Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. janúar 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Virkjum kraft kvenna

Góðan daginn, góðir námsstefnugestir

Það er mér heiður að fá tækifæri til að ávarpa ykkur við upphaf námsstefnu um verkefnið Virkjum kraft kvenna. Fyrir hönd aðstandenda námsstefnunnar lýsi ég ánægju með mikla þátttöku í þessum stórglæsilega fundi.

Öllum er okkur ljóst að við verðum að nýta alla krafta þjóðarinnar og alla hæfileika okkar allra til þess að standast ögranir og viðfangsefni nútíðar og framtíðar. Við verðum þá ekki síst að nýta alla krafta, þrek, gáfur og aðra hæfileika yfirleitt til stjórnunar , ákvarðana og forystu.

Nú eru konur meirihluti þjóðarinnar. Þess vegna er verkefni eins og Virkjum kraft kvenna ef til vill eitt stærsta mál sem við er að fást til framtíðar í atvinnulífi og viðskiptalífi og opinberu lífi þjóðarinnar.

Málið snýst um það að sem allra flestir einstaklingar fái tækifæri til að njóta sín í lífinu og fái tækifæri til að láta samfélagið njóta af því sem hvert og eitt okkar hefur fram að bjóða.

En málið snýst líka um það að þjóðfélagið fái að njóta kosta og hæfileika hvers og eins.

Þetta er þannig alls ekki barátta kvenna einna, heldur er þetta sameiginlegt hagsmunamál allra, jafnt karla sem kvenna, að kraftur kvenna verði virkjaður til jafns á við hitt kynið í atvinnulífi, í viðskiptum, í opinberu lífi og þá ekki síður í stjórnun, stjórnunarstörfum og ákvörðunum í samfélaginu.

Þannig þurfum við að meta mikilvægi þess verkefnis sem hér verður til umfjöllunar á þessari námsstefnu. Námsstefnan er með öðrum orðum afskaplega mikilvæg fyrir okkur öll, fyrir árangur í þeirri framtíðarstefnu sem þjóðin verður að móta og framfylgja.

Auðvitað eru sjónarmiðin mörg og ólík í þessum málum. Til eru þeir sem telja að árangur náist aðeins með persónulegum áhrifum í fjölskyldum þeirra sem eiga fyrirtækin og stýra málum í atvinnu- og viðskiptalífi. Aðrir telja að áherslu verði að leggja á ákvarðanaferli á hluthafafundum og félagsfundum sem tryggja stöðu kvenna betur en verið hefur.

Í þriðja lagi hefur verið bent á kynjakvóta til að staðfesta einhvern marktækan árangur strax í fyrirsjáanlegri framtíð.

Hér er um ýmsar leiðir að velja sem rétt er að ræða og skoða nánara.

Árið 2004 var samþykkt þingsályktun um jafnréttisáætlun og nefnd um tækifæri kvenna á þessum sviðum var kölluð til starfa. Skýrsla var gefin út 2005. Með þessu öllu, og með þessari námsstefnu, er val stjórnarmanna í fyrirtækjum komið í opna og opinbera  umræðu. Hér er um mikilvæg störf að ræða og mikla ábyrgð og það er sannarlega kominn tími til opinnar umræðu um þetta allt.

Fyrir nokkru var hafið samstarfsverkefni stofnana og aðila til að kanna og meta stöðu kvenna í fyrirtækjum í landinu. Fram hefur komið að árið 2005 skipuðu konur aðeins um 10,5 % stjórnarsætanna og aðeins 5 % stjórnarformanna voru konur.Þetta staðfestir ónotaða auðlind hæfileika og orku og getu til forystustarfa. Hér er skarð í röðinni, vanræksla sem þjóðin, og ekki aðeins konurnar, geldur fyrir. Þetta er staðreyndin sem við stöndum frammi fyrir og þurfum að ræða og breyta. Því að það nægir ekki að ræða aðeins þegar fyrir liggur að mál þarfnast aðgerða og breytinga. Hér þarf greinilega meira til að koma.

Góðir tilheyrendur

Þessi námsstefna á að efla umræður og þekkingu. Hún á að efla gagnkvæm kynni og tengsl kvenna á vettvangi félagsmála og atvinnulífs. Og hún á að hafa áhrif á þá sem mestu ráða á þessum sviðum.

Ég endurtek að þessi málefni eru sameiginlegt hagsmunamál allrar þjóðarinnar og árangur skiptir afskaplega miklu fyrir framtíðarstyrk íslenska samfélagsins.

Ég óska námsstefnunni og ykkur öllum velgengni í störfum og ég óska þjóðinni mikils árangurs af starfi ykkar hér.

Námsstefnan er tekin til starfa.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum