Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. nóvember 2008 MatvælaráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Ferðamálaþing 2008

Það er ánægja, og forréttindi, að vera með ykkur hér í dag, og finna kraftinn, sem geislar af forkólfum ferðaþjónustunnar einsog jafnan áður. Ég leyfi mér alltaf að líta á ykkur sem helstu og bestu frumkvöðla í íslensku atvinnulífi.

Ég vil jafnframt nota þetta tækifæri til að óska Samtökum ferðaþjónustunnar innilega til hamingju með nýliðið tíu ára afmæli. Á ferli sínum hafa samtökin verið einstök lyftistöng fyrir greinina, úrræðagóð og árvökul, einsog stefnumótun samtakanna í Evrópumálum ber gott vitni um. Á stuttum ferli sem ferðamálaráðherra hef ég átt prýðilegt og jákvætt samstarf við forystu samtakanna. Fyrir það er ég þakklátur. Mér er enn minnisstæður fyrsti fundurinn sem ég átti með forystufólki úr ferðaþjónustunni, meðan ég var enn að læra til ferðamálaráðherra, en það má segja að vegarnestið sem ég fékk á þeim fundi hafi mótað allar ákvarðanir mínar og stefnu í málaflokknum síðan. 

Ferðaþjónustan hefur staðið sig geysilega vel á liðnum árum, og það er óhætt að segja, að íslenskt samfélag hefur aldrei þurft á kröftum ykkar, frumkvæði og áræði að halda einsog nú. 

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að við Íslendingar höfum lent í alvarlegum erfiðleikum, og fyrir höndum er verulegt átak í að byggja upp samfélagið, og ná aftur fyrri styrk.  

Ég get ekki glatt ykkur með því að það verði létt verk. Sjálfur hef ég framundir það síðasta meira og minna verið upptekinn við það sem líklega mætti helst kalla rústabjörgun, og verð að gera þá játningu að ferðamálin hafa ekki verið aðalviðfangsefni mitt síðustu sex vikurnar.  Enda hefur skegg mitt gránað, en mín gamla bjartsýni stendur þó óhögguð. Á bjartsýni geta menn lengi lifað, einsog gamalreyndir frumkvöðlar í ferðaþjónustu geta vitnað um.  

Nú, þegar fyrstu og hugsanlega erfiðustu lotunni er lokið, byrjar uppbygging hins nýja Íslands. 

Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur, og þarf, að ráðast í til að skýla sem flestum, bæði fólki og fyrirtækjum fyrir eftirskjálftum þeirra efnahagslegu jarðhræringa sem skóku Ísland, eru þegar hafnar. Þar skiptir þrennt í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar mestu: 

Í fyrsta lagi sú ákvörðun að fá liðstyrk Alþjóðagjaldeyrisjóðsins til að koma gjaldeyrisviðskiptum aftur í gang. Það tók blóð, svita og tár og erfiðar samningaviðræður að koma því í höfn – en það er í höfn. Innan skamms verður því unnið að því að vinda ofan af þeirri erfiðu gjaldeyriskreppu sem ríkir, og koma viðskiptum við umheiminn í lag. 

Í öðru lagi að grípa til margvíslegra aðgerða til að tryggja öryggi almennings, bæði með því að létta greiðslubyrði af húsnæðislánum, lækka dráttarvexti, og vitaskuld mörgum öðrum aðgerðum. Sérstakir tímar krefjast sérstakra aðstæðna, og ríkisstjórnin mun grípa til allra þeirra ráða sem hún þarf og getur til að tryggja að almenningi verði sem best borgið.  

Í þriðja lagi þarf að tryggja að bankarnir geti haldið atvinnulífinu gangandi og liðsinnt fyrirtækjum yfir þyngsta hjallann. Þar tel ég einboðið að mest áhersla verði á þær greinar sem skapa okkur það, sem mest þörf er á núna, gjaldeyri. Ég legg að sjálfsögðu sem ferðamálaráðherra mikla áherslu á fyrirtæki í ferðaþjónustu. Í því ferðalagi verður hún að vera í öndvegi ásamt öðrum atvinnugreinum sem skapa gjaldeyri. Þær eru einfaldlega mikilvægustu stoðir samfélagsins í dag. 

Þessu til viðbótar tel ég óhjákvæmilegt að Ísland taki nú óhikað stefnuna á inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evrunnar. Frá því ég ávarpaði ferðaþjónustuna síðast hefur það gerst, að algjör umskipti hafa orðið meðal þjóðarinnar um Evrópu, og sama gildir um flesta stjórnmálaflokkana líka.

Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er nú sammála því að Ísland sæki um fulla aðild að ESB og stefni að því að skipta krónunni út fyrir evru.

Ísland hefði að öllum líkindum ekki lent í núverandi hremmingum, ef landið hefði verið komið í Evrópusambandið, og í versta falli hefðu þá afleiðingarnar orðið miklu léttbærari.  

Ég minnist þess með sérstakri ánægju að á fyrsta fundinum sem ég mætti hjá SAF sem nýr ferðamálaráðherra  gekk þáverandi formaður samtakanna, Jón Karl Ólafsson, fast eftir því í sinni ræðu að ríkisstjórnin fjarlægði þann óstöðugleika og óöryggi sem fylgdi krónunni með því að taka upp nýja mynt með inngöngu í ESB. Nú tel ég að það sé landsýn í því máli.  

Ég segi hiklaust út frá hagsmunum bæði ferðaþjónustunnar og íslensku þjóðarinnar:

því fyrr – því betra.  

Við búum, Íslendingar, við þá gæfu að grunnþættirnir í atvinnulífi okkar eru sterkir. Við búum ekki aðeins að vel menntuðum mannauði, og frumkvöðlaþrótti sem rannsóknir sýna að er meiri en annarra þjóða.  Við eigum líka gjöful fiskimið, einstakar orkulindir, og við eigum náttúru og menningu, sem er grunnur ferðaþjónustunnar, sem er sú grein sem ég bind mestar vonir við sem vaxandi og öflugrar undirstöðu í atvinnulífi og útflutningi.  

Á þessum tímamótum sem nú eru, og með tilliti til þeirra væntinga sem gerðar eru til ferðaþjónustunnar, er rétt að skoða í hvaða stöðu hún er, og hvernig vægi hennar í samfélaginu hefur þróast – út frá hagstærðum. 

Nýlega voru ferðaþjónustureikningar Hagstofunnar birtir í fyrsta sinni. Við höfum satt að segja beðið lengi eftir þeim. Þar birtist vöxtur og velgengni ferðaþjónustunnar með einkar skýrum hætti. Niðurstöðurnar styðja mjög vel við þær staðhæfingar sem greinin hefur sjálf haldið fram – um að hlutur hennar í landsframleiðslu er mun meiri en hefur áður birst,  og að greinin er þjóðinni mun mikilvægari en fyrri hagskýrslur hafa sýnt. 

Frá árinu 2000 fjölgaði ferðamönnum til Íslands úr 303 þúsundum upp í samtals 485 þúsund á síðasta ári, 2007. Vöxturinn er því 60% á þessu árabili. Sömuleiðis hefur verið stöðugur vöxtur í fjölda gistinátta erlendra ferðamanna á þessu tímabili, eða 51% frá árinu 2000. 

Góðu fréttirnar eru einnig þær, að með svo hárri gengisvísitölu einsog núna skapast gríðarleg tækifæri hjá íslenskri ferðaþjónustu. Helsta umkvörtunarefni ferðamanna einsog þau hafa birst í skoðanakönnunum Ferðamálastofu  hefur einkum verið hátt verð á þjónustu hér á landi. Nú er Ísland allt í einu orðið ódýrt land, erlendir ferðamenn munu sjá sér mikinn hag í að koma hingað, og Íslendingar sjálfir munu ferðast minna út fyrir landsteinana og meira um sitt eigið land. 

Samkvæmt ferðaþjónusturreikningum Hagstofunnar námu heildarkaup á ferðaþjónustu innanlands árið 2006 tæplega 135 milljörðum króna. Það svarar til 11,5% af landsframleiðslu. 

Álver og stóriðja hafa verið fyrirferðarmikil í umræðunni síðasta áratuginn, og það er þessvegna fróðlegt að bera saman framlag ferðaþjónustunnar til landsframleiðslu miðað við áliðnaðinn. Þar kemur fram, svart á hvítu, að á tímabilinu 2000-2006 hefur framlag ferðaþjónustu til landsframleiðslunnar verið tvöfalt meiri en hlutur alls áliðnaðarins. 

Þetta eru fréttir, ekki síst fyrir þá, sem halda að öll vandamál dagsins séu leyst með nýjum álverum. Fyrir mig, sem ferðamálaráðherra, sem hef tekið mér sverð og skjöld í hönd til að berjast fyrir hagsmunum greinarinnar, eru þessar tölur ákaflega mikilvægt vopn. 

Greinin þarf á tölulegum staðreyndum af þessu tagi um eigið mikilvægi að halda, og ég hef því ákveðið að beita mér fyrir því að gerð ferðaþjónustureikninga verði óslitin héðan í frá og að þeir verði þróaðir í eins gott horf og best gerist í heiminum. 

Ég nefndi áðan að þeir þrír atvinnuvegir sem við verðum að reiða okkur á til að afla gjaldeyris fyrir þjóðarbúið á næstunni eru sjávarútvegur, áliðnaður og ferðaþjónusta.  

Í Hagstofureikningunum nýju kemur glöggt fram hversu mikilvæg okkar atvinnugrein er þjóðinni um sköpun gjaldeyris, Á síðasta ári, 2007, aflaði hún 56 milljarða í beinum gjaldeyri, og var fast að því hálfdrættingur á við sjávarútveg, mikilvægustu útflutningsgrein okkar frá upphafi. 

Svo við höldum okkur við áliðnaðinn, þá kemur einnig fram að ferðaþjónustan hefur fram á allra síðustu ár aflað meiri gjaldeyris en áliðnaðurinn, þar til á síðustu misserum að álið hefur sigið framúr með tilkomu Fjarðaáls.  

Hvernig sem á það er litið er ljóst að ferðaþjónustan er og verður á næstu árum meðal þriggja helstu burðaratvinnuvega þjóðarinnar. Staða greinarinnar er góð og hin hliðin á lækkun krónunnar birtist auðvitað í auknum tekjum hennar. Ef vel tekst til hjá okkur öllum þá geri ég fastlega ráð fyrir því að hagur greinarinnar muni enn vænkast á komandi misserum. Ég sé það líka sjálfur sem yfirmaður Byggðastofnunar, þar sem tæpur þriðjungur allra lána er nú til ferðaþjónustu, að greininni  hefur gengið vel að standa í skilum við stofnunina. 

Það sem snýr að mér sem ferðamálaráðherra er að búa greininni umhverfi þar sem hún fær notið sín, og vaxið og dafnað. Skoðum þá aðeins hvernig sá rammi sem henni er búinn af stjórnvöldum er að þróast, og hvernig útlitið er. 

Ferðamálaráð og Samtök ferðaþjónustunnar gáfu mér sex meginverkefni í heimanmund sem nýjum ferðamálaráðherra þegar greinin fluttist yfir í iðnaðarráðuneytið í upphafi árs. 

Þau voru eftirfarandi: 

Í fyrsta lagi, að freista þess að afla aukins fjár til markaðs- og kynningarmála á erlendri grund. Þegar ég tók við embættinu var greininni ekki skorinn víður stakkur. Forysta SAF mat það svo á þeim tíma, að á fjárlögum væru ekki ætlaðar nema 30 milljónir til þess verkefnis. Hvað þurfið þið? – spurði ég bláeygur. Svarið, var meðal annars var að finna í ályktunum, samtölum og niðurstöðum Svanhildarnefndarinnar um fjármögnun og fyrirkomulag ferðaþjónustu. Það lá á milli 300 – 500 milljóna króna. Ég er var um mig, lofa ekki upp í mína víðu ermi, en ég sagði á fyrsta fundinum sem ég sat með mínu ágæta ferðamálaráði, að ég myndi gera þetta að öðrum tveggja forgangsmála ráðuneytisins – hitt eru nýsköpun og sprotar – reyna að þrefalda upphæðina á fyrsta ári, og freista þess að í rammafjárlögum fyrir allt kjörtímabilið yrði fjárhæðin komin upp í 3-400 milljónir árið 2011. 

Næstefst á óskalista greinarinnar og ferðamálaráðs var að stokka upp fyrirkomulag markaðsmálanna erlendis, sem af hálfu opinberra aðila hefur byggst upp á þremur svæðisskrifstofum og aðgerðum á öðrum lykilmörkuðum, og umfram allt að koma á náinni samvinnu utanríkisþjónustunnar, Útflutningsráðs og ferðamálaráðuneytisins í kynningarmálum. 

Í þriðja lagi að sjá til þess að efla stórlega rannsóknir þágu ferðaþjónustunnar – sem á því sviði hefur verið sannkölluð hornreka.  

Í fjórða lagi að hrinda af stað átaki í gæða- og þróunarmálum greinarinnar, m.a. í samstarfi við aðra stofnun ráðuneytisins, Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þetta er þáttur sem við höfum átt í nokkrum erfiðleikum með og er algjör grundvöllur til að tryggja framtíð ferðaþjónustu á Íslandi.  

Í fimmta lagi að beita mér fyrir því að fjárveitingar fengjust til að styrkja annars vegar innviði – og líka til að vernda - fjölsótta ferðamannastaði og hins vegar til að byggja upp nýjar greinar innan ferðaþjónustu og ný svæði – í reynd til að skapa nýja segla í því skyni að auka jafnt aðdráttarafl landsins og einstakra svæða. 

Í sjötta lagi hefur verið lögð áhersla á að ráðuneytið beiti sér fyrir fjárveitingum til að koma starfsemi markaðsskrifstofanna á fastari grunn til framtíðar.

Á öllum þessum sviðum hefur náðst umtalsverður árangur. Öll eru þessi verkefni á fleygiferð um þessar mundir. 

Í fjáraukalögum og fjárlagafrumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi í haust er þannig fjármagn til markaðssóknar erlendis ekki þrefaldað einsog ég stefndi að á fyrsta ári mínu sem ferðamálaráðherra - heldur fimmfaldað. Það eykst úr 30 milljónum í 150 milljónir. Ég hef þar að auki – eftir kreppu -  lagt fram tillögur um enn meira fjármagn, í krafti þeirra röksemda að ferðaþjónustan er helsti útvegur okkar til að afla fljótfengins viðbótargjaldeyris og besta vopn okkar til þess að styrkja ímynd Íslands á alþjóðavettvangi. 

Ég get hins vegar sagt ykkur það að rammafjárlögin, sem átti að gera fyrir allt kjörtímabilið urðu aldrei fullgerð. Bankahrunið með öllum sínum þunga dundi yfir áður en þau voru fullgerð. Nú er þjóðin einsog allir vita í mestu kreppu lýðveldistímans og bullandi niðurskurður blasir við á flestum sviðum. Framtíðarhorfurnar varðandi markaðspeninga gætu því virst í uppnámi – en saman höfum við ráð undir hverju rifi - og um rifin og horfurnar fjalla ég í lok þessa spjalls.  

Hvað varðar endurskipulagningu og uppstokkun markaðsmála erlendis þá eru viðræður við utanríkisráðuneytið á góðum skriði. Þegar þeim viðræðum er lokið, vonandi fyrir árslok, mun ég leggja fram tillögur að stórauknu samstarfi ráðuneytanna og Útflutningsráðs í markaðs- og kynningarstarfi erlendis. Ég og utanríkisráðherrann höfum fullan hug á að endurskipleggja starfið þannig að sérhvert sendiráð verði í reynd markaðsskrifstofa fyrir Ísland. Þau eru 17 í dag, og það ætti að muna um þann liðsauka. 

Jafnframt þarf að leiða til lykta hið fyrsta þær hugmyndir sem hafa verið uppi um samræmingu kynningarstarfs allra þeirra sem að því koma hérlendis, og hafa verið settar fram undir hattinum Promote Iceland.  

Óskum um fjármagn til þróunarverkefna í ferðaþjónustu á landsbyggðinni hef ég mætt með því að ákveða að veita 100 milljónum  króna af byggðafé til þeirra verka á næsta ári.  Ferðamálastofa vinnur að þessu máli í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þar er um að ræða styrki til þróunarverkefna í Menningartengdri ferðaþjónustu, Þjónustuþróun sem leið til bættrar arðsemi og Matargerð úr héraði. 

Sjálfur hef ég svo haft sérstakan áhuga á því að stórefla rannsóknir í þágu ferðaþjónustu. Í því efni hefur greinin nánast verið svelt, og er fjarri því að njóta jafnræðis við aðrar greinar, sem flestar hafa öflug rannsóknarsetur í sinni þágu. Ég hef tekið þrjár ákvarðanir sem munu skipta greinina miklu máli um þetta: 

Í fyrsta lagi hef ég ákveðið að setja á fót Rannsóknar- og þróunarsetur í ferðamálum í samvinnu við Háskólann á Hólum. Til þess þarf lagabreytingu, og þetta er vitaskuld sagt með fyrirvara um samþykki Alþingis. Ráðuneytið mun leggja til fjóra starfsmenn til Hólasetursins, og þar að auki er unnið ötullega að því að sameina krafta þess og Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála sem hefur þegar yfir tveimur starfsmönnum að ráða. 

Í öðru lagi hef ég orðið við óskum ferðaþjónustunnar um að breyta reglum Tækniþróunarsjóðs þannig að hann geti veitt fjármunum til þróunarverkefna í ferðaþjónustu.  

Í þriðja lagi hef ég sem ráðherra beitt mér fyrir því að fjármunum verði á næsta ári veitt til uppbyggingar fjögurra öndvegissetra. Þrjú þeirra byggja á markáætlunum sem verða auglýstar á vegum Tækniþróunarsjóðs og eitt þeirra verður á sviði ferðaþjónustu. Þarna er til dæmis kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu til þess að slá sér saman í stórverkefni.  

Ég bind því miklar vonir við að nýtt skeið í rannsóknum á sviði ferðamála sé að hefjast, og er sannfærður um að sá metnaður sem Hólaskóli hefur sýnt á þeim vettvangi verði mikil lyftistöng fyrir greinina í heild.

Ég get líka glatt ykkur með því að ráðuneytið hefur nú ákveðið að 100 milljónum af byggðaáætlun verði varið til styrkja innviði ferðamannastaða á næsta ári. Þessu fé verður fyrst og fremst varið til að bæta aðstöðu á fjölförnum  ferðamannastöðum, þar sem við þurfum stórátak á næstu árum, og hluta fjárins verður líka beint til móttöku farþega á skemmtiferðaskipum. Í framtíðinni þarf hins vegar fastan tekjustofn á fjárlögum til að standa straum af stöðugri uppbyggingu á ferðamannastöðum, - ekki síst til að þróa nýja.

Ríkisstjórnin samþykkti ennfremur tillögu mína um að í fjáraukalögum verði nýrri fjárveitingu að upphæð 80 milljónum króna varið til markaðs- og kynningarmála ferðaþjónustu  innanlands. Ég dreg enga dul á að minn vilji er að þessum 80 milljónum verði varið til að gera þjónustusamninga um markaðsskrifstofur bæði á landsbyggðinni og í þéttbýlinu.

Þessu til viðbótar er þegar búið á árinu að úthluta 160 milljónum króna til fjölmargra efnilegra sprota á sviði ferðaþjónustu á landsbyggðinni, í tengslum við mótvægisaðgerðir vegna þorskaflalægðar. 

Ég hef því á fyrsta ári mínu sem ferðamálaráðherra lagt mig í framkróka um að verða við óskum greinarinnar. Ég hef rakið hér margvíslegar breytingar, sem allar eiga uppruna sinn í þeim meginverkefnum, sem þið lögðuð fyrir mig í upphafi þessa árs – og lúta allar að því að bæta verulega umhverfi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar. Þessar breytingar, sem eru á sviði nýrrar markaðssóknar, uppstokkunar í kynningarmálum, rannsókna, þróunarverkefna, styrkja til sprota í ferðaþjónustu, og uppbyggingar á ferðamannastöðum fela í sér nýjar fjárveitingar sem leggja sig einhvers staðar á bilinu 750 – 1000 milljónir króna. 

Þetta er allt nýtt fjármagn. 

Þessu til viðbótar get ég þess einnig, að milli samgönguráðherra og mín hefur tekist feykilega gott samstarf. Minn góði samstarfsmaður Kristján Möller hefur góðan skilning á nauðsyn samgöngubóta í þágu ferðamála. Ég nefni í því sambandi tvennt: 

Hann féllst á að flýta lagningu þjóðvegar með Jökulsárgljúfri, sem kostar fast að milljarði. Sú vegalagning er hafin. Þarmeð opnast hinn langþráði Demantshringur úr Mývatnssveit niður að Húsavík sem mun gjörbylta möguleikum til ferðamennsku á þeim slóðum. Sömuleiðis er í gangi vegalagning yfir Hólmaheiði fyrir Melrakkasléttu sem opnar nýjan heimskautahring, þar sem ferðamenn geta ekið frá Ásbyrgi yfir Sléttu að Raufarhöfn, skoðað hið stórkostlega Heimskautagerði þar, sem Alþingi hefur ríkulega stutt, farið á Rauðanúp, skoðað einstakt fuglalíf Sléttunnar, og vitaskuld heimsótt dys hins fræga fornkappa Þorgeirs Hávarsson, þess sem hékk á hvönninni í Gerplu og Halldór Laxness gerði ódauðlegan í íslenskri menningu. Fleiri slík samvinnuverkefni milli ferðamála og Vegagerðar eru á döfinni sem of snemmt er að greina frá fyrr en dilkarnir eru reknir til réttar. 

Ég tel því að við séum á góðri leið. Ráðuneytið hefur sett ferðamálin í forgang meðal sinna margþættu málaflokka. Ég hef haft sérstaka ánægju af því að sjá hvernig ferðamálin hafa innan ráðuneytisins á stuttum tíma fléttast inn í samvinnu og starfsemi annarra þátta ráðuneytisins, ekki síst þann part þess sem lýtur að nýsköpun, sprotastarfsemi og byggðamálum.  

Við þurfum hins vegar að gera meira, og stefna hærra. Stjórnvöld og almenningur líta í vaxandi mæli til ferðaþjónustunnar sem mikilvægrar atvinnugreinar, sem skapar í senn þýðingarmikil störf, og mikilvægan gjaldeyri. Hvorutveggja hefur þjóðarbúið mikla þörf fyrir.   

Við þurfum því meira fjármagn til að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar. Við þurfum meira fjármagn til að sækja hingað fleiri ferðamenn. 

Ég er hins vegar sjóaður í stjórnmálum. Ég veit hversu gríðarlega erfitt verður að sækja nýtt fé á þessum erfiðu tímum. Tekjufall ríkisins á þessu og næstu árum vegna kreppunnar verður einstakt í sögunni. Halli á fjárlögum er líklegur til að verða miklu meiri en nokkru sinni hefur sést, eða 150-160 milljarðar. Það er nú þegar að hefjast bullandi niðurskurður þar sem meira að segja þungur ráðherra mun eiga fullt í fangi með að verja málaflokkinn. 

Í þessu efni þarf ég, góðir fundarmenn og félagar, að fá allan þann stuðning sem ég get frá ykkur. Á dagskrá minni í vetur er nefnilega enn eitt meginverkefnið, sem ég hef einsett mér að ráðast í. 

Verkefnið helgast af því að við höfum sameinast um tvennt: Í fyrsta lagi að hefja öfluga uppbyggingu og nýsköpun á ferðamannastöðum á næstu árum.    Í öðru lagi höfum við einsett okkur að laða eins marga ferðamenn til landsins og kostur er. Það kann í fyrstu sýn að virðast auðvelt í ljósi þess, að krónan hefur aldrei verið hagstæðari fyrir ferðaþjónustuna. Ísland er loksins komið í flokk ódýrra landa frá sjónarhóli ferðamannsins. Meira að segja þýskir ferðamenn eru farnir að kaupa sér bjór á Íslandi. Við vitum hins vegar að það kostar peninga að markaðssetja Ísland og þau glæsilegu tilboð sem þið hafið fram að reiða. Þá peninga þurfum við með einhverjum hætti að búa til – þrátt fyrir djúpa tímabundna efnahagslægð. 

Ég hef því fullan hug á að ná fram lögum á Alþingi sem marka þessu tvennu fastan tekjustofn. Tveir möguleikar eru til skoðunar í því efni. Í fyrsta lagi brottfaragjald, sem leggðist á alla farþega sem fara af landinu. Í öðru lagi að leggja sérstakt veltugjald, mjög lágt eða 0,05% á fyrirtæki til að standa straum af því tvennu sem einkum skortir fjármagn fyrir, uppbyggingu ferðamannastaða og kynningarmálin. Slíkt gjald er auðvelt að verja í ljósi þess, að á móti kemur að ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að lækka tekjuskatt á fyrirtæki um 3%. 

Fulltrúar ferðaþjónustunnar yrðu að sjálfsögðu í ráðum með hvernig tekjum af þessu gjaldi yrði varið, og ég lofa ykkur því að greinin getur haft að því alla þá aðkomu sem hún vill. En þið, sem atvinnugrein, þurfið að hjálpa mér í þessu máli. Það mun mæta andstöðu víða; á Alþingi, og hjá ýmsum sjálfskipuðum varðhundum úti í samfélaginu. Ef þið standið ekki með mér 100 prósent verður það jafnvel lífsreyndum ráðherra með ráð undir hverju rifi erfitt verk að koma þessu  brýna framfaramáli í kring. Ég þarf því allan ykkar stuðning, félagar góðir. 

Ávinningurinn fyrir ykkur yrði geysilega mikilvægur. Ef tekst að koma á gjaldi af þessu tagi, sem rynni allt til ferðaþjónustunnar, værum við komin með fastan tekjustofn upp á 4-500 milljónir á hverju ári til markaðssóknar og uppbyggingar innviðanna. Það er fyrir utan það sem ráðuneytið leggur greininni til, og ég hef rakið hér fyrr í ræðu minni. 

Takist þetta, þá mun sá hluti þessa tekjustofns, sem rennur til markaðssóknar og kynningarmála, ásamt tilleggi af fjárlögum, og þeim hundrað milljónum sem falla til vegna breytts skipulags markaðsmála Ferðamálastofu, gera okkur kleift að ná því marki sem Ferðamálaráð og greinin hefur sett, að árlega verði 4-500 milljónum varið til markaðssóknar erlendis. 

Þetta er lífsspursmál fyrir greinina, ekki síst með tilliti til þess hversu þröngt verður í búi ríkissjóðs meðan kreppan varir. Ég ætla mér að ná þessum breytingum í gegn hvað sem það kostar, og ég mun gera það, en leiðin yrði miklu léttari ef ég hefði óskoraðan stuðning ykkar. 

Við ætlum í sameiningu að byggja upp innviði greinarinnar, við ætlum að fjölga ferðamannastöðum, við ætlum að sækja fleiri ferðamenn til Íslands, við ætlum að bæta ímynd Íslands. 

Til að svo verði er algjörlega nauðsynlegt að við vinnum saman að þessari meginbreytingu. 

Góðir fundarmenn,  

Þið eruð vormenn Íslands. Ferðaþjónustan er sú grein sem við öll, þjóðin öll, horfir til sem einnar björtustu vonarinnar í atvinnulífi Íslendinga. Þið hafið áður sýnt að þið gerið meira en rísa undir væntingum. Í ykkur býr meira frumkvæði og þróttur en i nokkurri annarri atvinnugrein. Það er vissulega dökkt framundan, en við vitum það öll, ekki síst þeir sem lifa og starfa innan ferðaþjónustunnar, að eftir vetur kemur sumar – og ég er ákaflega bjartsýnn á að ef vel tekst til þá kemur sumarið í atvinnulífi Íslands miklu fyrr en flesta grunar. Í öllu mótlæti skapast óvænt tækifæri. Við, í ferðaþjónustunni, eigum að líta á þá stöðu sem nú er komin upp, þar sem fall krónunnar skapar okkur einstakt sóknarfæri, sem tækifæri.  

Við skulum vinna saman að því að nýta þau tækifæri, og gera ferðaþjónustuna að enn öflugri, sterkari og mikilvægari atvinnugrein en hún hefur nokkru sinni verið. 

Bestu þakkir fyrir samstarfið, og ég hlakka til þess áfram.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum