Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. apríl 2007 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Aukið fé í umferðaröryggisáætlun

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flutti ávarp við setningu alþjóðlegrar umferðarviku sem hófst í dag. Ráðherra greindi frá nokkrum atriðum umferðaröryggisáætlunar og býnir ökumenn og aðra þátttakendur í umferðinni til ábyrgrar hegðunar.

Umferðarslys og afleiðingar þeirra eru eitt mesta heilbrigðisvandamál okkar. Það á við um Ísland, nágrannalönd okkar og raunar alla heimsbyggðina. Það er sama hvert litið er, alls staðar tekur umferðin sinn toll og alls staðar kostar hún ómældar þjáningar og sorg fyrir utan eigna- og fjárhagstjón. Þetta er mat Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar.

Umferðarslys eru því alþjóðlegt vandamál og það er ekki að ástæðulausu sem Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir alþjóðlegri umferðaröryggisviku. Um 1,2 milljónir manna bíða árlega bana í umferðarslysum og milljónir til viðbótar eru slasaðir og örkumlaðir.

Við Íslendingar þekkjum þessar hliðar umferðarinnar og við höfum ekki farið varhluta af þeirri skelfingu sem umferðarslys eru. En við höfum enga ástæðu til að sitja þegjandi eða aðgerðalaus hjá þessum voða. Við erum sammála um að aðgerða er þörf og þannig hafa bæði almenningur og yfirvöld gripið í taumana.

Við þurfum að gera betur og þess vegna tökum við þátt í umferðaröryggisviku. Við notum tækifærið og reynum að bregðast við of mörgum slysum sem langoftast stafa af of miklum hraða eða bílbelti eru ekki notuð eða menn setjast ölvaðir undir stýri.

Hver eru viðbrögð okkar við þessu?

Viðbrögðin koma fram í umferðaröryggisáætlun þar sem er bæði stefnt að auknu aðhaldi og aðgerðum af hálfu lögreglu og lögð áhersla á vitundarvakningu til að byggja upp eins konar öryggismenningu í umferðinni.

Alls verður varið 1.763 milljónum króna til umferðaröryggisaðgerða næstu fjögur ár.

Sem dæmi um aukið umfang má nefna að nú verður lögreglan mun sýnilegri en fyrr og eftirlitið verður aukið. Lögreglan hefur fengið meiri tækjabúnað til að fylgjast með ökuhraða. Eftirlitsmyndavélar hafa verið settar upp í þéttbýli og við þjóðvegi og þeim verður fjölgað. Þá hefur einnig verið fjölgað myndavélum í lögreglubílum og lögreglumótorhjólum. Lögreglan hefur einnig fengið fleiri öndunarsýnamæla sem auðveldar eftirlit með ölvunarakstri. Nálega 500 milljónum króna verður varið í þetta verkefni.

Við aukum öryggi með umbótum í vegakerfinu. Um 450 milljónum króna verður varið til aðgerða á svartblettum í vegakerfinu og um 290 milljónir fara í að bæta umhverfi vega víða um land. Samgöngumannvirki, vegir og umhverfi, geta ráðið miklu þegar slys verða. Við höfum því bætt staðla, vegir verða breiðari, það er skipulega unnið að því að fækka einbreiðum brúm og á öllum umferðarmestu vegunum verður að aðskilja akstursstefnur. Þá hefur verið tekin upp úttekt á vegakerfinu. Niðurstöður hennar eru notaðar til að ráðast í umbætur þar sem vegir fá ekki nógu góða einkunn.

Við aukum fræðslu og áróður og tökum upp nýjungar í ökukennslu. Frá byrjun næsta árs verður það skilyrði til að fá fullnaðarökuskírteini að ökunemar hafi fengið þjálfun í ökugerði, sérstöku akstursæfingasvæði. Við höfum verið að efla umferðarfræðslu í skólum og hún þarf að vera samfelld, ég segi næstum frá vöggu til grafar, byrja í leikskóla, halda áfram gegnum grunnskóla og ná upp í framhaldsskóla.

Þá eru flestir orðnir beinir þátttakendur í umferðinni sem ökumenn og þess vegna þurfa áminningar og fræðslan að halda áfram allt lífið.

Ég hef beitt mér fyrir breytingum á umferðarlögum og sett nýjar reglugerðir sem herða viðurlög vegna brota á umferðarlögum og um leið hafa sektir verið hækkaðar. Þannig hefur lögreglan sterkari vopn í baráttu við hraðaksturinn og síbrotamenn í umferðinni geta átt það á hættu að bílar þeirra verði gerðir upptækir við ítrekuð brot. Þessi möguleiki er líka fyrir hendi gagnvart þeim sem ítrekað hafa ekið ölvaðir.

Þá vil ég vekja athygli á nýjustu reglugerðunum sem taka gildi í umferðaröryggisvikunni. Fjallar önnur þeirra um gerð og búnað ökutækja þar sem bætt er við ákvæðum um öryggisbelti, höfuðpúða og annan búnað sem nauðsynlegur er í bílum sem flytja fatlað fólk.

Hin kveður á um skyldubundna notkun á öryggis- og verndarbúnaði í ökutækjum þar sem sérstaklega er fjallað um búnað fyrir börn og kveðið á um skyldu til að veita farþegum í hópferðabílum upplýsingar um að nota skuli öryggisbelti.

Með öllum þessum aðgerðum og kannski ekki síst með því að hækka sektir og herða viðurlög við umferðarlagabrotum dregur vonandi úr þeim og vonandi fer slysum fækkandi. En það er alveg sama hversu miklu eftirliti og hversu miklum viðurlögum við beitum – grundvallaratriðið er alltaf hegðunin. Við höfum sjálf mest um það að segja hvort við stundum glæfra- og áhættuakstur eða ekki.

Þá vil ég nefna atriði sem ég tel mjög nauðsynlegt að ná fram breytingu á. Það er að umferðaröryggismál séu aðeins málefni samgönguyfirvalda, lögreglu eða félagasamtaka sem hafa slík mál sérstaklega á dagskrá sinni. Við þurfum fleiri liðsmenn frá öllum sviðum þjóðfélagsins. Við þurfum leikmenn, sérfræðinga, áhugamenn, stjórnmálamenn, ungt fólk og aldrað til að gera umferðaröryggi að daglegu viðfangsefni.

Ég vil að lokum þakka þeim sem undirbúið hafa dagskrá umferðaröryggisvikunnar og hvet okkur öll til að sýna ábyrgð í umferðinni.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum