Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. febrúar 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Aðalfundur Icepro

Fundarstjóri og ágætu aðalfundargestir.

Á þeim tæpu 18 árum sem liðin eru frá stofnun Icepro hefur orðið mikil þróun í stöðlun og samræmingu í rafrænum viðskiptum. Vinnan hefur lotið að íslenskri útgáfu, innihaldi, samræmdri notkun og sammæli um EDI skeyti og miðlun upplýsinga á þeim. Skeytin eru notuð í samskiptum innflytjenda og tollstjóraembættisins, heildsöludreifingu matvöru og birgja þeirra, milli Tryggingastofnunar og lyfjadreifingaraðila, greiðslumiðlunar bankastofnana og flutningaskeyti dreifiaðila. Árlega eru sendar milljónir EDI skeyta innanlands og hafa þessir viðskiptahættir haft mikla hagræna þýðingu fyrir notendurna. Á síðustu árum hafa komið upp drög að nýjum stöðlum sem munu smátt og smátt taka við af hefðbundnum EDI samskiptum.

Síðastliðið ár hefur Icepro í góðu samstarfi við systurfélög sín á norðurlöndunum, unnið að undirbúningi að samræmdri útgáfu um notkun XML staðalsins UBL 2.0 til að nota við kaup og sölu á vöru. Voru það iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið og fjármálaráðuneytið sem fóru fram á þessa vinnu. Vinnunni lauk nú í byrjun árs og hafa nú verið gefnar út samnorrænar leiðbeiningar um notkun staðalsins þar sem tekið er sérstakt tillit til þarfa Íslendinga. Áhrif þessa mikla verks eru þau að nú verður hægt að senda XML skeyti rafrænt á milli landa en núverandi EDIFACT skeyti einskorðast við sendingar innanlands. Þetta er mikilvægur áfangi í því að taka næstu skref í þróun rafrænna viðskipta á Íslandi. Ekki síst þar sem samræmingin og sammælið nær út fyrir landsteinana og opnar fyrir víðtæk rafræn samskipti milli landa. Stöðlun og samræming í rafrænum viðskiptum byggt á alþjóðlegum viðurkenndum aðferðum er til mikilla hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf. Mikilvægt er að hvetja og virkja hagsmunaaðila til þátttöku við að hrinda í framkvæmd þeim verkefnum sem sinna þarf til að rafræn viðskipti dafni á Íslandi.

Í febrúar 2005 skipaði forsætisráðherra starfshóp sem m. a. átti að kanna hvort gjaldtaka ríkisins í þágu félagasamtaka stæðist 74. gr. stjórnarskrárinnar. Starfshópurinn skilaði skýrslu í desember síðastliðnum. Þar var m. a. fjallað um þann hluta tryggingagjalds sem rennur til Icepro. Komst starfshópurinn að þeirri niðurstöðu sá hluti tryggingagjaldsins stæðist ekki ákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Í framhaldinu hefur iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið meðal annars haft til skoðunar hvort sú starfsemi sem Icepro hefur með höndum geti með einhverjum hætti fallið undir starfsemi Staðlaráðs og þá sérstaklega fagráðs í upplýsingatækni. Ráðuneytið hefur átt fundi með Icepro og Staðlaráði um málið og hefur óskað eftir sjónarmiðum Icepro um þessa hugmynd. Í kjölfarið mun ráðuneytið móta afstöðu sína til þess hvort það starf sem Icepro hefur haft með höndum geti átt heima innan vébanda Staðlaráðs.

Sú þróun sem rafræn samskipti og viðskipti fela í sér er mjög mikilvægur þáttur í framþróun viðskiptalífsins. Viðskipti ? og hvers konar samskipti yfirleitt ? eru sífellt að aukast, verða hraðari og víðtækari. Það fer alls ekki á milli mála að hér erum við ræða um kvikuna í þeim tækniframförum sem skipta einna mestu máli fyrir viðskiptalíf og þjóðlíf framtíðarinnar.

Að sama skapi ræður metnaðarfullt starf, verksvit og vandvirkni úrslitum um allan árangur. Þess vegna eru verðlaun svo mikilvæg sem þakklætisvottur og hvatning til frekari dáða.

Afhending Icepro verðlaunanna

Góðir fundarmenn. Það er mér mikil ánægja að fá að afhenda Icepro verðlaunin en þetta mun vera í 11. sinn sem þau eru veitt. Dómnefnd Icepro skipa að þessu sinni: Karl Friðrik Garðarsson, formaður Icepro og forstöðumaður stjórnsýslusviðs við embætti tollstjórans í Reykjavík, Júlíus Sæberg Ólafsson, forstjóri Ríkiskaupa og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Hvað viðkemur rafrænum viðskiptum og þjónustu til bæði einstaklinga og fyrirtækja hefur íslenska bankakerfið skarað framúr á alþjóðavísu. Fá fyrirtæki hafa á að skipað jafn öflugum upplýsingatæknisviðum, og upplýsingatæknin er í dag orðin hornsteinn nútíma bankaviðskipta, þar sem Ísland er í fremstu röð. Flest ef ekki öll okkar hér inni eigum orðið mest af okkar bankaviðskiptum gegnum netið. Tækni og öryggi geta ekki hvort án annars verið og þar er bankakerfið einnig í fararbroddi. Hinir nýju auðkennislyklar sem nú er verið að dreifa á flesta landsmenn bera þess gott vitni auk þess sem bankar og sparisjóðir eiga samvinnu við íslensk stjórnvöld um rafrænar undirskriftir, sem auka munu mjög öryggi í rafrænum samskiptum almennt. Íslenskir bankar og sparisjóðir eru í fremstu röð hvað varðar þjónustu á vefnum þar sem bæði svokallaðir heimabankar og fyrirtækjabankar eru í stöðugri þróun auk þess sem flestar aðgerðir er jafnframt hægt að vinna í gegnum GSM síma. Að undanförnu hafa bankar og sparisjóðir unnið að gerð nýrrar framsetningar á XML bankaskeytum í anda ICEPRO, sem mun auðvelda til muna beintengingar á viðskiptakerfum fyrirtækja við þjónustustöðvar banka og sparisjóða.

Það er mat dómnefndar Icepro að ekki sé hægt að gera upp á milli banka og sparisjóða í þessu efnum. Því leggur hún til að viðskiptabankarnir þrír, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn ásamt sparisjóðunum hljóti Icepro verðlaunin árið 2007. Iceprobikarinn er hins vegar aðeins einn og er viðeigandi að hann verði hýstur næsta árið hjá nýstofnuðum Samtökum fjármálafyrirtækja, sem láta sig öryggi í upplýsingatækni miklu varða.

Ég vil biðja að koma hér upp forstöðumenn upplýsingatæknisviða banka og sparisjóða; Gísla Heimisson Glitni, Guðmund Guðmundsson Landsbankanum, Óskar Jósepsson Kaupþingi, Sæmund Sæmundsson Tölvumiðstöð sparisjóðanna og framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja Guðjón Rúnarsson - sem ég ætla að biðja um að taka við verðlaunabikarnum fyrir þeirra hönd.Ráðherra afhendir Iceproverðlaun 2007

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum