Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. október 2010 MatvælaráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda haldinn í Reykholti 8. -9. október 2010

Ágætu skógareigendur.

 

Í einni svipan við samantekt þessa ávarps, hugleiddi ég þetta orð – skógareigendur.  Fyrir 20 árum var það varla til en nú ávarpa ég hóp manna sem bera stoltir þetta heiti – skógarbændur/ skógareigendur.

Með tilkomu landshlutaverkefnanna í skógrækt urðu straumhvörf í skógrækt í landinu.

Ákveðið var af Alþingi að gera tilraun með hvort gerlegt væri að rækta nytjaskóg í miklum mæli og með það að markmiði að hér yrði til skógarauðlind sem í áranna rás gæti fullnægt þörfum þjóðarinnar hvað stóran hluta af trjáviði varðaði.

Auðvitað var þetta ekki hægt nema fá bændur í lið með sér og þeim falin framganga verksins.  Þeir áttu jarðirnar – þá vantaði fjölbreyttari búskap og þeir höfðu áhugann.

Ég ætla ekki að rekja sögu landshlutaverkefnanna en undirstrika að með tilkomu þeirra hófst til vegs ný búgrein hér á landi – skógrækt – og hver sem vill sjá verður að viðurkenna að allt útlit er fyrir að markmið um raunverulega nytjaskógrækt á Íslandi náist.

Á þeim tíma sem verkefnin hafa starfað sem ekki er langur tími í ræktun skóga, er það samt svo að hér er standandi skógur á um 15 þúsundum hekturum lands. Úr þessum skógi má ætla að eftir þrjá áratugi muni fást iðnviður talinn í tugum þúsund rúmmetra á ári og  um 10-20 þúsund  rúmmetrar af borðviði eftir annan eins tíma.

Á næstu 100 árum sem er talin að jafnaði vera eðlileg lotulengd skógar eða þá er kominn tími til að fella skóginn munu rúmlega 40 þúsund rúmmetrar af iðnvið og borðvið verða til á þessum 15,5 þúsund ha. Samt er einungis reiknað með að helmingur skógarins verði felldur þó svo að tími sé kominn á lokafellingu hans.

Þetta er því ekki lítil auðlind sem hér er að vaxa og núverandi kynslóð afhendir afkomendum sínum

En fleira hefur fylgt þessari skógrækt.  Fjöldi starfa hefur skapast fyrir vel menntað fólk heima í héruðum og starfsemi verkefnanna hefur skapað fjölda afleiddra starfa s.s. verslun og þjónustu.  Þessu hafa heimamenn á starfssvæðum verkefnanna tekið eftir og ef heldur áfram sem horfir verður enn frekari aukning á þessum vettvangi.  Skógurinn stækkar – afurðirnar aukast og kalla á frekari úrvinnslu.  Það er einn þátturinn sem nauðsynlegt er að huga vel að. 

Ég fullyrði að landshlutaverkefnin hafa treyst byggð – ekki aðeins til sveita heldur og í dreifbýlinu öllu.

Því er ekki að neita að stundum heyrast úrtöluraddir varðandi þessa landshlutabundnu skógrækt sem ég er sannfærður um að sett er fram vegna vanþekkingar – ekki aðeins á verkefnunum sjálfum og hlutverki þeirra – heldur og vegna þröngra sjónarmiða – jafnvel öfgakenndra sem sjá ofsjónum yfir því hve vel hefur miðað í skógræktinni. 

 

Góðir fundarmenn.

 

Eins og ykkur er kunnugt um hefur undanfarna mánuði verið starfandi nefnd á vegum ráðuneytisins með það hlutverk að vinna að langtímastefnumótun fyrir íslenska nytjaskógrækt og er formaður hennar Jón Birgir Jónsson.

Nefndin hefur lokið störfum en enn hefur mér ekki gefist nægur tími til að kynna mér til hlítar innihald tillagna hennar og greinargerðir.

Í skýrslunni er víða komið við en ég veit að Valgerður Jónsdóttir framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga mun fjalla um hana hér í erindi sem hún mun flytja til ykkar hér á eftir og mun ég því láta henni eftir að gera henni ítarlegri skil.

En ég vil þó drepa á fáein atriði sem koma fram í skýrslunni svo og einnig að varpa fram nokkrum spurningum sem ég tel rétt að skógarbændur velti fyrir sér á þrengingartímum.

Í samantekt skýrslunnar segir m.a.:

Aukinn almennur skilningur er á jákvæðum áhrifum skóga á umhverfið meðal annars þýðingu hennar sem aflmikilli mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti.. Aukin skógrækt er tvímælalaust einn besti valkostur Íslendinga til að mæta skuldbindingum sínum í þessu mikilvægasta umhverfismáli nútímans.

Í kjölfar efnahagshruns þjóðarinnar hefur orðið samdráttur á fjárveitingum hins opinbera. Það er mat nefndarinnar að leita verði allra leiða til sem minnst dragi úr skógrækt við þessar aðstæður og að skipulag og framkvæmd verkefnanna taki mið af því að skógrækt verði aukin og efld í náinni framtíð.

Áratuga reynsla er nú komin á starfsemi landshlutaverkefnanna. Þótt árangur af starfsemi þeirra sé góður, má að mati nefndarinnar, ýmislegt bæta í framkvæmd þeirra er myndi styrkja rekstur þeirra og auka árangur í skógrækt.

Í skýrslunni er lagt til að langtímaáætlun um framkvæmdir landshlutaverkefnanna verði gerð til 40 ára en landshlutaáætlanir verði einungis til 10 ára en báðar endurskoðaðar á 5 ára fresti. Ég hef ákveðið að leggja fyrir Alþingi nú í vetur langtímaáætlun og mun fela ráðuneyti mínu að vinna hana og mun ég fylgjast með henni og skulu tillögur nefndarinnar hafðar til viðmiðunar.

Í nefndaráliti segir m.a. „að núverandi fyrirkomulag og rekstur landshlutaverkefnanna miðað við samdrátt í fjárveitingum, þarfnist endurskoðunar til að treysta framgang nýræktunar skóga í landinu og einnig eru tilnefndir aðrir möguleikar sem æskilegt er að skoða .“

Þar sem starfstími stjórna verkefnanna er útrunninn og nauðsynlegt að skipa nýjar eða framlengja störf fyrri stjórna mun ég íhuga hvort og þá hvernig eigi að standa að skipun nýrra stjórna og leita þar umsagna verkefnanna sjálfra og skógareigenda.  Með öðrum orðum – ég mun ekki umbylta því sem fyrir er nema að vel íhuguðu máli.  Einn af möguleikunum er að skipuð verði ein stjórn fyrir öll verkefnin.

Já það er hart í ári og dregið úr fjárveitingum á flestum sviðum – svo er einnig hvað skógræktina varðar og landshlutaverkefnin.

Mér er ljóst að þessi óhjákvæmilegi niðurskurður mun bitna á starfi þeirra en hitt er líka sannfærður um að skógrækt í því formi sem hún hefur nú sannaði sig í sl. 20 ár – í höndum bænda og undir leiðsögn fagfólks og með stuðningi íbúa skógræktarsvæðanna á mikla framtíð fyrir sér.

Höfum samt í huga að verkefnin - með sínar stjórnir heimamanna - hafa gengið vel.

Ég endurtek það sem ég sagði áður, að allar breytingar mun ég kanna gaumgæfilega áður en núverandi kerfi verður lagt til hliðar og það mun ég gera í samvinnu við ykkur.

Góðir aðalfundarfulltrúar.

Þegar Héraðsskógar voru stofnaðir fyrir 20 árum var markmiðið að gera tilraun hvort takast mætti að rækta timburskóg með fjölbreyttan iðnað að leiðarljósi.  Í tímans rás hefur markmiðunum fjölgað og nú ræktaðir skógar undir fjölda heita s.s. landbótaskógur, fjölnytjaskógur, skjólbelti og iðnviðarskógur og svo mætti áfram telja.  Allt er þetta af hinu góða og ört vaxandi skilningur er bæði hér á landi sem annars staðar í heiminum á fjölþættu gildi skóganna.  Mýmörg dæmi sýna líka hve skaðvænlega áhrif það hefur að fjarlægja skóga eða eyða þeim á annan hátt.

Ein ástæða þess að markmið landshlutaverkefnanna fjölgað og urðu víðtækari er sá almenni áhugi um allt land sem þessi verkefni kveiktu.  Á Vestfjörðum sem á Vopnafirði ; í Skagafirði sem á Skeiðum; - í Öræfum sem í Eyjafirði var óskað eftir starfsemi þeirra.  Ljóst er hins vegar að þótt alls staðar sé hægt að rækta skóg eru skilyrðin mismunandi.  Nú má velta því upp þegar þrengir að hvaða skógrækt á að leggja áherslu á og hvers konar skógrækt má frekar bíða.  Breyta má áherslum tímabundið.

Að síðustu get ég ekki látið hjá líða að minna ekki á það sem kemur fram í áliti nefndarinnar og varðar kolefnisbindinguna.  Íslendingar, fárra þjóða, hafa möguleika á að nýta sér kolefnisbindingu skóganna og skjótt gera skipast veður á þeim vettvangi.  Hver veit nema stjórnvöld nýti sér þennan möguleika enn frekar og leggi fram fjármagn í skógrækt umfram það sem áætlað er með það að markmiðið að vinna gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda.

Nýkomin er út MS ritgerð eftir Valgeir Stefánsson sem ber heitið Framtíðarþróun, úrvinnsla og markaðssetning afurða í skógrækt á Íslandi.  Í inngangi þeirrar skýrslu leggur höfundur út frá því að stjórnvöld þurfi að svara því hvort nytjaskógrækt eigi framtíð fyrir sér eða hvort skógrækt framtíðarinnar snúist fyrst og fremst um að græða upp land og efla græn svæði. 

Skógrækt sem atvinnugrein er landbúnaður sem hefur þegar skilað miklum árangri sem slíkur og það mun enn betur sannast á næstu árum.

Megi aðalfundur ykkar ganga vel, - starf ykkar blessast og bera góðan ávöxt.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum