Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. maí 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Ársfundur Iðntæknistofnunar

Ágætu ársfundargestir.

Iðntæknistofnun stendur nú á mikilvægum tímamótum, en á nýliðnu þingi voru samþykkt lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Þau lög boða mikilvæga breytingu á stuðningsumhverfi atvinnulífsins því til verður ný stofnun: Nýsköpunarmiðstöð Íslands - við sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Í þessu felst þó mun meiri breyting  en í fyrstu kann að virðast því til verður ný stofnun  með ný markmið og nýjar áherslur.

 

Í stuttu máli verður leiðarljós hinnar nýju stofnunar að sinna verkefnum sem eru til þess fallin að efla samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs með áherslu á sprota og nýsköpunarfyrirtæki.

 

Með tilkomu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er verið að hrinda í framkvæmd þeim ásetningi stjórnvalda að gera stoðkerfi atvinnulífsins einfaldara og skilvirkara.  Með því er ég meðal annars að vísa til mikilvægis þess að þeir sem njóta eiga þjónustu okkar hafi skýra mynd af því sem í boði er og hvar hana er að finna. Sem dæmi um þetta má nefna að allvíða er rekin stoðþjónusta fyrir atvinnulífið en þótt hún sé í eðli sínu svipuð og hafi sömu markmið er hún dreifð og ósamhæfð.

 

Stoðþjónusta Iðntæknistofnunar er rekin undir heitinu IMPRA og fær hún nú aukið vægi sem leiðandi afl við að hrinda í framkvæmd stefnu stjórnvalda í nýsköpun og atvinnuþróun um allt land.  Nú er ein starfsstöð utan Reykjavíkur á vegum Impru en mikill áhugi er á að fjölga þeim í þeim tilgangi að ná meiri árangri í svæðisbundinni nýsköpun úti á landi.  Þannig er ein af lykiltillögum starfshóps um atvinnumál Vestfjarða að Impra taki við leiðandi hlutverki við uppbyggingu og rekstur þekkingarmiðstöðvar á Ísafirði.   Að baki liggur sú hugmynd að á völdum stöðum úti á landi verði til þekkingarmiðstöðvar sem byggi á  sambýli kennslu og rannsókna á vegum háskóla,  opinberrar rannsóknarstofnana, sameinaðri stuðningsþjónustu fyrir atvinnulífið og rekstri og þróun sprotafyrirtækja.

 

Bakhjarl þessarar stuðningsþjónustu eru tæknirannsóknir og með sameiningu  rannsóknarstarfsemi Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins er stefnt að því að til verði öflug rannsóknastarfsemi sem bæði getur tekið á grunnrannsóknum sem hafa mikla þjóðhagslega þýðingu, eins og byggingarannsóknir eru dæmi um - og  sinni hagnýtum rannsóknum á þeim sviðum sem sérstaklega mikla þýðingu hafa fyrir framþróun og samkeppnisstöðu atvinnulífsins.  Þessi hlutur starfseminnar verður rekinn undir heitinu Íslenskar tæknirannsóknir, sem sennilega verður útfært fyrir erlent samstarf með hinu kunnuglega heiti IceTec.

 

Að því er stefnt að Íslenskar tæknirannsóknir verði öflugur samstarfsaðili með erlendum rannsóknastofnunum og fyrirtækjum og geti í auknum mæli haslað sér völl á alþjóðlegum samkeppnismarkaði vísinda og tækni. Ekki er síst mikilvægt að Íslenskar tæknirannsóknir hafi kraft og færni til að afla samstarfsverkefna í gegnum rammaáætlanir Evrópusambandsins, en alþjóðlegt  vísindasamstarf er grunnforsenda fyrir framsæknu rannsóknastarfi hér heima í okkar litla rannsóknasamfélagi.

 

Um Tækniþróunarsjóð er einnig fjallað í þessum nýju lögum, sem ég nefndi í upphafi, enda hefur sjóðurinn á stuttum starfstíma sínum gegnt lykilhlutverki í fjármögnun rannsókna og þróunar í þágu nýsköpunar atvinnulífsins.

 

Á þessu ári hefur sjóðurinn 500 m.kr. til ráðstöfunar en langflest stuðningsverkefna sjóðsins eru tengd starfsemi fyrirtækja, sem mörg eru í nánu samstarfi með háskólum eða opinberum rannsóknastofnunum.  Sjóðurinn hefur getu til að styrkja um eða innan við 60 verkefni á ári, sem þýðir að aðeins um einn þriðji umsókna fær brautargengi.  Mér er það full ljóst að mun fleiri verkefni þyrftu að geta notið stuðnings sjóðsins og að styrkir þurfa að vera stærri til að geta borið veigameiri verkefni.

 

Eins og ég skýrði frá á nýliðnu Iðnþingi hef ég ákveðið að beita mér fyrir því að framlög til Tækniþróunarsjóðs verði aukin. Til grundvallar þessari ákvörðun liggur reynsla mín af störfum í Vísinda- og tækniráði og skilningur á mikilvægi þess að nýsköpun atvinnulífsins þarf að vega þyngra í hinni atvinnupólitísku umfjöllun en verið hefur.  Ég tel ekki ofmælt að framlög til Tækniþróunarsjóðs verði tvöfölduð á næstu fjórum árum - og verði einn milljarður árið 2011. 

 

Ég tel að viðbótarframlagi til sjóðsins á næsta ári, árið 2008,  þurfi fyrst og fremst að verja til samstarfsverkefna með Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins í þeim tilgangi að sameiginlega geti þessir sjóðir  gert alvarlega atlögu að því að brúa nýsköpunargjána, þ.e. bilið sem er milli  fjármögnunar rannsóknarverkefna úr Tækniþróunarsjóði og aðkomu framtaksfjárfesta með hlutafé í sprotafyrirtækjum.

 

Þá tel ég mikilvægt að með auknum fjárveitingum til Tækniþróunarsjóðs verði unnt að leggja nýjar áherslur - á sviðum þar sem helst er að vænta sérstaks árangurs fyrir framþróun atvinnulífsins.  Ég er í raun að segja að Vísinda- og tækniráð þurfi að huga meira að því að skilgreina áherslur í starfseminni út frá efnahagslegum hagsmunum atvinnulífs og þjóðar.

 

Með auknum framlögum til Tækniþróunarsjóðs er stigið veigamikið skref í eflingu nýsköpunar í starfandi fyrirtækjum. Nýsköpun atvinnulífsins skiptir máli og það er grundvallaratriði að fjárfestingar ríkisins í vísindum og tækniþróun skili sér út í efnahagslífið.

 

Ágætu fundarmenn:

Með tilkomu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands stígur iðnaðarráðuneytið sitt fyrsta skref í þátttöku í uppbyggingu öflugs vísinda- og tæknisamfélags í Vatnsmýrinni. Veigamikil spor hafa þegar verið tekin, samanber samning Háskólans í Reykjavík og borgaryfirvalda um starfsemi orkurannsóknaseturs og aukið samstarf á sviði kennslu, þróunar og rannsókna.  Þá er undirbúningur Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni kominn vel á veg og er  áætlað að byggingaframkvæmdir hefjist síðla á þessu ári.

 

Iðnaðarráðuneytið telur að samfélagið í Vatnsmýrinni verði uppspretta nýrrar þekkingar sem muni gagnast fjölþættri annarri starfsemi um allt land.  Þar verði frjór vettvangur samstarfs háskóla, sprotafyrirtækja, nýsköpunar- og hátæknifyrirtækja, rannsóknastofnana og fleiri skyldra aðila.

 

Að lokum vil ég þakka öllum starfsmönnum Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins fyrir farsæl og  vel unnin störf og óska þeim velferðar á nýjum starfsvettvangi. 

 


 

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum