Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. nóvember 2009 DómsmálaráðuneytiðRagna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010

Ræða á aðalfundi Lögreglustjórafélags Íslands

 

Ræða á aðalfundi Lögreglustjórafélags Íslands 26. nóvember 2009

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra

-------------------

Fundarstjóri – ágætu lögreglustjórar

Ég vil þakka fyrir að fá að ávarpa þennan fund.  

Ég ætla að nota tækifærið og upplýsa hvað líði vinnu ráðuneytisins við skipulagsbreytingar á stofnunum lögreglustjóra og sýslumanna. Eins og við höfum öll orðið vör við þá er þetta tímafrek vinna og nauðsynlegt að vanda til verka því að endurskipulagning sem þessi hefur áhrif víða í samfélaginu, ekki síst á landsbyggðinni, og mörg sjónarmið sem líta þarf til og huga að áður en skrefin eru stigin í átt til sameiningar.

Eins og þið þekkið hefur starfshópur sem ég skipaði sl. sumar skilað skýrslu og drögum að frumvarpi til ráðuneytisins. Ég hef farið yfir niðurstöðurnar og tel að við séum með í höndunum mjög skynsamlegar tillögur um breytingar. Það er líka rétt að halda því til haga, að þessar tillögur ganga mjög í sömu átt og tillögur sem komið hafa fram áður og ég lít svo á að þetta sé í raun niðurstaða nær samfelldrar stefnumótunarvinnu sem hófst á árinu 2003 í tíð forvera míns. Ég tel að það sé til marks um að við séum á réttri leið hvað samhljómur er mikill á milli þessara niðurstaðna og þess sem áður hefur verið rætt og ritað um skipulagsmál lögreglunnar á undanförnum árum og misserum.

Ég hef þegar kynnt skýrsluna í ríkisstjórn, en vil taka það skýrt fram að þar var málið lagt fram til kynningar og umræðu. Þá hef ég haft tækifæri til að kynna efni skýrslunnar og mínar hugleiðingar í því sambandi fyrir lögreglumönnum á Vesturlandi og Vestfjörðum, auk þess sem ég heimsótti Vestmannaeyjar á dögunum en það var reyndar fyrir útgáfu skýrslunnar. Þá hefur Haukur Guðmundsson sótt fund lögreglumanna á Austfjörðum og kynnt þeim efni skýrslunnar.

Það er mikilsvert að fá tækifæri til að kynna efni tillagnanna sem fyrir liggja og heyra sjónarmið um þær. Ég hef mikinn áhuga á að hitta lögreglumenn á Suðurlandi og Norðurlandi til þess að ræða við þá einnig.

Af þessu er ljóst að vinnsla á frumvarpi til laga um breyting á skipulagi lögreglu er í fullum gangi. Auk þessara funda hef ég átt viðræður við ýmsa þá sem láta sig málefni lögreglu varða auk þess sem nánari úrvinnsla á einstökum tillögum starfshópsins fer fram í ráðuneytinu. Allt þetta miðar að því að frumvarpið verði vandað og vel undirbúið og að í því sé tekið á flestum þeim atriðum sem upp munu koma við umfjöllun Alþingis þegar þar að kemur, þótt aldrei verði fyrir öllu séð.

Þau atriði sem ég skoða einkum nú eru:  

Í fyrsta lagi. Tala lögregluembætta. Eins og þið munið hefur starfshópurinn lagt til að lögregluembættum verði fækkað úr 15 embættum í 6 embætti:

a. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.
b. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
c. Lögreglustjórinn á Vesturlandi.
d. Lögreglustjórinn á Norðurlandi.
e. Lögreglustjórinn á Austurlandi.
f. Lögreglustjórinn á Suðurlandi.

- Hér má minna á að í apríl 2008 skilaði nefnd, sem falið var að fylgjast með endurskipulagingu lögregluumdæma áfangaskýrslu um mat á þeirri nýskipan lögreglumála, sem kom til framkvæmda 1. janúar 2007, þegar umdæmum var fækkað úr 26 í 15. Í skýrslunni er lagt á ráðin um, að umdæmin stækki enn frekar, það er utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, og meðal annars vitnað til bréfs frá yfirlögregluþjónum á Norðurlandi dags. 18. október 2007, þar sem lagt er til, að lögreglulið á Norðurlandi verði sameinuð undir stjórn sérstaks lögreglustjóra. Meginröksemd yfirlögregluþjónanna er, að meiri „slagkraftur“ yrði í sameinuðu lögregluliði undir yfirstjórn eins lögreglustjóra, sem hefði einvörðungu það verkefni að sinna rekstri og hagsmunum þessa lögregluliðs. Starfshópurinn, sem skipaður var 15. júní 2009 tók mið af þessum tillögum og einnig viðbrögðum við minnisblaði um endurskoðun lögreglulaga, sem þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra sendi til umsagnar 4. júlí 2008. 

Skipting landsins í lögregluumdæmi ræðst af  hefðbundinni fjórðungaskiptingu.  Stjórnskipulega verði Lögregluskóli ríkisins sjöunda lögreglustjóraembættið.

 Ég hef fengið sjónarmið bæði frá lögreglumönnum og sveitarstjórnarmönnum á Vesturlandi og Vestfjörðum að þeir hafi efasemdir um að sameinast með þeim hætti sem lagt er til í greinargerðinni. Ég tel hér að vega verði og meta kosti og galla beggja kosta. Hér vegast á landfræðileg eða byggðaleg sjónarmið annars vegar og styrkur lögregluliðsins hins vegar.

 

Í öðru lagi. Mörk svæðanna verði lögfest í stað þess að þau verði ákveðin í reglugerð.  Aðsetur lögreglustjóra og lögreglustöðvar verði ákveðin með reglugerð að fenginni umsögn viðkomandi lögreglustjóra og sveitarstjórna.  

- Til að ekki ríki vafi um umdæmamörk er eðlilegt að ákveða þau með lögum. Á hinn bóginn skal ákveða aðsetur lögreglustjóra og lögreglustöðva með reglugerð. Í því efni verði tekið mið af niðurstöðum þess starfs, sem nú er unnið á vegum ríkisstjórnarinnar, við mótun stefnu um þjónustu á landsbyggðinni og framkvæmd hennar. Rannsóknardeild, ákærudeild og aðrir miðlægir þættir starfseminnar yrðu væntanlega til húsa á þeim stöðum.

 

Í þriðja lagi. Velta þarf fyrir sér hvort ráðherra skipi yfirmenn nýju lögregluembættanna að genginni auglýsingu. 1992 höfðu sýslumenn og dómarar forgang og þarf að velta fyrir sér hvort svipaður háttur verði hafður á.

- Hér verður að hafa í huga ítrekuð tilmæli umboðsmanns Alþingis um skipan í opinber embætti. Því verður að huga vel að því hvort ný embætti lögreglustjóra og stöður yfirmanna við hin sameinuðu embætti verði auglýst laus til umsóknar.

 

Í fjórða lagi vinnum við að því að móta tillögur um það hvenær lögin taki gildi og hvenær yfirmenn nýrra embætta taki formlega til starfa.

- Eðlilegt er, að skipað sé í stöður yfirmanna hinna nýju embætta nokkrum mánuðum, áður en þau taka formlega til starfa, svo að þeim gefist tími til að undirbúa hina nýju skipan með ótvíræðu og lögmætu umboði.

 

 Í fimmta lagi þarf að taka afstöðu til þess hvenær hin eiginlega skipulagslega sameining með nýju skipuriti taki gildi. Þá þarf að taka afstöðu til reglugerðar um starfsstig innan lögreglunnar, sem takið mið af fækkun yfirmanna.

- Hér er vísað til þess markmiðs með breytingunum, að starfsstigum lögreglu sé breytt í því skyni að fækka yfirmönnum. Í því skyni er þó ekki einungis óhjákvæmilegt að breyta reglugerð heldur verður einnig að huga að kjarasamningum lögreglumanna.

 

Í sjötta lagi. Löggæsluverkefni verði flutt frá embætti ríkislögreglustjóra til lögregluembætta eftir því sem hagkvæmt þykir, í samræmi við tillögur starfshópsins. Vinnsla einstakra löggæsluverkefni á landsvísu verði á hendi einstakra embætta.

- Með fækkun og stækkun lögregluumdæma er eðlilegt að bein löggæsluverkefni, sem hafa verið á verksviði ríkislögreglustjóra flytjist til lögreglustjóra. Embætti ríkislögreglustjóra gegni hlutverki stjórnsýslustofnunar löggæslumála, þannig að kæruleið sé tryggð í samræmi við stjórnsýslulög. Þá sinni embættið sérgreindum verkefnum á sviði öryggismála, það er alþjóðasamskiptum, greiningarverkefnum og yfirstjórn almannavarna. Embættið komi fram gagnvart ríkislögreglustjórum Norðurlanda og annarra ríkja auk Interpol. Auk þess beri embættið ábyrgð á samhæfingu starfa allra lögregluliða m. a. við framkvæmd  einstakra löggæsluverkefna, sem krefjast þátttöku lögreglumanna úr fleiri en einu umdæmi.

Til dæmis um verkefn á landsvísu, sem falin verði lögreglustjórum, má nefna yfirstjórn rannsókna,  sérsveit lögreglu, landamæraeftirlit, fjarskipti og fíkniefnarannsóknir.

 

Í sjöunda lagi. Við sameiningu embætta og tilfærslu verkefna verði unnið skipulega að hagræðingu.

 - Við þær aðstæður, sem nú eru í fjármálum ríkisins er eðlilegt, að sparnaður og hagræðing séu leiðarljós við þessar breytingar á skipan lögreglumála.

 

Í áttunda lagi. Leyfisveitingar sem nú eru í höndum lögreglustjóra verði færðar til embætta sýslumanna.

- Þessi breyting liggur í hlutarins eðli, þegar skilið er á milli lögreglustjórnar og þess verkefnis sýslumanna að vera fulltrúar stjórnsýslu framkvæmdavaldsins í héraði.

  

Markmið breytinganna er að:

1. Efla og þróa faglega hæfni löggæslunnar um land allt, auka öryggi lögreglumanna og tryggja að sérhvert lögregluembætti geti annast sem flesta þætti löggæslu.

2. Auðvelda samhæfingu, auka sveigjanleika, tryggja grunnþjónustu og sýnileika, þrátt fyrir samdrátt í fjárveitingum. 

3. Einfalda stjórnskipulag lögreglunnar.

4. Færa miðlæga löggæslu og stoðþjónustu til einstakra lögregluembætta.  

5. Draga úr yfirbyggingu löggæslunnar til hagsbóta fyrir sýnilega löggæslu.

 

Nokkrar leiðir til hagræðingar auk þeirra, sem að ofan eru nefndar:

  • Einfalda stjórnskipulag, draga úr stjórnunarkostnaði lögreglunnar og kostnaði við hverskyns rekstrarlega stoðþjónustu.
  •  Auka sérhæfingu og hæfni á ýmsum sérsviðum löggæslunnar og veita lögreglumönnum aukin tækifæri til að þróa og efla faglega færni.
  • Nýta krafta lögreglumanna með sveigjanlegum hætti á þeim sviðum sem mest þörf er á hverju sinni.
  • Bæta möguleika lögreglunnar til að ráða við stór og vandasöm verkefni.
  • Auka sveigjanleika í starfsskipulagi, t.d. með því að færa viðfangsefni sem ekki teljast eiginleg löggæsla frá lögreglumönnum til annarra starfshópa.
  • Bæta nýtingu húsnæðis og ýmiskonar tækjabúnaðar.

 

 

Næstu skref:

Dóms- og mannréttindaráðuneytið kynni þessar tillögur fyrir sveitarstjórnum, lögreglustjórum, sýslumönnum og lögreglumönnum.

Að lokinni kynningu verði teknar lokaákvarðanir um efni breytinga á lögreglulögum.  

Unnið verði að gerð fjárhagsramma um hin nýju embætti.

Verkefnisstjórn skipuð til að stjórna breytingaferlinu, samræma framkvæmd og styðja lögreglustjóra við að skipuleggja hin nýju embætti og koma þeim á laggirnar.

Á breytingaferlinu er óhjákvæmilegt að huga sérstaklega að rástöfunum vegna fækkunar yfirmanna og annarrar röskunar á högum margra starfsmanna lögreglunnar.

 

Um sýslumenn.

Það hefur áður komið fram að það gangi ekki að stofna ný sameinuð lögreglulið án þess að endurskipuleggja þá fyrirkomulag sýslumannsembættanna um leið. Það mál hefur nú verið sett í þann farveg að Þorleifur Pálsson, fyrrverandi sýslumaður, hefur tekið að sér að vinna tillögu til ráðuneytisins að breytingum á skipan sýslumannsembættanna í landinu. Tillögurnar skulu miða að því að ná fram verulegri hagræðingu í rekstri embættanna, m.a. til að mæta þeirri hagræðingarkröfu sem við blasir.

Tillögurnar munu verða í formi skýrslu þar sem farið er yfir helstu álitamál tengd þessum breytingum og afstaða tekin til þeirra. Jafnframt skal þar koma fram hve miklum sparnaði talið er unnt að ná fram með breytingunum og hvað þær kunni að kosta. Þá skal fylgja tillögunum lagafrumvarp með nauðsynlegum lagabreytingum en gert er ráð fyrir að þessar tillögur liggi fyrir í febrúar. Þorleifur mun ræða við alla sýslumenn vegna þessa verkefnis en auk þess hef ég óskað eftir tilnefningum sýslumannafélagsins og sambands íslenskra sveitarfélaga í ráðgjafarhóp sem mun verða Þorleifi til fulltingis við þetta verk. Þar mun jafnframt sitja Ásdís Ingibjargardóttir sem tengiliður við ráðuneytið.

Þetta þýðir eins og þið þekkið manna best að við erum komin á fullt í flatan niðurskurð í fjárhagsáætlunum 2010. Það lítur út fyrir að það gangi eftir sem við hugðum – að þessi niðurskurður muni koma mishart niður en víða mjög hart. Við sjáum dæmi um að fækka þurfi lögreglumönnum á vöktum og láta lögreglumenn fara þegar um næstu áramót.

Ég er á þeirri skoðun að við eigum að spara í yfirstjórn embættanna og bakvinnslu eins og unnt er í stað þess að láta niðurskurðinn bitna svona harkalega á sjálfri löggæslunni og kjarnastarfsemi sýslumannsembættanna. Ég held hins vegar að við þurfum að horfast í augu við að þetta er miklu meira langhlaup og minna spretthlaup en við hefðum kannski sjálf kosið. Ég hef að undanförnu átt fundi með lögreglumönnum og sveitarstjórnarmönnum af landsbyggðinni og vonast til að geta haldið því áfram á næstu vikum. Ég þykist hafa fundið fyrir því á þessum fundum að þegar þessi mál eru rædd af yfirvegun, reynast langflestir hafa mikinn skilning á því að við eigum ekki að taka stjórnunarkostnað út fyrir sviga þegar við skerum niður útgjöld til þessara stofnana. Skilaboð mín til ykkar á þessum fundi eru því þau, að þessi endurskipulagning er enn í fullum gangi þótt breytingar hafi orðið á tímaramma frá upphaflegum áætlunum.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum