Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. febrúar 2008 MatvælaráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Skipulagður markaður fyrir raforku, Tækifæri eða takmörkun

Ráðstefnustjóri, ágætu ráðstefnugestir.

Ég vil byrja á að þakka fyrir að fá tækifæri til að opna þessa ráðstefnu Landsnets um skipulagðan markað fyrir raforku.

Eins og þeir vita sem hér eru þá hafa fyrirtæki á vegum hins opinbera byggt upp orkukerfi sem er um margt einstætt í heiminum vegna þess að það nýtir í meginatriðum endurnýjanlegar orkulindir til framleiðslu sinnar. Uppbygging orkukerfisins er samofin sókn Íslendinga úr þeirri stöðu að vera eitt af fátækari löndum Evrópu í það að vera í hópi þeirra þjóða sem búa við best lífskjör. Það þarf því engan að undra þótt það liggi djúpt í þjóðarsálinni að líta á orkufyrirtækin sem fjöregg og að landsmenn uni því ekki að óvarlega sé með þau farið.

Eftir því sem orkukerfið verður fjölþættara og öflugra skapast skilyrði til þess að reka tiltekna þætti þess á forsendum markaðar þar sem ríkið er einvörðungu í því hlutverki að setja reglur og annast eftirlit með því að þeim sé fylgt. Við sjáum það til dæmis að orkurannsóknir, sem voru kostaðar og reknar af ríkinu, eru nú í sérstöku fyrirtæki sem stendur undir sér með sölu á rannsóknarverkefnum. Þar hefur verið tekið skref út á markaðinn og spurningar hafa vaknað um það hvort ganga eigi lengra í þá átt. Þetta er ekki nema eðlileg og ánægjuleg staðfesting á að vel hefur til tekist í opinberri uppbyggingu. Og við skulum bara viðurkenna það að þótt við séum svo þrasgjarnir Íslendingar að stundum virðist allt í uppnámi, þá verður það ekki af okkur skafið að okkur hefur gengið vel að byggja upp nýjar atvinnugreinar fyrir tilstilli hins opinbera.

Samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið ber Íslendingum að koma upp raforkumarkaði. Í því efni erum við að fikra okkur áfram, við erum að búa til markað með lögum frá Alþingi og það er ekki nema eðlilegt að við skiptumst á skoðunum um þann tilbúning allan.

Mér hefur þótt bæði fróðlegt og ánægjulegt að kynnast því hvernig forráðamenn Landsnets rækja eitt af lykilhlutverkum fyrirtækisins sem er að örva samkeppni á raforkumarkaði. Innan veggja fyrirtækisins hefur mér fundist að í gangi sé frjó hugmyndavinna og að alúð sé lögð við að búa í haginn fyrir framtíðina. Í lögum er sérstaklega kveðið á um heimild Landsnets til að reka raforkumarkað.  Í ljósi þessa hefur fyrirtækið staðið fyrir skoðun á möguleikum þess að stofna skyndimarkað fyrir raforku. Í þessari vinnu hefur Landsnet átt samstarf við Nord Pool og hagsmunaaðila á íslenskum raforkumarkaði.

Skyndimarkaður með raforku getur verið mikilvægur hlekkur í skipulagi raforkumála sem flýtir innleiðingu markaðslausna. Hann hefur þá kosti að geta stuðlað að réttri verðmyndum raforkunnar, hann getur reynst tæki til úrlausnar á flutningstakmörkunum og örvað viðskipti og samkeppni á heildsölumarkaði fyrir rafmagn. Þá opnast með honum möguleiki á kaupum á flutningstöpum á opnum markaði

Iðnaðarráðuneytið fagnar því frumkvæði sem Landsnet hefur haft og lýsir yfir ánægju með það víðtæka samráð sem fyrirtækið hefur staðið fyrir um málið. Gangi hugmyndir Landsnets eftir verður til tilboðsmarkaður þar sem aðilar geta átt viðskipti með rafmagn og sett fram kaup eða sölutilboð á einfaldan hátt. Á slíkum markaði fást fram mjög miklvægar upplýsingar um verð á rafmagni sem eiga að geta aukið gegnsæi á raforkumarkaði og örvað samkeppni.   

Sjálfsagt munu úrtölumenn halda því fram að tilboðsmarkaður Landsnets sé fyrirburi sem eigi sér litlar lífslíkur. Má ég þá minna á að engir standa okkur læknum á sporði við að koma fyrirburum á legg. Því skyldum við hafa minni metnað í orkugeiranum heldur en á heilbrigðissviðinu?   

Vissulega eru aðstæður í raforkumálum um margt sérstakar hér á landi.  Við erum sannarlega eyland í því tilliti: Raforkumarkaðurinn er lítill og einangraður, meirihluti raforkunnar er bundinn í langtímasamningum við stóriðjufyrirtæki og stærstur hluti framleiðslunnar er á höndum eins fyrirtækis.

Allir landsmenn geta  þó valið af hvaða raforkusala þeir kaupa raforku. Raforkusala er því ekki lengur bundin því orkufyrirtæki sem dreifir raforkunni á viðkomandi svæði, heldur opin öllum þeim sem hafa tilskilin leyfi.

Það sem þó er gagnrýnt er skortur á samkeppni í raforkugeiranum og hátt gjald fyrir flutning og dreifingu á raforku. Við hljótum því að spyrja okkur að því hvað sé hægt að gera til að bæta ástandið?

Bent er á að of stór hluti raforkuframleiðslunnar sé í höndum eins fyrirtækis, Landsvirkjunar. Þetta er réttmæt ábending en það verður hins vegar að skoða þá stöðu í sögulegu samhengi. Landsvirkjun hafði samkvæmt lögum skyldu til að afla orku jafnt fyrir stóriðju og almennan markað. Þessu hefur nú verið breytt og önnur fyrirtæki eins og Orkveita Reykjavikur og Hitaveita Suðurnesja hafa stóraukið framleiðslu sína og nálgast Landsvirkjun hraðfara í umsvifum. Þá hefur verið byggður nokkur fjöldi smávirkjana. Ef til vill getur skyndimarkaður, með þeim sveigjanleika sem hann býður upp á, opnað augu manna fyrir því að heppilegt kunni að vera að orkufyrirtækin verði fleiri en nú er raunin.

Það getur verið erfitt að ráða í framtíðarþróun en það verður að telja líklegt að aðskilnaður einstakra þátta í starfsemi orkufyrirtækja muni greiða fyrir þróun í átt til virkari raforkumarkaðar og fjölgunar raforkuframleiðenda. Ég hef margoft lýst þeirri skoðun minni að skilja eigi á milli þeirrar starfsemi sem er háð sérleyfum og  samkeppnisstarfsemi. Í frumvarpi til laga sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fram á Alþingi er gert ráð fyrir að orkufyrirtækin þurfi að skilja að þessa þætti. Þó er ekki ætlunin að þessi krafa verði látin ná til minnstu fyrirtækjanna. 

Góðir áheyrendur!

Undirstaða þess að raunverulegur samkeppnismarkaður geti þrifist er að neytendur séu vel upplýstir og virkir.

Það er ánægjulegt til þess að vita að orkufyrirtækin hafa þegar lagað sig að breyttum aðstæðum með ýmsum breytingum sem ætlað er að einfalda raforkuviðskipti. Í þeim tilgangi sameinuðust þau til dæmis um stofnun Netorku hf. sem gegnir því hlutverki að vera sameiginlegt mæligagna- og uppgjörsfyrirtæki fyrir íslenskan raforkumarkað í markaðsvæddu umhverfi. Rekstur Netorku tryggir að samskipti og uppgjör á íslenska raforkumarkaðnum verða í senn einfaldari, sveigjanlegri og skilvirkari en gerist hjá öðrum þjóðum.  Þá hafa ríki og Reykjavíkurborg rofið eignatengsl sín í orkugeiranum sem er mjög til bóta.

Verkefnið til lengri tíma litið er að tryggja raunverulega samkeppni á raforkumarkaði þannig að neytendur geti valið úr kostum sem bjóðast.  Samkeppni um almenn raforkuviðskipti hefur hingað til verið takmörkuð og því má leiða að því líkur að grípa þurfi til aðgerða til að örva hana.

Við þurfum að vinna áfram að því að bæta kosti neytenda til dæmis með aukinni upplýsingagjöf og nákvæmni í orkumælingum þannig að hætt verði að greiða fyrir áætlaða orkunotkun heldur einungis greitt fyrir þá orku sem notuð er. Það má líka einfalda reglur um álagningu virðisaukaskatts á raforku og gera orkureikninga skiljanlega öllum almenningi.

Góðir ráðstefnugestir!

Með því að koma á fót skipulögðum markaði fyrir raforku á Íslandi er stigið enn eitt skrefið  í að opna raforkumarkaðinn og efla virkni hans. Skipulagður raforkumarkaður getur skapað frekari tækifæri til viðskipta með rafmagn en fram að þessu hafa verið til staðar. Samstarfsaðilar Landsnets hafa víðtæka reynslu af rekstri raforkumarkaðar og eru leiðandi á sínu sviði á alþjóðavettvangi. Það lofar góðu. Markaðurinn verður enn eitt dæmið um að orkugeirinn lagar sig að nýjum aðstæðum og að Alþingi og ríkisstjórn feta sig ásamt orkufyrirtækjunum skref fyrir skref í rétta átt.

Megi Landsneti ganga allt í haginn með skyndimarkaðinn!

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum