Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. mars 2007 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Of mörg slys og ekki í samræmi við markmið umferðaröryggisáætlunar

Ávarp Sturlu Böðvarssonar á blaðamannafundi 22. mars þar sem kynnt var skýrsla Umferðarstofu um umferðarslys 2006

Skýrsla um umferðarslys 2006 kynnt
Skýrsla um umferðarslys 2006 kynnt

Ég vil í upphafi þakka ykkur fyrir að koma á þennan fund en sú hefð er að skapast hjá okkur að Umferðarstofa geri grein fyrir umferðarslysum ársins í skýrslu sinni sem hér verður lögð fram. Jafnframt þakka ég Landhelgisgæslunni fyrir aðstöðuna hér en segja má að hún sé valin sem eins konar samnefnari fyrir þá sem starfa að neyðar- og björgunarverkefnum og leita þarf til þegar umferðarslys eru annars vegar.

Banaslysin í umferðinni í fyrra voru of mörg. Árið var það versta frá árinu 2000. Þeir voru líka fleiri sem slösuðust alvarlega í umferðinni eða 153 í fyrra en 129 árið 2005. Það er of mikið. Þetta er ekki í samræmi við markmið umferðaröryggisáætlunar sem stefnir að fækkun slysa. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu atriðum skýrslunnar um umferðarslys sem við getum síðan rætt nánar um.

En við hljótum að spyrja: Hvað gerðist? Af hverju fjölgaði látnum í umferðinni úr 19 í 31 milli ára? Hefði einhver mannlegur máttur getað komið í veg fyrir einhver þessara slysa?

Í raun er ógerlegt að svara slíku. Við greinum hins vegar orsakir slysanna eftir því sem unnt er og reynum að draga af því lærdóm.

Meðal þess sem sérfræðingar okkar í slysarannsóknum komust að er eftirfarandi:

  • Níu þeirra sem létust voru ekki með bílbeltin spennt. Hefðu beltin hugsanlega bjargað einhverjum þeirra?
  • Í átta tilvikum áttu ölvaðir ökumenn hlut að máli í slysunum og í tveimur tilvikum til viðbótar létust óvarðir vegfarendur sem voru undir áhrifum áfengis. Hversu miklu réði áfengisneyslan í þessum tilvikum?
  • Ellefu létust í slysum þar sem ofsaakstur kemur við sögu. Hefði eitthvert þeirra lifað ef hraðinn hefði verið minni?
  • Átta látast þegar bílar fara útaf vegi. Hefði eitthvert þeirra lifað ef umhverfi veganna hefði verið öðruvísi?

Þannig getum við greint slysin og spurt. Og við hljótum að leita allra leiða til að draga úr áhrifum slysa. Draga úr áhrifum þess er menn lenda í ógöngum vegna veðurs eða aðstæðna, vegna gáleysis, hraðaksturs eða vegna þess að bílbeltin eru ekki notuð. Við þurfum að halda áfram að bæta mannvirkin, gera umhverfi vega þannig að það auki ekki slysahættuna heldur dragi úr áhrifum slysa eins og ég nefndi.

Og ég segi við þurfum að halda áfram aðgerðum vegna slysavarna og ég legg áherslu á þetta – að halda áfram. Ýmislegt hefur sem betur fer verið gert. Við höfum eflt stórlega eftirlit á þjóðvegum og hert viðurlög við brotum. Við höfum eflt áróður og fræðslu. Við höfum breytt hönnunarforsendum við vissar aðstæður við vegi og tekið upp nýja gerð vegriða.

En eitt stærsta atriðið í alltof mörgum orsökum umferðarslysa er kannski það erfiðasta viðureignar: Hegðunin. Af hverju hegðum við okkur ekki betur í umferðinni? Ef hegðun okkar myndi lagast og áhrif betri hegðunar bætast við áhrif af betri mannvirkjum, meiri þekkingu og meira aðhaldi þá værum við á betri braut í umferðaröryggismálum. Að því skulum við stefna.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum