Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. mars 2007 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á Búnaðarþingi 2007

Ágætu búnaðarþingsfulltrúar og aðrir hátíðargestir.

Íslenska sveitin, - íslenskur landbúnaður stendur nærri hug og hjarta hvers einasta Íslendings.  Öll er þjóðin af bændum komin, eigum rót okkar og uppruna á fallegum sveitarbæ, í sveit sem enn er blómleg, eða í afdal þar sem fífill og sóley umvefja minningar genginna kynslóða.  Slíkan stað er gott að upplifa og dreyma.

Í Heimsljósi – Höll sumarlandsins, kemst Nóbelsskáldið Halldór Laxnes svo að orði:

“Þegar hann lá hér meðal blómanna í grænu stekkatúninu og horfði uppí bláan himinn, og lækirnir sytra í kríng og fuglarnir kvaka til miðdegis í innilegri ró, og lambið sefur brosandi við hlið móður sinnar í hádegiskyrrðinni, og handan skínandi fjarðarins renna fjöllin saman í dularbláa móðu, þá skildi hann að náttúran var ein elskandi móðir, en hann sjálfur og alt sem lifir af einum anda, ekkert framar ljótt, ekkert ílt”

Já, það hlýtur að vera skylda hvers og eins Íslendings að standa vörð um sveitir landsins og stuðla að framförum þeirra á hverjum tíma.  Þær framfarir kosta oft breytingar sem geta verið erfiðar og jafnvel sársaukafullar – en nauðsynlegar.  Því veltur á miklu að þeir sem með völdin fara á hvaða sviði sem er, hafi skilning á sveitunum, beri virðingu fyrir þeim sem þar búa og njóti trausts þeirra.  Íslendingar eru vel upplýst þjóð, þeir sem fylgjast með og eitthvað hugsa vita þá staðreynd að íslenskar sveitir og velferð þeirra er órjúfanlega tengd velferð þjóðarinnar allrar.

Blessað veri grasið
sem grær kringum húsin
bóndans og les mér
ljóð hans
þrá og sigur
hins þögla manns.

Svo orti Snorri Hjartarson.

Hver kynslóð á sér þrá og vinnur sigra.  Ísland geymir mikla örlagasögu og hvar sem við förum um landið er saga þar sem sviti og tár féllu í lífsins stríði.

Það hefur á síðustu árum tekist að gera Ísland samkeppnishæft hvað búsetu og rekstur fyrirtækja varðar.  Búsetuna í landinu ber að styrkja með þeim hætti að landsbyggðin verði samkeppnishæf við höfuðborgarsvæðið.

Ísland var eitt fátækasta land Evrópu fyrir 100 árum, nú talið í hópi þeirra landa sem bjóða þegnum sínum best lífskjör og tækifæri í víðri veröld.  Íslenski bóndinn hefur fundið á eigin skinni, hvernig vindarnir blása í samfélaginu, það hafa skipst á skin og skúrir í umræðunni. 

Bóndinn er vinsæll þegar sjúkdómar herja í nágrannalöndunum.  Þá er fagnað matvælaöryggi, hágæða afurðum, dýraheilbrigði og íslenskur landbúnaður lofaður. 

Svo skrýtið sem það er, breytist þessi staða bóndans í umræðunni til hins verra þegar verðlag er rætt á matvælum hér á landi.  Þá daga heyja stríð öfl, sem engu eira, bæði gegnum verslunarvald og pólitík.  Undarleg verðkönnun stórkaupmanna fyrir skemmstu vitnar um slíka umræðu.  Þó hefur það verið staðfest aftur og aftur, að þrátt fyrir hátt verðlag á Íslandi, eru innlendar landbúnaðarafurðir hlutfallslega ekki dýrari en annað í landinu.  Innfluttar landbúnaðarafurðir, þess vegna tollalausar, hækka það mikið í hafi að þær eru dýrari en þær íslensku þegar upp er staðið.  Samt sem áður er hamrað á verðmismun á einstökum, afmörkuðum matvörutegundum sem eru ódýrari út í heimi og hljóta alltaf að verða það, framleiðsluformsins vegna og annarra aðstæðna.

Heimilin eyða 13-14% af útgjöldum sínum í matvæli, þar af eru innlendar búvörur með 5-6% af útgjöldunum.  Hvað með fatnaðinn sem slær matvælin út, sé Ísland og Evrópa borin saman? Hvað með verð á dagblöðum og bókum, veitingum og þjónustu.  Hvað með vexti bankanna og vaxtavexti í gegnum verðtrygginguna, sem er bæði öryggisnet og björgunarkútur bankakerfisins, sem íslenskur almenningur og fyrirtæki bera hér?  Bretinn og Íslendingurinn sitja alls ekki við sama borð í sinni íslensku viðskiptastofnun. 

Ég óska hins vegar Íslendingum til hamingju með 1. mars og þá lækkun sem þá átti sér stað á matvælum.  Matarskattur úr 14% í 7% og fer vonandi út á næsta kjörtímabili.  Vörugjöld felld niður, tollar lækkaðir á innfluttum kjötvörum um allt að 40% og tollkvótar stækkaðir.  Hverjir voru það svo sem færðu fórnir á þessu altari matvælanna?  Kúabændur settu á sjálfa sig verðstöðvun í þágu neytenda í tvö ár, verðstöðvun sem mun reyna á þá og afurðastöðvar landbúnaðarins.  Minnumst þess svo við þessar aðstæður, að það eru takmörk fyrir því hvað hún Brúnka ber.  Bóndinn er verður launa sinna eins og sjómaðurinn og verkamaðurinn og hver annar sem gegnir mikilvægu starfi.

Það er ekki hægt að gera kröfur um íslensk laun og spánskt verðlag á matvælum.  Staðreyndin er sú að Íslendingar eru rík þjóð, hér ríkir velmegun á flestum sviðum í samanburði við aðrar þjóðir og þá hljóta allir að gera kröfu til hárra launa og það kallar á að verðlag sé í samræmi við það.  Því er það fjarstæðukennt að bera saman Ísland og þjóðir þar sem laun eru lág, atvinnuleysi mikið og lífsgæðin lakari en við höfum eða viljum hafa. 

Evra verður ekki tekin upp á Íslandi öðruvísi en því fylgi lækkun launa og atvinnuleysi.  Þess vegna er mikilvægast að við sjálf, á flestum sviðum, greiðum og leysum úr okkar vandamálum og hagstjórnin sé okkar sjálfra. 

 Ágætu áheyrendur.

Ég vil hér hrósa íslenskum landbúnaði og öllum búgreinum fyrir markvisst sóknarstarf síðustu ára.  Markvisst hafa gæðin verið sett á oddinn og hagkvæmni til að búa sig undir meiri samkeppni og opnun markaða.

“Hver vegur að heiman er vegurinn heim.”

Erlendir neytendur og meistarakokkar og hágæða verslanir lofsyngja hráefnið frá bóndanum okkar og landið sjálft, náttúru þess og hreinleika, en ekki síst fjölskylduna sem svo vel hirðir sína hjörð.  Í þessari umgjörð eigum við tækifæri og það er bændanna að þróa og sinna þessum nýja markaði til að skapa íslenskum landbúnaði frelsi, vöxt og virðingu.

Bændur eiga frábært iðnverkafólk í afurðastöðvunum, þeir eiga líka ný tækifæri í sölu til neytenda beint af býli.  Í slíku starfi rétta þeir neytandanum útrétta hönd.  Fólkið í þéttbýlinu vill kynnast bóndanum og nálgast hann með nýjum hætti.  Slík framleiðsla auðgar matvælamarkaðinn og stækkar hlut frumkvöðulsins, bóndans, sem skynjar ný tækifæri á sinni bújörð.  Ég heyrði einn slíkan bónda segja á dögunum að hann vildi afla tekna í sínu ferðamannahéraði þannig, að búið skilaði jafnmiklum tekjum fyrir utan fjósgluggann eins og inn í fjósinu sjálfu.

Ég tel að garðyrkjubændur hafi sýnt mikið frumkvæði síðustu ár með að sérmerkja sínar afurðir, þannig að neytandinn geti valið íslenskar afurðir fram yfir innfluttar.  Þetta val vill fólkið í landinu eiga.

Kjötvörur okkar ættu bændur og verslanir að merkja með sama hætti, íslensku fánalitirnir, afurðastöð eða bóndabýlið sjálft.  Eins ættu veitingastaðir og hótel að gefa upp frá hvaða landi steikin er sem er á boðstólnum.  Þetta gera þjóðir í dag, hví ekki við með okkar sérstöðu?

Ég minni á að t.d. svínakjöt er ekki bara svínakjöt og kjúklingur ekki bara kjúklingur.  Það liggur að baki einstakur árangur þessara búgreina hér í baráttunni við að verja neytendur fyrir hættunni af salmonellu og Camphylobakteríu, svo ekki sé talað um allar búgreinar hvað hormóna varðar og lyfjaleifar.  Á þessu sviði erum við í sérflokki og hér eru akrar og tún ekki úðuð með eiturefnum. 

Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri og Háskólinn á Hólum marka framtíðinni nýja sýn og kalla til sín öflugt fólk, sem í gegnum menntun og starfsnám gerir landbúnaðinn framsækinn og öflugan.  Íslenski hesturinn var ekki talinn búgrein fyrr en nú á allra seinustu árum.  Nú vitna hrossabúgarðar um nýja tíma.  Hesturinn er búgrein, þeim mun betur gengur sem þekkingunni fleygir fram og Hólar, þrátt fyrir mikla uppbyggingu, anna ekki eftirspurn.  Námskeið og fræðslufundir eru sótt af þúsundum Íslendinga sem vilja eignast hestinn að vini.  Íslenski hesturinn er auðlind eða einstök erfðalind sem við eigum og þúsundir íslandshestamanna um víða veröld eiga hlutdeild í hestinum með okkur.  Hesturinn hefur byggt brú á milli bóndans og borgarbúans, þar er ekkert kynslóðabil til.  Þegar að hestinum er komið er ekki til stéttaskipting.

Ég trúi því að þeir búvörusamningar sem gerðir hafa verið á síðustu árum, hafi verið búgreinunum mikilvægir.  Mikilvægir til að efla og stækka búin fyrir framtíðina.  Mikilvægir fyrir afkomu bændanna.  Mikilvægir til að lækka vöruverð á hollum matvælum á disk neytenda. 

Íslenskur landbúnaður er sterkari en nokkru sinni fyrr og býr yfir meiri fjölhæfni en áður.  Mörg stærstu vandamál síðustu ára eru að baki, svo sem offramleiðsla og birgðasöfnun. 

Það skal heldur ekki gert lítið úr flóknum verkefnum morgundagsins svo sem WTO-samningum sem á ný eru komnir á hreyfingu.  Lægri tollar, breyttur stuðningur innanlands, opnari viðskiptaheimur, meira frelsi þar sem samkeppnisstaðan kann að ráða úrslitum.  Stórþjóðir ætla sér stærri markaði á kostnað smærri þjóða sem oft búa við erfiðari framleiðsluskilyrði.  Flestar þjóðir heims vilja verja landbúnað í sínu landi.

Á næstu mánuðum minnumst við þess þegar fátækir forfeður okkar strengdu þess heit að hefja orrustu við stríðandi náttúruöflin og hefja skógrækt og landgræðslu, en 100 ár eru nú liðin frá samþykkt fyrstu skógræktar- og landgræðslulaganna.  Ólgandi stórfljót hafa verið beisluð og hamin, örfoka land hefur verið grætt upp.  Sandurinn sem engu eirir, stöðvaður og græddur upp.  Nú eru íslenskir bændur stærstu gerendurnir í skógræktinni, ný auðlind er að verða til.  Álfu vorrar yngsta land eignast sinn skóg og sveitin breytir um svip.  Landgræðslan og Skógrækt ríkisins hafa unnið þrekvirki á hundrað árum.  Þessar stofnanir eru sannkölluð óskabörn íslensku þjóðarinnar.

Umhverfismál setja æ meira mark á umræðuna í samfélaginu. Eitt stærsta viðfangsefni heimsbyggðarinnar á því sviði eru hnattrænar loftslagsbreytingar af mannavöldum, sem þjóðir heims hafa einsett sér að bregðast við.  Í skógrækt, landgræðslu og breyttri landnotkun felast stærstu möguleikar Íslendinga til að draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið.  Með stuðningi öflugrar rannsókna-og þróunarstarfsemi verður íslenskum landbúnaði falið nýtt, mikilvægt hlutverk í þágu þjóðarinnar.

Ísland er á margan hátt gott landbúnaðarland, trúlega eitt af tíu bestu sauðfjárræktarlöndum heims.  Okkar sérstaða gefur íslenskum bændum mikla möguleika ef allir vinna saman; stjórnvöld, bændur, verkalýðshreyfing og atvinnulíf.

Aldrei sem fyrr er nauðsyn á því að bændur landsins standi saman og vinni að framgangi sinna hagsmunamála.  Það hefur ekki farið framhjá neinum að nú vilja margir sækja úr þéttbýlinu í sveitirnar og setjast þar að undir breyttum búskaparháttum.  Eflaust er hægt að finna því margt til foráttu og auðvitað þarf þar að vega og meta það sem hverfur og það sem kemur.  Ég trúi því hins vegar að þessar breytingar og þetta nýja viðhorf til sveitanna sé af hinu góða.

  “Það er svo bágt að standa í stað
  og mönnunum munar
  annað hvort aftur á bak
  ellegar nokkuð á leið”

orti Jónas Hallgrímsson fyrir einni og hálfri öld, en orð hans eru enn í gildi.

Það er sókn og bjartsýni sem hefur einkennt íslenska bændur síðustu árin.  Þessa sóknarstöðu ber fulltrúum á búnaðarþingi að efla og marka í ræðum sínum og samþykktum. 

 Hér á eftir munum við verðlauna sókndjarfa fyrirmyndarbændur sem skara framúr.  Í þeim hópi eru einstakir ræktunarmenn á búfé – arðsamt sauðfé og nytháar mjólkurkýr.  Loðdýrabændur sem skara framúr og keppa á heimsmarkaði, enda hefur loðdýraræktin haft gæði og mjög markviss vinnubrögð að leiðarljósi síðustu árin.  Við verðlaunum einnig ferðaþjónustubónda sem byggt hefur sína eigin kirkju á jörð sinni, landi sínu og Guði til dýrðar. 

 Góðir þingfulltrúar og aðrir gestir.

Ég hef verið svo lánssamur að hafa fengið tækifæri til að gegna starfi landbúnaðarráðherra í átta ár.  Fyrir mér hefur þetta verið góður tími og skóli, nóg að gera, kynnst fjölda fólks en síðast en ekki síst hef ég þessi ár unnið að framgangi fjölmarga verka á sviði íslensks landbúnaðar.

Gangið til verka glaðir og reifir, ykkar er framtíðin.  Sá sem óttast dagar uppi, hinn sem þorir að takast á við straumþungann og trúir á “Guð í alheimsgeymi, Guð í sjálfum sér,” hans verða sigrar morgundagsins.  Íslenski bóndinn, íslenska sveitin eiga samhug og velvilja fólksins í landinu.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum