Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. febrúar 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Sprotaþing 2007

Ágætu fundarmenn á Sprotaþingi 2007

Í öllum atvinnurekstri er það svo að þar eru þættir og viðfangsefni sem tilheyra framtíðinni hverju sinni. Í þessum skilningi eru einhverjir sprotar í öllum fyrirtækjum.

En í sumum fyrirtækjum eru þessir sprotar ráðandi þáttur. Í slíkum fyrirtækjum nú á dögum eru rannsóknir, tæknivinnsla, tilraunir o.þ.h. einnig mjög ráðandi starfsverkefni í dagsins önn. Þarna eru framtíðarþættirnir þá sérstaklega fyrirferðarmiklir og ráða öllu um farsæld fyrirtækisins.

Þetta eru svokölluð sprotafyrirtæki. Þótt ekki sé til formleg skilgreining á sprotafyrirtæki er almennt átt við fyrirtæki með innan við 50 starfsmenn og ársveltu innan við 500 milljónir króna sem byggja starfsemi sína á sérhæfðri þekkingu og verja meira en 10% af veltu í rannsóknir og þróunarstarfsemi.

Sprotafyrirtæki eru að sjálfsögðu grunnskilyrði í nýsköpunarumhverfi og framþróun atvinnulífsins. En því má ekki gleyma að stöðug og virk nýsköpun er forsenda batnandi lífskjara og gróandi þjóðlífs á þessari öld.

Þannig verða sprotafyrirtækin grundvallarþáttur í allri samfélagslegi stefnumótun.

Nýsköpun og sprotafyrirtæki verða að styðjast við öflugan og afkastamikinn fræðsluatvinnuveg sem býður jöfnum höndum fræðslu, rannsóknir, ráðgjöf og vísindalegar afurðir. Fræðsluatvinnuvegurinn er undirstöðuatvinnuvegur allra annarra atvinnuvega á 21. öldinni og grundvöllur undir samkeppnishæfu atvinnulífi og gróskumiklu þjóðlífi og menningarlífi sem býður komandi kynslóðum lífvænlega kosti og glæsileg lífstækifæri.

Á þessu byggjast viðfangsefni iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins sem er í raun orðið að nýsköpunarráðuneyti. Í hnotskurn felst í þessu að ráðuneytið vinnur að framgangi nýrra og endurbættra hugmynda á öllum fagsviðum sem eru til þess fallnar að bæta samkeppnisstöðu Íslands.

Þetta er einnig megintilgangurinn með sprotaþinginu nú og þannig fara verkefni sprotaþings og ráðuneytisins saman í einn farveg.

Á sprotaþingi 2005 var farið yfir stöðu sprota- og nýsköpunarfyrirtækja, staðan skoðuð og metin og stikað út hvert stefna skyldi. Á grundvelli þess réðust Samtök iðnaðarins og iðnaðaráðuneytið sameiginlega í viðamikla úttekt á stöðu hátækniiðnaðar á Íslandi, en sú skýrsla var m.a. í brennidepli á Iðnþingi 2005.

Hátæknifyrirtæki eru skilgreind sem fyrirtæki sem leggja meira en 4 % af veltu til rannsókna og þróunar. Fjárfestingar þeirra til nýsköpunar voru um 10 milljarðar á árinu 2003, og hefur sú upphæð trúlega vaxið talsvert síðan. Þessi fyrirtæki sköpuðu þó aðeins á þessum tíma um 4 % af landsframleiðslunni og um 7 % gjaldeyristekna árið 2004 ? sem er allt of lítið ? en til samanburðar er um helmingur af útflutningstekjum OECD landanna vegna tækniafurða.

Með tilliti til þessa bága samanburðar og að teknu tilliti til þess að mörg sterkustu fyrirtæki okkar byggja afkomu sína á rannsóknum, tækniþróun og nýsköpun er ljóst að nýsköpunarfyrirtæki þurfa að fá enn meiri athygli, m.a. frá stjórnvöldum og framtaksfjárfestum.

Iðnaðarráðuneytið gerir sér vel grein fyrir þessu. Og í kjölfar útkomu hátækniskýrslunnar var settur á fót starfshópur til að meta leiðir til að bæta ytri skilyrði sem leitt gætu til aukins framboðs á framtaksfé fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki í landinu. Niðurstaðan varð fjórar athyglisverðar tillögur.

Veigamest þeirra laut að því að treysta lagastoðir fyrir stofnun samlagshlutafélaga, en að mati framtaksfjárfesta var bráðnauðsynlegt að unnt yrði að stofna slík félög hér á landi, í stað þess að reka þau í útlöndum. Tillaga var um breytingar á lögum til að heimila þátttöku lífeyrissjóða í samlagshlutafélögum, en samkvæmt gildandi lögum var slíkt talið vera þátttaka í atvinnurekstri og óheimilt. Þriðja tillagan var um breytingu á kerfi virðisaukaskatts, á þá leið að sprotafyrirtæki fái tíma til að þróast til enda og þeim veitt svigrúm til að nýta innskatt í allt að 12 ár þrátt fyrir tekjuleysi. Með þessu yrði aðlögunartími fyrirtækjanna tvöfaldaður, úr sex í tólf ár. Fjórða og síðasta tillaga fjallar um skattaívilnanir til tæknifyrirtækja sem stunda rannsókna- og þróunarstarfsemi.

Skemmst er frá því að segja að þrjár af þessum tillögum hafa komið til framkvæmda og sú fjórða ? um skattaívilnanir - er til athugunar hjá fjármálaráðuneyti.

Samtök iðnaðarins tóku þessar tillögur upp á arma sína á fjölmennum fundi ? "Framtíðin er í okkar höndum" ? í janúar 2006. Fundurinn hafði óumdeilanlega áhrif á framgang tillagnanna. Í ályktun fundarins eru auk þessara fjögurra tillagna nefndar 10 aðrar tillögur um styrkingu hátæknigreinanna. Allar þessar tillögur hafa komið til umfjöllunar í iðnaðarráðuneytinu og eflaust víðar. Þessi víðtæka umfjöllun hefur leitt til þess að sumar tillagnanna eru nú komnar á framkvæmdastig, svo sem efling Nýsköpunarsjóðs og útvistunarstefna ríkisins, og aðrar eru enn í deiglunni, svo sem sameining rannsóknastofnana iðnaðarráðuneytisins, efling Tækniþróunarsjóðs og straumlínulögun á stoðkerfi atvinnulífsins. ? Þetta verður varla kallað annað en harla góður árangur !!

Fyrir sprotafyrirtækin var tilkoma Tækniþróunarsjóðs árið 2004 sennilega veigamest þeirra nýjunga sem tengja má Vísinda- og tækniráði - enda var þá mikill skortur á fjármagni til tækniþróunar og nýsköpunar. Sjóðurinn hefur vaxið jafnt og þétt og á þessu ári hefur hann 500 m.kr. til ráðstöfunar. Langmesti hluti styrkja Tækniþróunarsjóðs rennur til þróunarverkefna á vegum fyrirtækja ? sem í flestum tilfellum eru sprotafyrirtæki.

Nú er efnt til sprotaþings öðru sinni. Á þessu sprotaþingi ber hæst að nú verður efnt í sérstaka samvinnu við þingflokkana á alþingi. Þetta er skemmtileg og mjög áhugaverð tilraun og verður eftirtektarvert að sjá hvað hún getur fært okkur. Þetta er líka merkilegt nýmæli í samstarfsháttum atvinnulífs og stjórnvaldanna. Horft verður fram á veginn og metið hvar helst þurfi að bera niður til að bæta stöðu sprota- og nýsköpunarfyrirtækja ? og auka framlag þeirra til hagvaxtar og þróunar í landinu almennt.

Þrátt fyrir veigamikinn stuðning stjórnvalda við sprotafyrirtæki og nýsköpun atvinnulífsins er ýmissa lagfæringa þörf ? og sennilega er það viðvarandi verkefni sem aldrei verður lokið. Augljósasti vandinn sem við er að fást um þessar mundir er að ekki hefur náðst að ná endum saman á milli opinberra fjárframlaga og aðkomu framtaksfjárfesta. Þessi ósamfella í fjármögnun nýsköpunar er í daglegu tali nefnd nýsköpunargjáin ? en það orð lýsir vandanum allvel.

Þetta er gjá sem okkur ber að brúa og fylla.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur hlutverki að gegna sem fjárfestir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þær fjárfestingar hafa ekki skilað arði enn sem komið er, og þetta hefur leitt til mikillar aðhaldssemi í fjárfestingum sjóðsins í sprotafyrirtækjum.

Þessi vandi kallar á aðgerðir allra aðila, jafnt stjórnvalda sem annarra. Úrlausn felst annars vegar í auknum fjárframlögum til þessa málaflokks, og hins vegar í betri samræmingu til að tryggja nauðsynlega samfellu.

Það þarf að efla Tækniþróunarsjóð áfram og einnig Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Það þarf áfram að þróa skattaumhverfi sprotafyrirtækja og nýsköpunar í því skyni að tryggja sem best þroskunar- og framþróunartækifæri þeirra.

Brátt verður þeim merka áfanga náð að orkumannvirkin við Kárahnjúka fara að skila arði til þjóðarbúsins, og í væntanlegri skipan með heildaráætlun um nýtingu og vernd náttúruauðlindanna er ráð fyrir því gert að gjald verði jafnan tekið fyrir leyfi og nýtingu. Með slíku auðlindagjaldi skapast tækifæri til að byggja upp á einhverju tímabili auðlindasjóð sem þjóðin getur notað til sérstakra þjóðþrifaverkefna. Alaskabúar hafa þegar góða reynslu á þessu sviði, en þeir endurgreiða líka öllum almenningi úr slíkum auðlindasjóði þegar arðstaða hans leyfir.

Ég tel að auðlindasjóður eigi að geta tekið virkan þátt í eflingu þess nýsköpunar- og sprotakerfis sem íslenska þjóðin þarf á að halda. Þá væri arðinum af auðlindum Íslendinga varið til að byggja hér undir framtíðarárangur, og auk þess geta beinar greiðslur til almennings, þegar þannig ber undir, orðið öflug samfélagsstoð.

Mikilvægir áfangar hafa náðst á síðustu árum. Áðan nefndi ég stórframkvæmdir við orkumannvirki. Einnig má nefna að fjármálakerfi og bankakerfi þjóðarinnar hefur tekið stakkaskiptum og útrás íslenskra fyrirtækja hafin. Mikilvæg reynsla hefur á sama tímabili skapast við störf Vísinda- og tækniráðs og sjóðir á vegum þess hafa verið efldir.

Á þessum sama tíma hefur orðið hér sannkölluð háskólabylting í eflingu og vexti fræðslu og rannsókna. Að mínu mati er nú framundan að auka enn fjölbreytni háskólastigsins með stofnun starfsmenntaháskóla, sem sjálfstæða stofnun eða hluta stærri heildar. Þá á ég við stofnun sem á Norðurlöndum kallast "yrkeshögskola", meðal enskumælandi þjóða "technical college" og Þjóðverjar kalla "Berufsakademie" og "Fachhochschule". Starfsmenntaháskóli hefur miklum hlutverkum að gegna við nýsköpun og sprotastarfsemi.

Nú er einnig framundan að taka sambærileg framfaraskref varðandi umhverfi og möguleika sprotafyrirtækja og annarrar nýsköpunarstarfsemi í landinu. Þetta er mjög mikilvægt mál sem ekki þolir langa bið.

Framtíðarsýn um gróandi þjóðlíf byggist á öflugri og viðvarandi nýsköpun ásamt stöðugri mennta- og vísindasókn í fylkingarbrjósti. Þjóðarmetnaður Íslendingar verður m.a. að birtast einmitt í þessu.

Ég þakka áheyrnina og óska þjóðinni mikils árangurs af þessu sprotaþingi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum