Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. desember 2009 DómsmálaráðuneytiðRagna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010

Ávarp við brautskráningu úr Lögregluskóla ríkisins

 

Skólastjóri lögregluskólans og annað starfsfólk, ágætu lögreglunemar, góðir gestir.

Það er mér sérstök ánægja að ávarpa svo föngulegan hóp. Að ljúka námi og fá prófskírteini er alveg sérstök tilfinning og tímamót sem menn minnast alla ævi. Þetta er dýrmæt stund.

Ég óska hinum ungu lögreglumönnum innilega til hamingju með árangurinn. Ég hvet ykkur til að horfa björt fram á veginn og láta ekki á ykkur fá þótt nú séu erfiðari aðstæður í þjóðfélaginu en undanfarin ár. Við eigum því vissulega að venjast, að kynslóðirnar vinni sig upp og hafi það ávallt betra en kynslóðirnar á undan. Erfitt er að sætta sig við að það verði öfugt um stund; að við þurfum að sætta okkur við að stíga skref til baka. Við skulum nota þau skref til að efla okkur og herða.

Þið skulið muna, að eitt eigið þið nú, sem ekki verður frá ykkur tekið. Það er góð menntun. Eitt sinn var sagt að bókvitið verður ekki í askana látið. Nú efast fáir um að nám er til góðs, bæði einstaklingnum sem það stundar svo og samfélaginu í heild. Við erum mjög stolt af því námi, sem boðið er uppá í Lögregluskóla ríkisins. Þar er valinn maður í hverju rúmi og hefur skólinn á sér afar gott orð.

Það er líka bráðnauðsynlegt að lögreglumenn séu vel menntaðir. Tilveran verður æ flóknari. Ekki nóg með að glæpastarfsemi taki sífellt á sig nýja mynd, heldur eru gerðar æ ríkari kröfur til stjórnkerfisins alls. Mikilvægt er að lögreglan hafi góða þekkingu á þeim kröfum og vandi sig í hvívetna í sínum vandasömu störfum. Valdið, sem lögreglu er fengið lögum samkvæmt, er mikið og verður að umgangast það af fagmennsku. Lögreglan hér á landi nýtur afar mikils trausts, og tel ég það ótvíræða viðurkenningu á því að hún vinnur störf sín af fagmennsku og natni.

Það traust er ómetanlegt og gott veganesti fyrir okkur öll, sem í réttarvörslukerfinu vinnum. Við getum öll verið stolt af lögreglunni og getum öll notið þess að láta góðan árangur hennar lyfta okkur upp og vera okkur hvatning.

Ekki má gleyma því að lögreglan er ein af grunnstoðum okkar samfélags og almenn löggæsla er mjög mikilvæg. Í því ástandi sem skapaðist í upphafi ársins varð auðsýnilegt hvernig lögreglan myndaði hlíf um lýðræðislegt stjórnarfar. Þegar margir eiga um sárt að binda og reiði og heift kraumar er nauðsynlegt að halda uppi lögum og reglu. Á eitthvað verður fólk að geta treyst, og það treystir lögreglu. Það hlýtur því að vera mikið tilhlökkunarefni fyrir ykkur glæsilegu lögregluefni að slást í þann góða hóp, sem fyrir er.

Þið spyrjið ykkur örugglega, hverjir eru mínir atvinnumöguleikar? Það er mjög skiljanleg og nærtæk spurning. Okkur í ráðuneytinu er atvinnuástand meðal lögreglumanna ofarlega í huga. Við höfum áhyggjur af því að í niðurskurðinum þurfi að fækka störfum og hefur slík fækkun reyndar þegar átt sér stað. Ég fullvissa ykkur um, að við sjáum eftir hverjum einasta ungum lögreglumanni, sem þarf frá að hverfa og leitum því allra leiða til þess að standa vörð um starfsöryggi lögreglumanna þó að staðan sé þröng.

Við okkur blasir það úrlausnarefni, að nota minnkandi fjárheimildir eins vel og framast er unnt. Við höfum tekið þann pól í hæðina, að best sé að stækka stofnanaeiningar innan löggæslunnar til þess að gera þeim betur kleift að mæta sparnaðarkröfum. Við viljum standa vörð um hina almennu löggæslu á kostnað yfirbyggingar. Því hugum við nú að skipulagsbreytingum á lögreglunni í landinu til þess að vera betur í stakk búin til að takast á við niðurskurð komandi ára.

Flatur niðurskurður væri vissulega einfaldasta leiðin fyrir ráðuneytið. Við myndum einfaldlega fela lögreglustjórunum sjálfum að skera niður um 10% á næsta ári. Það kæmi þá í hlut einstakra forstöðumanna að ná fram sparnaði.

Slíkur flatur niðurskurður gæti vissulega gengið upp á einstökum stofnunum án þess að það bitnaði verulega á starfseminni þar sem embættin eru misjafnlega sett. Það er þó fyrirsjáanlegt að þetta myndi bitna harkalega á starfsemi þeirra flestra. Væntanlega yrðu það einkum lausráðnir starfsmenn sem yrðu fyrir uppsögnum, t.d. yngstu lögreglumennirnir.

Þetta finnst okkur í ráðuneytinu ekki ásættanleg nálgun. Niðurskurður sem byggist á slíkri aðferðarfræði sem ég hef lýst er einfaldlega ekki forsvaranlegur. Honum hefur þegar verið beitt þetta ár, honum verður því miður beitt árið 2010 að einhverju leyti, en sú niðurstaða er fjarri því að vera góð. Því erum við af fullum krafti að skoða stækkun og fækkun lögregluembætta, auk breytts hlutverks ríkislögreglustjóra. Grunnurinn að þeirri vinnu er greinargerð starfshóps, sem ég skipaði síðastliðið sumar, en það þekkið þið kannski. Ég vonast til að geta kynnt drög að frumvarpi um eða eftir áramót, sem yrði lagt fram á vorþingi 2010.

Undanfarin ár hafa verið útskrifaðir fleiri lögreglumenn en áður. Við skulum þó halda því til haga að það vantaði menntaða lögreglumenn. Við þurfum líka að muna að við eigum 700 manna lögreglulið og því ekki þarf að reikna lengi eða horfa langt fram í tímann til að sjá að það er þörf fyrir þá sem útskrifast úr Lögregluskólanum.

 

Ég hef lýst þeirri sýn minni að lögreglan þurfi fleiri almenna lögreglumenn og færri stjórnendur. Það er mikil viðkvæmni fyrir öllum breytingum, það er mannlegt og það skil ég fullvel, en þegar þessi glæsilegi hópur blasir við - er þá ekki einsýnt að við viljum frekar leggja áherslu á að njóta starfskrafta hans en að standa vörð um skipulag og stjórnendafjölda?

 

Ég óska ykkur öllum, aðstandendum og öllu starfsliði Lögregluskólans til hamingju með daginn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum