Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. mars 2007 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á Hólum 23. mars 2007

Ágætu Skagfirðingar og aðrir vinir og velunnarar Hóla.

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin hingað heim að Hólum  til að fagna með okkur þeim mikla áfanga í sögu Hóla, að Hólaskóli tekur formlega til starfa sem háskóli,  Hólaskóli- Háskólinn á Hólum.

Hólar í Hjaltadal eiga sér sterkan sess í vitund þjóðarinnar.  Hólar, ásamt Skálholti og Þingvöllum eru mestu sögu og helgistaðir landsins.

Við blessum þá jörð, sem í erfiði erjum.
Hún er auður og hamingja vor.
Hún er landið, sem allir með lífinu verjum,
þar liggja vor framtíðarspor.
Í skapandi starfinu skulum vér gjalda
skuld vora landi og þjóð.
Þá færum við kynslóðum komandi alda
vorn kyndil með brennandi glóð.

Það ríkir vor og kraftur í íslensku efnahagslífi.  Aldrei hafa á jafn mörgum sviðum verið tækifæri fyrir duglegt, vel menntað fólk og í dag.  Unga fólk, heimurinn er ykkar, tækifærin eru ykkar.  Hér eru í dag mörkuð ný framtíðarspor.  Alþingi Íslendinga réttir ykkur Hólamenn kyndil með brennandi glóð.  Hinn 1. júlí n.k., í nóttlausri veraldarveröld, þegar sólin sest ekki hér í Skagafirði, verður Hólaskóli lögum samkvæmt háskóli.

Ekkert skiptir jafnmiklu fyrir jafnvægi í byggðum landsins eins og framhaldsskólar og háskólar.  Háskólar eiga að vera í öllum byggðum, ekki bara í Vatnsmýrinni í Reykjavík.  Atvinnuvegirnir þurfa háskóla.  Landbúnaðarháskóli Íslands og háskóli á Hólum munu leggja sveitunum til þá orku og það afl sem mestu skiptir og er gull þjóðanna, það er fólkið.  Fólk sem kemur með ný úrræði og getu til að takast á við framtíðina.  Við heyrum hamarshögg og uppbyggingu í íslenskum sveitum.  Sveitirnar bjuggu við stopp í mörg ár, það stopp hafa íslenskir bændur rofið með bjartsýni og trú og þjóðin stendur með íslenska bóndanum.  Menntun og rannsóknir skipta meira máli en áður, sá atvinnuvegur sem það skilur, sú þjóð sem það skilur, verður í fremstu röð á nýrri öld.

Biskupsstóll var stofnaður á Hólum árið 1106 að kröfu Norðlendinga um eigin biskup til jafns við Skálholtsbiskup á Suðurlandi. Það er ánægjulegt til þess að hugsa að sá metnaður sem lá að baki kröfu Norðlendinga á sínum tíma um eigin biskupsstól lifir enn í þeim mikla metnaði sem Norðlendingar hafa fyrir uppbyggingu Hólastaðar.  Ég vil samt halda því til haga að það var Sunnlendingurinn, Árnesingurinn Gissur Ísleifsson.  Honum var svo lýst að hann hefði verið svo vel af Guði gerður að það hefði mátt gera úr honum konung, biskup eða víkingaforingja. Hann hafði þá víðsýni til að bera að koma til móts við sanngjarnar óskir Norðlendinga um stofnun biskupsstóls á Hólum fyrir 900 árum.

Báðir staðirnir Hólar og Skálholt urðu aðsetur andlegs valds þjóðarinnar um aldaraðir eða allt til loka 17. aldar, en einnig veraldlegs valds, með eign sinni á jörðum og lausafé. Ekki er minna um vert að á báðum biskupsstólunum voru um langan aldur einu skólarnir á landinu þar sem bæði fór fram almennt nám og nám fyrir verðandi presta. Þá voru á báðum stöðunum reknar prentsmiðjur á vegum biskupsstólanna.

Hólar í Hjaltadal koma víða við sögu lands og þjóðar. Á Sturlungaöld var Guðmundur Arason, góði, biskup á Hólum. Hann kom merkilega við sögu í veraldlegri valdabaráttuá þeim tíma,  auk þess að skrá nafn sitt í örnefnum þeirra staða sem hann vígði. Þá er saga Jóns biskups Arasonar á Hólum  samofin þjóðarsögunni og aftaka hans í Skálholti 7. nóvember 1550 einn kunnasti harmleikur Íslandssögunnar. Guðbrandur biskup Þorláksson sat lengst allra biskupa á biskupsstóli á Hólum í lok 16. aldar og framan af 17. öld.  Hans verður lengst minnst fyrir prentun Biblíunnar, sem kom út árið 1584,  en talið er að af einstökum viðburðum megi þakka þeirri útgáfu það að íslensk tunga varðveittist jafn vel og raun ber vitni.  Já, íslenskan var fóstruð og varðveitt hér.

Lengst af 19. öld, eftir að biskupsstóllinn var lagður niður, fór lítið fyrir Hólum í samtímanum, enda hagur þjóðarinnar þröngur um þær mundir.

Aftur rofaði til þegar Hólaskóli var stofnaður árið 1882 sem búnaðarskóli. Skólinn hefur haldið nafni Hóla á lofti alla tíð síðan.  Það er þó einkum eftir setningu reglugerðar um Hólaskóla að hann fékk nýtt hlutverk og fór að bjóða upp á nám á háskólastigi, sem ný athygli hefur beinst að skólanum.  Þjóðkirkjan hefur á ný styrkt stöðu sína hér á Hólum.  Kirkjan, háskólinn og Skagafjörður, með sitt öfluga og samstillta mannlíf, eru þrjár gullnar stoðir sem munu bera þennan stað til sóknar og sigurs í framtíðinni.

Enginn þarf að fara í grafgötur um að það er hin sterka staða Hóla í þjóðarvitundinni, sérstaklega í Skagafirði og á Norðurlandi öllu,  sem er forsenda þeirrar uppbyggingar sem átt hefur sér stað á Hólum á síðari árum.  Hjaltadalur á eftir að verða í þjóðleið með jarðgöngum hér í gegnum tröllaskagann til að þétta og styrkja mið Norðurland til búsetu.

Ef farið er yfir  söguna kemur það glöggt í ljós að Skagfirðingum hefur farnast best með því að hafa sterkt miðstjórnarvald í héraði sínu. Vil ég þar nefna Ásbirninga og Gissur Þorvaldsson á Sturlungaöld, jarlinn sunnlenska sem alltaf átti stuðning í Skagafirði og stóð með Ásbirningum á hverju sem gekk og þeir með honum.  Einnig biskupsstólinn á Hólum um hundruð ára og í dag er það Kaupfélag Skagfirðinga sem er hinn sterki bakhjarl héraðsins. Þessi sterka staða hefur birst annars vegar í þeim miklu framkvæmdum sem hér hafa verið og hins vegar í öflugu rannsókna og fræðslustarfsemi í þágu landbúnaðar í víðum skilningi, en einnig starfi tengdu biskupsstólnum þar sem vígslubiskup Hólastiftis situr á Hólum á nýjan leik.

Stundum er það í hinu ómeðvitaða sem djúpur sannleikur er fólginn.  Þeir sem sækja Hóla heim aka síðasta spölinn um 5 km beina braut þar sem staðurinn rís fyrir augum komumannsins.  Vafamál er að nokkur mynd af landinu hafi greipt sig eins í vitund þjóðarinnar. Hjaltadalur umgjörð hans og fegurð er kyngimagnaður og í þeirri umgjörð blómstrar andagift og hér ríkir norræn hámenning.

Ágætu samkomugestir.

Margir merkir menn hafa komið við sögu Hólaskóla eftir stofnun hans 1882.  Ég vil þakka sérstaklega starfið frá 1982 og þá sóknarbaráttu sem hófst þá og stendur enn.  Ég þakka Jóni Bjarnasyni, sem skipaður var skólastjóri Hólaskóla árið 1982 og Skúla Skúlason skólameistara, nú rektor Háskólans á Hólum, sem verið hefur hér í forustu síðustu 8 árin.  Ég vil líka taka fram að þingmenn og sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi og landbúnaðarráðherrar síðustu ára hafa mjög komið að þessari sögu.  Það hafa einnig sveitarstjórnarmenn hér í Skagafirði svo og þeir einstaklingar sem sátu í stjórn Hólaskóla gert.

Þá ber að nefna og þakka þátt skagfirskra fyrirtækja í þeirri uppbyggingu sem hér hefur orðið á undanförnum árum.  Vil þar nefna  rannsóknarverið á Sauðárkróki með stuðningi Fiskiðjunnar á  Sauðárkróki og þátt Kaupfélags Skagfirðinga í uppbyggingu nemendagarða með 80 íbúðum og reiðhöllina góðu.  Margt fleira mætti nefna sem stuðlað hefur að eflingu skólans og staðarins.  

Ég er þeirrar skoðunar að háskóli í héraði sé eitt af grundvallar atriðum í uppbyggingu þróaðs samfélags. Ég hef sem landbúnaðarráðherra  lagt áherslu á eflingu kennslu og rannsóknastarfs í þágu landbúnaðarins.  Menntun og rannsóknir eru undirstaða þess að landbúnaður í víðum skilningi fái dafnað þannig að íbúar dreifbýlisins geti þróað þá möguleika sem felast í nýtingu landsins.  Landbúnaðarháskóli Íslands og   Háskólinn á Hólum eru þau orkuver þekkingar sem munu leiða þá þróun í framtíðinni.

Hér á þessari háskólahátíð fögnum við enn einum áfanganum í uppbyggingu staðarins sem vígsla fullkominnar aðstöðu til reiðkennslu og er bylting í allri aðstöðu skólans.  Tvöhundruð hestafla hesthús sem þýðir, ásamt nemendagörðunum og reiðhöll, að starfið hér mun rísa í nýjar hæðir í þjónustu við íslenska hestinn. 

Hér eru það enn kraftar í héraði sem sameinast í fyrirtækinu Hesthólum sem lyft hafa því grettistaki sem hér um ræður. Á undra skömmum tíma hefur risið hér fullkomnasta aðstaða á landinu hvað varðar kennslu í hestamennsku og aðstöðu fyrir nemendur og kennara en ekki síður hvað varðar alla umhirðu og aðbúnað hesta, aðstaða sem mun verða viðmið fyrir uppbyggingu slíkrar aðstöðu annars staðar á landinu í framtíðinni.  Ég er sannfærður um að þessi nýja aðstaða ásamt reiðhúsunum sem nú er verið að reisa vítt og breitt um landið mun á næstunni lyfta allri fagmennsku í hestamennsku í áður ókunnar hæðir og treysta forustu Íslendinga í öllu sem varðar notkun íslenska hestsins.  En ekki síður mun hún stuðla að því að æ fleiri   fái tækifæri til að kynnast því ævintýri sem íslenski hesturinn er. 

Menntun hestafólksins og fagleg barátta félags tamningamanna hefur gert það að verkum að íslenski hesturinn er að verða ein öflugasta búgreinin í sveitum landsins, um leið og hann er í gegnum hestamannafélögin dáður og elskaður í þéttbýlinu og mörgum þjóðlöndum. 

Ágætu hestamenn.

Öll eigið þið ykkar drauma um gæðinginn sem á engan sinn líka,  hnarreistur, töltgengur og flugvakur. Öll leitum við að hinum fullkomna hesti sem oft birtist í draumum okkar, líkt og hin vængjaða Nótt sem Ásgeir í Gottorp sagði frá og Hjörtur Pálsson orti ljóðið um:

Vængjaða Nótt!
Nú heyri ég fax þíns flug
sé froðuna löðra um granir
á skýjanna vegi
með styggð í blóði stefnir þú enn sem fyrr
með stormbláar manir
á móti glófextum degi.

Ég vil að lokum þakka ykkur fyrir að koma hér heim að Hólum í dag til að fagna með okkur þeim mikla áfanga sem stofnun Hólaskóla- Háskólans á Hólum er, nýjum áfanga í merkri sögu.

Ég endurtek, verið öll hjartanlega velkomin heim að Hólum á þessa háskólahátíð.  Hér gleðji hver annan.  Í dag færum við komandi kynslóðum kyndil mennta og menningar með brennandi glóð.  Við skulum fagna með ferföldu húrrahrópi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum