Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

9. júní 2010 MatvælaráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Sjómannadagurinn 6. júní 2010

Ræða Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

á sjómannadaginn, 6. júní 2010.

Góðir áheyrendur, sjómenn um allt land – Gleðilega hátíð

Föðurland vort hálft er hafið
helgað þúsund feðra dáð.
Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,
þar mun verða stríðið háð.

Um mitt síðasta ár skipaði ég starfshóp um endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins. Markmiðið var og er að ná fram alvöru breytingum á núverandi sjávarútvegsstefnu þannig að greininni verði sköpuð góð rekstrarskilyrði til framtíðar, fiskveiðar verði stundaðar með sjálfbærum hætti og sem víðtækust sátt náist um fiskveiðistjórnunina meðal þjóðarinnar. Ég treystir því að starfshópurinn ljúki vinnu sinni innan mjög
skamms tíma í samræmi við erindisbréf sitt. Það er ekki lengur eftir neinu að bíða.

Menn skulu samt hafa í huga að á þessu ári hafa orðið talsverðar breytingar. Nefni að með strandveiðunum hefur færst aukið líf í sjávarþorpin og fólkið fær aftur á tilfinninguna að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar, en ekki eign einhverra fárra. Aukið tillit er tekið til þarfa ferðaþjónustunnar vegna frístundaveiða. Skötuselsákvæðið fræga varð að lögum og aflaheimildirnar leigðar út með góðum árangri og ef til vill meira á
leiðinni. Þetta reyndist farsæl aðgerð og kemur í góðar þarfir bæði fyrir sjómenn og ríkissjóð. Reynslan af þessum og öðrum breytingum sem gerðar hafa verið á árinu, gefur gott veganesti inn í framtíðina.

Bætt nýting á þeim afla sem Íslendingar draga úr sjó er mjög mikilvæg. Það er mín eindregna skoðun að koma eigi með allan afla að landi. Þetta snýr ekki síst að siðlegri umgengni okkar við sjávarauðlindina og ég segi það bara beint út að hér eiga ekki að gilda neinar undantekningar. Nú þegar má sjá merki þess að þorskstofninn er að rétta úr kútnum og ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar hljóðar upp á 10.000 tonna aukningu í
þorskafla á næsta fiskveiðiári samkvæmt aflareglu. Vonandi hvetja þessi góðu tiðindin okkur áfram veginn í verndun og sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar.

Ég styð ekki inngöngu í ESB frekar en hagsmunasamtökin í sjávarútvegi og er sú skoðun mín öllum ljós og á henni hef ég staðið í ríkisstjórn og á Alþingi. Ég er þess fullviss að mikill meirihluti landsmanna er mér sammála og munu ekki breyta um skoðun þrátt fyrir boð um gull og græna skóga sem örugglega koma fram á næstunni ef ég met stöðuna rétt. Þau áform að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið við núverandi aðstæður eru ekki hyggileg og reyndar fráleit. Tek ég þar með eindregið undir áskoranir og varnaðarorð hagsmunasamtaka í sjávarúvegiog landbúnaði.

Grunnauðlindir þjóðarinnar skulu vera í almannaeigu hvort sem er til lands eða sjávar. Þannig farnast þjóðinni best. Um þessar auðlindir verður nú tekist, hver skuli fara með forsjá þeirra og yfirráð. Þar mun sitt sýnast
hverjum. Ég vill gera að mínum, lokaorð Guðmundar Böðvarssonar skálds í ljóðinu Fylgd.

þá er ei þörf að velja:
Þú mátt aldrei selja
það úr hendi þér.

Ég óska sjómönnum, fiskvinnslufólki og öðrum sem við íslenskan sjávarútveg starfa til hamingju með daginn. Megi blessun og farsæld fylgjastörfum ykkar um ókomin ár.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum