núverandi samkomuleg fyrirtækjanna og Landsvirkjunar rennur út. Ég legg áherslu á að fiskeldisfyrirtækin búi áfram við sömu kjör og nú gilda.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum