Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. október 2010 MatvælaráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Aðalfundur Landssambands íslenskra útvegsmanna

Ágætu fulltrúar á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna

Ég vil hér í upphafi þakka fyrir að fá þetta tækifæri að ávarpa aðalfund Landssambands íslenskra útvegsmanna en þetta er í annað skipti sem ég geri það.

Ýmislegt hefur drifið á dagana á þessu ári sem liðið er frá því ég var hérna síðast. Ætla ég að leyfa mér hér að nefna það helsta sem upp í hugann kemur.

Staðan

Sé litið til síðustu fimm fiskveiðiára hefur heildarafli í kvótabundnum tegundum minnkað töluvert samkvæmt Fiskistofu. Aflinn minnkaði t.d. um 13,9% á milli tveggja síðustu fiskveiðiára. Ef við lítum til ársins 2009 í heild sinni, þá var afli íslenskra skipa tæp 1.130 þúsund tonn, 153 þúsund tonnum minni en árið 2008.

Heildarafli á fiskveiðiárinu 2009/2010 er helmingi minni en hann var fiskveiðiárið 2001/2002 sem er eitt af aflahæstu fiskveiðiárunum þegar litið er til þeirra ára sem miðað er við í fiskveiðiára viðmiðuninni frá 1991/1992. Helstu ástæður þessarar minnkunar má  rekja til minni uppsjávarafla en afli í kolmunna, síld og loðnu er almennt minnkandi yfir tímabilið og þrátt fyrir auknar veiðar á makríl þá vega þær veiðar í magni ekki upp minni veiðar í framangreindum tegundum. Heildarafli í botnfiski sveiflast á tímabilinu og er öllu minni á síðasta fiskveiðiári en hann var fyrir fimm fiskveiðiárum síðan. Skel- og krabbadýraafli hefur aukist á tímabilinu sem horft er til.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar nam aflaverðmæti íslenskra skipa  rúmum 57 milljörðum króna á fyrstu fimm mánuðum ársins 2010, samanborið við 43,1 milljarð á sama tímabili 2009. Aflaverðmæti hefur því aukist um tæpa 14 milljarða, eða 32,4% á milli ára.  Aflaverðmæti nam rúmum 115 milljörðum króna og jókst um 16,4% frá árinu 2008, en var 2,8% minna ef mælt er á föstu verði.

Ekki hef ég nýjustu upplýsingar um hag sjávarútvegsfyrirtækjanna, en sé tekið mið af rekstrarafkomunni eins og hún var fyrir fjármagnsliði 2008, virðist hægt að fullyrða að hún hljóti enn að teljast góð sé horft fram hjá skuldunum, en þær ætla ég ekki að gera að umræðuefni hér. Til stuðnings þessu vitna ég til þess sem fram kom í ræðu Arnars Sigurmundssonar formanns Samtaka fiskvinnslustöðva á aðalfundi samtakanna nú nýverið. Hann taldi að það stefni í 4% aukningu í útflutningsverðmæti sjávarafurða á þessu ári, þrátt fyrir styrkingu á gengi krónunnar frá áramótum. Hér skal þó tekið skýrt fram að greinin er fjölbreytt og meðaltalsútreikningar því varhugaverðir.

Um hag annarra atvinnugreina verður ekki fjallað hér en víst er að hann er mjög misjafn og sumar eru enn í miklum sárum eftir bankahrunið. Það liggur alveg þó fyrir að mikilvægi sjávarútvegsins í þjóðarbúskapnum hefur aukist stórlega í kjölfar efnahagshrunsinsm og af því leiðir að ábyrgð okkar sem vinnum við þessa grein og um hana höfum að segja er mikil.

Ég ætla enn að halda áfram að líta yfir farinn veg á þessu eina ári, en nóg er komið af talnaefni sem ég veit að þið þekkið sjálfir út í nokkurn hörgul.

Stefnan í sjávarútvegsmálum

Sú ríkisstjórn sem nú situr og hefur góðan meirihluta á Alþingi gaf út stefnuyfirlýsingu sína í upphafi líkt og aðrar ríkisstjórnir sem myndaðar hafa verið hér á landi. Í henni er sérstakur kafli sem helgaður er fiskveiðum. Þar eru tekin fram bæði það sem kallað eru brýn atriði og einnig að ríkisstjórnin ætli sér að endurskoða stjórn fiskveiða. Hér er því um veigamikla stefnuyfirlýsingu að ræða og ef það eru einhverjir hér inni sem halda enn að engin alvara fylgi þessum orðum þá segi ég við þá sömu – það er mikill misskilningur! Þó að við horfum bara á eitt atriði þá er verkefnið mikið þegar við tölum um það að skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu sjávarauðlindarinnar. Menn þurfa hreinlega að vera blindir að mínu mati til þess að sjá ekki að þjóðin mun ekki sætta sig við óbreytt ástand! En að þessu mun ég víkja síðar í ræðu minni.

Lítum nú aðeins nánar á þessa tvo undirkafla stefnuyfirlýsingarinnar um fiskveiðar, bæði brýnu atriðin og sjálfa endurskoðunina til þess að sjá hvernig fram hefur gengið.

Brýnu atriðin voru í stórum dráttum að: Knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis, takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára, stofna auðlindasjóð, vernda grunnslóðina, skipa ráðgefandi hópa og heimila frjálsar handfæraveiðar smábáta yfir sumarmánuðina.

Þegar ég lít yfir þessa upptalningu, og fer ekkert út í smáatriðin,  þá er það mín niðurstaða að í nær öllum ef ekki öllum tilvikum hefur náðst verulegur árangur í samræmi við sjálfa stefnuyfirlýsinguna. Þarf ég ekki að nefna annað en strandveiðarnar, breytingar á tilfærslum og sjálfan skötuselinn heittelskaða.

Skoðum nú á sama hátt undirkaflann um endurskoðun á stjórn fiskveiða. Í þeim kafla er áskilið eins og áður sagði að ríkisstjórnin muni hefja slíka endurskoðun. Í stefnuyfirlýsingunni eru tiltekin sex markmið sem hafa beri í huga við slíka endurskoðun. Fjögur fyrstu markmiðin eru gamalkunn og eiga sér beina tilvísun til núgildandi laga um stjórn fiskveiða. Þessi fjögur eru í stuttu máli: stuðla að vernd fiskistofna, stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar, treysta atvinnu og efla byggð í landinu.

Markmið fimm og sex eru hins vegar af öðrum toga og eiga sér ekki hliðstæðu í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða. Markmið númer fimm segir að skapa skuli sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar og það sjötta segir í stuttu máli að leggja skuli grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda.

Í stefnuyfirlýsingunni er síðan tiltekið að skipaður verði starfshópur er vinni að endurskoðuninni og kalli til samráðs hagsmunaaðila og sérfræðinga. Engin sérstök skilyrði eru hins vegar sett fram um skipan þessa hóps og líta ber svo á að ég hafi haft um það frjálsar hendur.

Starfshópurinn

Það er varla að ég þurfi að fara yfir sögu þessa máls svo kunn er hún öllum en í stuttu máli ákvað ég að setja á laggirnar mjög breiðan vinnuhóp sem allir aðilar fengu sæti í er vildu. Vinnuhópurinn var skipaður 1. júlí 2009 og tók rúmlega ár til starfa síns. Hann skilaði af sér mikilli skýrslu með fylgigögnum þann 6. september síðastliðinn. Vil ég nota tækifærið hér og enn og aftur þakka þeim sem að komu. Ýmsir hafa undanfarið stigið fram og fundið skýrslu hópsins margt til foráttu en það þarf hins vegar ekki að koma á óvart að menn túlki einstaka þætti hennar út frá sínu hagsmunalegu sjónarhorni. Ég er samt ekki í þeim hópi og segi að vel hafi tekist til miðað við aðstæður. Skýrslan gerir á skilmerkilegan hátt grein fyrir mismunandi sjónarmiðum, dregur fram þau atriði sem mest sátt er um en tiltekur jafnframt á heiðarlegan hátt atriði sem minni sátt er um. Að lokum eru settir fram valkostir í framhaldi málsins. Ég veit ekki hvað menn gátu farið fram á meira!

Næstu skref

Næsta skref í endurskoðun á stjórn fiskveiða samanber stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að sérstakur starfshópur innan ráðuneytisins, með þáttöku utanaðkomandi sérfræðinga, hefji vinnu við sjálfa frumvarpssmíðina. Grunnskipulagningu er að mestu lokið og ég á ekki von á öðru en allt sé að komast á fulla ferð. Skýrsla vinnuhópsins mun koma að fullum notum við þessa vinnu. Ekki hefur enn verið útfært hvernig samráði við hagsmunaaðila verður hagað meðan á vinnu þessari stendur en það verður viðhaft eftir því sem eðlilegt og nauðsynlegt er. Vinnunni verður hraðað eftir mætti en á þessu stigi er ekki hægt að tilgreina hvenær henni lýkur.

Ég hef hér gert fortíðina að nokkru umræðuefni og það má spyrja sig hvers vegna ég geri svo. Jú, með þessari umfjöllun sést að fylgt er heildstæðri stefnu í sjávarútvegsmálum þjóðarinnar og hér er hvergi hvikað. Ummælum um annað vísa ég til föðurhúsanna. Stefnan er mörkuð en það er jafnframt skýr vilji til umræðu í leit að bestu lausn. Það hafa á þessu ári átt sér stað breytingar og það eru fleiri breytingar í farvatninu og ástæðan fyrir þeim á sér þær djúpar rætur sem allir þekkja. Framan í þessar breytingar þurfa menn að þora að horfa og taka þátt í þeim af opnum hug en ekki stinga höfðinu í sandinn. Það færir engum neitt.

Nýr sáttmáli

Það er komið að nýjum sáttmála í sjávarútveginum eða líkt og “new deal” sá er Roosvelt Bandaríkjaforseti kom á árið 1933. Hann sat undir því að vera kallaður kommúnisti í upphafi þess máls og þótti ekki lítið skammaryrði á þá daga í henni Ameríku. Ég held samt að það sé almenn og viðurkennd skoðun manna nú að einmitt þessi sáttmáli hafi leitt hina miklu þjóð út úr kreppunni miklu.

Aukning aflaheimilda

Það er mjög eðlilegt við þær aðstæður sem nú eru í efnhags- og atvinnulífi þjóðarinnnar að menn horfi til þess hvort hægt sé að auka afrakstur fiskveiðiauðlindarinnar. Komið hafa áskoranir víða af landsbyggðinni um að kannað verði hvort hægt sé að auka aflaheimildir í einstaka fisktegundum tímabundið. Ég hef fullan skilning á þessu þó svo að við verðum að gæta okkar á því að fara að öllu með gát og tryggja sjálfbærni veiðanna. Ég mun því kanna þetta mál til hlýtar á næstunni. Hér tiltek ég sérstaklega að þegar og ef kemur til úthlutunar slíkra heimilda í þorski þá mun ég hafa samráð um þær úthlutanir við þann samráðsvettvang sem stofnaður hefur verið um m.a. nýtingarstefnuna í þorski með ykkar aðkomu. Þannig verði tryggt að sjálfbærni veiðanna haldist. Ég geri svo ráð fyrir að þessi mál verði mjög í umræðunni á næstu vikum.

Makríllinn

Næst ætla ég að gera a umtalsefni sjálfan makrílinn. Þó að á ýmsu öðru hafi gengið þá held ég að skipan fiskveiðistjórnunar í makríl á þessu ári og samvinna ráðuneytisins og útgerðarinnar hafi í öllum aðalatriðum skilað frábærum árangri eða hvað segja menn annars um mögulega þreföldun verðmæta sem gætu orðið 15 milljarðar. Jafnframt hefur skapast grunnur fyrir mismunandi útgerðaform, bæði stóra og smáa til að stunda þessar veiðar sér sjálfum og þjóðinni til hagsbóta. Samkvæmt nýjustu tölum frá Fiskistofu er nú búið að veiða a.m.k. 122 þúsund tonn en lokauppgjör hefur ekki farið fram. Fyrir virðist þó liggja að það magn sem unnið var til manneldis  sé um 60% en 40% hafi gengið til bræðslu. Þessar tölur verður að skoða í samhengi við 5% vinnsluhlutfall 2008 og þeirra 20% sem unnin voru til manneldis á síðasta ári. Þetta eru gleðitíðindi sem þýða eins og áður sagði mikil verðmæti og einnig verulega atvinnusköpun sem alls ekki má gleyma nú á þessum erfiðu tímum! Ég vill því nota tækifærið og óska okkur öllum til hamingju með þetta.

Af makrílviðræðunum er það að frétta að Noregur lagði til í morgun að hlutdeild Íslands í makrílveiðunum á næsta ári yrði 3,1% og lýsti Evrópusambandið stuðningi við tillöguna. Afstaða Norðmanna kemur í sjálfu sér ekki á óvart enda hafa þeir ekki sýnt neinn sveigjanleika í samningaviðræðunum fram að þessu. Afstaða ESB vekur hins vegar furðu þar sem óformlegar viðræður höfðu farið fram milli Íslands og ESB á síðustu dögum um miklu hærri hlutdeild Íslands. Við tókum þátt í þessum viðræðum í góðri trú en svo virðist sem það hafi ekki verið gagnkvæmt. Ljóst er að tillaga Noregs og ESB er með öllu óraunhæf þegar litið er til upplýsinga um stóraukna göngu makríls í íslensku lögsöguna á undanförnum árum og fæðunám hans þar. Til samanburðar er rétt að hafa í huga að hlutfall Íslands í heildarveiðunum í ár er 17%. Við Íslendingar eigum skýlausan rétt samkvæmt hafréttarsamningnum til veiða á makríl í okkar lögsögu sem ekki verður frá okkur tekinn meðan Ísland er fullvalda ríki. Við munum áfram beita okkur fyrir samkomulagi við hin strandríkin um heildarstjórnun makrílveiða á komandi árum sem tryggir ábyrgar og sjálfbærar veiðar.

 Aðildarviðræðurnar

Lítil þjóð í stóru og gjöfulu landi hlýtur alltaf að heyja baráttu fyrir tilvist sinni og fullveldi. Sú barátta hefur raunar litað íslenskt stjórnmálalíf um aldir. Og sú barátta stendur ofar dægurþrasi um skipan mála hér innanlands.

Fyrir sjávarútvegsráðuneytið er það gríðarleg áskorun og þýingarmikið að undirbúa og fara í gegnum samninga við aðrar þjóðir sem jafnvel eru taldar í hundruðum milljóna með tilheyrandi styrk. Þessvegna er okkur mikilvægt að tryggja samstöðu þjóðarinnar að baki okkur, eins og við höfum skynjað í yfirstandandi makrílviðræðum. Þar starfa hlið við hlið fagaðilar úr ráðuneyti og frá hagsmunasamtökum og þar er samstaða innan stjórnmála og stjórnsýslu.

Um hitt er lýðræðislegur ágreiningur hvaða leiðir skuli fara varðandi framtíðarsamband okkar þjóðar við Evrópusambandið og mögulega inngöngu í það. Makrílviðræðurnar hafa samt fært mér heim sanninn um það hversu gríðarlega mikilvægt það er fyrir Ísland að eiga sjálfstæða fullvalda rödd í þeim viðræðum. Það eru fjögur fullvalda ríki sem semja um þessi mál, Ísland er eitt þeirra, Færeyjar annað, Noregur þriðja en það fjórða er Evrópusambandið. Þannig eiga makrílþjóðir eins og Bretar og Spánverjar, með langa sögu af makrílveiðum, ekki sjálfstæða rödd í þessum viðræðum. Þess í stað situr Evrópusambandið  beggja megin borðs í málefnum þessara þjóða, deilir og drottnar. Þegar kemur að flökkustofnum í hafinu getur enginn ágreiningur verið um það að fullveldi ESB ríkjanna er ekki fyrir hendi.

Þessi þáttur ESB umræðunnar hér á landi vill stundum verða útundan og er miður því hagsmunir okkar eru miklir af því að hafa fullt og óskorað samningsumboð þegar kemur að veiðum á síld, loðnu, kolmunna, rækju, karfa og makríl. Varlega áætlað afla þessir stofnar tæpan helming af heildarverðmæti sjávarafurða okkar.

Bæði í þessu máli og hinni meira hefðbundnu umræðu um fiskveiðilögsöguna er það fleira og stærra sem bindur okkur saman en það sem aðskilur hvort sem við horfum á það út frá skoðunum, hagsmunum eða hinni pólitísku umræðu eins og hún stendur í landinu nú og mun væntanlega næstu misseri.

Það er mikið gert út á það í málflutningi þess ágæta fólks sem vill að Ísland gangi í ESB að í sjávarútvegsstefnu ESB gildi framar öðru reglan um hlutfallslegan stöðugleika. Það er góð regla og síst ástæða til að draga úr mikilvægi hennar fyrir grónar fiskveiðiþjóðir. Með þeirri reglu er mörkuð sú stefna að fiskveiðiheimildum er úthlutað út frá veiðireynslu og vitaskuld er það þá styrkur okkar að hafa hér 200 mílna lögsögu sem vannst í síðustu lotu sjálfstæðisbaráttu okkar.

En um hitt er minna talað að reglan um hlutfallslegan stöðugleika er hvorki bundin eldri stjórnarskrám sambandsins né svokölluðum Lissabonsáttmála. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika er regla sem ráðherraráð ESB getur breytt með einföldum meirihluta og á undanförnum árum hafa komið upp umræður um að það skuli gert. Engir samningar sem gerðir væru við Ísland í þessu máli stæðust slíka samþykkt ráðherraráðsins og síðan eftir atvikum úrskurði Evrópudómstólsins.

Það sama gildir raunar um þær samningaviðræður sem nú eru að fara af stað þar sem heyrst hefur það sjónarmið að Ísland geti náð tímabundnum eða jafnvel varanlegum samningum um að 200 mílna lögsaga okkar yrði viðurkennd sem sérstakt fiskveiðisvæði undir stjórn Íslendinga. Slíkir samningar yrðu líkt og fiskveiðisamningar sem ESB gerði við Breta aðeins blekking því þegar kæmi til kasta Evrópudómstólsins stæðust þeir aldrei grundvallarlög sambandsins.

Samningar um aðild að ESB eru því vandmeðfarnir, umræðan þarf að vera vönduð og það er mikilvægt að við horfum þar til langrar framtíðar, á hagsmuni afkomenda okkar og lítum á heildina í stóru sögulegu samhengi. En við þurfum líka á þessum tímum að huga að hinu náttúrufræðilega samhengi hlutanna. Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar í lífríknu og þær munu halda áfram. Við hlýnun sjávar er næsta víst að hingað koma tegundir líkt og makríllinn sem áður voru á suðlægari slóðum. Þær verða hér í kosti og það sem þær nýta af fæðu í okkar landhelgi gagnast ekki að sama skapi öðrum tegundum. Þess vegna verða hagsmunir okkar vegna flökkustofnana enn meiri eftir því sem árin líða og reglan um hlutfallslega stöðugleika getur þá leikið okkur grátt en það er í anda hennar að ætla okkur Íslendingum 3,1% af heildaraflamarki í makríl.

Lokaorð

Allt þetta skulum við hafa í huga í þeirri umræðu sem framundan er. Sem ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála hef ég mótmælt því ESB aðlögunarferli sem nú á sér stað og mun ekki fallast á að málefni þau sem falla undir ráðuneytið verði aðlöguð að regluverki ESB meðan aðild hefur ekki verið ákveðin í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég vill svo að lokum þakka fyrir áheyrnina og óska ykkur alls velfarnaðar á ykkar aðalfundi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum