Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

9. mars 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Aðalfundur SART

Fundarstjóri, ágætu aðalfundargestir,

Ég vil byrja á að þakka fyrir að fá að vera hér með ykkur í dag.  Ég er fyrrverandi starfsmaður SART og það þótti mér lærdómsríkur tími og fræðandi.

 

Um þessar mundir eru liðin hartnær 15 ár frá því að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hóf umfangsmiklar breytingar á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála hér á landi. Markmiðið með breytingunum var að draga úr opinberu eftirliti en auka þess í stað ábyrgð fagmanna, eigenda og umráðmanna raforkuvirkja og neysluveitna.

 

Gerð var krafa til raforkufyrirtækja og löggiltra rafverktaka um að beita gæðastjórnun í starfsemi sinni sem var í grundvallaratriðum sú sama og almennt er beitt í atvinnulífinu við framleiðslu og þjónustustarfsemi. Innra gæðaeftirlit fyrirtækja er mun árangursríkari leið til þess að tryggja öryggi og bæta starfsemi fyrirtækja í heild en að stjórnvöld standi að umfangsmiku opinberu eftirliti með þeim.

 

Teknar voru upp úrtaksskoðanir í stað alskoðana og þær framkvæmar af faggiltum skoðunarstofum í umboði stjórnvalda sem tóku við þeim af eftirlitsmönnum Rafmagnseftirlits ríkisins og rafveitna.

 

Settar voru skilgreindar og samræmdar verklags- og skoðunarreglur eftirlits. Þetta tryggði samræmt eftirlit um land allt og markaði eðlilegan ramma utan um samskipti verktaka og eftirlitsaðila. Samræmi var komið í hlutverkum og ábyrgð aðila í orði og á borði. Rík áhersla var lögð á að eigendur rafbúnaðar bæru ábyrgð á eignum sínum, en fagaðilar bæru faglega ábyrgð á verkum sínum.

 

Allar þessar breytingar voru unnar í nánu samstarfi við samtök rafveitna, rafverktaka og innflytjendur raffanga sem fögnuðu þeim og töldu umbjóðendur sína fyllilega í stakk búna til að mæta kröfum um aukna ábyrgð. Það sýndi sig einnig að fagaðilar á rafmagnssviði voru traustsins verðir og stóðu undir þeirri ábyrgð sem á þá var lögð.

 

Almennt má segja að þessar breytingar hafi tekist vel til. Í skýrslu Samtaka atvinnulífsins um eftirlit með atvinnustarfsemi sem gefin var út árið 2004 var sérstaklega tekið fram hversu vel hefði tekist til með breytingar á fyrirkomulagi rafmagnseftirlits í landinu. Þar var aðferðafræði við rafmagnseftirlit lýst sem góðu foræmdi um opinbert eftirlit á vegum stjórnvalda.

 

Þrátt fyrir að vel hafi tekist til með breytingarnar eru öll mannanna verk umdeild og breytingum háð. Það þarf því sífellt að gæta þess að allir þættir rafmagnsöryggismála séu í takt við tímann, fyllsta öryggis sé gætt og að þarfir neytenda séu ávallt hafðar að leiðarljósi.

 

Rafræn stjórnsýsla hefur á undanförnum árum rutt sér hér til rúms og miðar m.a. að því að auka þjónustu við neytendur en gera stjórnsýsluna jafnframt einfaldari og öruggari.

 

Til að koma til móts við þessi sjónarmið hefur Neytendastofa hrundið af stað nýju verkefni sem lýtur að nýrri miðlægri skrá fyrir rafverktaka. Henni er ætlað að auka öryggi, gæði og aðgengi að upplýsingum sem löggiltir rafverktakar, Neytendastofa, rafveitur, byggingarfulltrúar og faggiltar skoðunarstofur nota vegna eftirlits Neytendastofu með starfsemi löggiltra rafverktaka. Þessi miðlæga skrá verður kynnt síðar á fundinum.

 

Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði hafa gegnt mikilvægu hlutverki í öllu sínu starfi og vænti ég þess að mikilvægt framlag þeirra til íslensks atvinnulífs megi blómgast um langa framtíð.

 

Þakka áheyrnina.

 

 

 

 

 

......

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum