Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. apríl 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Ársfundur RARIK ehf

Fundarstjóri, góðir gestir.

Það er mér mikil ánægja að vera með ykkur hér í dag til að fagna því að 60 ár eru liðin frá stofnun Rafmagnsveitna ríkisins. Rafmagnsveiturnar eiga sér merka sögu sem er samofin þróun raforkumála landsins. Á þessum tíma hafa verið miklar sveiflur í rekstri fyrirtækisins en því og starfsmönnum þess hefur ávalt tekist vel að aðlaga sig að breyttum aðstæðum.

 

Sögu orkuauðlindanýtingar Íslands er oft skipt í nokkra kafla. Fyrsti kaflinn er rafvæðingin og virkjun aðgengilegra jarðhitasvæða til húshitunar. Um miðja síðustu öld ákváðu stjórnvöld að sem stærstum hluta þjóðarinnar skyldi tryggður aðgangur að raforku frá samveitum. Skipuleg rafvæðing hófst árið 1954 og henni lauk á áttunda áratugnum þegar lang stærstur hluti þjóðarinnar hafði orðið aðgang að rafmagni. Á þessum tíma fékk fjöldi heimila rafmagn í fyrsta sinn og bylting varð í lifnaðarháttum og atvinnulífi víða um land. Rafmagnsveitur ríkisins léku lykilhlutverk í þessu verkefni. Síðasti þátturinn í þessum kafla var að samtengja einagruð orkuveitusvæði landsins með lagningu Byggðalínunnar, sem telst til stærstu og viðamestu framkvæmda sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa staðið að.

 

Annar kaflinn í þessari sögu hófst með skipan stóriðjunefndar og tilraunum til að laða orkufrekan iðnað til landsins. Fyrstu skrefin í þessum efnum voru stigin með stofnun Landsvirkjunar, samningum um álver í Straumsvík árið 1965 og samningum um járnblendiverksmiðju á Grundartanga 10 árum síðar. Í kjölfarið varð stöðnun í þessum málum í tvo áratugi en síðustu 10 ár hefur átt sér stað mikil uppbygging í orkufrekum iðnaði. Þessi uppbygging hefur haldist í hendur við skeið framfara og velferðar. Nú sér fyrir endann á þeim framkvæmdum sem staðið hafa yfir síðustu ár. Áhuginn á frekari uppbyggingu er mikill en það á eftir að koma í ljóst hvaða verkefni verða að raunveruleika..

 

Þriðji kaflinn í sögu orkuauðlindanýtingar var svo skrifaður í kjölfar olíukreppunnar í byrjun áttunda áratugarins. Þá hófust stjórnvöld við að skipta út olíu til húshitunar fyrir orkugjafa frá endurnýjanlegum orkulindum. Árangurinn af þessu er öllum ljós en í dag er einungis um 1% húsa á Íslandi kynnt með olíu og innlend endurnýjanleg orka hefur komið í stað olíu á öðrum sviðum eftir því sem sem það hefur orðið hagkvæmt.

 

Við erum þegar farin að rita næsta kafla í þessari sögu með því að leita leiða til að nýta orkuauðlindir okkar í auknum mæli í samgöngum. Þar er mikið verk fyrir höndum en þegar liggja fyrir tillögur um fyrstu skref. Undanfarin ár hafa stjórnvöld tekið þátt í og stutt við bakið á ýmsum rannsóknarverkefnum á þessu sviði. Það er óneitanlega spennandi framtíðarsýn fyrir land og þjóð að geta orðið öðrum óháð um orku sem öll kæmi frá endurnýjanlegum orkulindum. Slíkt væri einsdæmi.

 

Í mörgum skilningi stöndum við um þessar mundir á tímamótum í raforkumálum. Ný viðhorf hafa rutt sér til rúms sem við erum að tileinka okkur og aðlaga okkar aðstæðum. Slíkt er aldrei einfalt, sérstaklega í ljósi sérstöðu okkar í orkumálum. Breytingar á skipulagi raforkumála hafa því eðlilega verið fyrirferðarmiklar á undanförnum árum. Eldra kerfi var að mörgu leyti einfalt, skilvirkt og hafði reynst okkur vel, en það stóðst ekki lengur þær kröfur sem gerðar voru. Orkufyrirtækin voru að eflast að þekkingu og getu til að standa sjálf fyrir framkvæmdum. Þetta sést best á því að á síðasta ári stóð yfir bygging raforkuvera á vegum fjögurra orkufyrirtækja hérlendis auka smávirkjana..

 

Þessi nýju viðhorf hafa kallað á miklar breytingar hjá orkufyrirtækjunum og Rafmagnsveitur ríkisins eru þar engin undantekning. Fyrirtækið hefur verið í fararbroddi að aðlaga sig þessum breytingum. Hápunktur þeirra breytinga voru þegar félaginu var breytt í hlutafélag og Orkusalan stofnuð. Aukið frelsi fyrirtækjanna og svigrúm til afhafna hafa virkjað þann mikla kraft og þekkingu sem þau og starfsmenn þeirra búa yfir.

 

Orkuvinnsla er að stórum hluta þekkingariðnaður og sú þekking sem orðið hefur til hér á landi samhliða framkvæmdum á orkusviði er gríðarlega verðmæt. Samorka birti nýlega athyglisverðar tölur um orku- og veitufyrirtækin. Þar kom fram að á síðasta ári urðu til 730 ársverk háskóla- og tæknimenntaðra vegna orkufyrirtækjanna. Jafnt og þétt er verið að bæta við þessa þekkingu og stefnt inn á ný og áður ókönnuð svið. Orkufyrirtækin hafa á undanförnum árum verið að fikra sig áfram í útrás með þá þekkingu sem þau búa yfir. Áhugi fjársterkra aðila á að koma að þessum málum kann að skapa nýja möguleika í verkefnum erlendis.

 

Menntastofnanir hafa sýnt orku- og auðlindamálum mikinn áhuga á undanförnum árum og þar er um mjög spennandi hluti að ræða. Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli á Akureyri bjóða allir upp á nám á sviði orku- og umhverfismála í samstarfi við stofnanir og fyrirtæki.

Góðir gestir.

Við Íslendingar eigum merka sögu í orkumálum. Hún einkennist af áræðni, framsýni og framtakssemi. Við höfum um langt árabil lagt áherslu á að nýta innlendar endurnýjanlegar orkulindir. Samfélagið allt, hagkerfið og þjóðlífið hvíla á þeim grundvelli og forsendu að orkulindirnar og aðrar auðlindir lands og lagar séu nýttar af ráðdeild og virðingu. Þetta hefur verið og verður áfram stefna íslenskra stjórnvalda.

 

Við höfum náð gríðarlega langt í nýtingu orkuauðlinda okkar til framfara fyrir land og þjóð. Raforkuframleiðsla á íbúa er með því mesta sem gerist og engin önnur þjóð í heiminum státar af jafn háu hlutfalli endurnýjanlegra orkulinda í raforkuframleiðslu. Mikilli áhugi annarra þjóða á samstarfi við Íslendinga í orkumálum ætti að verða okkur hvatning til enn frekari afreka.

 

Í gegnum tíðina hafa skiptst á skin og skúrir í rekstri Rafmagnsveitna ríkisins. Það er mín trú að breytingar á rekstri fyrirtækisins hafi verið til góðs og að framundan séu bjartir tímar í rekstri þess. RARIK gegnir mikilvægu hlutverki, sérstaklega á landsbyggðinni, og mun gera það áfram. Þar eru mörg verkefni óleyst og mikilvægt að vel takist til svo allir landsmenn getiávalt búið við öruggt raforkukerfi, hagstætt raforkuverð og hátt þjónustustig.

 

Um leið og ég þakka áheyrnina vil ég óska RARIK velfarnaðar á komandi ár

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum