Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. október 2011 MatvælaráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda 13. október 2011

 

 

Fundarstjóri;

-  formaður Landssambands smábátaeigenda -  ágætu aðalfundarfulltrúar og gestir.

 

Ég þakka fyrir það boð að koma og ávarpa aðalfund ykkar fáeinum orðum.

Það er nú einu sinni svo að ég lít á það sem ekki aðeins skyldu ráðherra að koma til svona fundar – heldur og er það nauðsynlegt hverjum ráðherra að fá að fylgjast með þeim málaflokkum sem undir hann heyra – endurnýja kynni og sjá ný andlit.

Ég vona að aðalfundurinn verði góður og árangursríkur.  

Í ár er aldarafmæli Fiskifélags Íslands sem var um áratugi sameiginlegur vettvangur sjávarútvegsins í landinu og því nefni ég það hér að mér er það líkt og fyrr hugstætt að slíkur vettvangur þarf að vera til staðar. Sameiginlegir hagsmunir greinarinnar eru miklir og mikilvægt að standa þar vörð. Við sem tilheyrum íslenskum sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti eigum mun fleira sem sameinar okkur heldur en hitt sem er öndvert innan okkar raða.  

 

Sjávarauðlindin er grundvöllur hagsældar okkar í landinu og engin tíðindi eru því ánægjulegri en einmitt þau að fiskistofnanir í hafinu séu í sókn og að auka megi veiðar. Á slíkum dögum er gott að vera ráðherra sjávarútvegsmála.

 

Það segi ég þrátt fyrir að okkur greini á um hversu langt megi og eigi að ganga. Ég ætla ekki að gera þá umræðu langa hér en minni á smæð okkar mannanna í ríki náttúrunnar. 

 

En það er ekki bara að við getum glaðst yfir árgæsku. Við getum líka horft til fiskveiðistjórnunarinnar og glaðst yfir að við höfum á undanförnu ári og árum stígið skref að breytingum í fyrirkomulagi sjávarútvegsins sem eru til farsældar.

 

Það er vitaskuld margt óunnið og ráðuneytið hefur nú að nýju tekið við af alþingi frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða og ég legg áherslu á að koma því sem fyrst í þinglega meðferð að nýju. Ráðuneytið mun yfirfara þær athugasemdir sem fram hafa komið og fara yfir ýmis álitamál. 

 

Þær breytingar sem þegar hafa áunnist í stjórn fiskveiða eru ekki litlar og snerta margar hinar smærri útgerðir, líf lítilla útgerðarstaða og snúa að hinni samfélagslegu ábyrgð sem okkur er nauðsynlegt að horfa til í þeim atvinnuvegi sem þyngst vegur.

 

Hér ber strandveiðina vitaskuld hæst en með henni hefur verið komið til móts við sjónarmið um frelsi og mannréttindi allra til að stunda útgerð innan þeirra marka sem mögulegt er. Aukning í strandveiðinni hefur gefið landsbyggðinni líf og það segir sína sögu að löndunarstaðir strandveiðibáta í landinu voru yfir 60 á liðnu sumri.

 

Við höfum sem kunnugt er sveigt frá þeirri stefnu að nær öllum aflaheimildum ríkisins sé ráðstafað til útgerða á grundvelli aflamarksreglu, fyrst í skötusel og nú síld. Í úthlutun aflaheimildum í makríl hefur einnig verið farið um nýja stigu og einkanlega verið horft til þess að sem mest af þeim afla fari til manneldis.

 

Undirtektir við þessu hafa verið með ýmsum hætti en í heildina hafa breytingarnar gefist vel. Við höfum náð umtalsverðum árangri í meðferð makrílsins og stöndum þar öðrum þjóðum síst á sporði. Hver sem stefnan er þá er engin aðferð gallalaus eða hafin yfir gagnrýni og það á við um aflamarkskerfið líkt og önnur mannanna verk. Aflamarkskerfið sem hefur verið nær því einrátt í stjórn veiðanna á rétt á sér en er fjarri því að vera algild lausn í öllum vanda.

 

II

Ég vék hér fyrr að samfélagslegri ábyrgð sjávarútvegsins. Íslenskur sjávarútvegur er ekki bara grundvöllur hagsældar okkar í landinu, hann er einnig prófsteinn á samspil manns og náttúru og samspil þjóðar og landsins sem hún, þessi okkar þjóð, hefur að láni.

 

Frjálshyggjan, markaðshyggjan, 20. aldar trúin á mammon og mammon einan hafa öll hamrað á sömu stefnu í málefnum atvinnuveganna, stefna sem er í reynd “laissez faire” stefna þegar kemur að hinum óhefta framgangi fjármagnsins. Að þjóðin sjálf, byggðir hennar og stjórnkerfi skuli halda sig fjarri og ekki leggja á atvinnuvegina neinar þær hömlur og stýringu sem skerða frelsi þeirra til að skapa sem mest verðmæti, mesta peninga.

 

Markaðurinn og hagkvæmnin munu leiða af sér það réttlæti sem mun svo aftur skapa hámarks arðsemi, hámark í peningalegum gildum. Í dag birtast þessi sjónarmið okkur með ýmsum hætti, meðal annars í hugmyndum að allt skuli falt og selt hæstbjóðanda. Það er eðlilegt framhald slíkrar hugsunar að vilja senda hin miklu verðmæti sem þannig fást heim til þjóðarinnar í pósti.

 

Þjóðin getur svo farið í búð, hver fjölskylda og hver einstaklingur, með sína hlutdeild í þjóðarauðnum sem hún hefur leigt og selt. Og þar með er allt gott og þjóð sem þannig hefur étið frumburðarrétt sinn er södd daginn þann.

 

Hin peningalega trú gerir ráð fyrir að allt sem þjóðin eigi heimtingu á sé að fá rétt verð fyrir sinn hlut, nógu gjaldgenga ávísun hvort sem hún á að fara í ríkiskassann eða eins og háttvirtur alþingismaður Pétur Blöndal hefur lagt til, heim í hvert hús með áritaðri hlutdeild hvers og eins í fiskveiðiauðlindinni. Þar með er stigið skref í þá átt að skipta upp hinni samfélagslegu eign og gera þau einstaklingsbundin.

 

Hér gildir hið fornkveðna að ekkert er nýtt undir sólinni. Við höfum fyrr heyrt þann boðskap að þjóðinni sé hollast og best að ráða sem minnstu og láta hinn alvitra markað um að ávaxta sitt pund. Þegar upp er staðið hefur þó á stundum svo farið að jafnvel hinn fákæni sem gróf talentu sína í jörðu var betur settur en hinn sem treysti markaðinum.

 

Ég þarf ekki að tvítaka það hér fyrir ykkur, kæru fundarmenn, að það að fela markaðslögmálunum alfarið að sjá fyrir íslenskum sjávarútvegi er ekki mín stefna, það er ekki minn draumur og í því tek ég ekki þátt.

 

 

III 

Ég hef fyrr sagt að okkur beri að horfa á öryggi allra sem að sjávarútveginum koma, ekki bara þeirra sem eru á hverjum tíma handhafar aflaheimilda heldur einnig landverkafólksins og byggðanna. Rétturinn er greinarinnar í heild og einmitt í þessu þurfum við meira á því að halda en verið hefur að horfa á heildarhagsmuni.

 

Verðmætasköpun greinarinnar skiptir máli, meira máli en flest annað. En við verðum um leið að spyrja okkur áleitinna spurninga. Þegar því er hampað að verðmætin verði sem mest er eðlilegt að spurt sé: Verðmæti fyrir hvern? Hvert fara verðmætin? Hver nýtur góðs af þeim? Ef við ekki gætum að samspilinu sem sjávarútvegurinn á við byggðirnar og samfélagslega ábyrgð hans þar getur verið eftir litlu að slægjast.

 

Þegar því er haldið fram að þar með séu lagðar á greinina byrðar sem geri hana óhagkvæma og ófæra um að gegna hlutverki sínu þá skriplast á skötu. Ekkert okkar efast um að hin líffræðilega sjálfbæra nýting auðlindarinnar er nauðsynleg og rúmast innan þess ramma sem við hljótum og verðum að setja arðbærum sjávarútvegi.

 

Sama gildir um hið samfélagslega og hinni samfélagslegu ábyrgð fylgir byrði en einnig öryggi. Það er öryggi þess sem hefur jarðsamband, í sinni byggð, í sínu fólki, í sínu hlutverki. Kreppan sem nú ríður yfir heimsbyggðina færir okkur ekki bara heim sanninn um hverfulleika markaðshyggjunnar, heldur einnig að án jarðsambands er okkur og verkum okkar fyrst hætta búin.

 

Sá mikli veraldarmaður Sölvi Helgason gat með sexkanti reiknað mislita tvíbura í konu í annarri sókn og taldi það til afreka. Geimvísindi verðbréfanna sem engar skyldur höfðu gátu með sama hætti reiknað okkur allar heimsins snekkjur og lystisemdir til handa þjóð sem átti að verða sú ríkasta í heimi um aldir alda en skildi þó ekki annað eftir en hrundar skýjaborgir og ógreidda víxla.

 

Íslenskur sjávarútvegur sem treystir á jarðsamband byggðanna, skyldur sínar við þær og rækir hlutverk sitt í samfélaginu er sennilegri til farsældar þjóð sem er þá aðeins rík þegar henni tekst að sitja land sitt og byggðir þannig að sómi sé að.

 

IV

 Ágætu smábátasjómenn

 

Sjávarútvegurinn er allt í senn, atvinnugrein, byggð og glíma við náttúruöflin. Við komumst þá lengst sem virðing okkar fyrir öllum þessum þáttum er fyrir hendi og skiljum samþættingu þeirra. Mig langar í framhaldi af framansögðu að víkja að samspili smábátanna og sjávarbyggðanna.

 

Þegar litið er til baka í þróun smábátaveiða sést vel að í fjöldamörgum minni sjávarbyggðum hefur það verið eina ráð sjómanna til varnar vegna atvinnumissis að fara yfir í smábátaútgerð og efla þann þátt útgerðar að nýju.

 

Hvatinn sem var til staðar á árum áður var vissulega sá að ekki þurfti að kaupa kvóta í öllum fisktegundum. Aðeins þorskurinn var kvótabundinn í fyrra kerfi þorskaflahámarksins en aðrar fisktegundir eins og ýsa, steinbítur, karfi voru smábátasjómönnum frjálsar. Þetta frelsi til veiða efldi smábátaútgerðina og kom í veg fyrir fall margra smærri byggða.

 

Núverandi stjórnarflokkar hafa mætt sömu þörf og komið til móts við hagsmuni hinna smærri byggða með því að styðja að nýju sókn og rekstur smábátaútgerða. Sem kunnugt er höfum við ýtt undir notkun vistvænna veiðarfæra með hærri línuívilnun sem nemur 20% vegna dagróðra þegar unnið er að beitningu í landi og með því að koma á strandveiðikerfi sem byggir einnig á dagróðrum. Síðan hefur markvist verið unnið að því að bæta gæði og aflameðferð.

Opnað hefur verið á aðgang smábáta að veiðum á makríl og skötusel og nú þessa dagana er verið að opna smærri skipum leið til þátttöku í síldveiðum að nýju og þau geta nú fengið beitusíld á betra verði en verið hefur að undanförnu. Þetta stuðlar allt að betri möguleikum til viðhalds og eflingar smærri útgerða sem ég tel að eigi að efla enn frekar.

 

 

Ágætu aðalfundarfulltrúar.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið mun áfram vinna að að breytingum á stjórnkerfi fiskveiða með það að leiðarljósi að stuðla að vernd fiskistofna, skapa sátt um nýtinguna en jafnframt að efla hagkvæmni og byggðir landsins. Allt er þetta stefnan eins og hún er sett fram í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna og með henni er í reynd fetaður vandrataður meðalvegur.

 

Ég hef sagt og það eru ykkur engin ný sannindi að svo virðist sem um 320 þúsund skoðanir séu uppi um hvernig haga beri fiskveiðum við Ísland eða sem nemur einni skoðun á hvern íbúa.

Um er að ræða mikil auðæfi og skipting auðs – í hvaða formi sem er – er ekki auðveld.

Það er einlæg von mín að breið sátt náist um breytt stjórnkerfi fiskveiða. Íslenskur sjávarútvegur er undirstaða velferðar þjóðarinnar og lífsbjörg hennar nú sem áður fyrr.

 

Ég ítreka þakkir mínar fyrir að fá að ávarpa fundinn og óska ykkur allra heilla.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum