Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. febrúar 2008 MatvælaráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Aðalfundur Samorku

Ágætu tilheyrendur

Ég vil byrja á því að þakka ykkur í Samorku það góða samstarf sem við höfum átt á þeim skamma ferli sem ég hef verið iðnaðar- og orkuráðherra. Mér hefur þótt gott að vinna með ykkur, okkar samskipti hafa öll verið ærleg og uppi á borðinu, og hafa stundum minnt mig á sjómennskuár mín, þar sem menn töluðu stundum með tveimur hrútshornum, en náðu alltaf saman.

Orkugeirinn á miklu meiri þátt í velferð og hagsæld íslensks samfélags, heldur en fólk gerir sér almennt grein fyrir, og stundum finnst mér jafnvel að þið sjálf skynjið ekki til fulls, hversu gríðarlega mikilvægt framlag ykkar, og ykkar fyrirtækja, hefur verið til okkar samfélags. Staðreyndin er hins vegar sú, að það er vegna þeirra, og vegna ykkar, að íslenskt samfélag er einstakt – og auðugt. Það er fyrst og fremst tvennt sem hefur á síðustu hundrað árum brotið okkur leiðina frá fátækt til bjargálna: nýting auðlinda í hafinu og nýting auðlinda í fallvötnum og jörðu.

Í dag eru tímamót. Við fögnum því að á þessu ári eru hundrað ár liðin frá því að hitaveita var lögð í bæjarhús á Íslandi. Við, almennir Íslendingar, erum svo vön orðin þeim einstöku gæðum, sem felast í því að eiga frábær fyrirtæki sem draga vatn úr jörðu, og hita upp híbýli okkar, lýsa þau líka upp með krafti jarðarinnar, að við skynjum ekki hversu einstakt og merkilegt fyrirbæri hin íslenska hitaveita er – á heimsvísu. Þessvegna skynja kanski ekki allir hvað þetta eru mikil tímamót. Þau eru það hins vegar. Og ég vil á þessum hundrað ára áfanga óska ykkur innilega til hamingju, og færa ykkur árnaðaróskir frá ríkisstjórn Íslands. Jónas Svafár skáld talaði um hlutabréf í sólarlaginu. Þið, og þeir sem á undan ykkur runnu, eiga svo sannarlega hlutabréf í þeirri sólarupprás sem hefur glætt íslenskt samfélag síðustu öldina og gert það að einstöku landi, einsog kom nú síðast fram í úttekt Sameinuðu þjóðanna, þar sem Ísland var efst á lista. Þakka ykkur, ykkar framsýni, útsjónarsemi og elju í tíu áratugi.

Allt á sér sögu, og stundum slitrótta, en oft miklu lengri en við teljum í fljótu bragði. Við erum hér að fagna hundrað ára áfanga, en gætum allt eins verið að klappa fyrir því, að um þessar mundir eru líklega 800 ár frá því fyrsta hitaveitan var lögð, svo sannað sé. Ísland byggðist og hélst í byggð í árdögum landnáms af því að saman fór útrásarþróttur landnema úr austri, og langvinnt hlýskeið. Á þeim tíma sigldu menn reglulega milli landa, og fóru víða. Í Íslendingasögunum er siglingaleiðum til Írlands, til Noregs – að ógleymdu Grænlandi – lýst rækilega. Ungir menn sigldu utan, og komu heim með nýja, ómetanlega reynslu, alveg einsog ungt fólk gerir í dag. Hugsanlega komust þeir einhvers staðar í tæri við jarðvarmaveitur, sem vissulega voru til í Evrópu á miðöldum.

Einn af þeim sem sigldu utan var fyrsti læknir Íslendinga, Hrafn Sveinbjarnarson. Hann fór um Evrópu, hugsanlega kom hann til bæjarins Chaudes-Aigues í Frakklandi þar sem jarðvarmaveita var frá miðöldum. Hver veit? Hitt vitum við að hann var vinur Snorra Sturlusonar, og eftir ferðir sínar um Evrópu kveikti Hrafn Sveinbjarnarson þannig í Snorra Sturlusyni að hann lét leggja leiðslu úr hvernum Skriflu til bæjarhúsa í Reykholti. Gufan úr Skriflu var líklega bæði notuð til hitunar og baða. Sérfræðingur minn í sögu Snorra, Óskar Guðmundsson fræðimaður sem nú situr við og skrifar sögu hans, segir að þetta muni hafa verið um 1220, en það gæti hafa verið fyrr. Af því að Snorri kom í Reykholt 1207-1208 gætum við því allt eins verið hér að fagna 800 ára afmæli hitaveitu í landinu eins og 100 ára afmælinu sem Samorka heldur hátíðlegt í ár.

Gott samorkufólk!

Það hafa verið mikil umbrot í orkumálum á síðasta ári, og þau hafa leitt til ófyrirsjáanlegra tíðinda á vettvangi stjórnmálanna. Upp úr þeim spannst mikil umræða um hvernig best sé að skipa umhverfi orkumála með það fyrir augum að setja skýrari reglur, m.a. um eignarhald á auðlindum, skýr mörk samkeppnis- og sérleyfisþátta og skýrar tryggingar fyrir óskoruðum forgangi borgaranna að nauðþurftum einsog vatni og orku til að lýsa og hita sér og sínum, á réttlátu verði.

Meginatriðin í þeim viðhorfum sem ég hef sett fram opinberlega eru þrjú:

Í fyrsta lagi, að opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum, verði ekki heimilt að framselja með varanlegum hætti orkuauðlindir sínar. Þau geta hins vegar leigt þau fyrirtækjum sem framleiða og selja orku til langs tíma.

Í öðru lagi að greina að samkeppnis- og sérleyfisþættina í rekstri orkufyrirtækja.

Í þriðja lagi að tryggja að fyrirtæki sem stunda sérleyfisstarfsemi verði að meirihluta í opinberri eigu.

Hvað eignarhaldið varðar, þá hef ég ekki orðið var við beina andstöðu sveitarstjórna, eða orkufyrirtækja, gegn markmiðinu sem ég lýsti. Það eru ekki allir ánægðir með þetta, en ef ég til dæmis tek mitt sveitarfélag, Reykjavík, þá fæ ég ekki betur séð en að þeir þrír meirihlutar sem hafa setið í Ráðhúsinu á þessu kjörtímabili, hafi allir verið mjög eindregið á þeirri skoðun, að auðlindirnar eigi að vera í eigu sveitarfélagsins til frambúðar. Svipuð viðhorf, hugsanlega ekki jafn afdráttarlaus, hafa komið fram hjá sveitarfélögum suður með sjó, sem hafa yfir að ráða miklum orkulindum. Forsætisráðherra hefur tjáð sig með eindregnum hætti um þetta mál bæði á Alþingi, og í fjölmiðlum, og kvað til dæmis ákaflega skýrt að orði í viðtali í Viðskiptablaðinu 12. október sl.: "Við viljum ekki að auðlindirnar sjálfar verði einkavæddar", sagði ráðherrann. Svipuð viðhorf hafa komið fram hjá öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi.

Allur almenningur virðist jafnframt vera mjög skýrt á þessari sömu skoðun. Íslendingar vita, einsog þið vitið allra manna best, að græn, endurnýjanleg orka er að verða mjög eftirsóknarverð, og ég sem iðnaðarráðherra finn fyrir þeirri ásókn í hverri einustu viku, þegar ég tek á móti erlendum fyrirtækjum sem eru að kynna sér Ísland. Þess vegna skiptir það almenning miklu máli, að hann, og fulltrúar hans, hafi með þessum hætti fullt, varanlegt vald á auðlindinni til framtíðar. Gleymum því ekki, að einsog lögin eru í dag, þá er ekkert sem hindrar að orkuauðlindirnar séu seldar – ef vilji er til þess hjá sveitarfélagi. Sú staða getur komið upp, og hefur komið upp.

Staðreyndin er líka sú, svo vísað sé í mat Orkustofnunar, til dæmis um háhitalindirnar, að 88% þeirra eru í forsjá hins opinbera. Ég vil líka segja það alveg skýrt, að ég hef engan vilja til að ríkið ásælist þann hluta orkulindanna, hvort sem er um að ræða í vatnsföllum eða jörðu, sem er í einkaeigu í dag.

Í þessari umræðu, sem snýst um grundvallaratriði, er líka nauðsynlegt að árétta þá staðreynd, að ólíkt auðlindinni í hafinu, sem hefur byggst upp fyrir kraft einkaframtaksins, þá hefur nýting orkulindanna hér á landi að öllu leyti byggst upp með fjármagni og tæknilegri þekkingu innan hins opinbera, ríkisins og sveitarfélaganna.

Af þessari rökfærslu má sjá það mjög skýrt, að þessi stefna um eignarhaldið, sem er einbeitt af minni hálfu, felur því hvorki í sér frávik frá vilja almennings, stjórnmálamanna – né heldur gildandi fyrirkomulagi á eignarhaldinu. Stefna mín er einungis sú, að það breytist ekki með varanlegum hætti frá því sem nú er.

Hún rýrir hins vegar að engu leyti möguleika orkufyrirtækjanna til að nýta orkulindirnar, og ætti miklu fremur að auðvelda þeim það, því að sjálfsögðu er það hluti af þeirri stefnu, sem ég hef talað fyrir, að eigendur orkulindanna geti úthlutað rétti til að nýta þær til langs tíma. Þar er ósvarað nokkrum spurningum, sem ekki er hægt að svara nema í samráði við ykkur, svo sem um forgang þeirra, sem fyrir eru á svæðunum. Af því ég tala hreint út, en ekki á milli línanna, þá get ég trúað ykkur fyrir því, að ég tel að í þessu fyrirkomulagi felist líka leið til lausnar á ákveðnum vanda sem hefur komið upp á Suðurnesjum, en það verður auðvitað ekki mitt að skipa þeim málum til lykta – en menn ættu að skoða þessi orð mín vel.

Ég vil líka árétta það sérstaklega hér að það er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar að greiða fyrir því "að íslensk þekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækjanna". Ég tel að þar eigum við Íslendingar brýnt erindi við heiminn og getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar til þess að bæta loftslagið og kjör alþýðu manna í mörgum löndum sem eru að brjótast út úr þeirri gíslingu sem orkufátækt hefur búið þeim. Ríkisstjórnin vill leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins til þessara verka og það er ekki ætlunin að leggja stein í götu þess, nema síður sé.

Í raforkulögunum sem sett voru fyrir fimm árum var kveðið á um fjárhagslegan aðskilnað milli orkufyrirtækja í flutningi og dreifingu annars vegar og sölu og vinnslu hins vegar. Ég er þeirrar skoðunar að ganga eigi lengra í þessum efnum og gera kröfu um þessir þættir séu í aðskildum fyrirtækjum. En vel að merkja þá er ég ekki að setja fram hugmyndir um eigendaaðskilnað og mér finnst einnig eðlilegt að um verði að ræða einhverskonar veltumörk þannig að lítil fyrirtæki verði undanskilin í þessum efnum.

Raforkulögin frá 2003 átti að endurskoða fyrir 31. desember 2010. Ég tel rétt að huga að skipun endurskoðunarnefndar hið fyrsta og stefna að því að ljúka starfinu fyrr en lögin segja til um. Það er meðal annars nauðsynlegt að endurskoða ákvæði um gjaldskrár fyrir flutning og dreifingu, enda virðast þau í ýmsum tilvikum ekki hvetja til hagræðingar og hagkvæms reksturs.

Í ályktun ykkar aðalfundar nefnið þið drátt á styrkveitingum til nýrra hitaveitna. Ríkissjóður hefur frá árinu 1999 styrkt lagningu nýrra hitaveitna á köldum svæðum með eingreiðslum og hefur rúmlega 500 milljónum króna verði varið til þessa. Fjárheimildir til verkefnisins hafa hins vegar ekki dugað og hefur orðið að grípa til þess ráðs að dreifa greiðslum yfir fleiri fjárlagaár. Í lok síðasta árs var svo komið að rúmlega 200 milljónir króna vantaði til að gera upp allar þær styrkumsóknir sem borist höfðu. Í fjáraukalögum fyrir árið 2007 fengust 55 milljónir króna til viðbótar við fjárheimildir þess árs til að greiða upp hluta af útistandandi fjárhæð. Ég hef unnið að því að fá rýmri fjárheimildir svo unnt sé að greiða út alla styrki til verkefna sem þegar er lokið eða er verið að ljúka. Við sjáum hvað setur í þessu efni.

Á næstu dögum mun Orkusjóður auglýsa eftir umsóknum um styrki í sérstakt jarðhitaleitarátak, sem ákveðið hefur verið að hleypa af stokkunum í tengslum við mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Á þessu ári verður varið 100 milljónum króna til verkefnsins en reiknað er með að 50 milljónum króna verði einnig veitt til verkefnisins árið 2009. Nú er svo komið að um 90% af orkuþörf vegna húshitunnar er mætt með jarðvarma en það er enn von um góðan og nýtanlegan jarðhita á nokkrum stöðum.

 

Í september á síðasta ári lagði iðnaðarráðuneytið fram áætlun um einföldun þeirra málaflokka sem undir það heyra. Þar er um að ræða álitlegan lista af verkefnum sem munu létta okkur lífið þegar þau hafa verið leyst af hendi. Einnig er unnið að því að færa stjórnsýsluverkefni frá ráðuneyti til Orkustofnunar. Við slíkt myndi umsagnaraðilum fækka og samskipti yrðu milliliðalaus, en það ætti að einfalda umsóknar- og afgreiðsluferil leyfa.

Í vetur hafa spunnist athyglisverðar umræður á Alþingi í kringum fyrirspurnir um flutningskerfi Landsnets. Þar hefur margt borið á góma svo sem sá möguleiki að auka burðargetu byggðalínunnar sem gæti skilað okkur jafngildi einnar virkjunnar í betri nýtingu orkukerfisins. Ég tel að þetta gæti verið næsta stórverkefni okkar í orkumálum. Nú nýverið átti ég ágætan fund með Landsneti sem haldin var að frumkvæði fyrirtækisins og hann gæti orðið vísir að meiru.

Ráðuneytið hefur að undanförnu unnið að drögum að frumvarpi til laga um hitaveitur. Tímafrekast hefur reynst að gera nýja tillögu að fyrirkomulagi gjaldskráreftirlits er taki mið af ólíkum þörfum. Ég get sagt ykkur þau tíðindi að verið er að leggja lokahönd á lagatexta frumvarpsins. Tillagan verður send Samorku til umsagnar í næstu viku en stefnt er að því að leggja frumvarpið fram á yfirstandandi þingi.

Gott Samorkufólk!

Orkufyrirtæki okkar hafa

þekkingu, reynslu og burði til þess að takast á við verkefni á alþjóðavettvangi. Eftir því sem stórverkefnum fækkar á Íslandi er eðlilegt að þau líti til annarra átt en ég tel einnig að við berum ákveðnar siðferðilegar skyldur gagnvart umheiminum á þessu sviði:

Orkuþörf heimsins á næstu áratugum er af stjarnfræðilegri stærðargráðu meðal annars vegna þess að fjölmennustu þjóðir eins og Kína og Indland eru að iðnvæðast.

Í þróunarlöndum Afríku er hrópað á orku vegna þess að rafmagnið er forsenda þess að þjóðir geti brotist úr fátækt til bjargálna líkt og við Íslendingar.

Nýting jarðvarma og vatnsorku til raforkuframleiðslu getur verið meðal bestu kosta í því brýna úrlausnarefni að draga úr losun koltvísýrings.

Meginvandinn er sá að verið er að leysa raforkuþörf heimsins með gamalli tækni og ef fram fer sem horfir verða olía og kol áfram notuð að 80% við raforkuframleiðsluna. Í stað þess að halda áfram að þróa tæknina eftir olíukreppuna fyrir 30 árum hættu stóru orkufyrirtækin og öflugustu háskólarnir við hálfnað verk. Það er fyrst nú sem þróun nýrrar tækni hefur tekið sprett við stórhækkandi olíuverð og hitnun andrúmsloftsins. Það kapphlaup gæti tapast og því er gríðarlegur ávinningur af því að hafa tiltæka hreina og græna tækni, sem hefur að baki langa reynslu, og gæti svarað hluta af framtíðarþörfum heimsins. Vandinn er sá að vatnsorkan hefur verið töluð niður á alþjóðavettvangi um árabil m.a. vegna þess óorðs sem stórar stíflur og stórlón hafa fengið á sig. Alþjóðastofnanir, umhverfissamtök og sjálfur raforkiðnaðurinn eru þó að endurskoða afstöðu sína til vatnsaflsvirkjana um þessar mundir og það lofar góðu. Jarðhitinn er hins vegar ekki á blaði í raun. Sjálfur lít ég á það sem eitt af mínum höfuðverkefnum í iðnaðarráðuneytinu að boða fagnaðarerindi jarðvarmans hvar sem ég fæ því við komið. Ég hef einsett mér það ásamt fleiri góðum mönnum að koma jarðhitanum á kortið hjá alþjóðastofnunum og ríkisstjórnum. Þar sem rætt er um endurnýjanlega orkugjafa á alþjóðavettvangi hefur jarðhiti til þessa ekki verið hátt skrifaður, þótt hann geti skipt verulegu máli hjá mörgum þjóðum í Asíu, Afríku og Mið- og Suður-Ameríku.

Það þótti stórt skref fyrir mannkynið þegar Íslandsfarinn Neil Armstrong steig fyrstur manna fæti á tunglið árið 1969. Færri tóku eftir því að hið sama ár var byrjað að keyra 3ja Megawatta jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi á Íslandi. Það var okkar tunglganga. Síðan þá höfum við leyst ótrúlegustu þrautir í nýtingu jarðvarmans. Meðan aðrir svikust um að halda áfram þróun endurnýjanlegra orkugjafa þegar olíukreppan á áttunda áratugnum reyndist skammvinnari en ætlað var, þá boruðum við í eldfjöll, fengumst við saltblandaða gufu, leystum vandamál í sambandi við kísilúrfellingar, og komum auga á möguleikana til þess að margnýta gufuaflið.

Heita vatnið og raforkan á Íslandi eru enn stökkpallur til nýrrar þróunar. Það er spá mín að græna orkan eigi eftir að reynast okkar aðaltromp í ferðamannaiðnaðinum og Bláa lónið er þar aðeins forsmekkurinn. Við eigum eftir að margnýta heita vatnið á miklu fjölbreyttari hátt en við gerum okkur í hugarlund í dag og þar verður sjálfsagt ekki látið staðar numið við ræktun þörunga fyrir snyrtivörur, lífrænt eldsneyti og kolefnisbindingu með öðrum hætti.

Í upphafi talaði ég um hlutabréf í sólarupprás orkunýtingar á Íslandi og ég held að ég ljúki orðum mínum hér með því að fullyrða að það séu einu hlutabréfin sem ekki hafa fallið í verði og munu halda verðgildi sínu um ókomna tíð.

Þakka ykkur fyrir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum