Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. janúar 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Rannsóknadagar Stúdentaráðs Háskóla Íslands

Ágæta háskólafólk og aðrir tilheyrendur, fulltrúar Háskóla Íslands, stúdentar, ungir vísindamenn.

Ég þakka fyrir boðið að koma hingað og ég þakka fyrir þá ágætu kynningu metnaðarfullra og glæsilegra verkefna sem hér hefur farið fram í dag.

Á síðustu 20 árum hafa Íslendingar orðið virkir þátttakendur í hnattvæðingu vísinda og tækniþróunar sem er ein helsta driffjöður hagvaxtar um þessar mundir.

Síðustu árin hafa einkennst af sannkallaðri háskólabyltingu sem birtist í tvöföldun í fjölda námsmanna og í mikilli eflingu háskólanna og rannsóknastarfsins. Ekki síst hefur þessi bylting birst í metnaðarfullri stefnumótun Háskóla Íslands og í nýlegum samningi stjórnvaldanna og Háskóla Íslands um starfsemi hans, eflingu og framfarir á næstu árum.

Stjórnvöld hafa auk þessa mætt þessari þróun með ýmsum hætti, með auknum fjárveitingum til vísinda, rannsókna og annars háskólastarfs og með heildstæðri stefnumótun á vettvangi Vísinda- og tækniráðs.

Vísinda- og tækniráð hefur starfað í núverandi mynd í tæp fjögur ár. Ráðið er að því leyti óvenjulegt í stjórnskipan okkar að það er skipað nokkrum ráðherrum saman og fulltrúum hagsmunaaðila, þ.e. vísindanna, atvinnulífsins og stjórnsýslunnar.

Ráðið er vettvangur sameiginlegs átaks háskóla, atvinnulífs og stjórnvalda til að efla frammistöðu og árangur ? þannig að stefnumörkun og áherslur þessara aðlila leggist á eitt við að efla samkeppnishæfni og ávinning.

Um þessar mundir leggur Vísinda- og tækniráð höfuðáherslu á eftirfarandi fjögur atriði:

1) að byggja upp mennta- og vísindakerfi sem er í fremstu röð meðal þjóða, starfar í nánum tengslum við atvinnulífið og getur brugðist við hraðfara breytingum og leitt þær;

2) að efla opinbera samkeppnissjóði og sameina þá innan skyldra sviða;

3) að hvetja fyrirtæki og opinbera aðila til að taka saman höndum um sókn í rannsóknum og þróunarstarfi til að ná betri árangri í arðbærri nýsköpun og bæta alþjóðlega samkeppnishæfni á grundvelli þekkingar;

4) að endurskilgreina hlutverk ríkisins í stuðningi við

vöktun og rannsóknir í þágu almannaheilla,

umhverfisverndar og efnahagsframfara með aukinn

árangur að leiðarljósi.

Undirstaða þessara breytinga er sterkt menntakerfi á öllum skólastigum, en ekki síst rannsóknir á efstu stigum þess í tengslum við meistara- og doktorsnám - enda byggist nýsköpun atvinnulífsins fyrst og fremst á nýrri og framsækinni þekkingu sem háskólarnir og aðrar vísindastofnaninr í tengslum við þá leggja til.

Verulega miklu máli skiptir að efla enn frekar samstarfið á milli atvinnulífsins og háskóla og rannsóknastofnana. Samstarf þessara aðila þarf að styrkja og koma í fastmótaðra form en verið hefur.

Framundan er uppbygging háskólaumhverfis og vísindasamfélags í Vatnsmýrinni hér í Reykjavík. Hér er kjörið tækifæri til að hrinda í framkvæmd hugmyndum okkar um þekkingarklasa. Í þekkingarklasa mætast háskólar, rannsóknarstofnanir, fyrirtæki og stuðningsþjónusta stjórnvalda með frumkvöðlasetur og nýsköpunarmiðstöð og ástunda nána þekkingarsamvinnu til eflingar menntun, vísindarannsóknum og samkeppnishæfni þjóðarinnar.

Það var ánægjulegt og lærdómsríkt að heyra hér áðan á fundinum kynningu háskólastúdenta á hugmyndum sínum. Kynningin á verkefnum um slysalækningar og augnlækningar var áhrifamikil. En með tilliti til verkefna iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins hlýt ég ekki síst að nefna hugmyndir um stofnun og rekstur Nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs, sem yrði þróunarmiðstöð fyrir rannsóknir og viðskiptahugmyndir stúdenta og starfsmanna háskólans.

Hér er að ferðinni merkt framtak sem ber vott um framsýni stúdenta og meðvitund þeirra um mikilvægi þess að rannsóknir leiði til ávinnings fyrir þá sjálfa sem að þeim vinna og fyrir samfélagið í heild.

Við stefnum að því að þroska hér á landi áfram þekkingarsamfélag sem býður öllum landsmönnum fjölbreytni lífstækifæra til þess að þeir fái lífsmetnaði sínum fullnægt hér á landi með góðum og batnandi lífskjörum. Háskólasamfélagið er í miðju þessa samfélags og fræðsla og vísindastörf eru undirstöðuatvinnuvegur allra annarra atvinnuvega í nútíð og einkum í framtíðinni.

Þessi fundur hér í dag er enn ein staðfesting þess að við Íslendingar erum vel á vegi staddir, enda þótt enn sé fjöldamörg viðfangsefni og úrlausnarefni við að fást.

Ég vil að síðustu óska stúdentum, Háskólanum og vísindasamfélaginu til hamingju með þessa rannsóknadaga.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum