Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. mars 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Ársfundur ÍSOR

Ráðherra á ársfundi ISOR
Radherra_a_arsfundir_ISOR

Góðir ársfundargestir.

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ykkur hér í dag á ársfundi Íslenskra orkurannsókna. Á þeim fjórum árum sem brátt eru liðin frá því að stofnunin var sett á fót hefur hún vaxið og dafnað. Þær breytingar sem gerðar voru á stofnanaskipulagi í tengslum við nýtt skipulag raforkumála hafa verið til góðs og eiga eftir að sanna gildi sitt enn frekar á næstu árum. Undanfarin ár hafa einkennst af miklum framkvæmdum á orkusviði, sem trúlega eiga sér engin fordæmi í Íslandssögunni. Jarðhitinn á þar stóran þátt að máli. Nýverið voru tvær nýjar jarðvarmavirkjanir til raforkuframleiðslu teknar í notkun og víðsvegar um landið er annað hvort verið að koma á fót nýjum hitaveitum eða stækka starfandi hitaveitur. Allar þessar framkvæmdir hafa kallað á aðkomu vísindamanna og þar skiptir hlutur ÍSOR miklu máli, því stofnunin er leiðandi á sviði rannsókna, þróunar og ráðgjafar í jarðhitamálum eins og alkunna er.

Breytingar í orkumálum heimsins eru að skapa okkur ný og spennandi tækifæri. Það á ekki síst við um nýtingu endurnýjanlegra orkulinda í tengslum við aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum. Þess má víða sjá merki á alþjóðavettvangi í nýjum áherslum í orkumálum. Evrópusambandsríkin hafa sameiginlega sett sér bindandi langtímamarkið um að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda upp í 20% fram til ársins 2020 og draga m.a. þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þessar breytingar skapa tækifæri til að virkja í auknum mæli þann kraft sem býr í íslenskum orkuiðnaði til útrásar.

Við Íslendingar höfum um langt árabil lagt áherslu á að nýta innlendar endurnýjanlegar orkulindir. Samfélagið allt, hagkerfið og þjóðlífið hvíla á þeim grundvelli og forsendu að orkulindirnar og aðrar auðlindir lands og lagar séu nýttar af ráðdeild og virðingu. Því er það aðkallandi að reyna að stuðla að víðtækri sátt um nýtingar- og verndaráætlun fyrir náttúruauðlindir þjóðarinnar. Þetta hefur verið og verður áfram stefna íslenskra stjórnvalda. Það er sameiginlegt verkefni okkar stjórnmálamannanna að finna málamiðlun milli sjónarmiða um nýtingu og verndun.

Grundvöllur slíkrar málamiðlunar hlýtur að vera þekking á orkukostum, náttúru og umhverfi. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er stór liður í öflun slíkrar þekkingar. Vinna við rammaáætlun gengur samkvæmt áætlun en gert er ráð fyrir að 2. áfanga ljúki árið 2009, og er stefnt að því að gefa út framvinduskýrslu á þessu ári. Næsta skrefið í átt til sáttar er að skapa tiltrú á að tekið sé tillit til ólíkra sjónarmiða við ákvarðanatöku og hinir ólíku hagsmunir tryggðir eftir því sem kostur verður. Þar skipta breyting á stjórnarskrá varðandi þjóðareign á náttúruauðlindum, breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og gjaldtaka vegna nýtingar orkulinda á forræði ríkisins mestu máli. Það voru því viss vonbrigði að ekki náðist samkomulag á Alþingi um þann farveg þjóðarsáttar sem gerð var tillaga um á nýafstöðnu þingi. Óvissa í þessum málum getur reynst bagaleg fyrir orkufyrirtækin og þá sem vilja standa að frekari uppbyggingu orkuiðnaðar hér á landi. Slík óvissa getur einnig haft áhrif á starfsemi Íslenskra orkurannsókna. Vonandi verður óvissu eytt innan langs tíma og víðtæk sátt staðfest.

Orkuvinnsla er að hluta til þekkingariðnaður og sú þekking sem orðið hefur til hér á landi samhliða framkvæmdum á orkusviði er gríðarlega verðmæt. Jafnt og þétt er verið að bæta við þessa þekkingu og stefnt inn á ný og áður ókönnuð svið með verkefnum eins og djúpborunarverkefninu.

Þessi þekking hefur frá árinu 1979, þegar jarðhitaskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna var stofnaður, verið notuð við að aðstoða þróunarlönd, þar sem nýtanlegur jarðhiti finnst, við að byggja upp og efla hóp sérfræðinga í jarðhitafræðum, sem geta unnið á hinum ýmsu sérsviðum í rannsóknum á jarðhita og nýtingu hans. Í kringum hann hefur skapast tengslanet við jarðhitafræðinga um allan heim. Þá hefur þessi þekking einnig verið notuð í verkefnum á sviði þróunarsamvinnu, t.d. í mið-Ameríku og Afríku.

Aukins áhuga á samstarfi á sviði endurnýjanlegra orkulinda gætir einnig hjá öðrum ríkjum. Í ráðuneytinu eru í undirbúningi samstarfssamningar við Indland, Pólland og Rússland á þessu sviði. Slíkum samningum er ætlað að skapa skilyrði fyrir skipti á þekkingu og möguleika á verkefnum í viðkomandi löndum.

Orkufyrirtækin í samstarfi við aðra aðila hafa á undanförnum árum verið að fikra sig áfram í útrás með þessa þekkingu. Stærsta dæmið um árangur af slíku er hitaveituverkefni í Kína. Áhugi nýrra og fjársterkra aðila kann að skapa nýja möguleika í þessum efnum með aðkomu að verkefnum erlendis.

Menntastofnanir hafa sýnt orku- og auðlindamálum mikinn áhuga á undanförnum árum og þar er um mjög spennandi hluti að ræða. Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli á Akureyri bjóða allir upp á nám á sviði orku- og umhverfismála í samstarfi við stofnanir og fyrirtæki. Gott dæmi um slíkt samstarf eru samstarfssamningur Háskóla Íslands og ÍSOR. Það er afar mikilvægt að tryggja samstarf þessara aðila. Þá eru hugmyndir um uppbyggingu háskólasamfélags á gamla varnarliðssvæðinu á Miðnesheiði gríðarlega spennandi.

Þessi fjölmörgu verkefni á jarðhitasviðinu kalla á skipulagningu og aukin samskipti þeirra aðila sem starfa að jarðhitamálum. Um nokkurt skeið hefur verið í undirbúningi stofnun svokallaðs Jarðhitavettvangs, sem ætlað er að vera óformlegur umræðuvettvangur allra þeirra mörgu sem koma að jarðhitamálum. Hlutverk stjórnvalda í þessu verður fyrst og fremst að hlusta og leitast við að hjálpa til við að koma á framfæri þekkingu okkar í jarðhitamálum á erlendri grundu. Á næstunni verður boðað til fyrsta fundar Jarðhitavettvangsins. Ég trúi því að hann eigi eftir að verða mikilvægur farvegur fyrir skoðanaskipti um þessi mál í framtíðinni.

En það eru fleiri spennandi viðfangsefni í farvatninu eins og gerð verður frekari grein fyrir hér í dag. Landgrunnsmál og hafbotnsrannsóknir hafa verið umfangsmiklar á undanförnum árum. Ríkisstjórnin samþykkti í maí 2001 verkefnaáætlun um undirbúning greinargerðar til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um mörk landgrunns Íslands utan 200 sjómílna. Vinna á grundvelli verkefnaáætlunarinnar hefur gengið mjög vel en áfram verður unnið að þessum málum á næstu árum.

Áhugi á olíuleit við Ísland hefur farið vaxandi á undanförnum árum en sjónir manna hafa einkum beinst að Jan Mayen-svæðinu. Íslensk og norsk stjórnvöld stóðu þar fyrir sameiginlegum forrannsóknum á níunda áratugnum, og á árunum 2001 og 2002 fengu tvö fyrirtæki leyfi til leitar á þessu svæði, sem nú er kallað Drekasvæði. Helstu niðurstöður voru jákvæðar en frekari rannsókna er þörf til að ganga úr skugga um hvort olíu er að finna á svæðinu í vinnanlegu magni. Ekki er útilokað að þessar vísbendingar gætu vakið áhuga olíufyrirtækja á frekari athugunum, þ.m.t. borunum. Til að skapa grundvöll fyrir slíku hefur iðnaðar­ráðuneytið í samvinnu við sjö önnur ráðuneyti og undirstofnanir þeirra unnið að endurskoðun löggjafar um olíuleit.

Þá hefur verið unnin skýrsla með tillögu að áætlun um útgáfu sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu olíu á norðanverðu Drekasvæði við Jan Mayen-hrygg og drög að umhverfisskýrslu í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum áætlana. Í skýrslunni er að finna úttektir á jarðfræði, veðurfari og lífríki á Drekasvæðinu og auk þess er farið yfir umhverfismál, vinnuverndar-, öryggis- og hollustuverndarmál. Á grundvelli þessa eru hugsanleg umhverfisáhrif áætlunarinnar metin í samræmi við nýleg lög um umhverfismat áætlana. Mikilvægt er að hafa í huga að umhverfismat áætlunar er ekki ætlað að vera jafn ítarlegt og það mat sem krafist er vegna einstakra framkvæmda vegna leitar, rannsókna og vinnslu olíu verði áætlunin samþykkt. Rannsóknar- og vinnsluboranir eru til að mynda matskyldar framkvæmdir og kalla á ítarlegt mat á umhverfisáhrifum í samræmi við lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Nánar er fjallað um efni skýrslunnar í öðrum erindum hér á eftir.

Skýrslan hefur verið lögð fram til kynningar og er í umsagnarferli sem standa mun yfir til 23. maí. Að loknu því ferli og að teknu tilliti til athugasemda úr kynningar- og umsagnarferlinu verður gefin út lokaskýrsla. Á grundvelli þeirrar skýrslu verður hægt að taka ákvörðun um hvort hefja eigi leyfisveitingaferli vegna útgáfu sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu olíu á Drekasvæðinu.

Ef ákvörðun er tekin um að hefja eigi leyfisveitingaferli má gera má ráð fyrir að a.m.k. eins árs undirbúningsvinna sé framundan áður en hægt verði að úthluta sérleyfum til rannsókna og vinnslu olíu á norðanverðu Drekasvæðinu. Því verður væntanlega ekki hægt að veita slík sérleyfi fyrr en í fyrsta lagi á miðju næsta ári.

Í þeim undirbúningi er sérstaklega mikilvægt að huga að skattamálum því áður en leyfi verða veitt þarf að taka ákvörðun um hvort leggja eigi sérstakan skatt á hagnað af olíustarfsemi, eins og gert er í flestum nágrannaríkjum okkar.

Einnig þarf að meta á grundvelli framkominna tillagna þörfina á frekari rannsóknum á veður- og náttúrufari á Drekasvæðinu, sem og að ákveða hvort stjórnvöld eigi að standa að þeim rannsóknum eða hvort það verkefni verði að einhverju eða öllu leyti í höndum þeirra fyrirtækja sem fá munu úthlutað sérleyfum til leitar, rannsókna og vinnslu olíu á svæðinu.

Það skal ítrekað að verði af rannsóknum og vinnslu á svæðinu þá munu þær framkvæmdir sem hafa í för með sér mikil umhverfisáhrif, t.d. rannsóknar- og vinnsluboranir, þurfa að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum og kalla því á frekari rannsóknir m.a. á náttúrufari og lífríki.

Góðir ársfundargestir.

Ég vil í lokin ítreka þau orð mín að orkuiðnaður á Íslandi er þekkingariðnaður. Sem fyrrum skólamanni er það mér ánægjuefni að sjá hversu mikill áhugi og kraftur er í að tengja þá þekkingu sem til staðar er í jarðhitamálum á Íslandi við störf í menntastofnunum. Ég trúi því að þar sé farsælt samstarf sem eigi eftir að skila okkur verulegum ávinningi til framtíðar.

Ég vil þakka starfsmönnum og stjórnendum Íslenskra orkurannsókna ánægjulegt samstarf og óska stofnuninni velfarnaðar á komandi árum. Ég þakka áheyrnina.Ráðherra á ársfundi ISOR

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum