Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. október 2010 MatvælaráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda 14.– 15. október 2010

Formaður og ágætu fulltrúar á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda.  Til hamingju með 25 ára afmælið!

Mér er það enn á ný mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda.

Frá því fyrir ári síðan hefur ýmislegt á dagana drifið. Mörg mál hafa þokast í rétta átt en önnur síður eins og gengur.

Ef litið er á sjávarútveginn í heild sinni, held ég að megi fullyrða að staða hans verði að teljast ótrúlega góð miðað við aðstæður. Þá er ég að tala um aðstæður tveimur árum eftir bankahrun með þeim afleiðingum sem það hafði á fyrirtækin og það að aflaheimildir hafa verið í lágmarki. Ég segi aftur, að miðað við aðstæður þá verður þetta að teljast betra en hægt var að vona. Ég í það minnsta er hræddur um að ýmsir atvinnuvegir hér á landi myndu geta sætt sig við og vilja eiga sjálfir þá stöðu sem í sjávarútveginum.

Eftir sem áður er ennþá mikil ósamstaða í greininni. Ég held að það sé löngu tímabært að sjávarútvegurinn á Íslandi sameinist undir hatti einna samtaka. Það má kalla þau regnhlífarsamtök eða eitthvað annað, en það liggur hins vegar alveg fyrir að hinir sameiginlegu hagsmunir eru meiri en þeir sem skilja að. Það held ég að allir hljóti að sjá.

Verkefni ríkisstjórnarinnar

Í ræðu minni á aðalfundi ykkar í fyrra fór ég yfir þau verkefni í sjávarútvegi sem gert var ráð fyrir að unnið yrði að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Nú þegar að ég lít yfir farinn veg sé ég að talsvert hefur áunnist. Ætla ég að leyfa mér að fara yfir það sem kölluð voru brýnu verkefnin í þessu sambandi.

Mér var sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætlað að knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað.

Ástæða fyrir þessu markmiði var öllum ljós. Útflutningur á ferskum fiski hafði aukist mjög og var orðinn nær 13% af öllum botnfiski. Banakhrun og kreppa skollin á og verulegt atvinnuleysi staðreynd. Mjög voru skiptar skoðanir um þetta markmið stjórnvalda sem vonlegt var, því horfa má á þetta útfrá ýmsum hliðum. Árangurinn er hins vegar auðsær: Á nýliðnu fiskveiðiári var fluttur út óunninn ísaður fiskur á erlenda fiskmarkaði með veiðiskipum og gámum að verðmæti 13,2 milljarða króna miðað við 17,8 milljarða króna á fiskveiðiárinu 2008/2009. Verðmæti útflutts óunnins afla dróst því saman um rúm 26% á milli fiskveiðiára. Útflutt magn dróst einnig verulega saman, úr 58.978 tonnum á fiskveiðiárinu 2008/2009 niður í 38.201 tonn á nýliðnu fiskveiðiári, eða um rúm 35%. Ég ætla ekki að þakka mínum aðgerðum þetta einum og sér, því margir samverkandi þættir áttu hér hlut að máli og þá ekki síst að íslensk fiskvinnsla hefur bætt samkeppnishæfni sína og því ber að fagna. Við verðum samt að hafa í huga að fjölbreyttir markaðir er hagur allrar greinarinnar. Það m.a. gildir um markaðina á Humbersvæðinu.

Mér var síðan falið að takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu, draga úr möguleikum á hinni s.k. kínversku leið og endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára. Þetta allt hefur verið gert í breytingum sem gerðar voru á lögunum um stjórn fiskveiða sl. vetur. Nokkrar takmarkanir voru settar á framsal, veiðiskyldan var tvöfölduð og heimild til tilfærslu á milli ára var minnkuð um meira en helming svo eitthvað sé nefnt.

Tekið hefur verið á veiðiheimildum ýmiss konar ferðaþjónustubáta og vona ég að þau mál séu nú komin í viðunandi horf.

Ég tiltók í ræðu minni á síðasta aðalfundi ykkar að gripið yrði til sérstakra ráðstafana vegna skötusels. Benti ég á að veruleg breyting hefur orðið á útbreiðslu skötusels hér við land á þessum áratug. Veiðislóðin var í áratugi aðallega við mið- og austurhluta suðurstrandarinnar og á þeim grunni var upphafs aflahlutdeild úthlutað. Nú hefur þessi veiðislóð í vaxandi mæli færst á Vesturmið og jafnvel norður. Þetta hefur jafnframt þýtt að skötuselur hefur í vaxandi mæli komið fram sem meðafli við grásleppuveiðar á grunnsævi í Breiðafirði, Ísafjarðardjúpi og norður fyrir land. Þetta hefur svo þýtt að í óvenju miklum mæli veiða skötuselinn aðrir en þeir sem hafa yfir aflahlutdeild að ráða. Til ráðstafana var gripið og ákvæði samþykkt á Alþingi sem gefur ráðherra heimild til að bjóða til kaups allt að 2.000 tonn af skötusel á hverju ári í tvö ár á tilteknu verði. Þegar þessar tillögur komu fram nutu þær mjög víðtæks stuðnings í samfélaginu en hjá ýmsum öðrum var eins og heimurinn væri þeim að farast. Ég veit að þetta þekkið þið vel. Við létum það hins vegar engin áhrif hafa á okkur og á sl. fiskveiðiári voru boðin til kaups með þessum hætti 800 tonn og ekki veit ég betur en allt hafi gengið að óskum. Nú fyrir skömmu voru síðan aftur boðin til kaups 400 tonn. Það hefur hins vegar ekkert umtal hlotið og mér er næst að halda að nú líti menn á þetta sem sjálfsagðan hlut. Að minnsta kosti var það þannig að áður en ákvörðunin um 400 tonna söluna var tilkynnt bárust ráðuneytinu fjölda áskorana um að fara nú að koma út með meiri skötusel. Þær áskoranir komu bæði frá félagsmönnum ykkar og frá félagsmönnum í öðrum samtökum sem ég nefni ekki hér.

Annað brýnt verkefni snerist um vernd grunnslóðar og ég get sagt það við ykkur hér, að það er mér hvað hjartfólgnast. Áskilið var í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að kannaðir yrðu möguleikar þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inn á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er, með það að markmiði að treysta grunnslóðina sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvænni veiði. Í maí sl. setti ég fram tillögur um lokun 7 fjarða fyrir dregnum veiðafærum. Þessar tillögur fengu einnig mjög víðtækan stuðning meðal sjómanna og almennings víða um land. Vissulega vöktu þessar ákvarðanir viðbrögð dragnótarmanna. Tekið var tillit til þess og ákveðið að fara hægar í sakrirnar en stefnan er óbreytt. Nú þegar hefur helmingur þessara lokana sem ákveðnar voru í vor tekið gildi, en áætlað er að um næstu áramót taki þær allar gildi. Ég er sannfærður um að framtíðin muni leiða það í ljós að þessar aðgerðir sem miða að lokun fjarðarbotnanna og strandanna umhverfis landið munu skila sér í betri fiskistofnum þegar til framtíðar er litið. Þeir sem telja sig órétti beitta verða að skilja þetta markmið og aðlaga sig og ég bið menn að athuga að ég mun halda áfram á þessari braut, enda bara sjálfsagt mál.

Hér vil ég svo nefna sameiginlegt verkefni ráðuneytisins, Matís og LS um nýtingu afla smábáta. Bind ég miklar vonir við þetta verkefni en sambærilegt verkefni var unnið fyrir má segja stærri skipin og nú er verið að leggja lokahönd á stefnumótun sem er því samfara. Vissa mín er sem fyrr, að mikið miklu má ná með því að bæta nýtinguna og henda engu hráefni. Ég held t.d. að nú sé mjög farið að styttast í að settar verði auknar kröfur á þá sem veiða grásleppu í þessu sambandi.  Það bið ég menn að athuga.

Að lokum var tiltekið í stefnuyfirlýsingunni að heimilaðar skyldu frjálsar handfæraveiðar smábáta yfir sumarmánuðina. Allir þekkja efndir þessa. Strandveiðar hafa nú verið lögfestar með varanlegum hætti. Síðastliðið sumar tóku 741 bátur þátt í strandveiðunum og heildaraflinn í þeim yfir sumarið var rúmlega 6.000 tonn. Það var algjörlega nauðsynlegt að ráðast í þessa framkvæmd og þakka ég þann einlæga stuðning og áhuga sem félög ykkar víða um land og þá ekki síst vil ég þakka stjórn og framkvæmdastjórn LS sem hafa sýnt málinu mikinn stuðning allan tímann. Mér er líka ljóst að strandveiðarnar eru ennþá á þróunarskeiðinu. Ýmislegt má enn bæta og að því verðum við að vinna. Það er t.d. þannig að við höfum ekki efni á því að einn einasti þessara 741 báta komi að landi með afla sem illa hefur verið hirt um. Til að koma í veg fyrir slíkt verða allir að vinna saman og treysti ég mönnum vel til þess.

Vinnuhópur um endurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar

Eins og þið þekkið þá ákvað ég á grundvelli stefnuyfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar að setja á fót vinnuhóp til þess að fara yfir stóru drættina og álitaefnin í fiskveiðistjórnunarkerfinu og koma með tillögur til úrbóta. Eina bindingin af minni hálfu sem sjávarútvegsráðherra var að greininni yrðu sköpuð góð rekstrarskilyrði til lengri tíma í sátt við þjóðina! Vinnuhópurinn var mjög fjölmennur og það reyndi mjög á hann til að ná fram niðurstöðu. Það tókst þó að lokum og ég hef nú undir höndum skýrslu vinnuhópsins.

Gangur málsins á næstunni verður eins og áður hefur komið fram að nú mun ráðuneytið taka að sér að vinna upp frumvarp eða frumvörp um breytingar á stjórn fiskveiða. Ætlunin er að því verki verði lokið þannig að slíkt verði hægt að leggja fyrir Alþingi fyrir jólafrí. Er þá ætlunin að breytingarnar geti orðið að lögum á vorþingi þannig að ný skipan mála taki gildi á fiskveiðiárinu 2011/12. 

Samráðsvettvangurinn

Þegar heildaraflamarki var úthlutað í byrjun júlí sl. var tiltekið að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kæmi fram að veiðiheimildir skuli ákvarðast á grundvelli nýtingarstefnu sem gefin er út til lengri tíma. Hafrannsóknastofnunin hefur hafið undirbúning  nýtingarstefnu í ufsa og ýsu og jafnvel fleiri tegundum, sem mun gera það kleift að setja fram slíka stefnu fyrir fleiri stofna en þorsk. Síðar var sagt að skiptar skoðanir hafa verið um nýtingarstefnuna í þorski og þá aflareglu sem nú er miðað við. Þorskstofninn hefur stækkað meira og fyrr en gert var ráð fyrir í eldri spám Hafrannsóknastofnunarinnar, þrátt fyrir að veitt hafi verið talsvert umfram aflareglu. Raunar hefur tvívegis verið aukið við þorskaflann um 30 þúsund tonn í hvort skipti á liðnum árum og síðast í janúar 2009. Með hliðsjón af þessu sagðist ég ætla að setja á laggirnar samráðsvettvang um nýtingarstefnuna sem í ættu sæti m.a. fulltrúar stjórnvalda, atvinnugreinarinnar og fiskifræðinga. Fyrsta verkefni samráðsvettvangsins er að fara yfir aflaregluna í þorski og meta hvort ástæða sé til að leggja til breytingu á henni með tilliti til breyttra aðstæðna og sterkari  stöðu stofnsins. Verði lögð til breyting, mun verða haft samráð við Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) m.a. með tilliti til sjálfbærni veiðanna. Næsta verkefni samráðsvettvangsins, svo dæmi sé tekið, er að fjalla um hvort hægt sé að mæla með að tekin verði upp nýtingarstefna vegna veiða á ufsa.

Samráðsvettvangurinn er núna að taka á sig heildstæða mynd. Fulltrúar mínir í honum verða Skúli Skúlason rektor Hólaskóla og dr. í líffræði, Sveinn Kári Valdimarsson fiskalíffræðingur og forstöðumaður Náttúrseturs Reykjaness ásamt Daða Má Kristóferssyni auðlindahagfræðingi hjá Háskóla Íslands. Á næstu dögum mun ég skipa aðra fulltrúa í þennan vettvang, þ.m.t. eftir ykkar tilnefningu.

Markmið vinnu vettvangsins er að fá fram og ræða hlutlaust vísindalegt mat á núverandi nýtingarstefnu og aflareglu Hafrannsóknastofnunarinnar og komast að því hvort rétt sé að leggja til breytingar á þessum þáttum og mögulega bæta enn frekar grunn þeirra. Þannig verði t.d. lögð drög að nauðsynlegum frekari rannsóknum og þróunarvinnu varðandi þessi mál ef þörf er talin á.
Á fyrstu fundum hópsins verður aflað upplýsinga og reynt fá skýra mynd af sjónarmiðum og skoðunum allra aðila, þ.m.t. aðila utan vettvangsins. Gert er ráð fyrir að síðan muni hinir ráðherratilnefndu fulltrúar vettvangsins fá tíma til að fara vandlega yfir málið og leita ráða hjá bæði innlendum og erlendum sérfæðingum. Að því loknu yrði vettvangurinn kallaður saman aftur og farið yfir þær ályktanir sem fram hafa komið. Það komi síðan í hlut hópsins í heild að vega og meta þær niðurstöður og komast að sameiginlegri niðurstöðu um tillögur til ráðherra. Lögð verður áhersla á góð samskipti og samráð við alla aðila á þessum vettvangi og mín von er að LS taki vel í þá bón að skipa sinn fulltrúa í þetta mikilvæga verkefni.

Nýjar aðgerðir í fiskveiðistjórnun

Starfshópur, sem sumarið 2009 var skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að vinna upphafsvinnu er lýtur að endurskoðun á löggjöf er varðar fiskveiðistjórnun, hefur nú skilað skýrslu sinni eins og áður hefur komið fram. Fyrirséð er að vinna að frumvarpsgerð mun taka nokkurn tíma og er því ljóst að lög nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, munu enn sem komið er halda gildi sínu.

Fyrir liggur að viðskipti með aflamark eru nú í lágmarki og margar útgerðir eiga í erfiðleikum með að fá nauðsynlegar aflaheimildir til að geta stundað blandaðar veiðar. Þessi staða torveldar veiðar og eykur líkur á brottkasti. Jafnframt verður að líta til þess að nú oftar en áður er nauðsynlegt að tekjur þjóðarbúsins verði hámarkaðar á öllum mögulegum sviðum til þess að takast á við þá erfiðleika sem framundan eru og allir þekkja. Nokkra áhættu verður því að taka í því sambandi.

Ég tel því mikilvægt og mun kanna til hlítar þá möguleika sem eru á að rýmka heimildir til veiða og veiðistýringar og þá jafnframt að skapa þjóðinni auknar beinar tekjur af þessari auðlind, enda mun ekki af veita sé þess kostur að afla fjár sem geti unnið á móti þeim mikla niðurskurði sem boðaður hefur verið á grunnþjónustu eins og t.d. heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

Í framhaldi af þeirri vinnu og útfrá þeim niðurstöðum sem hún gefur kemur til greina að leggja til breytingar á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sem hafa það markmið að auka möguleika útgerðaraðila til kaupa á aflamarki undir sérstökum reglum.

Með ákvæði I til bráðbirgða í lögum nr. 22/2010, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, var ráðherra veitt sérstök heimild til úthlutunar á aflaheimildum í skötusel sem gildir fyrir fiskveiðiárin 2009/2010 og 2010/2011.
 
Í framkvæmd þykir vel hafa tekist til og mun ég því leggja til að ráðherra hafi heimild til að úthluta ákveðnu magni af þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa og íslenskri sumargotssíld til skipa sem hafa veiðileyfi. Útgerðir munu þurfa að greiða tiltekið sanngjarnt gjald fyrir aflaheimildirnar sem renna mun í ríkissjóð eða til tiltekinna verkefna. Tek ég skýrt fram að um verður að ræða heimildir og mun ég t.d. hafa samráð um að nýta slíkar heimildir, ef fást, hvað þorskinn varðar við þann samráðsvettvang sem nefndur var hér áðan, þannig að fylgt verði að sjálfbærni veiðanna haldist og nýtingarstefna okkar verði í heiðri höfð.

Til viðbótar þessu nefni ég að í auknum mæli veiðast langa og keila sem meðafli við þorsk- og ýsuveiðar. Mögulegt er að aukin veiði á þessum tegundum komi til vegna aukinnar útbreiðslu þeirra vegna hlýnunar sjávar. Kannski ekki ósvipað og hvað skötuselinni varðar og aukið landnám hans.

Líkur á brottkasti aukast verulega þegar erfitt er að kaupa aflamark í meðaflategundum líkt og hér er staðreynd. Vegna þessa er vel athugandi að á fiskveiðiárunum 2010/2011 og 2011/2012 verði skipstjóra skips heimilt að ákveða að hluti keilu- og lönguafli skips reiknist ekki til aflamarks þess. Sá hluti sem þannig reiknast ekki til aflamarks skipsins skal þó ekki nema meira en ákveðnu hlutfalli af þeim heildarafla sem landað er hverju sinni, enda sé afli ekki fluttur óvigtaður á markað erlendis. Þessi leið er sambærileg við svokallaðan VS afla, sem hefur það markmið að auka sveigjanleika kerfisins og minnka hvata til brottkasts. Þegar þessi leið er farin er það skilyrði að keilu- og lönguafli verði boðinn upp á viðurkenndum uppboðsmarkaði og fast hlutfall af andvirði aflans renni í ríkissjóð eða til tiltekinna verkefna, að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Kemur það í staðinn fyrir greiðslu gjalds fyrir aflaheimildir.

Þessar heimildir verða hugsaðar til bráðabirgða og gætu komið til framkvæmda á þessu fiskveiðiári, en það fer eftir því hvort og hve fljótt Alþingi samþykkir þær.

Kæru aðalfundarfulltrúar.

Ég vona að starf ykkar á þessu þingi verði árangursríkt og allt gangi ykkur í haginn. Þökk fyrir áheyrina.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum