Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. desember 2011 MatvælaráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2000-2001, iðnaðarráðherra 2009-2012

Að jólum skal hyggja er framtíð skal byggja

Að jólum skal hyggja er framtíð skal byggja

Ég er í hjarta mínu jafnaðarmanneskja og aldrei er ég sannfærðari um þá lífsskoðun mína en á aðventunni og um jólahátíðina sjálfa. Ég man hvað það hafði mikil og mótandi áhrif á mig sem litla telpu að sjá myndir af sveltandi börnum í Afríku við hliðina á litskrúðugum auglýsingum um dýrindis jólagjafir. Maður þarf ekki að vera hár í loftinu til að sjá það hróplega óréttlæti sem misskipting auðæfa heimsins leiðir af sér. En um leið fann ég hve það var óendanlega dýrmætt að tilheyra stórfjölskyldu og vera umvafin vináttu og kærleika. Við jólaborðið eru allir jafnir.

Kjarni jólanna snýst um kærleika og trú á framtíðina. Með hæfilegri einföldun þá eru þetta sömu grunngildin og liggja að baki hugsjónum mínum sem jafnaðarmanneskju. Kærleikurinn stendur fyrir umhyggju og jöfnuð. Og trúin á framtíðina lýsir sér í tækifærum einstaklinga til að vaxa af verkum sínum - samfélaginu öllu til heilla.

Það á enginn að fara í jólaköttinn

Sannarlega höfum við Íslendingar allar forsendur til að lifa hér í fyrirmyndarsamfélagi sem er allt í senn réttlátt, skapandi og kröftugt. Við eigum ríkulegar auðlindir í hreinu vatni, endurnýjanlegri orku, landgæðum og fiskistofnum. Við höfum lagt mikla vinnu og metnað í að skapa breiða sátt um hagnýtingu þessara auðlinda. Við höfum lagt fram orkustefnu fyrir Ísland. Sett okkur metnaðarfull markmið um það hvernig við aukum hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Með Rammaáætlun er komin framtíðarsýn hvaða virkjunarkosti við ætlum að hagnýta og hvaða svæði skuli vernduð. Og á hverju ári er sett nýtt met í komu erlendra ferðamanna sem vilja koma, sjá og upplifa!

Það er flestu mikilvægara að tryggja að þjóðin njóti í enn ríkara mæli arðs af þeim auðlindum sem landið býr yfir.  Landsvirkjun ein hefur til að mynda sagt að arðurinn að orkuauðlindinni eigi að geta verið sambærilegur fyrir íslenskt samfélag og arðurinn sem Norðmenn hafa af olíuvinnslu sinni.

Og svo eigum við allan þennan mannauð!

Hamingjuríka hátíð – og framtíð!

Stundum er látið líta út fyrir að stjórnmál séu svo flókin og tæknileg að það sé ekki á færi nema örfárra að fást við þau. Og víst eru þau mörg málin sem þarf að leysa sem eru bæði flókin og sérhæfð. En það má ekki rugla saman tæknilegum úrlausnarefnum og hugsjónum. Ef við minnum okkur reglulega á kjarnann í því fyrir hvað við stöndum þegar við tökumst á við úrlausnarefni dagsins þá verður ákvörðunartakan bæði auðveldari og betri.

Jólahátíðinni fylgir ró og friður og þá gefst kærkomið næði til að velta fyrir sér hlutum sem kannski gleymast í amstri hversdagsins. Er ég með störfum mínum að láta gott af mér leiða? Er ég þeim sem mér eru kærastir sá vinur sem mér ber? Og það væri jafnframt hollt fyrir okkur sem samfélag að spyrja viðlíka spurninga.

Um allan heim er litið til Norðurlandanna sem fyrirmyndar um góða stjórnarhætti og eftirsóknarverð lífskjör. Það er mikilvægt að við villumst ekki af leið og nýafstaðnar efnahagshamfarir ættu að vera okkur áminning um að huga vel að undirstöðunum. Við gleymdum okkur eitt augnablik og löngunin í skjótfengin gróða varð flestu yfirsterkari. En nú þegar loks sést til sólar í efnahagsmálum höfum við tækifæri til að betrumbæta það sem miður fór. Í þeirri uppbyggingarvinnu skulum við horfa til þeirra gilda sem klassísk jafnaðarhugsjón byggir á. Samfélag þar sem samheldni, ábyrgð og sókn til framfara eru leiðarstefin. Eða eins og riddararnir í sögunni um Benjamín dúfu orðuðu hugsjón sína; „Með réttlæti. Gegn ranglæti“.

Við skulum njóta þess að gefa okkur hátíðleika og fegurð jólanna á vald. Sjálf elska ég jólin og allt tilstandið í kringum þau; jólagjafakaupin, bökunarilminn, tónlistina og umfram allt samskiptin við vini og fjölskyldu. Og þessi jól verða mér og fjölskyldu minni sérlega dýrmæt þar sem að litlu bumbubúarnir mínir munu eflaust taka ríkan þátt í gleðinni með spörkum og sprikli.

Ég óska ykkur öllum hamingjuríkrar hátíðar – og framtíðar!

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum