Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. september 2009 MatvælaráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Litróf landbúnaðarins - málþing í Norræna húsinu 14. september 2009

- Litróf landbúnaðarins -

Ávarp Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

á málþingi í Norræna húsinu 14. september 2009

 Ágæti ráðstefnustjóri, góðir málþingsfulltrúar.

 

Ég þakka að fá að taka þátt í því málþingi sem hér fer fram undir heitinu Litróf landbúnaðarins.  Sannarlega er heiti málþingsins bæði frumlegt og gott og litróf þessa stóra málaflokks fjölbreytt.

 

Í því erindi sem ég fékk var sú fullyrðing sett fram, að atvinnulíf í sveitum hefði breyst mikið á undanförnum árum og bent á nýsköpun til sveita bættar samgöngur sem auðvelda aðgengi bændafólks að vinnu utan heimilis. Undir þetta get ég heils hugar tekið en vissulega var ég nokkuð hugsi yfir síðasta atriðinu sem ég fékk, þ.e. að í vaxandi mæli sé viðurkennt að bændur hafi hlutverki að gegna við að sjá samfélaginu fyrir ýmsum almannagæðum.

 

Lengst af bjó hér fátæk bændaþjóð sem stríddi við skort á flestum tólum og tækjum, efnum og búnaði til sjós og lands sem þjóðin þarfnaðist.  Síðast en ekki síst var þjóðin lengst af undir stjórn erlendra aðila sem skeyttu oft lítið um hag hennar. Það var því varla von að um stórstígar framfarir væri að ræða. Fyrst og síðast varð þjóðin að treysta á sjálfa sig - og þá fyrst og fremst hvað fæðu varðaði, sem er og var forsenda hverrar lífveru.  Hafið gaf og gefur enn ríkulega af sér og þótt erfitt væri að sækja sjóinn var þangað sótt björg í bú.  Hin auðlindin var landið sem bændur nýttu til búskapar sem gaf af sér þær afurðir sem nauðsynlegar voru hverju heimili, ekki aðeins til matar heldur og til hvers kyns klæðnaðar og reynar flestu öðru.  Á þessum auðlindum lifði þjóðin og vegna þeirra lifði hún af einokun, fátækt, drepsóttir og hvers konar náttúruhamfarir og aðra óáran.  Fæðan og klæðin voru í raun almannagæðin sem nú eru nefnd svo.  Nú er sagt á málþingi:

 

Í sögunni Næturgalanum eftir H.C. Andersen er einmitt í dæmisögu fjallað um þessa hluti.  Keisarinn í Kína heyrði af söngfugli sem var með miklu fegurri söngrödd en allir fuglar heimsins.  Þetta var næturgalinn.  Hann lét finna slíkan fugl og hafið hann í búri hjá sér, hlustaði á hann daglega og dáði hann mjög.  Einn dag barst honum smíðaður næturgali, skreyttur með dýrindis gimsteinum og gulli og auðvitað skaraði hann fram úr hinum látlausa lifandi fugli og því var búr næturgalans fjarlægt og gleymdist.  En þessi skemmtan tók enda.  Upptrekkti fuglinn bilaði og missti sinn lit og þegar keisarinn veiktist og vildi fá sinn gamla fugl að nýju uppgötvaðist öllum til skelfingar að búrið var tómt og fuglinn horfinn.

 

Góðir málþingsfulltrúar. 

 

Ég lít svo á svo á að kraftmikill landbúnaður sé nauðsynlegur til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Einnig er landbúnaðurinn brýnt samfélags- og umhverfismál. Framtíð þessa atvinnuvegar á Íslandi veltur á því að víðtæk sátt ríki um starfsskilyrði landbúnaðarins og það fjölþætta hlutverk sem hann gegnir í landinu, þar á meðal að framleiða holl matvæli á viðráðanlegu verði, treysta búsetu í dreifbýli, viðhalda umhverfisgæðum, tryggja fæðu- og matvælaöryggi, styðja ferðaþjónustu og aðrar atvinnugreinar. Við eigum auðvitað eins og í öðrum greinum að stefna að sjálfbærni landbúnaðar á Íslandi.

Mín stefna er að fjölskyldubúið verði áfram sú framleiðslueining sem halda skal í heiðri og stuðningskerfi landbúnaðarins verði skipulagt út frá þeirri einingu. Fjölskyldubúin eru líka lykillinn að litrófi landbúnaðrins.

Eitt af mínum markiðum sem landbúnaðarráðherra er að auðvelda kynslóðaskipti í landbúnaði, m.a. með lánasjóði til handa nýliða í greininni til jarðakaupa, og hindra að verslun með bújarðir hnekki byggð í sveitum landsins.

Um nokkurt skeið hafa verið í gangi samningar um alþjóðaviðskipti með búvörur þar sem hinar ríkari þjóðir hafa lagt áherslu á óheft markasðviðskipti þar sem hagsmunir og yfirburðir hinna ríku ráð för, þótt ríkt sé mörgum að vilja keyra allt í sama var.

 

Hin alþjóðlega efnahagskreppa, veðurfarsógnir og loftlagsbreytingar og vaxandi hungurvofa víða í heiminum kallar á nýja og gjörbreytta sýn. Bara það eitt hversu brýnt er að draga úr notkun á orkugjöfum úr jörðu ætti að vera nægt tilefni til að endurskoða hina óheftu markaðshyggju í viðskiptum með matvörur.

 

Noregur hefur lagt þunga áherslu á eigin landbúnað og matvælaframleiðslu og vill halda ræktarlandi í hefð og dreifðri byggð í landinu. Einn af forystumönnum í norskri landbúnaðrpólitík, Áslaug Haga skrifaði fyrir skömmu: Skynsamleg hnattræn stefna um matvælaöflun  leiðir til kúvendingar á stefnu WTO.  Forsenda nýrrar stefnu  hlýtur að vera sú  að öll lönd hafi bæði rétt og skyldur til að brauðfæða þjóðir sínar.

 

Öllum ætti að vera ljóst að baráttan um ræktunarlandið harðnar. Efnuð fyritæki og ríki fjárfesta nú í ræktunarlandi og vatni. Olíuríkin við Persaflóa kaupa ræktunarland í fátækum þróunaríkjum. Kína hefur keypt um 2,8 milljónir hektara ræktarlands í Kongó. Suður Kórea hefur keypt upp 600 þús. hektara í Súdan. Úkraína, sem glímir við mikil efnahagsvandræði, var áður eitt af kornforðabúrum heimsins gerði þau mistök til að bæta efnahags sinn að selja 40 þús. hektara til bankans Morgan Stanley.  Hvað gerist svo ef alvarlegur matarskortur kemur upp eða verður viðvarnadi á sama tíma og fjárfestarnir hirða uppskeruna. Ísland er ekki undanskilið þessari heimsmynd. Ef sú staða kæmi upp að við þyrftum að nýta raforkuna í stað jarðefnaeldsneytis og við værum búin að ráðstafa henni allri í stóriðju. Við berum ábyrgð gagnvart okkar eigin þjóð og hún fer saman við hagsmuni og skyldur alþjóðasamfélagsins gangvart framtíðinni.

 

Þess vegna hef ég skipað starfshóp til að fara yfir íslensk ábúðar- og jarðarlög með þessa framtíðarhagsmuni í huga. Honum er ætlað að skilgreina fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnarinnar, gera tillögur um hvernig treysta megi með lögum vernd ræktunarlands og tryggja framtíðarlandnæði til matvælaframleiðslu og fjölþætts landbúnaðar og skapa jafnframt sem best skilyrði fyrir öfluga búsetu í hinum dreifðu byggðum.  Hópnum verður jafnframt ætlað að bera saman löggjöf í öðrum löndum en mun strangari ákvæði eru þar um búsetuskyldu á jörðum.

 

Hluti af sama meiði er krafan okkar um að viðhalda banni á  innflutningi á hráu og ófrosnu  kjöti og kjötvörum, ekki síst til að tryggja heilsu okkar sérstæða innlenda búfjárkyns og hollustu og öryggi innlendar matvælaframleiðslu.

 

Þá má nefna reglugerð sem kom til framkvæmda 1. september sl. um upprunamerkingu á öllu fersku grænmeti.  Framleiðsla og sala á vörum beint frá býli færir neytendur og framleiðendur nær hvor öðrum og eykur samkennd. Þessa þróun ber að efla.

 

Framþróun í kynbótum og ræktun korns hér á landi býður upp á mila möguleika. Ég minni á verðlaunabrauðið bakað úr byggi ræktuðu á Þorvaldseyri.  Við eigum að setja okkur markmið um hlut  heimaræktaðs korns í heildarneyslu okkar og notkun í fóðri dýra.

 

Ég tel það vera markmið sem geti verið í sjónmáli að öll mjólkurframleiðsla og kjötframleisla hér á landi sé framleidd á innlendu fóðri. Ég hef sett á laggirnar starfshópum frekari eflingu kornræktar og hvernig megi aðlaga svínabúskap hér á landi innlendri fóðurframleiðslu.

 

Ég fór á heimsmeistaramót íslenka hestsins í Sviss. Það var hrein upplifun að sjá þar saman kominn fjölda fóks frá mörgum þjóðlöndum til að njóta þar fegurð og glæsileika íslenska hestsins.  Ég minnist þess að sjá í skýrslum um ástæður ferðamanna að velja Ísland að 70 þús. manns komu það árið beinlínis vegna tengsla við íslenska hestinn .

 

Með þessu innleggi mínu vona ég að þeir sem hafa efast um gildi íslensks landbúnaðar - ef þeir þá hafa einhverjir verið - átti sig betur á fjölbreytileika hans og verðmæti fyrir þjóðina.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum