Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. nóvember 2006 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á Hotel Nordica 10. nóvember 2006

Kæru gestir

Mér veittist sá heiður á norðurlandaþingi að útnefna 12 sendiherra norrænna matvæla.

Hinn 1. nóvember lagði úr vör ný samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar sem hefur þann tilgang að varpa ljósi á þá fjölbreyttu mögleika til verðmætasköpunar sem felast í matvælaframleiðslu Norðurlanda. Tilgangurinn er að auka samstarf landanna í matvælaframleiðslu og matreiðslu og jafnframt að tengja þetta verkefnum á sviði ferðaþjónustu, heilbrigðis, byggðaþróunar, menningar, rannsókna og viðskipta.

Matvæli gegna fjölþættu hlutverki í efnahagslífinu sem ekki hefur verið metið að verðleikum og ýmsir möguleikar á þessu sviði hafa enn ekki verið nýttir. Norrænu löndin eru þekkt fyrir hreinleika, ferskleika og einfaldleika og þetta eru þættir sem eiga ríkan þátt í lífsgæðum okkar. Þessi þættir einkenna einnig norræn matvæli. Okkur hættir oft til að gleyma því hve þessi gæði eru mikilvæg og hversu víðtæka efnhagslega þýðingu þau geta haft. Möguleikarnir til að nýta þessi tækifæri hafa langt frá því verið tæmdir.

Þessi samstarfsáætlun um ,,Ný norræn matvæli” sprettur ekki úr tómarúmi. Umræðan um þessi mál hefur verið vaxandi undanfarin ár og skilningur á gildi norrænna matvæla og matreiðsluhefðar hefur aukist mikið. Margir einstaklingar á Norðurlöndunum hafa átt ríkan þátt í þessu og stuðlað að því að matvæli Norðurlanda eru í dag litin öðrum augum en áður fyrir. Það þótti því tilvalið að leita til einstaklinga úr þessum hópi,  tveggja frá hverju landi og biðja þá um að gegna sérstöku hlutverki til að efla samstarfsáætlunina. Við höfum valið að kalla þá ”sendiherra fyrir ný norræn matvæli”.  

Í þessum hópi er fólk með fjölbreytta reynslu af kynningu á mat og matarhefðum,  fólk sem unnið hefur að því að leysa úr læðingi hugmyndir og tækifæri til að nota mat til að efla þróun byggðanna, fólk sem vill nýta   mat sem  tæki til að sameina fólk því bragðgóður matur bætir samskipti manna á milli og síðast en ekki síst fólk með sem getur  stuðlað að því að koma Ny nordisk á framfæri á alþjóðavettvangi.

 

Sendiherrarnir eru:

Tina Nordström  og Carl Jan Grandqvist frá Svíþjóð

Wenche Andersen og Eivind Hålen frá Noregi

Kim Palhus og Juha Korkeaoja   frá Finnland 

Rene Redzepi, Karen Kjældgård-Larsen og Tine Broksø frá Danmörku

Og svo  eru það svo íslensku sendiherrarnir, en þeir eru: 

Sigurdur Hall, sem vafalítið er  þekktasti matreiðslumaður Íslands. Hann hefur kennt þjóð sinni að meta gæði íslensk hráefnis og stuðlað að aukinni þekkingu á íslenskum matvælum erlendis. Sem sendiherra mun hann tryggja hlut íslenskra matvæla í verkefninu og nota sín víðtæku tengsl til að koma norrænum matvælum á framfæri alþjóðlega. Hinn íslenski sendiherran er Baldvin Jónsson  sem með markvissu starfi hefur aukið skilninginn á mikilvægi hreinleika íslenskra matvæla og stuðlað að því að vaxandi hópur fólks í öðrum löndum kann að meta gæði þeirra. Hann hefur náð einstökum árangri sem markaðsmaður og getur nýtt þá reynslu fyrir verkefnið.

Hlutverk þessa fólks er að standa vörð um þau gildi sem gera norræn matvæli og eldamennsku einstaka og tala fyrir mikilvægi þessara gilda. Þeir eiga að auka skilning á mikilvægi norrænna matvæla og fræða um norrænar matvælahefðir. Þeir eiga einnig að stuðla að nýsköpun og framþróun nýrra hugmynda um norræn matvæli og matvælamenningu. 

Það er mín skoðun að þetta nýja verkefni sem Norræna ráðherranefndin hefur nú ýtt úr vör eigi eftir að haf mikla þýðingu fyrir matvælaframleiðslu og matarmenningu á Norðurlöndum og gera Norðurlöndin sýnilegri á því sviði.

Við íslendingar erum á síðustu árum að átta okkur á því að við búum yfir mikilli sérstöðu hvað mat og matvæli varðar. Við höfum í 1100 ár verið matvælaland sjálfum okkur nógir lengst af, skiljum vonandi að eyja fjarri heimsins vígaslóð, verður að búa við matvælaöryggi og vera tilbúin ef heimsfaraldur brestur á að framleiða sjálf sinn mat og kunna með hráefni að fara. 

Hafið og landið – sveitin eru auðlindir íslendinga forðabúr, góðar matarkistur sem skila í gegnum verkþekkingu sjómanna og bænda, einhverju ferskasta og besta hráefni sem til er í víðri veröld.

Meðferð matvælanna í höndum iðnaðarfólks okkar og meistarakokkanna býr að auki yfir dýrmætri þekkingu og menntun – þar utan við eru allir eldhúskokkarnir hvort sem þeir standa framan við eða fyrir aftan sínar eldavélar.

Við búum við þá gæfu að fiskur hafsins, ánna og vatnanna er ferskur og ómengaður af eiturefnum.

Íslenskur landbúnaður skilar neytendum fágætu hráefni og þar á hin hreina ómengaða náttúra móðir jörð stærstan hlut. Íslenskir bændur nota ekki hormona eða lyf eða þau eiturefni sem því miður eru staðreyndir víða í öðrum löndum.

Það kann að vera áhyggjuefni landbúnaðarins hér og á norðurlöndum og reyndar víðar meðal smærri þjóða ekki síst á norðlægum slóðum að alþjóðasamningar ryðji landbúnaði þessara þjóða úr vegi. Því ber okkur að vera vel á verði og minnast þess að landbúnaður okkar og matvælaþekking og hefð eru okkur sem þjóð dýrmætar. 

Mér er sagt að sviðasalan hafi aukist í kjölfar þess að Mýrin fór á Hvítatjaldið ekki síst vegna þess að Ingvar Sigurðsson leikari í hlutverki Erlends lögreglumanns kunni svo vel þá gömlu hefð afa og ömmu að nota sjálfskeiðung og sneiða í sig sviðin. Það var tilkomumikið handtakið þegar hann skar augað úr kjammanum og stakk upp í sig.

Nú seljum við skyr sem skyr á heimsmarkaði - þúsund ára verkkunnáttu íslendinga, matur íþróttamanna og allra þeirra sem hugsa um hreysti, heilsu og fegurð.

Smjör er selt sem smjör og ostar okkar eru að gæðum jafnokar þeirra frönsku, Dímon og Höfðingi og hvað þeir heita nú allir.

Lambið var áður fyrr étið upp til agna – meistarakokkar hafa í vaxandi mæli viljað kenna ungum sem eldri þessar aðferðir.

Lambið er villibráð - náttúruafurð sem vart á sinn líka, fæðist út í náttúrunni á vorin drekkur móðurmjólk, teygar vatn úr tærum fjallalækjum, bítur gras sem sprettur undan sól og regni í villtri náttúru. Þroskast og vex í kyrrð öræfanna og svo sækjum við það til byggða á haustin á besta hesti heimsins, vekur áhuga flestra íslendinga og útlendinga sem sækjast eftir að taka þátt í þessu ævintýri. 

Ég veit að okkar sendiherrar munu halda vel utan um okkar sérstöðu og einstöku matvælaauðlind og menningu. Jafnframt ber að þakka sérstaklega hér í dag þetta frumkvæði norrænu ráðherranefndarinnar það mun styrkja norðurlöndin öll.

Norðurlöndin búa við mikil lífsgæði á öllum sviðum. Meðferð þessara þjóða á náttúrunni, virðing þeirra fyrir dýravelferð, búskapur þjóðanna er enn grundvallaður á bjargi. Á bak við hann í flestum tilfellum stendur fjölskylda. Það er sjálfbær landbúnaður í vaxandi mæli, lífrænn og vistrænn landbúnaður sem vill dekra við sína neytendur sem búa við öryggi frá haga í maga frá báti á borð.

Til hamingju íslendingar að vera með í þessu framtaki.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum