Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. febrúar 2008 MatvælaráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Framsöguræða iðnaðarráðherra á Alþingi

Herra forseti.

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, þskj. nr. 688.

Efni frumvarpsins má skipta í fjóra þætti.

  • Í fyrsta lagi er lagt til að kveðið verði á um í lögum að opinberum aðilum sé að meginstefnu til óheimilt að framselja varanlega vatns- og jarðhitaréttindi.
  • Í öðru lagi er lagt til að samkeppnis- og sérleyfisþættir í rekstri orkufyrirtækja verði almennt reknir í aðskildum félögum.
  • Í þriðja lagi er lagt til að kveðið verði á um að sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækjanna verði í höndum fyrirtækja sem eru a.m.k. að 2/3 hlutum í eigu opinberra aðila.
  • Loks er í fjórða lagi lagt til að felld verði brott ýmis eldri lög á sviði orkumála sem ekki hafa lengur sjálfstætt gildi.

 
Frumvarpið er í formi bandorms þar sem lagðar eru til breytingar á gildandi lögum á sviði auðlinda- og orkumála sem fjalla um vatns- og jarðhitaréttinda og almennt rekstrarumhverfi orkufyrirtækja. Þau gildandi lög sem um ræðir á sviði auðlindamála eru vatnalög, nr. 15/1923, sem ná til yfirborðsvatns, og lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, sem ná til grunnvatns og jarðhita. Breyta þarf ákvæðum beggja laga svo breytingarnar nái til vatns- og jarðhitaréttinda. Auk þessa hefur Alþingi samþykkt vatnalög, nr. 20/2006, sem öðlast gildi 1. nóvember 2008. Fyrir gildistöku laganna mun nefnd, sem ætlað er að skoða samræmi nýrra vatnalaga við önnur þau lagaákvæði íslensks réttar sem vatn og vatnsréttindi varða, skila tillögum sínum. Í ljósi þröngra tímamarka er lagt til að sambærilegar breytingar verði gerðar á ákvæðum þessara laga. Þá eru lagðar til breytingar á tvennum lögum á orkusviði, annars vegar orkulögum, nr. 58/1967, og hins vegar raforkulögum, nr. 65/2003.

Áður en ég geri nánari grein fyrir efni frumvarpsins vil ég fara nokkrum almennum orðum um aðdraganda þess. Það hafa verið mikil umbrot í orkumálum á síðasta ári, en þau tengdust m.a. sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og vilja orkufyrirtækjanna til þátttöku í útrásarverkefnum. Í kjölfar þessa spannst mikil umræða um hvernig best sé að skipa umhverfi orkumála með það fyrir augum að setja skýrari reglur, m.a. um eignarhald á auðlindum, skýr mörk samkeppnis- og sérleyfisþátta og skýrar tryggingar fyrir óskoruðum forgangi borgaranna að nauðþurftum einsog vatni og orku.

Það er engum vafa undirorpið að skynsamleg nýting orkuauðlindanna hefur mikla efnahagslega þýðingu fyrir Ísland. Raforkukerfi landsins er ekki tengt orkukerfum annarra landa og því þarf að langmestu leyti að byggja á nýtingu innlendra orkugjafa fyrir almenna raforkunotendur og fyrirtækin í landinu.

Verðmæti og mikilvægi hreinna orkugjafa er stöðugt að aukast, ekki síst vegna lykilhlutverks þeirra í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland er í sérstöðu hvað varðar hátt hlutfall endurnýjanlegra orkulinda í orkuframleiðslu. Nýting þessara auðlinda hefur verið að tilstuðlan opinberra aðila og byggst hafa upp öflug fyrirtæki sem búa yfir mikilli þekkingu. Miklir þjóðhagslegir og samfélagslegir hagsmunir tengjast eignarhaldi og nýtingu orkuauðlinda landsins. Með skírskotun til þessa er eðlilegt að eignarhald á þessum auðlindum verði að mestu leyti áfram á hendi hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, enda tryggir það jafnræði til aðgangs að auðlindunum þegar til lengri tíma er litið.

Flest orkufyrirtæki landsins stunda bæði samkeppnisstarfsemi og starfsemi sem háð er sérleyfum. Fyrirtækjunum hefur frá gildistöku raforkulaga einungis verið skylt að halda þessum rekstri aðgreindum í bókhaldi. Þetta fyrirkomulag og breytingar á starfsemi orkufyrirtækjanna hafa leitt til áleitinna spurninga um það hvort rétt sé að blanda saman rekstri sem byggir á sérleyfum og samkeppnisrekstri.

Starfsemi dreifi- og hitaveitna gegnir mjög mikilvægu hlutverki varðandi skilyrði til búsetu og atvinnustarfsemi í landinu öllu. Ísland er fámennt og strjálbýlt, auk þess sem tenging þess við raforkukerfi annarra landa er efnahagslega útilokuð í fyrirsjáanlegri framtíð. Íslendingar líta á dreifikerfi raforku og hitaveitna meðal mikilvægustu innviða þjóðfélagsins. Því er mikilvægt að áfram verði tryggt opinbert eignarhald á þessari starfsemi.

Þessi mál eru hins vegar vandmeðfarin því ýmis þau réttindi sem hér um ræðir eru grundvallarréttindi sem varin eru af stjórnarskrá. Eins og rakið er í athugasemdum frumvarpsins var leitað ráðgjafar Eiríks Tómassonar, prófessors um þetta atriði.  Ákvæði þess fela að hans dómi í sér almenna takmörkun eignarréttar að meginstefnu, en ekki eignarnám. Slíka almenna takmörkun á eignarrétti verða þeir, sem fyrir henni verða, almennt að þola bótalaust. Í álitsgerðinni er einnig tekið sérstaklega til skoðunar, hvort það samrýmist fyrirmælum 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar að leggja bann við framsali sveitarfélaga á eignarréttindum í eigu þeirra sjálfra ellegar stofnana eða fyrirtækja þeirra. Um þetta segir m.a. að telja verði að þegar sveitarfélög eiga í hlut geti löggjafinn gengið lengra í þá átt en ella að setja skorður við eignarrétti, enda sé það gert með almennum hætti og fulls jafnræðis gætt gagnvart sveitarfélögunum. Eins og fram kemur í athugasemdum með fyrirliggjandi frumvarpi, er tilgangur takmörkunar á eignarráðum sveitarfélaga sá að tryggja til frambúðar aðgang íbúa sveitarfélaga og landsmanna allra að auðlindum í formi heits og kalds vatns og raforku. Hér er um að ræða takmarkaðar auðlindir sem allir þurfa að hafa aðgang að í nútímaþjóðfélagi eigi frumþörfum borgaranna að vera sinnt. Svo  sem rakið hefur verið að framan hefur löggjafinn af þessum sökum um langa hríð haft meiri eða minni afskipti af meðferð og ráðstöfun sveitarfélaganna á auðlindum af þessum toga. Í ljósi tilgangs takmarkana á eignarráðum, eðlis auðlindanna og afskipta löggjafans um langa hríð af meðferð og ráðstöfun sveitarfélaga á auðlindum  er það álit Eiríks að slík takmörkun brjóti ekki gegn ákvæðum stjórnarskrár þannig að það baki ríkinu bótaskyldu. Í þeirri niðrustöðu miðar hann við að takmörkunin feli aðeins í sér bann við að ráðstafa beinum eignarrétti að tilteknum auðlindum í eigu sveitarfélaganna á varanlegan hátt, án þess að þau séu svipt rétti til þess að leyfa afnot af auðlindunum til takmarkaðs tíma,

Í upphaflegum frumvarpsdrögum var gert ráð fyrir að bann við varanlegu framsali næði til allra orkufyrirtækja í meirihluta eigu opinberra aðila. Í álitsgerðinni er því fjallað um það hvernig fyrirhuguð skerðing víkur að einkaaðilum. Þar kemur fram að þegar litið er til sjónarmiðs um jafnræði og þeirrar staðreyndar að fyrirhuguð takmörkun á eignarrétti myndi væntanlega bitna einungis á einum einkaaðila í raun, leiki umtalsverður vafi á því hvort að það samrýmist ákvæðum stjórnarskrár að láta takmörkunina taka til fyrirtækja í meiri hluta eigu hins opinbera. Í ljósi þessa er í frumvarpinu lagt til að takmarkanir á heimildum til framsals umræddra eignarréttinda verði einungis látnar ná til fyrirtækja sem alfarið eru í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga.

Ég hef í vetur í ræðu og riti viðrað þau sjónarmið sem fram koma í frumvarpinu. Ég hef ekki orðið var við andstöðu sveitarstjórna eða orkufyrirtækja við þau sjónarmið. Bæði sveitarstjórnarmenn í Reykjavík og sveitarfélögum suður með sjó hafa lýst áþekkum sjónarmiðum. Svipuð viðhorf hafa komið fram hjá öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi.

Það er mat mitt að það sé víðtæk skoðun almennings í landinu að tryggja beri opinbert eignarhald orkuauðlindanna. Við vitum að græn, endurnýjanleg, orka er að verða mjög eftirsóknarverð. Þess vegna skiptir það þjóðina miklu máli að tryggt sé varanlegt vald á auðlindinni til framtíðar. Gleymum því ekki, að einsog lögin eru í dag, þá er ekkert sem hindrar að orkuauðlindirnar séu seldar – ef vilji er til þess hjá sveitarfélagi. Sú staða getur komið upp, og hefur komið upp.

Ég mun nú fjalla nánar um einstaka þætti frumvarpsins.


Framsal réttinda

Frumvarpið nær til vatns- og jarðhitaréttinda sem nú eru í opinberri eigu og kemur í veg fyrir varanlegt framsal þeirra. Rétt er að það komi skýrt fram að ætlunin er ekki að taka réttindi af nokkrum manni. Ég hef sagt það alveg skýrt af minni hálfu að ég hef engan vilja til að ríkið ásælist þann hluta orkulindanna, sem nú eru í einkaeigu.

Eðlilegt er að ríki geti framselt varanlega til sveitarfélaga og á sama hátt að sveitarfélög geti framselt til ríkis eða annarra sveitarfélöga þessi réttindi. Jafnframt er gert ráð fyrir að ríki og sveitarfélög geti framselt orkuauðlindir sínar til félaga sem sérstaklega er stofnuð til að fara með slík réttindi.

Stór hluti vatns- og jarðhitaréttinda, bæði nýttra og ónýttra, er í dag í eigu ríkis og sveitarfélaga eða fyrirtækja í þeirra eigu. Verði frumvarpið að lögum verður ríki og sveitarfélögum einungis heimilt að leigja út afnotarétt að þessum auðlindum. Slík leiga mun einungis takmarkast af þeim almennu reglum sem í gildi eru hverju sinni og því að hámarksleigutími réttindanna sé 65 ár í senn. Í frumvarpinu er þó einnig að finna leiðbeiningarreglur um þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við veitingu afnotaréttar. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á ákvæði til bráðabirgða um skipun nefndar til að fjalla um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins. Þar verður fjallað um atriði eins og leigugjald, leigutíma og hvaða aðgerða er þörf til að tryggja í senn sjálfbæra og hagkvæma nýtingu auðlindanna. Gert er ráð fyrir að forsætisráðherra skipi nefndina og að hún skili tillögum sínum fyrir 1. mars 2009. Jafnframt er vakin athygli á að samkvæmt frumvarpinu er forsætisráðherra falið að semja um endurgjald fyrir afnotarétt réttinda undir yfirráðum ríkisins. Þessi réttindi geta heyrt undir mismunandi ráðherra eftir því á hverju eignatilkall ríkisins byggist. Til að tryggja samræmi var talið réttast að einum ráðherra yrði falið að fara með þetta samningsumboð. Þykir nærtækast að forsætisráðherra verði falið þetta þar sem honum er þegar í þjóðlendulögum falið að semja um nýtingu þessara réttinda í þjóðlendum.

 
Aðskilnaður

Varðandi aðskilnaðarreglu frumvarpsins vil ég nefna að hún er m.a. í samræmi við ábendingar Samkeppniseftirlitsins sem hefur fjallað um að setja þurfi skýrari mörk milli sérleyfis- og samkeppnisrekstrar í starfsemi raforkufyrirtækja. Svipaðar ábendingar hafa komið frá ýmsum öðrum s.s. Samtökum iðnaðarins. Sum raforkufyrirtækjanna hafa þegar stigið skref í þessa átt og má í þessu sambandi benda á RARIK.

Til að koma til móts við sérstaka stöðu smærri orkufyrirtækja er lagt til að þessi regla nái einungis til þeirra orkufyrirtæki sem hafa árlegar rekstrartekjur umfram 2 milljarða króna.

Aðskilnaðarreglan felur í sér að fyrirtækjum í sérleyfisstarfsemi verður óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem þeim er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt leyfum og lögum þar að lútandi. Þá er og gert ráð fyrir að stjórnir slíkra fyrirtækja séu sjálfstæðar gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, flutning eða sölu raforku. Sambærilegar reglur gilda í dag um starfsemi og stjórn Landsnets. Ég vil leggja áherslu á að frumvarpið útilokar ekki að öll sérleyfisstarfsemi sé rekin í einu og sama fyrirtækinu.

Í tengslum við þetta er rétt að vekja athygli á 3. gr. frumvarpsins en í þeirri grein er gengið út frá því að samkeppnisfyrirtæki sé heimilt að starfrækja jarðvarmaorkuver sem bæði vinnur raforku og framleiðslu á heitu vatni til húshitunar. Til að tryggja hagsmuni hitaveitu í slíkum tilvikum er lagt til að kveðið verði á um skyldu jarðvarmaorkuversins til afhendingar á varmaorku. Í 41. gr. raforkulaga er nú þegar að finna ákvæði um slík orkuver og uppskiptingu kostnaðar milli raforku- og hitaveituþátta og er lagt til að það ákvæði verði lagt til grundvallar.

Í því skyni að gefa ráðrúm til að aðlagast þessu breytta fyrirkomulagi er lagt til að ákvæði er varða aðskilnað komi til framkvæmda 1. júlí 2009. Þannig ætti eigendum fyrirtækjanna og stjórnendum þeirra að gefast ráðrúm til að taka nauðsynlegar ákvarðanir um framtíðarfyrirkomulag og hrinda þeim í framkvæmd. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á fyrsta og öðru bráðabirgðaákvæði frumvarpsins. Til að auðvelda fyrirtækjum þessa framkvæmd er lagt til að þeim verði án leyfis heimilt að framselja leyfi til fyrirtækja sem stofnuð eru fram til 1. júlí 2009 og uppfylla ákvæði frumvarpsins um aðskilnað. Þá er lagt til að iðnaðarráðherra verði falið að beita sér fyrir endurskoðun á sérlögum um orkufyrirtæki þar sem m.a. verði skoðað hvort hægt sé að fella þau brott að hluta eða öllu leyti. Þetta verður að gera í samráði við þá sem fara með eignarhald í þessum fyrirtækjum. Þessari vinnu þarf að ljúka sem fyrst og heppilegast væri ef hægt væri að koma því svo fyrir að ekki þyrftu að gilda sérstök lög um hvert og eitt orkufyrirtæki eins og nú er.

 

Eignarhald sérleyfisstarfsemi

Í frumvarpinu er gerð tillaga um að í raforku- og orkulögum verði kveðið á um að að fyrirtæki sem stunda sérleyfisstarfsemi, þ.e. Landsnet, dreifiveitur og hitaveitur, verði a.m.k. að 2/3 hlutum í eigu ríkis, sveitarfélaga eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þessara aðila. Í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga er kveðið á um að sveitarstjórn sé heimilt að fela stofnun eða félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt þeim lögum. Ákvæðið er mjög í anda vatnsveitulaganna en þó eru gerð krafa um aukinn meirihluta. Er það gert til að tryggja að hinir opinberu eigendur fyrirtækjanna hafi á bak við sig þann meirihluta sem þarf til að taka allar meiriháttar ákvarðanir.

 
Brottfall laga

Í gildi eru ýmis eldri lög um heimildir ráðherra til að veita leyfi til að reisa og reka virkjanir. Þessi lög má rekja til þess tíma þegar Alþingi veitti virkjunarleyfi. Í mörgum tilvikum var þetta gert með þeim hætti að Alþingi framseldi ráðherra heimildina til að gefa út virkjunarleyfi vegna einstakra virkjana. Í raforkulögum er nú kveðið á um að iðnaðarráðherra veiti leyfi til að reisa og reka virkjanir. Umrædd lög hafa því ekki sjálfstætt gildi lengur og því er lagt til að þau verði felld brott.

 
Herra forseti.

Með frumvarpi þessu er lagt til að eignarhald orkuauðlinda verði áfram í opinberri eigu eins og verið hefur um leið og þannig er búið um hnúta að  möguleikar orkufyrirtækjanna til að nýta orkulindir okkar á ábyrgan hátt eru á engan hátt skertir.

 
Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnaðarnefndar og 2. umr.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum